Það er þekkt staðreynd að jafnvel þær sem eiga að jafnaði auðvelt með að sofa eiga erfiðara með svefn á meðgöngu. Það getur virst ómögulegt að koma sér vel fyrir, sérstaklega á þriðja hluta meðgöngunnar. Hér eru nokkrar ráðleggingar sem geta hjálpað til við að ná hinum langþráða nætursvefni.

Púðar

Þegar bumban stækkar getur verið erfitt að koma sér fyrir. Hvorki er hægt að liggja á maganum né bakinu svo það er bara í boði að liggja á hliðinni. Það getur verið mikið álag á mjóbak og mjaðmir að liggja þannig svo það að setja púða á milli fótanna getur gert gæfumuninn. Það stillir af líkamsstöðuna sem léttir á mjöðmunum og gerir svefninn mun þægilegri. Það er hægt að fá alls konar púða, langa púða, púða með C-lagi eða U-lagi og svo sérstaka púða sem styðja við magann. Svo er að sjálfsögðu alltaf hægt að prófa sig áfram með þá púða og kodda sem til eru á heimilinu. Ef þú þjáist af brjóstsviða má svo reyna að hækka undir höfðinu með púðum, jafnvel setja þá undir dýnuna svo hún halli.

Te

Alls konar jurtate virka slakandi og geta hjálpað til við slökun fyrir svefn. Kamillute er auðvitað þekkt fyrir róandi áhrif og mildur og sætur ilmurinn skemmir ekki fyrir. Blóðbergste og piparmintute eru róandi fyrir magann og geta dregið úr flökurleika sem sumar ófrískar konur þjást af á kvöldin ekki síður en á morgnana. Síðast en ekki síst má nefna rauðrunnate sem er virkilega gott og ferskt koffínlaust te sem er gott fyrir magann og er sérlega sniðugt fyrir svefninn.

Hugleiðsla (body scan)

Eitt af því sem getur hjálpað við svefn á meðgöngu er hugleiðsla sem hefur góð áhrif á hugann og dregur athyglina frá óþarfa vangaveltum fyrir svefninn. Ein tegund hugleiðslu sem getur hjálpað mjög mikið er svokallað “body scan” eða líkamsskanni þar sem lesinn er upp fyrir mann hver líkamspartur fyrir sig frá tám og upp í hvirfil svo slökun náist í öllum líkamanum. Hægt er að sækja svona hugleiðslur og fjölmargar aðrar á netinu ókeypis auk þess sem hægt er að ná í ókeypis hugleiðslusmáforrit fyrir snjallsíma. Það er ekki ólíklegt að þú sért sofnuð áður er lesturinn klárast.

Magnesíum

Á meðgöngu getur fótaóeirð truflað svefn mikið og þá getur magnesíum hjálpað. Magnesíumskortur getur valdið fótaóeirð og krömpum svo inntaka á því getur hjálpað til við að minnka einkennin. Til eru ýmsar tegundir af því, bæði magnesíumduft sem leysist upp í vatni og magnesíumtöflur og um að gera að finna það sem hentar þér best.

Ilmkjarnaolíur

Margar konur nota ilmkjarnaolíur á meðgöngu til að ná slökun, Ótal gerðir eru til en sú vinsælasta er líklega lavender sem er oft notuð í meðgöngujóga til slökunar og margar konur setja jafnvel nokkra dropa undir koddann sinn til að ná góðum nætursvefni. Það er að sjálfsögðu mjög mismunandi hvaða lyktir konur kjósa og þá sérstaklega á meðgöngu og því tilvalið að fara í næstu heilsubúð og spyrjast fyrir um úrvalið á róandi ilmkjarnaolíum.

Matur og drykkur

Hvað þú borðar og hvenær, getur skipt sköpum varðandi svefninn. Sterkur og kryddaður matur getur valdið óþægindum í maga og jafnvel brjóssviða svo það er líklega best að takmarka hann, allavega fyrir svefninn. Það sama á við um mjög feitan mat sem getur einnig valdið brjóstsviða og það að borða of stórar máltíðir seinnipart dags. Talið er að ef þú svitnar mikið á nóttunni, dreymir illa eða átt erfitt með svefn að öðru leyti geti ein ástæða þess verið lágur blóðsykur. Við þessu er gott ráð en það er að fá sér prótínríkan smábita fyrir svefninn, eins og til dæmis egg, hnetusmjör eða prótínríkan þeyting. Það að borða létta máltíð fyrir svefninn getur líka minnkað líkurnar á ógleði, sem aukast vegna hungurs.

Að drekka flóaða mjólk fyrir svefninn er margrómuð aðferð til að auðvelda svefn. Margir telja að amínósýran L- tryptophan (sem finnst í mjólk og öðrum matvælum) þyngi augnlokin með því að auka magn serotonins í heilanum. Aðrir segja að áhrif mjólkur á svefn séu algjörlega huglæg en það má alltaf prófa.

María Þórólfsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This