Oxytoxin er stórmerkilegt hormón sem kemur mikið við sögu í fæðingum. Það er oft nefnt ástarhormónið og undanfarið hefur það fengið verðskuldaða athygli í fæðingarheiminum, því við erum farin að skilja hormónið og virkni þess mun betur. Oxýtoxin gerir allt aðeins auðveldara.
Oxýtoxin er stundum kallað kósý hormón, við finnum fyrir áhrifum af því þegar okkur líður vel, þegar við borðum góðan mat, hlæjum, njótum ásta og þegar við upplifum okkur örugg. Þegar því seytir fram veitir það okkur vellíðan. Þannig að þegar okkur líður vel og við erum örugg þá streymir hormónið um en ef við finnum fyrir óöryggi og hlutirnir ganga ekki vel þá stoppar það. Ástarhormónið er auðtruflað og Michel Odent segir að það sé feimið. Oxýtoxin spilar lykihlutverk í fæðingum en hagar sér á sama hátt og venjulega við þær aðstæður. Því seytir fram í öruggu umhverfi en dregur úr virkni sinni við ótta og kvíða eða þegar adrenalín er að trufla.
Michel Odent, franskur fæðingarlæknir, hefur verið óþreytandi í að benda á að til þess að oxýtoxinið streymi um konur í fæðingu verði að skapa aðstæður þar sem hún erum afslöppuð, róleg og örugg. Vera á stað þar sem hún er örugg og getur slökkt á heilanum (neo-cortexinu) s.s. þarf ekki að svara spurningum, spjalla, spá í útvíkkun eða annað álíka áreiti. Með því að slökkva á neo-cortexinu þá getur kona farið á fullt inn í fæðingu barns síns, oxýtoxinið flæðir fram og gerir sitt til að flýta framvindu.
Jafnframt er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem fæðandi kona hefur það ekki á tilfinningunni að verið sé að fylgjast með henni eða vakta hana. Sú tilfinning getur komið af nærveru utanaðkomandi aðila og tölvur, myndavélar og símar hafa sömu áhrif. Upplifi kona að verið sé að fylgjast með henni ,,kveikir hún á sér” og fer að huga að umhverfinu og þannig hægist á ferlinu.
Þá skiptir máli að staðurinn sé dimmur og engin skær ljós til staðar. Gott er að hafa dregið fyrir og/eða kveikt á kertum til að dempa birtuna. Allt þetta hjálpar til við að örva oxýtoxinið. Þá verður staðurinn að vera hlýr, mikilvægt er að hafa herbergið heitt og jafnvel hitara í gangi (kerti eða kamínu ef það má kveikja á svoleiðis) eða heitt vatn á réttum tíma. Allt getur þetta lagt sitt að mörkum til að örva oxýtoxinið.
Síðast en ekki síst er mikilvægt að halda adrenalíni í lágmarki. Adrenalín er mjög merkilegt hormón og getur það verið smitandi. Ef kona er stressuð, kvíðin og hrædd í fæðingu getur hún auðveldlega smitað aðra og fer þá öðru fólki í fæðingarrýminu ósjálfrátt að líða eins. Því er mikilvægt fyrir þá sem eru viðstaddir fæðingu að vera rólegir og ef ekki, taka á öllu sínu til að róa sig niður og í sumum tilfellum mælir Michel Odent hreinlega með því að fólk sem er stressað og gefur frá sér adrenalín yfirgefi herbergið, fái sér göngutúr og komi til baka þegar það hefur náð að róa sig.
Kannski hljómar þetta eins og það sé alls ekki hægt að vinna með þessi atriði í venjulegri fæðingu sem fer fram á spítala en það er auðveldara en maður heldur. Maður getur passað upp á að móðurinni sé hlýtt allan tímann og hún getur beðið um að hafa ljósin slökkt og dregið fyrir. Ef fylgjast þarf með hjartslættinum að hafa ekki kveikt á hljóðinu í mónitornum og passa að lítið sé talað við konuna. Jafnvel er hægt að nota bara eyrnatappa og benda henni á að loka augunum!
Svo getur viðvera doulu eða stuðningsaðila sem þekkir fæðingar hjálpað verðandi foreldrum mikið með rólegri nærveru og þannig viðhaldið eðlilegu flæði oxýtoxins.
Soffía Bæringsdóttir
doula og fæðingafræðari