Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”
Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”
Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég ekki gsm síma, ég var ekki með internet og notkun á heimasímanum var takmörkuð þar sem að dýrt var að hringja og þá sérstaklega út á land.
Þegar ég var lítil mættu vinir mínir heim til mín til þess að spyrja eftir mér og ég heim til þeirra. Stundum þá töluðumst krakkarnir saman í skólanum og ákváðu tíma og stað til að hittast á um kvöldið. Það voru lang flestir úti, alltaf og hvernig sem veðrið var. Við bara klæddum okkur vel.
Þegar ég var lítil safnaði ég öllu sem ég gat safnað held ég. Límmiðum, lukkutröllum, steinum, og sérvéttum. Ég talaði við alla og kynntist fólki út um allt. Sumar konurnar í hverfinu tóku fyrir mig sérvéttur þegar þær fóru í veislu og geymdu í kassa sem ég svo sótti til þeirra.
Þegar ég var lítil sótti ég mat handa kettinum í fiskibúðina því ég hafði nokkru áður gefið mig á tal við starfsmann þar sem síðan safnaði afgöngum fyrir mig. Svo mætti ég nokkrum sinnum í viku eða daglega og sótti allskonar hausa og fleira af fiskum handa kisunni okkar henni Lúsí.
Þegar ég var lítil tók ég strætó niður á bryggju með systur minni og bauð fram vinnuafl, mig og Thelmu systir og í laun vildum við fá hamborgaratilboð.
Við gengum á milli báta og fengum að lokum vinnu. Við verkuðum heilan dag, vorum allar í slori og enduðum daginn stoltar og sælar, angandi af fiski fýlu fyrir framan afraksturinn, launin okkar sem voru hamborgari, franskar og kók.
Þegar ég var lítil þá gladdi ég mömmu með blómum, steinum, bréfum og ljóðum. Ég bjó til kaffi handa henni og kom henni á óvart með því að taka til áður en hún kom heim. Hún tók sér tíma í að þakka mér fyrir og ég vissi og fann í hjartanu mínu að hún meinti það.
Þegar ég var lítil þá leiddi ég blindan mann sem bjó á neðstu hæðinni hjá ömmu fram og til baka upp götuna.
Éģ var þarna fjögurra ára gömul, gekk niður tröppurnar og „sótti” hann, bað hann um að koma því nu værum við sko að fara út að labba. Mín tilfinning var greinilega sú að ég gæti hjálpað honum þar sem að hann sá ekki. Og saman gengum við fram og til baka.
Þegar ég var lítil þá sat ég heilu tímana og gramsaði í geymslunni, ég heimsótti gamlar konur og ég bauð þeim aðstoð. Ég bjó til allskonar úr öllu og lék mér með fullt sem var ekki dót.
Þegar ég var lítil þá fékk ég mikið frelsi til að vera barn og það frelsi var mér ómetanlegt. Ég sullaði í drullupollum, lék mér í fötunum hennar ömmu, gerði rennibraut úr borðstofuborðinu og ég lék mér á ruslahaugum. Ég fékk að baka uppskrift sem ég bjó til sjálf úr öllu sem varð að engu. Og það mikilvægasta var að ég fékk að njóta mín, ég fékk frelsi til að prófa mig áfram og mér var treyst, ég fékk að leika mér og vera barn.
Barnæskan er svo ofboðslega dýrmæt og það er svo mikilvægt að njóta hennar. Það er auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og að segja nei, mátt þetta ekki, þú verður skítug/skítugur, hef ekki tíma núna eða seinna. Stundum er bara svo ótrúlega gott að staldra við og leyfa, segja já þrífa bara skítug föt og njóta. Gleðin, vellíðan, hamingja, kærleikur, ást, leikur, samvera og hlátur er svo dýrmætt fyrir börnin okkar og okkur öll.
Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um dýrmætustu samveruna – samveruna með börnum okkur og hugmyndir að því sem hægt er að gera saman. Alma er bæði á Facebook og Instagram
Smellið á samfélagsmiðlahnappana hér að neðan til að fara inn á síðurnar hennar!