„Ég kaus að verða einstæð móðir”

„Ég kaus að verða einstæð móðir”

„Ég kaus að verða einstæð móðir”

„Ég sá sjálfa mig aldrei sem mömmu. Ég er stelpa frá Los Angeles og á stóra og blandaða fjölskyldu. Ég hef búið um öll Bandaríkin og kynnst mörgum menningarheimum. Ég var mjög hamingjusöm. Ég sagði við sjálfa mig að ef ég væri ekki búin að eignast börn 35 ára, þá væri það bara þannig. En lífið hefur alltaf eitthvað óvænt að færa manni.”

Kathryn Murray er sálfræðingur sem starfar í Los Angeles. Hún ræðir hér þá ákvörðun að eignast barn án maka. Gefum henni orðið:

Ég var að læra sálfræði og þegar ég var í kúrsi um þroska barna hafði ég allt í einu sterka löngun að reyna alla þessa hluti sem ég var að læra um. Ég gat ekki hætt að hugsa um að ég vildi tengjast pínulítilli manneskju sem ég myndi fæða. Ég vildi reyna allar þær áskoranir sem koma með því og vonandi móta þessa litlu manneskju í eitthvað jákvætt í þessum heimi. Ég vildi ekki bíða eftir maka. Ég reyndi alltaf bara að lifa mínu lífi með því að gera það sem ég trúði á og mér fannst rétt fyrir mig. Ég hætti að bíða eftir fólki til að hjálpa mér að ná markmiðum mínum og vildi bara gera hlutina sjálf.

Stuðningshópurinn

Ég vissi að ef ég ætlaði að gera þetta – að taka þá ákvörðun að verða einstæð móðir – myndi ég þurfa „þorp“ til að hjálpa mér. Ég fór til ömmu minnar og hún ræddi við prestinn sinn. Ég sagði henni allar mínar ástæður, hvað ég væri gömul og hvað það tæki langan tíma að finna maka sem væri til í þetta með mér. Þrátt fyrir að amma væri ekki sammála þessu sagði hún mér eftir viku að hún myndi alltaf elska mig og styðja.

Flestir í fjölskyldunni sögðu mér að gifta mig fyrst. Sumir stungu meira að segja uppá að ég færi á stefnumótaöpp. En pabbi var ákafur stuðningsmaður frá fyrsta degi. Hann var svo glaður. Hann var búinn að ákveða guðforeldra viku eftir að ég sagði honum frá því! Hann náði í sæðið fyrir mig (það var ódýrara en að láta senda það til læknisins míns) og hann jafnvel talaði við sæðið! Hann kom með mér til læknisins og var með mér allt fæðingarferlið. Ég var svo heppin að hafa stuðning margra vina og fjölskyldumeðlima.

Sterk byrjun

Ég reyndi mitt besta að vera undirbúin, andlega og líkamlega, til að verða mamma. Ég æfði og borðaði hollt. Ég veit allt um andlega heilsu vegna vinnunar minnar svo ég reyndi mitt besta að minnka streitu. Ég bað alla um að rífast ekki við mig svo ég yrði ekki stressuð. Ég réði líka fjármálaráðgjafa um leið og ég ákvað þetta. Hann ráðlagði mér að leggja til hliðar svo ég yrði ekki stressuð vegna fjármálanna í fæðingarorlofinu. Þetta var frábært ráð og ég gat tekið fjögurra mánaða fæðingarorlof, mjög þakklát. Ferlið er dýrt í þessu öllu, hvort sem þú ferð í innanlegssæðingu, glasa/tæknifrjóvgun eða ættleiðir.

Það eru nokkrar leiðir fyrir mæður að eignast barn einar. Ég fór í innanlegssæðingu. Læknir sprautar sæðinu upp í legið þegar þú hefur egglos. Vonast er eftir að frjóvga egg og þú verðir ólétt.

Að velja sæðisgjafann. Ég er amerísk blökkukona og vildi í fyrstu sæði manns af sama kynstofni og ég. Stofan sem ég notaði hafði samt ekki mikið úrval og læknirinn minn sagði að þetta gæti tekið tíma. Í fjórða skiptið sem það mistókst ákvað ég að breyta um sæðisgjafa. Ég fletti í gegnum mennina og fór eftir ráði sem ég fékk – að fylgja tölum um vel heppnaðar meðgöngur og fæðingar. Ég fann gjafa af blönduðum kynþætti sem svaraði spurningum á áhugaverðan hátt og svo var hann opinn gjafi, sem þýðir að barnið getur haft samband um 18 ára aldur.

Þegar tími var á egglos var sæðinu sprautað upp og ég varð ófrísk að stúlkubarni í fyrstu tilraun.

Fæðing

Fyrstu vikurnar var ég dauðþreytt. Svefninn var í rugli og ég vildi gefa brjóst en framleiddi ekki nægilega mjólk. Dóttir mín var pínulítil og ég hafði áhyggjur af því hún væri ekki að fá næga næringu. Ég hitti brjóstagjafaráðgjafa á spítalanum en ég var ekki að ná þessu.

Ég talaði við fleiri ráðgjafa og vini til að losa um kvíðann vegna brjóstagjafarinnar. Ég tók vítamín, drakk te og meira að segja áfengislausan bjór til að hjálpa til við mjólkurbúskapinn. Það var þess virði og þetta varð auðveldara með tímanum. Fjölskylda mín kom og eldaði og passaði (þegar hún leyfði það) og ég gat hvílst.

Dóttir mín Candyce hefur „y“ í nafninu sínu eins og ég. Hún er sex ára í dag. Hún er lítil útgáfa af mér. Hún er rökrétt, klár og mjög hnyttin. Hún er listræn og elskar Svamp Sveinsson. Hún er ljósið í lífi mínu.

Eins og margir krakkar á hennar aldri spyr hún um lítinn bróður eða systur. Þegar þú eignast barn á þennan hátt getur þú komist í samband við aðrar mömmur sem eiga systkini sama sæðisgjafann. Við erum saman í Facebookgrúppu og fimm fjölskyldur hittumst í Austin Texas eina helgina. Ein meira að segja flaug þangað frá Mexíkó. Við skemmtum okkur konunglega og ætlum að hittast aftur. Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið, ég hef aldrei horft um öx.

Fyrir allar þær konur sem vilja eignast börn einar, segi ég alltaf: Þú skalt vinna heimavinnuna þína. Ef þú ert að hugsa um þetta, undirbúðu þig. Það þarf að hugsa um fjármálin, tilfinningalegan stuðning, vini, fjölskyldu. Finndu stuðningshópa á Facebook.

Ég hef verið ótrúlega heppin og ég er þakklát. Mamma flutti til mín fyrir tveimur árum frá Connecticut til að hjálpa mér við uppeldi dótturinnar. Afi og amma hafa stutt hana mikið eins og ég ólst upp við, ég vildi að hún hefði sömu reynslu og þau nytu þess að vera afi og amma.

Ég er í raun ekki einstæð móðir, vegna stuðningsnetsins. Vinir og fjölskylda gera þessa vegferð mun ríkari.

Kathryn Murray er barnasálfræðingur og býr með Candyce dóttur sinn í Los Angeles, Kaliforníuríki.

Þýtt og endursagt af WebMd

 

Pin It on Pinterest