Nú eru flestir leikskólar komnir í sumarfrí og tími fjölskyldunnar framundan. Margir horfa á þessa tíma með kvíða, börnin krefjast vinnu og foreldrarnir þreyttir, flestir eftir langa vinnutörn. Sumarfrí eru líka kostnaðarsöm og fjárhagur heimilanna ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.
Sumarið er tími samveru og gleði. Kröfurnar í þjóðfélaginu er miklar, hvað á að gera í fríinu? Sumir fara til útlanda, í sólina og alla skemmtigarðana, aðrir ferðast innanlands og enn aðrir kjósa að vera heima í fríinu. Margir horfa í kringum sig og spyrja sig hvað sé hægt að gera sem kostar ekki mikla vinnu eða peninga.
Róló
Ferð á róluvöll sem börnin hafa ekki komið á áður getur verið hin besta skemmtun. Á Klambratúni er mjög skemmtilegur leikvöllur, þar er stórt tún og mikið pláss inni í miðri borg og hægt er að eiga góðan dagspart þar. Leikskólarnir eru flestir með opna garða í sumarlokuninni, það getur verið gaman að prófa nýja leikskólalóð.
Fjöruferð
Fjöruferðir eru spennandi, fjaran úti við Gróttu er mjög skemmtileg og þar er hægt að fara í fótabað í lítilli laug. Fjaran sem er lengst úti á Álftanesi er líka stór og skemmtileg. Við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er veðursælt og skemmtilegt svæði, mikið af trjám og vatn sem gaman er að vaða pínulítið í. Nauthólsvík og baðströndin í Garðabæ eru skemmtilegir staðir þar sem gaman er að moka í sandinum og sulla í sjónum.
Strætóferð
Strætóferðir eru eitt það skemmtilegasta sem börnin gera. Þeim finnst flestum spennandi að fara í strætó og skoða umhverfið út um strætógluggann með þeim sem standa þeim næst.
Gefa öndunum brauð
Sumir fara oft niður að tjörn til þess að gefa öndunum brauð. Í Kópavogi er lítil tjörn þar sem má finna endur og gæsir. Tjörn er við íþróttasvæði Breiðabiks, þar er hægt að leggja bílnum og taka smá göngu í kringum hana. Eins er gaman að stoppa við lækinn í Hafnarfirði og gefa öndunum þar.
Göngur
Hellisgerði í Hafnarfirði, Guðmundarlundur í Kópavogi, Rútstún í Kópavogi, Grasagarðurinn í Laugardal og Heiðmörk eru fallegir og skemmtilegir staðir til að fara í göngutúra.
Túristaleikur
Eldri börnum þykir oft gaman að ganga niður Laugaveginn og fara í smá túristaleik. Skoða bókabúðir og túristabúðir og gefa svo öndunum brauð.
Allt eru þetta staðir sem eru opnir og almenningur getur nýtt sér til dægrastyttingar. Gaman er að útbúa nesti smyrja brauð, skera niður ávexti og taka með sér drykki og eiga góða samverustund.
Hafið það gott saman í fríinu og skapið minningar.
Hanna María Ásgrímsdóttir