106 ára dansari bannar notkun orðsins „gömul“

106 ára dansari bannar notkun orðsins „gömul“

106 ára dansari bannar notkun orðsins „gömul“

Eileen Kramer slakar ekkert á þó hún sé orðin 106 ára gömul. Hún skrifar sögu á dag þar sem hún býr, á hjúkrunarheimili í Sydney, Ástralíu, gefur út bækur og hefur tekið þátt í málverkakeppni, þeirri virtustu þar í landi.

Eileen bjó í áratugi erlendis, en sneri aftur í heimaborg sína Sydney, 99 ára gömul. Síðan þá hefur hún unnið í samstarfi við fjölmarga listamenn til að sinna ástríðu sinni – dansinum.

Eileen dansar enn – þokkafullar og dramatískar hreyfingar þar sem hún notar efri hluta líkamans. Á síðastliðnum árum hefur hún einnig starfað sem danshöfundur (e. choreographer).

„Síðan ég kom aftur til Sydney hef ég verið svo upptekin – ég hef tekið þátt í þremur danssýningum hjá NIDA (National Institute for Dramatic Art) og sjálfstæðum leikhúsum. Ég hef komið fram á tveimur stórum danssýningum í Adelaide ogBrisbane, ég hef leikið í mynd, komið fram í litlum uppfærslum, skrifað þrjár bækur og í dag er frídagurinn minn og ég er í viðtali!“ segir hún glöð í samtali við blaðamann BBC Ástralíu.

Hún er oft spurð hvaðan hún fær alla þessa orku – og hvort dansinn sé leyndarmál við háan aldur hennar. Hún svarar því að hún banni orðið „gömul“ og „aldur“ og notar þau ekki. Hún minnir blaðamann reglulega á það í viðtalinu: „Ég segi, ég er ekki gömul, ég hef bara verið hér í langan tíma og lært ýmislegt á leiðinni. Mér líður ekki eins og fólk segist líða þegar það er gamalt. Viðhorf mitt til sköpunar er nákvæmlega það sama og þegar ég var lítil stúlka.“

Eileen hefur á síðastliðnum árum staðið fyrir, fjármagnað, hannað dansa og komið fram á mörgum danssýningum sem hún skapar út frá lífi hennar. Hún var komin hálfa leið með nýtt dansmyndband þegar öllu var lokað vegna Covid í Sydney og setti það strik í reikninginn. En ekki lengi.

„Ég gat ekki farið á staðinn, þannig ég skrifaði bók í staðinn,“ segir hún hlæjandi. „Sagan um hvernig við gerðum myndina.“

Staðsetning takanna var sérstök fyrir Eileen. Myndin gerist innan í stóru Moreton Bay fíkjutré í úthverfi Sydney, Glebe. Lyktin af trjánum, stóru fíkjurnar og hlátur hláturfuglanna (e. kookaburra) var það sem dró Eileen aftur til Sydney. „Þetta trét hafði áhrif á danshönnunina mína. Hefur þú séð þetta tré? Það er eins og reim höll í ævintýri, tók mig til baka til æskunnar.“

Við tökur myndarinnar „The Gum Tree”

Það á eftir að taka nokkur atriði í myndinni, svo verður hún klippt og búin til tónlist. Á meðan ætlar útgáfufyrirtækið hennar, Basic Shapes, að gefa út bókina um verkefnið síðar á þessu ári. Hún hefur einnig gefið út smásagnasagnið Elephants and Other Stories.

Covid einangrunin hefur ekki haft áhrif á hana: „Mér er alveg sama um Covid. Ég hef ekki verið einmana eða lokuð inni, þegar þú skrifar er það félagsskapurinn þinn.“

Eileen er orðin fræg í Elizabeth Bay, þar sem hún býr. Fullt af listamönnum hélt sýningu fyrir framan gluggann hennar þegar hún varð 106 ára í nóvember: „Ég varð mjög hissa, ægilega glöð og það snerti mig mjög. Þau létu mig í stól fyrir framan gluggann og gáfu mér blöðrur til að hrista þegar það kom pása.“


Litríkt líf

Eileen Kramer er fædd í Mosman Bay, Sydney árið 1914 og var hún dansari sem ferðaðist með Bodenwieser ballettinum í áratug. Hún ferðaðist til Indlands, og síðar settist hún að í París og svo New York þar sem hún bjó til 99 ára aldurs.

Hefur hún því dansað í fjórum heimsálfum og í heila öld. Segir hún að dansinn hafi verið hennar fyrsta ást.

„Ég hef alltaf umgengist dansara svo ég hef aldrei verið einmana. Ólíkt mér giftu sig margir og eignuðust börn eða fóru aftur til Evrópu. Ég hinsvegar þoldi allt þetta óþægilega við dansaralífið.“

Þegar Eileen bjó í París sat hún fyrir sem módel hjá listamönnum: „Það var dálítið hættulegt að sitja fyrir en ég þekkti flesta listamennina.“ Að vera nakin truflaði hana aldrei þar sem það var vegna listarinnar. Hún lærði mikið af frægum, frönskum listamönnum.

Í dag segir samstarfskona hennar, Sue Healy, að vinna með Eileen sé að „upplifa lifandi söguna.“

„Hún er tengingin við fyrstu daga ástralsks nútímadans – og fyrir mig sem danshönnuð er þetta algert gull! Hún höndlar lífið af fágun og sköpunarkrafti. Hún er algerlega við stjórnvölinn og er alltaf að búa til eitthvað nýtt.“

Pin It on Pinterest