Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Að treysta barninu einu heima í húsinu með öllu sem því fylgir er stórt skref, sérstaklega milli aldursins 9-12 ára – barnið er ekki barn lengur en ekki orðið unglingur.

Það hefur vissulega sína kosti að skilja barnið eftir heima að sjálfsögðu, eða láta það gæta yngri systkina. Þarna ertu að treysta barninu og það lærir ábyrgð. Það gæti líka verið huggulegt að komast út að borða með vinkonunum eða makanum barnlaus, svona til tilbreytingar!

Þannig – hvenær er í lagi að skilja barnið eftir eitt heima? Hvenær eru börn tilbúin að passa? Sérfræðingar segja að svörin við þessum spurningum velti á þroska barnsins og aðstæðum ykkar.

Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga áður en þessi ákvörðun er tekin:

Fullorðinsmælikvarðinn

Engin lög eru á Íslandi um hvenær börn „mega“ vera ein heima. Ákvörðunin er foreldranna. Það er augljóst að þú skilur ekki fimm ára barn eftir eitt heima..en hvað með 11 eða 12 ára barn?

Flestir sérfræðingar eru sammála um að aldurinn 10-11 ára sé í lagi, að skilja barnið eftir í stuttan tíma í senn (minna en klukkustund) að degi til, svo lengi sem barnið upplifir ekki ótta og þú telur að það sé orðið nægilega þroskað.

Svo gætu liðið eitt eða tvö ár þar til barnið er eitt heima að kvöldi til.

Hvar þið búið getur líka haft áhrif á þetta. Búið þið í rólegu íbúðarhverfi eða annasömu?

Eruð þið með þjófavarnarkerfi? Kann barnið á það?

Getur barnið fylgt einföldum reglum og skilur það þær, s.s. að læsa dyrum og opna ekki fyrir ókunnugum?

Telur þú barnið þitt hafa góða dómgreind í öðrum kringumstæðum?

Eru vinir, nágrannar eða fjölskyldumeðlimir í nágrenninu sem gætu brugðist við, komi eitthvað upp á?

Er barnið þitt ábyrgðarfullt? T.d. klárar það heimavinnu án þess að vera ýtt á það, gerir það einföld húsverk?

Hvað finnst barninu sjálfu um að vera eitt heima?

Húsreglur

Ef þú hefur svarað flestum eða öllum spurningum ofangreindum játandi gæti barnið þitt verið tilbúið að vera eitt heima.

Áður en þú ferð í fyrsta skipti skaltu búa til reglur varðandi eftirfarandi atriði:

Hvað á að gera ef dyrabjallan hringir? Síminn hringir?

Hversu lengi má barnið vera í tölvunni eða horfa á sjónvarpið?

Að láta barnið passa yngri systkini

Sum börn hafa þroska til að passa önnur börn frá 11-13 ára aldri. Stundum er betra að bíða ef maður er ekki viss.

Áður en þú lætur barnið þitt passa, skaltu spyrja sömu spurninga og þú myndir spyrja manneskju sem ekki væri barnið þitt.

Allar barnfóstrur þurfa að vera:

  • Ábyrgar
  • Fullorðinslegar
  • Geta tekið góðar ákvarðanir
  • Fylgja reglum
  • Höndla vel valdið án þess að misnota það
  • Geta höndlað óvænt atvik án æsings
  • Best væri einnig að barnið kynni fyrstu hjálp, en barnfóstrunámskeið eru mjög góð og í boði.

Húsið tilbúið

Hafðu húsið í standi og eins barnvænt og hægt er til að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur þegar þú ferð út.

Til dæmis er gott að búa til símanúmeralista með þínu númeri, náinna ættingja, nágranna og auðvitað 1-1-2.

Einnig er gott að ræða við unglinginn hvað hann myndi gera ef upp kæmi neyðartilfelli s.s. eldsvoði. Láttu hann vita hvar sjúkrakassinn er og kenndu honum á hann.

Hafðu hollan mat handhægan. Ef þarf að nota eldavél eða örbylgjuofn skaltu vera viss um að unglingurinn kunni á þau tæki.

Áður en þú leyfir unglingnum að passa eða vera einn heima er ágætt að fara yfir þau atriði sem huga þarf að – t.d. ef einhver ókunnugur bankar upp á, ef systkinið tekur bræðiskast eða önnur atriði sem þér finnst vert að taka fram.

Farðu í fyrsta sinn eitthvert stutt, um hálftíma eða svo. Ræddu svo hvernig gekk. Ef allt gekk vel má lengja tímann í hvert skipti.

Passaðu að þegar þú ferð út sé síminn handhægur. Ef þig langar að „tékka inn“ skaltu hafa símtöl og skilaboð í lágmarki til að sýna unglingnum að þú treystir honum og getir notið þess að vera að heiman.

Heimild: WebMD

Pin It on Pinterest