Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Að finna rétt jafnvægi þegar börnin fara að heiman, eða „fljúga úr hreiðrinu“ getur reynst mörgum foreldrum erfitt. Það fer hins vegar eftir því hversu tengd/ur þú ert börnunum, hversu erfitt eða auðvelt aðskilnaðurinn kann að vera.

Þið óluð upp börn og lögðuð mikið á ykkur og svo kemur að því að þau finna sér íbúð, fara í samband eða flytja af landi brott. Ánægjulegt, eða hvað? Kannski ekki alltaf. Börnin finna líka fyrir söknuði og eiga einnig erfitt með að fara frá heimilinu, kannski fyrir fullt og allt. Mörgum foreldrum reynist þetta erfitt og kvíðvænlegt. Hvað ef allt verður ekki í lagi? Hvað getum við gert?

Samkvæmt Psychology Today er ráðlagt fyrir foreldra að greina hvernig tengslin eru áður en ungmennið flytur að heiman eða þegar sú staða kemur upp.

Öruggir foreldrar

Öruggir foreldrar eru þeir sem eru hvað farsælastir í þessum stóra „aðskilnaði“ og halda sambandi og hvetja ungmennið til að kanna nýjar slóðir. Þessir foreldrar horfa á heiminn sem öruggan stað og hafa sterk félagsleg tengsl og hafa ekki miklar áhyggjur að missa tengsl við börnin sín. Þar sem foreldrarnir eru andlega sterkir er líklegt að hið brottflutta ungmenni sé það einnig. Þessi ungmenni eru einnig líklegri til að vera sjálfstæðari og halda sínum sérkennum og eru þar af leiðandi líklegri til að standa sig vel í skóla sem og lífinu almennt.

Forðunarforeldrar

Þeir foreldrar sem eiga til að forðast átök eða afgreiða hlutina fljótt geta saknað barnanna sinna í fyrstu en aðlagast nýjum raunveruleika fljótt. Í sumum (öfgafullum) tilfellum geta þau jafnvel fagnað því að hafa fengið líf sitt til baka og gera það jafnvel opinberlega. Um leið og börn þeirra flytja að heiman eru þeir líklegri til að halda áfram með líf sitt og eru ánægðir með að börnin þeirra hafi samband við þá, en ekki öfugt. Ef barnið hefur samband varðandi félagsleg mál eða særðar tilfinningar getur verið að foreldrið hafi ekki áhuga á að ræða þau mál en annað virðist vera uppi á teningnum þegar barnið ræðir keppni af einhverju tagi, eða það er að klífa metorðastigann. Þeir foreldrar eru líklegir til að blanda sér í málin og eru jafnvel stjórnsamir. Vegna þess hve árangursdrifnir þeir eru getur verið að þeir hafi samband við barnið bara til að fá að frétta af árangri þess. Hins vegar upplifir barnið þetta sem sjálfselsku þar sem foreldrarnir eru ekki mjög áreiðanlegir og veita barninu ekki þann stuðning sem það þarfnast.

Uppteknir eða kvíðnir foreldrar

Þeir foreldrar sem eru mjög uppteknir í daglegu lífi eða glíma við kvíða eru líklegastir til að upplifa depurð eða missi þegar börn þeirra flytja að heima. Þeir eru líklegir til að sakna sambandsins sem þeir áttu við barnið (jafnvel þótt sambandið hafi ekki verið sérlega gott). Þessir foreldrar hafa áhyggjur af samböndum og vilja að þeir séu elskaðir og fólk þurfi á þeim að halda og þar af leiðandi eiga þeir erfiðara með að sleppa hendinni af barninu. Þeir vilja oft fá meiri athygli frá barninu og það sé alltaf í sambandi og þeir séu minntir á það góða í sambandi þeirra og vilja vera nálægt því. Þeir eru einnig líklegri til að hafa áhyggjur af félagslífi barnsins og einnig frammistöðu þess í skóla eða í vinnu. Í sérstökum tilfellum getur slíkt gengið út í öfgar; þeir geta verið allt of afskiptasamir eða „hangið í“ barninu. Þetta getur orsakað að barnið vill ekki kanna heiminn og/eða verið ósjálfstætt, þar sem foreldrið hindrar barnið í sjálfstæði.

Óttaslegnir foreldrar

Þessir foreldrar eru ólíkir hinum því þeir eru bæði kvíðnir og forðast náin sambönd. Þeir geta farið frá því að vera of nálægt barninu og svo algerlega lokast og vilja ekki nein samskipti. Í öfgafyllri dæmum geta þessir foreldrar orðið fjandsamlegir, jafnvel, og ásaka barnið um afskiptaleysi eða væna það um að elska þá ekki. Eins og sjá má, er þetta mynstur líklegt til að valda barninu mikilli streitu og ábyrgðartilfinningu og getur það sveiflast frá því að finnast það vera eitt í heiminum og afskiptalaust. Slíkar uppeldisaðstæður bjóða upp á að barnið verði síður sjálfstætt og sé hrætt við að kanna heiminn.

Að horfast heiðarlega í augu við sig sjálfa/n getur látið þig sjá hvers konar foreldri þú ert og hvernig samskiptum við barnið þitt er háttað. Börnin okkar verða líklega ekki heima að eilífu þannig það er ekki úr vegi að athuga hvort hægt sé að breyta um „taktík“ til að aðskilnaðurinn verði sem auðveldastur fyrir alla. Þrátt fyrir að sjá sjálfa/n sig í einhverju af þessum mynstrum, ekki láta það hafa áhrif á hversu oft þú hefur samband við barnið þitt eða hvernig samskiptunum er háttað. Sniðugt er að ákveða tíma í hverri viku þar sem foreldri/foreldrar og barn/börn „taka stöðuna.“ Best er að gera slíkt í persónu eða í síma, ekki í gegnum textaskilaboð.

Ekki hætta samskiptum við barnið eða refsa því fyrir að hafa of oft samband eða of sjaldan að þínu mati.

Gefðu barninu þínu tíma og rými til að finna út úr eigin lífi.

Barnið má gera mistök til að læra og halda áfram. Og þú getur svo alltaf verið til staðar þegar það snýr aftur til þín til huggunar, hvatningar og stuðnings.

 

Pin It on Pinterest