Ég er einstæð móðir og hef verið frá fæðingu sonar míns fyrir 4 árum. Til að byrja með var auðvitað ekkert hlaupið að því að fara á stefnumót en „if there´s a will, there´s a way“! Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þennan pistil er hversu mikið stefnumótamenning Íslendinga hefur breyst á þessum fjórum árum. Margt til hins betra, til dæmis það að ekki er lengur tiltökumál að fara á stefnumót því þó það sjáist til manns á kaffihúsi að spjalla við einhvern þá er það ekki feimnismál lengur. Það var nefnilega mín mesta hræðsla hér áður fyrr, að vera á stefnumóti og hitta einhvern sem ég þekkti!.

Ég held að Tinder hafi svo kollvarpað öllu. Mér finnst Tinder snilld að mörgu leyti til dæmis fyrir okkur sem erum mikið til föst heimavið. Þarna kemst fólk í kynni við aðra í sömu stöðu og byrjar jafnvel að spjalla og eitt leiðir af öðru. Ég veit um nokkur pör sem hafa kynnst í gegnum Tinder. Hins vegar er fólk þarna inni á mismunandi forsendum og ég held að það sé mikilvægt að vera heiðarlegur og að þeir sem eru ekki að leita að föstu sambandi segi hreinskilnislega frá því af. Það sem mér finnst Tinder hafa breytt til hins verra er að allt í einu er það viðurkennd hegðun að vera með marga bolta á lofti í einu.

Það er ekki meira en ca. ár síðan að viðkomandi hefði verið talinn algjört fífl ef hann/hún leyfði sér að vera með nokkur járn í eldinum en núna er það orðið normið og enginn getur sagt neitt við því. Þú ert kannski búin/n að fara á 2-3 deit með einhverjum, fréttir svo að sá hinn sami sé að spjalla við fleiri (þetta er lítið land, allt fréttist!) en getur ekkert sagt þar sem engar skuldbindingar hafa verið gerðar. Þannig að það eina sem fólk getur gert er að annaðhvort „play it cool“ eða vera talið hálf klikkað ef það sættir sig ekki við það. Það segir sig þó alveg sjálft að þegar fólk fær á tilfinninguna að hinn aðilinn sé með margt í gangi í einu að þá setur það ekki fulla alvöru í þetta. Ég meina af hverju ætti maður að gera það? Ég persónulega bakkaði alltaf þegar ég annað hvort frétti eða fékk á tilfinninguna að eitthvað svoleiðis væri í gangi, enda yfirleitt frekar augljóst.

Það sem varð þó til þess að ég lokaði reikningnum mínum endanlega var að ég var farin að rekast á menn þarna inni sem voru í samböndum. Ég þekkti jafnvel konurnar þeirra. Þetta var mjög erfið samviskuklemma fyrir mig og ég átti mörg samtöl við vinkonur mína um hvað rétt væri að gera. Við ákváðum að það eina rétta væri að segja konunum frá þessu. Til að sanna mál mitt „screenshottaði“ ég þá til að sýna konunum þeirra. Kannski eru ekki allir endilega sammála því að gera þetta svona en ég veit að ég myndi allavega vilja vita það ef maðurinn minn væri að standa í þessu. Það er hins vegar ekki gaman að vera sendiboði þessara frétta og það varð til þess að ég ákvað að draga mig í hlé frá þessum heimi, þetta var bara orðið of mikið álag á hausinn og tilfinningarnar!

Ég lokaði Tinder, fékk mér kött og hef aldrei verið hamingjusamari 🙂

 

Pin It on Pinterest

Share This