Lax er ekki bara hollur heldur er fátt sem mér finnst betra en ferskur bakaður lax.

Hægt er að kaupa ferskan lax bæði í fiskverslunum og mörgum matvöruverslunum. Sumir kunna að meta frosinn lax en ég vel að kaupa hann ferskan því mér finnst hann bara miklu betri þannig. Þessi uppskrift miðar við að laxinn sé ekki marineraður á nokkurn hátt heldur sé hann bakaður í ofni en það er ekkert því til fyrirstöðu að skella honum á grillið í staðinn.

Sinnepsgljáður lax

Uppskrift:

  • 1 kíló ferskur lax
  • 2 msk gróft sinnep
  • 1 hvítlauksgeiri
  • safi úr ½ sítrónu
  • salt og pipar eftir smekk

 Aðferð:

Hitið ofninn í 200 gráður.

Leggið laxinn á bökunarplötu ofan á smjörpappír.

Kryddið laxinn með salti og pipar og látið bakast í 10 mín.

Á meðan laxinn er að bakast blandið þá saman sinnepinu, hvítlauknum og sítrónusafanum í skál og þegar hann hefur bakast í 10 mín penslið þá gljáann á (notið allan gljáann) og bakið áfram í 5 mín eða þar til laxinn er eldaður í gegn.

 Blómkálsgratín

Uppskrift:

  • 1 blómkálshaus
  • 4 msk smjör
  • 4 msk hveiti
  • 2 tsk Sinneps duft
  • 2 bollar mjólk
  • 1 ¼ bolli og 2 msk Cheddar ostur
  • salt og pipar eftir smekk en einnig er hægt að nota cayenne pipar

Aðferð:

Skerið blómkáls blómin af stilknum og sjóðið í 6-7 mínútur. (Líka hægt að setja í örbylgjuofninn í u.þ.b 8 mín.) Kreistið svo mesta vatnið úr blómkálinu með því að leggja það á þurrt viskustykki og vinda vatnið úr. Setjið blómkálið svo í eldfast mót.

Notið miðlungsstóran pott og bræðið smörið og bætið svo við hveitinu og búið til smjörbollu. Bætið þá við sinnepsduftinu og piparnum. Þynnið svo varlega út með mjólkinni og passið að ekki myndist kekkir. Saltið eftir smekk og látið svo malla þar til sósan er orðin nægilega þykk að ykkar mati. Bætið þá við 1 ¼ bolla af cheddar osti og leyfið honum að bráðna. Smakkið og bætið við salti og pipar eftir þörfum.

Hellið svo sósunni yfir blómkálið og setjið 2 msk af rifnum cheddar yfir og bakið í ofni í u.þ.b. 30-35 mín á 200 gráðum.

Þegar gratínið er tilbúið (osturinn orðinn gullinn) þá er gratínið stappað með gaffli þar til það er farið að líkjast mús. Einnig má skella þessu í blandarann.

Berið svo fram með laxinum og fersku salati. 

Bon apetit!

Karlotta Ósk Jónsdóttir

 

Pin It on Pinterest

Share This