Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

„Hún fær alltaf að fara í bíó með vinum sínum! Af hverju fæ ég að fara svona sjaldan?“

„Þú elskar hann meira en mig!“

„Ég vildi að ég ætti engin systkini!“

Foreldrar sem eiga fleira en eitt barn hafa allir heyrt eitthvað svipað. Þrátt fyrir að systkini geti verið nánir vinir er ólíklegt að allt gangi fullkomlega friðsamlega fyrir sig öllum stundum.

Bræður og systur rífast og slást, það er bara eins og fjölskyldur eru. Ólíkir persónuleikar og aldursmunur spilar stóran þátt en systkini sjá líka hvort annað sem keppinaut sem keppast um hluta af takmörkuðum auðlindum fjölskyldunnar s.s. baðherberginu, símanum eða síðustu kökusneiðinni, sem og athygli foreldranna.

Það er eðlilegt að systkini eigi í ágreiningi en það getur gert foreldrana brjálaða. Lykillinn að færri árekstrum?

Að vita hvenær börnin geta leyst málin sjálf og hvenær þú átt að skipta þér af.

Ástæður ágreinings

Börn eru ekki alltaf raunsæ, sérstaklega þau yngri. Stundum getur eitthvert smáatriði snúist upp í risastórt mál og það virðist sem þakið ætli að fjúka af húsinu í kjölfarið.

Athugið að börn eru afskaplega oft að reyna að ná athygli þinni. Því uppteknari sem foreldrarnir eru, því meiri áhersla er hjá börnunum að ná þessari athygli því það þýðir að foreldrið hefur minni tíma fyrir hvert barn fyrir sig.

Þegar nýtt barn bætist í fjölskylduna verður erfitt fyrir yngsta barnið að missa sæti sitt sem miðpunktur athyglinnar. Stundum eru foreldrarnir uppteknir af barninu sem hefur sérstakar þarfir eða er veikt. Börn munu alltaf vera með læti eða vera óþekk til að ná athygli finnist þeim þau ekki fá hana.

Flest heimili hafa ekki ótakmarkaðar auðlindir

Það þýðir að systkini þurfa að deila einhverjum hlutum. Að þurfa að gefa eftir er stundum afskaplega erfitt, sérstaklega yngri börnum.

Einstakir persónuleikar

Elsta barnið kann að vera þrjóskt á meðan það yngsta er þögult og innhverft. Mismunandi skaplyndi getur valdið árekstrum. Aldur og kyn geta einnig leitt til rifrildis.

Réttlætismál

Börn eru eins og litlir lögfræðingar, alltaf að krefjast réttlætis og sanngirni og þau berjast fyrir rétti sínum. Yngra systkini kann að kvarta yfir því að eldra systkini má fara á tónleika á meðan það þarf að vera heima, á meðan eldra systkini kann að kvarta yfir að þurfa að passa yngra systkini í stað þess að fara út með vinunum. Tilfinningar vegna óréttlátrar meðferðar og afbrýðisemi meðal systkina getur leitt til ósættis.

Að finna fjölskyldujafnvægi

Öskur og rifrildi geta gert foreldra brjálaða, en forðist að lenda í hringiðu rifrildanna nema að barn sé í hættu að verða meitt. Reyndu að láta krakkana finna út úr hlutunum sjálfir. Að blanda þér í málin kennir ekki krökkunum að leysa málin og þá er auðvelt að benda á þig sem sökudólg, „þú stendur alltaf með honum/henni!“

Sum ágreiningsmál eru auðveldari en önnur fyrir börnin sjálf að leysa. Hér eru nokkur ráð til að enda rifrildi ef þú þarft að skipta þér af:

Aðskildu þau. Taktu börnin úr aðstæðum og láttu þau í sitthvort herbergið. Stundum þurfa þau bara fjarlægð frá hvort öðru.

Kenndu samningaviðræður og hliðranir

Sýndu börnunum hvernig leysa á ágreiningsmál til að báðir aðilar séu sáttir. Biddu þau um að hætta að öskra og fara að tala frekar. Gefðu hvoru barni fyrir sig tækifæri á að tjá sína hlið. Hlustaðu á báðar og passaðu að dæma ekki. Reyndu að orða vandamálið: „Það hljómar eins og þú sért reið út í Jóa fyrir að taka uppáhalds tölvuleikinn þinn.“

Biddu þau svo að koma upp með lausn sem gæti hentað öllum. Ef ekki, getur þú komið með uppástungu. Til dæmis, ef börnin eru að slást um nýjan tölvuleik, gætir þú sett tímatöflu sem gefur hvoru barni fyrir sig tíma til að spila leikinn.

Settu reglur

Vertu viss um að börnin séu að fylgja sömu reglum. Þær ættu að snúast um að enginn meiði hvorn annan, ekki sé uppnefnt eða eyðilagt eitthvað fyrir hinum. Láttu börnin búa til reglurnar með þér. Ef ekki er farið að reglum er refsað, t.d. að barnið fái ekki að horfa á sjónvarpið í eitt kvöld. Með því að börnin semji reglurnar saman gefur það þeim tilfinningu að þau hafi einhverja stjórn. Þegar börnin fara eftir reglunum skaltu hrósa þeim. Reglurnar kunna að vera breytilegar eftir aldri barnanna, en einnig afleiðingarnar.

Ekki velja þér hlið

Ef eitt af börnunum þínum er stöðugt að lenda í vandræðum, en hin ekki, passaðu þig að fara ekki í samanburð. T.d. „Af hverju getur þú ekki verið meira eins og systir þín?“

Það elur enn meira á ósætti milli systkinanna. Að gefa einu barni sérmeðferð getur eyðilagt sambandið milli þín og barnanna.

Ekki gera allt jafnt

Það er ekkert sem heitir fullkomið jafnvægi í fjölskyldu. Eldra barn mun óhjákvæmilega fá eitthvað umfram hið yngra þannig það er ómögulegt að gera öllum til hæfis. Þess í stað skaltu koma fram við hvert barn á sinn einstaka hátt og láta það finna fyrir mikilvægi sínu.

Gefðu börnunum réttindi yfir sínum eigin eigum. Að deila er mikilvægt, en börn ætti ekki að þvinga til að deila öllu. Börnin þín ættu öll að eiga eitthvað sérstakt sem er aðeins þeirra.

Haldið fjölskyldufundi

Einu sinni í viku er ágætt að kalla til fjölskyldufund til að ræða málin. Gefðu hverjum og einum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og allir ættu að finna lausn á málunum saman.

Gefðu hverju barni fyrir sig sérstaka athygli

Það getur verið erfitt að eiga gæðastund með hverju barni fyrir sig, sérstaklega ef þú átt stóra fjölskyldu. Ein af ástæðum systkinaágreinings er m.a. athyglin sem þú sýnir hinum systkinunum. Láttu börnin þín vita að þú elskir og virðir hvert og eitt og eigðu stund með hverju og einu.

Búðu til sérstaka daga þar sem þú ferð með syni þínum í bíó eða dótturinni í búðir, bara þið tvö. 10-15 mínútur af gæðastund með hverju og einu á hverjum degi leyfir barninu að finna til mikilvægi síns.

Þegar ágreiningur fer úr böndunum

Það er að sjálfsögðu eðlilegt fyrir systkini að rífast öðru hvoru. Þegar slagsmál fara hinsvegar úr böndunum og átökin verða líkamleg eða meiða verða þau að stoppa.

Ef um endurtekin slagsmál er að ræða, ef annaðhvort bítur eða „kvelur“ hitt (s.s. kitlar, stríðir eða gerir lítið úr hinu) er um ofbeldi að ræða og þú þarft að skipta þér af því.

Ef þú getur ekki stöðvað hegðunina verður þú að leita aðstoðar, t.d. hjá heilbrigðisstarfsmanni eða sálfræðingi.

Heimild: Daily Mail 

Pin It on Pinterest