Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir rekur fyrirtækið Tvö heimili sem er ráðgjafarþjónusta og sáttamiðlun fyrir foreldra og  börn sem búa á tveimur heimilum. Snýr ráðgjöfin að öllu því sem viðkemur fjölskyldum sem eru að skilja, hafa skilið eða vilja hafa samkomulagið sem best þegar kemur að því að ala upp börn á tveimur heimilum.

Frá því að Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir var lítil stelpa langaði hana að starfa sem félagsráðgjafi eða sálfræðingur: „Mér fannst það ótrúlega heillandi framtíðarsýn að vinna við að hjálpa börnum. Ég hef alltaf verið upptekin af rétti barna til að hafa áhrif á eigin aðstæður og líf, hafa rödd og hvaða leiðir við fullorðnu getum farið til að haga hlutum út frá sjónarhorni barna.”

Aðspurð um námsferilinn segir Ragnheiður: „Eftir að grunnskóla lauk fór ég í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þar námi af félagsfræðibraut. Fór svo í BA nám í félagsráðgjöf og í framhaldinu af því í meistaranám í félagsráðgjöf til starfsréttinda og lauk því námi árið 2013. Meðfram námi starfaði ég á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá barnavernd Reykjavíkur. Eftir útskrift hóf ég starf í búsetuúrræði fyrir unga menn með félags – og fíkniefnavanda. Vann að undirbúningi og opnun á frístundarheimili í Laugardal og starfaði svo sem félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu. Fékk starf sem sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016 og starfa þar enn í hlutastarfi meðfram störfum á stofunni minni Tvö heimili sem opnaði í febrúar 2020.”

Í starfi Ragnheiðar nýtir hún ýmiskonar hugmyndafræði og nýtir það sem við á s.s. jákvæða sálfræði, tengslaeflandi nálgun, áfallamiðaða nálgun og lausnamiðaða nálgun: „Ég er almennt lífsglöð og nálgast fólk af virðingu og auðmýkt og hef ánægju af starfinu mínu. Hugsa að það viðhorf smiti út frá sér til skjólstæðinga. Ég vona það allavega.”

Ragnheiður heldur áfram: „Ég legg mikið upp úr því að skapa notalegt andrúmsloft á stofunni minni og vil að þeim sem til mín leita líði eins vel og hægt er þegar það er að takast á við, oft á tíðum, sína mestu erfiðleika í lífinu. Undirbúningur fyrir viðtöl skiptir miklu máli, bæði hvað varðar aðstæðurnar sem viðtalið fer fram í en einnig varðandi mig sjálfa sem er verkfærið sjálft. Þess vegna huga ég vel að svefni, næringu og andlegri líðan til að vera vel í stakk búin að mæta fólki í erfiðri stöðu og mæta þörfum þeirra um samhyggð, hlustun og ráðgjöf.”

Hverjir leita helst til þín og á hvaða forsendum?

Til mín leita fyrst og fremst foreldrar sem búa ekki saman og þurfa aðstoð og ráðgjöf við að bæta foreldrasamstarf sitt. Ég veiti einnig sáttameðferð skv. 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 og fara slík mál í ferli skv. reglum um sáttameðferð.

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Til mín leita foreldrar vegna ýmissa ástæða er varðar aðstæður þeirra og barna eftir skilnað/sambandsslit. Sem dæmi foreldrar og/eða stjúpforeldrar sem leita einstaklingsráðgjafar vegna samskipta við barnsforeldri, foreldrar sem koma saman til að bæta samskipti sín á milli og verklag, foreldrar sem eru að slíta sambandi sínu og vilja gera sitt besta til að hlífa barni sínu við breyttum aðstæðum. Þá koma foreldrar með börn sín í viðtal sem þau upplifa að líði ekki nægjanlega vel í aðstæðum sínum.

Íslenskar fjölskyldur: Hafa þær breyst á undanförnum áratugum? Hversu algengar eru fjölskyldur sem búa ekki saman/foreldrar hafa skilið?

Fjölskyldur hafa breyst að því leytinu til að það er samfélagslega viðurkenndara í dag að skilja eða slíta sambandi þegar börn eru í spilinu en þótti hér áður fyrr. Áður var lögð ríkari áhersla á að hjónabandið héldi og var það talið gæfuríkara fyrir börn. Því var lögð áhersla á forvarnarvinnu til að koma í veg fyrir að skilnað hjá foreldrum. Þegar farið var að framkvæma rannsóknir á þessum málefnum kom í ljós að börnum vegnaði betur eftir skilnað foreldra þegar samskipti voru góð heldur en börnum sem ólust upp í hjá foreldrum sem voru óhamingjusamir og/eða í stormasömu sambandi.

Þátttaka ferða hefur einnig aukist með auknu jafnrétti kynjana. Hér áður fyrr var það venjan við skilnað foreldra að börnin byggju áfram hjá mæðrum sínum en fóru í heimsóknir til föður síns eða dvöldu aðra hverja helgi. Rannsóknir sýndu fram á mikilvægi tengsla barns við báða foreldra sína og því hafa verið stigin skref í átt að jafnari stöðu kynjana hvað þetta varðar. Sem betur fer. Mikilvægt er fyrir börn að eiga ríkuleg tengsl við báða foreldra sína og að þeir báðir taki virkan þátt í hversdagslegri umönnun þeirra.

Talið að um 40% hjónabanda endi með skilnað en svo eru auðvitað fjöldi barna sem eiga foreldra sem aldrei voru í sambandi. Það er gífurlega mikilvægt að foreldrar fái viðeigandi ráðgjöf og þjónustu við skilnað eða þegar barn er að koma í heiminn og foreldrar eru ekki saman. Rannsóknir sýna að börnum sem alast upp við jákvæða foreldrasamvinnu vegnar nánast jafn vel í lífinu og börnum sem alast upp í hamingjusamri sambúð foreldra. Slík samvinna virðist hafa svo mikil áhrif á á framtíð barna að mögulega ættum við sem samfélag að taka málefni barna sem búa á tveimur heimilum fyrir sem lýðheilsumál.

Hvað er foreldrasamvinna? Hvernig er best að fá foreldra til að vinna saman? Hvaða þættir er það einna helst sem foreldrar þurfa aðstoð við?

Með foreldrasamvinnu er átt við samstarf foreldra er varðar uppeldi og umönnun barns á tveimur heimilum. Mikilvægt er að foreldrar ræði strax í upphafi hvernig þeir sjái samstarfið fyrir sér og hvert markmiðið með því sé. Marmiðið hlýtur þá að snúa að því að skapa sem bestu umgjörð um líf barns á tveimur heimilum til að lágmarka skaðlegar afleiðingar þess að eiga foreldra sem hafa farið í sundur. Verkaskipting, skipting ábyrgðar og samskiptaleiðir þarf að ræða og ákveða hvernig skal haga því í samstarfinu. Þá er einnig gott að tileinka sér jákvætt hugarfar gagnvart hinu foreldrinu og aðstæðum. Vera auðmjúkur, þakklátur og einlægur í breyttum aðstæðum.

Hvernig virkar sáttamiðlun?

Sáttamiðlun fer fram skv. 33.gr. a barnalaga nr. 76/2003 og þeim reglum sem fjalla um sáttamiðlun skv. fyrrgreindum lögum. Hugmyndafræði sáttamiðlunar er sú að aðilar verði að taka sjálfviljugir þátt. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara er markmiðið að aðilar komist sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins sem þeir meta viðunandi fyrir alla aðila, í gegnum skipulagt og mótað ferli.

Á Tveimur heimilum er unnið út frá aðferð sem kallast barnamiðuð sáttamiðlun (e. child focused og child inclusive mediation). Þá miðast sáttameðferðin út frá sjónarmiðum barnins sem ekki er á svæðinu og hvað kann að vera best fyrir það. Barninu er boðið að tjá afstöðu sína við sáttamiðlara sem í framhaldinu nýtur afstöðuna sem vegvísi í áframhaldandi sáttaferli.

Hversu mikið vægi hafa óskir barnsins í ferlinu, er barnið þátttakandi í öllu?

Út frá faglegu sjónarmiði sem og réttindum barns er mikilvægt að það sé hluti af ferli þegar verið er að taka ákvarðanir um líf þess. Í sumum tilvikum hefst ferli á að rætt er við barnið og líðan þess og upplifun af aðstæðum þess á tveimur heimilum könnuð. Viðtalið er svo notað í áframhaldandi ráðgjöf foreldranna sem snýr þá að því að bæta aðstæður barnsins með því t.d. að breyta umgengni, aðstæðum á heimilum, samskiptum foreldra. Stundum er unnið barnið og foreldri saman eftir aðstæðum, aldri og þroska barnsins.

Smellið á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á síður Tveggja heimila! 

 

 

Pin It on Pinterest