Jóga fyrir fullorðna er fyrir löngu orðið útbreitt um allan heim og nú er jóga fyrir börn farið að öðlast sífellt meiri vinsældir. Það er víða kennt í skólum og jafnvel í leikskólum. Líf barna er orðið flóknara og hraðinn hefur aukist með meira vinnuálagi foreldra og fleiri tómstundum utan skóla og því er jóga kærkomið inni í dagskrá skólanna sem stund milli stríða.

Sem jógakennari barna á leikskólaaldri, tveggja til sex ára, hef ég orðið vitni að því hvernig börn bregðast við jóga og hvaða áhrif það hefur á þau. Kennsluna þarf að sníða eftir þeirra áhuga og úthaldi og það er gaman að leika dýr, tré, stríðsmenn og gyðjur. Þessar æfingar efla líka samhæfingu, athygli og líkamlega getu barnanna.

Börnin sækja í rónna sem fylgir jógatímunum. Að anda djúpt, loka augunum og einbeita sér að því sem er að gerast í þeirra eigin líkama í stað þess að hugsa um hvað sé að gerast hjá vinkonum og vinum. Það er svo áhugavert að sjá hvað gerist hjá þeim þegar þau beina athyglinni inn á við, loka augunum og finna hvernig þeim líður þá stundina í tásunum, eyrunum eða nefinu. Það er álag að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í kringum þig og bregðast við áreitum frá umhverfinu. Þessar æfingar eru góð hvíld frá því.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að jóga hefur margvísleg jákvæð áhrif á börn. Það eykur liðleika samhæfingu, athygli,einbeitingu og sjálfstraust og þroskar að auki jafnvægisskynið. Sérlega áhugavert er þó að jóga hefur einstaklega góð áhrif á börn sem eiga að einhverju leyti erfitt uppdráttar, til dæmis börn með einhverfu eða með ofvirkni og athyglisbrest. Það dregur úr kvíða og eykur sjálfstjórn og þar af leiðandi getur það dregið úr félagslegri einangrun og óæskilegri hegðun eins og árásargirni.

Það mætti segja að jóga sé orðinn hluti af lífi margra barna frá því í móðurkviði en meðgöngujóga er ákaflega vinsælt meðal verðandi mæðra. Það er talið geta hjálpað bæði á meðgöngu og ekki síður í fæðingunni. Öndunin sem þar er kennd hjálpar við að beina athyglinni inn á við auk þess sem jóga eykur líkamsvitund og auðveldar konum í fæðingu að treysta líkamanum til að gera það sem hann er hannaður til að gera, sem hjálpar þeim að slaka á. Að sjálfsögðu geta fæðingar farið á alla vegu en jóga felst ekki síst í að sleppa takinu og taka við öllu því sem lífið færir okkur, gera okkar besta með það sem við höfum í hvert skipti.

Frá því börnin eru 6 – 8 vikna er hægt að stunda svokallað mömmujóga og eftir mömmujóga tekur svo við barnajóga sem hentar börnum frá 6 mánaða aldri. Líklega hefur jóga fyrir svo ung börn ekki meiri eða betri áhrif á þau en önnur hreyfing á þessum aldri en það er vissulega ein tegund af mjúkri hreyfingu sem mælt er með fyrir ungbörn.

Jóga er frábær blanda af hreyfingu og andlegri heilsurækt og hentar flestum þeim sem áhuga hafa. Ef vel er staðið að kennslunni getur hún verið sterkur grunnur fyrir börn til að byggja á fyrir líkamlega og andlega færni en jóga er ekki síst stórskemmtilegt og góð æfing í gleði og leik.

Frekari upplýsingar:          

http://www.koreascience.or.kr/article/ArticleFullRecord.jsp?cn=TJHOBI_2011_v1n1_4.1

http://www.parents.com/fun/sports/exercise/the-benefits-of-yoga-for-kids/

http://www.yogajournal.com/article/family/yoga-kids/

Pin It on Pinterest

Share This