Þú varst að koma heim með ilmandi nýbakað súrdeigsbrauð af því það er svo hollt og gott. Þig langar ekkert frekar en að rista það og smyrja með vænni slettu af jarðarberjasultu en nei… sultan er svo stútfull af sykri að þessi blessaða hollusta af sykur- og gerlausa brauðinu þínu núllast bara algjörlega út. Hvað gera bændur þá?? Jú, einmitt þeir búa til chia sultu. Já, ég sagði það, sulta úr chia fræum.. eða kannski ekki beint, hún inniheldur að sjálfsögðu ávexti að eign vali en chia fræin gefa henni þessa sultulegu áferð. Sætuna getur hver og einn lagað að sínum smekk og í boði er að nota hvaða sætuefni sem er en persónulega vel ég hunang eða sweet freedom sýróp.

Uppskrift:

  • 2 bollar frosnir ávextir að eigin vali
  • 2 msk vatn
  • 2 msk chia fræ
  • Hunang eftir smekk

Aðferð:

Setjið frosnu ávextina í pott og bætið við vatninu. Látið suðuna koma upp og eldið þar til allir ávextirnir eru orðnir mjúkir. Setjið svo í blandarann og blandið vel. Ef þið eruð ekki hrifin af kornum í sultunni ykkar þá er upplagt að skella chia fræunum með í blandarann á þessum tímapunkti en ef ykkur finnst ekkert athugavert að finna fyrir fræjunum þá er þeim hrært í síðast. Hellið blönduðum ávöxtunum í krukku og smakkið til með hunangi eða öðru sætuefni og munið að chia fræin bætast við á þessu stigi ef þau fóru ekki í blandarann.

Kælið í að minnsta kosti tvo tíma og ef þykktin er ekki að ykkar skapi á þeim tímapunkti þá má bæta við teskeið af chia fræum í viðbót.

Þessi sulta geymist í u.þ.b. tvær vikur í ísskáp í þéttlokuðum umbúðum.

Sultan hentar vel á brauð, út á hafragrautinn, í bakstur, og hvað annað sem ykkur dettur í hug að gera við hana.

Bon apetit!

Höfundur

Karlotta Ósk Jónsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This