Nýverið opnaði María Gomez fallega lífsstílssíðu sem ber nafnið www.paz.is. María sem er ættuð frá Spáni, er ferðamálafræðingur að mennt, mikill áhugaljósmyndari og fagurkeri sem tekur flest allar myndir fyrir síðuna sína sjálf. Hún á einnig alveg einstaklega smekklegt og fallegt heimili sem fær oftar en ekki að njóta sín sem myndefni á síðunni hennar og instagramreikning Paz.is. María sem er 38 ára er gift Ragnari Má Reynissyni og móðir þeirra Gabríelu 18 ára, Reynis Leo 4 ára, Mikaels 3 ára og Viktoríu Ölbu sem er alveg að verða 2 ára. Í júlí 2016 keyptu María og Ragnar fallegt einbýlishús á Álftanesi fyrir fjölskylduna sem þau tóku allt í gegn og gjörbreyttu eftir sínu höfði.

María ætlar að deila með okkur hvernig hugmyndin að Paz.is varð til, segja okkur frá breytingunum á heimilinu og hvernig er að eiga þrjú börn með stuttu millibili. Hún ætlar einnig að gefa okkur uppskrift af girnilegum spænskum rétt.

Hvað varð til þess að þú opnaðir lífstílssíðuna paz.is, hver er þinn helsti drifkraftur og fyrirmynd og hvaðan er nafnið Paz komið frá?

Mig var búið að langa til að opna bloggsíðu í heilt ár áður en ég lét verða að því loksins í apríl sl. Þegar við stóðum í kaupferlinu á húsinu okkar var maður að láta sig dreyma og plana um hvernig við ætluðum að breyta því. Ég notaði mikið pinterest og erlend blogg sem ég fékk ýmsar hugmyndir frá og þar vaknaði áhuginn á að stofna mitt eigið blogg.

Mynd Anton Brink

Drifkrafturinn minn er í raun bara að fá að skapa, miðla af reynslu og koma með nýjungar hvað varðar mat og framkvæmdir og fleira. Mér finnst mjög gaman að, baka og elda, eiga börn, breyta og bæta á heimilinu og hef áhuga á heilsu og matarræði. Einnig finnst mér mjög gaman að skrifa og taka myndir og þarna fæ ég útrás fyrir alla þessa sköpun sem gefur mér mikla lífsgleði. Eftir að bloggið opnaði, þá er það enn meiri drifkraftur að sjá áhugann hjá lesendum og fá jákvætt feedback.

 Þegar ég var í ferlinu að hanna síðuna mína átti ég enn eftir að finna blogginu nafn. Mér datt einhvernveginn ekkert í hug, þar til einn daginn þá bara skaust nafnið á spænsku förðurömmu minni upp í kollinn á mér. Amma mín hét Paz og einnig uppáhaldsföðursystir mín sem ég er í miklu sambandi við. Báðar þessar konur eru miklar og góðar fyrirmyndir í mínu lífi. Ég hef lært mikið af þeim í lífinu og í eldhúsinu hjá þeim líka, en þær bjuggu alltaf saman þar til amma dó og voru og eru þvílíkt klárar í eldhúsinu. Þar sem ég ætlaði mér alltaf að hafa spænsku ræturnar mínar með á blogginu þá fannst mér nafnið Paz alveg tilvalið og er ég mjög ánægð með það, enda stutt og auðvelt að muna. Ég var svo heppinn að allt sem tengdist Paz, bæði instagramm og lén fyrir síðuna var laust og því var ekki að þessu að spyrja.

Nú keyptuð þið húsið ykkar í allt öðru standi en það er í dag, fylgdi ekki mikil vinna því að taka það allt í geng?

Jú þetta var algjör bilun frá upphafi til enda…..fyrst var algjört vesen allt í söluferlinu en við stóðum í svokallaðri keðjusölu þar sem voru fyrirvarar hægri vinstri í allri keðjunni og þrír mismunandi fasteignasalar. Mæli alls ekki með því. Ferlið tók rosa á og tók í allt 3 mánuði í allskyns óvissu og drama. Þegar það var svo allt klappað og klárt og húsið komið í höfn var maður eiginlega bara alveg orðin úrvinda. Síðan kom kappið við að finna iðnaðarmenn sem í dag er eins og að finna gull eða vinna í lottó. Því miður vorum við rosalega óheppin með okkar iðnaðarmenn sem höfði lofað öllu fögru og ekkert stóðst. Auk þess að vinnubrögðin lyktuðu af mikilli vanvirðingu fyrir verkinu og eigninni okkar. Eiginlega fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis og endaði það á því að við létum þá fara og tókum flest allt að okkur sjálf nema pípulagninga og flísavinnu. Allt annað gerðum við sjálf eins og að brjóta niður veggi, mála, parketleggja færa til og setja upp innréttingar og skápa og eiginlega bara allt sem þurfti að gera. Ferlið hefði getað orðið mjög skemmtilegt svo sem, nema tíminn sem við höfðum var frá 13. júlí til 1. ágúst til að klára allt það helsta svo pressan var gígantísk. Auk þess voru öll börnin okkar í sumarfríi og eiginlega flestir sem við þekktum. Svo það var enga hjálp að fá frá vinum eða ættingjum. Við stóðum því í þessu algjörlega tvö með Gabríelu elstu dótturina við hlið okkar sem passaði öll kvöld meðan við unnum bæði í húsinu. Á daginn vann Raggi algjörlega í húsinu meðan ég var heima með krakkana að pakka. Á kvöldin fórum við svo saman upp í hús að vinna og svona rúllaði þetta allar 3 vikurnar sem við höfðum. Mér leið oft eins og ég væri að taka þátt í Amazing race eða the block eða eitthvað því pressan var biluð á þessum tíma og man ég varla eftir honum! Á þessum tíma var yngsta barnið 8 mánaða og hinir árinu og tveimur árum eldri en hún. Við erum svo smátt og smátt búin að vera að klára húsið þar til s.l apríl en þá var því lokið hér að innan. Núna erum við svo að mála allt húsið að utan, en það er enginn pressa og bara gaman.  

Í dag líður okkur  frábærlega í húsinu og þá sér maður að allt erfiðið var algjörlega þess virði og að þetta mikla fall okkar í byrjun var okkur fararheill.

Þið eruð með þrjú ung börn, er ekki full vinna að skipuleggja heimilið og plana allt sem börnunum tengist, hvernig nærðu að halda góðu dagsskipulagi?

Jú þetta er alveg svakalega mikil og oftast skemmtileg vinna. Þetta krefst mjög mikillar skipulagni dagsdaglega og ef maður fer aðeins út frá skipulaginu eru hlutirnir fljótir að fara í klessu. Ef ég t.d. sleppi því að þvo þvott í eitt og eitt skipti þá hrannast allt upp og mín bíður stórt þvottafjall að klífa sem dæmi. Það eru margir sem eiga þrjú og fjögur börn og láta hlutina rúlla svo ég er kannski ekkert sérstök fyrir þær sakir að eiga 4 börn en það sem kannski gerir okkur frábrugðin er hvað er stutt á milli þrjú yngstu barnanna, en þau eru öll fædd á sitthvoru árinu á árunum 2013,2014 og 2015 sem er alveg svoldið bilað (hahaha).

Þetta er í raun alveg þrælmikið hark en við reynum að njóta þess og vera ekki að hugsa hluti eins og að geta ekki beðið eftir að þau verði eldri svo allt verði auðveldara.

Við erum mjög dugleg hjónin að vinna saman og plana allt og gera ” to do” lista sem við skiptum á milli okkar. Svo bara rúllar þetta og dæmið gengur upp. Núna eru allir krakkarnir í sumarfríi og þá er allt farið í klessu og ég eiginlega bara búin að henda öllu skipulagi tímabundið út um gluggan…..húsið er á hvofii og meira að segja garðurinn líka. Maður bara tekur djúpt andan og labbar í gegnum draslið og reynir eiginlega bara að komast í gegnum daginn, annars myndum við bara missa vitið. En á meðan leikskólarnir eru starfandi þá gengur þetta bara afsklaplega vel allt saman.

Nú áttu mjög fallegt heimili sem er einstaklega stílhreint og hvítt. Hvernig gengur að vera með þrjú lítil börn og halda öllu hreinu og fínu?

Það gengur vel en þó misjafnlega samt. Virku dagana er lítið mál að halda húsinu í standi en um helgar fer allt í klessu og á hvolf og þá bara er það þannig…ég er alveg búin að sætta mig við það. Við reynum samt svoldið að kenna krökkunum að ganga frá eftir sig og setja allt á sinn stað aftur. Hengja upp eftir sig yfirhafnir og raða skóm og þ.h. Einnig setjum við þeim fyrir verkefni sem þau ráða við eins og að leggja á borð eða hjálpa til við að setja í uppþvottavél og annað. Það getur munað svo miklu að kenna krökkunum að ganga frá og verður það partur af þeirra rútínu. Einnig reynum við að kenna þeim að ganga um hlutina eins og sófann sem er hvítur en þau vita að þau mega ekki fara með matvæli í sófann og virða það alveg. Ég myndi segja að það gangi vel að halda öllu svona yfirborðsfínu eins og drasli í skefjum og ryki….en viðurkenni þó að maður er svoldið mikið í kattarþvottinum með svona marga litla krakka meira en í stórum hreingerningum algjörlega vegna anna og tímaskorts.

Þú ert ættuð frá Spáni, myndir þú segja að uppskriftirnar þínar og stíll sé undir spænskum áhrifum?

Já algjörlega, ég reyni alltaf að setja inn spænskar uppskriftir en ég hef alltaf frá því ég byrjaði að elda sjálf eldað spænskan mat. Þegar ég flutti til Íslands 5 ára gömul saknaði ég mikið matarins á Spáni. Þá var ekki auðvelt að kaupa í spænskan mat á þeim tíma, en í hann þarf oft sjávarrétti  eins og heilar rækjur með haus, skelfisk  og grænmeti sem þá fékkst ekki í búðunum hér heima. Þá var mest til hvítkál, guldrætur og rófur. Það er alveg ótrúlegt að hugsa um það hvað er stutt síðan að við fengum fjölbreyttar tegundir af grænmeti í verslanir hér heima. Mér fannst íslenski maturinn mjög skrítinn og átti erfitt með  að borða kjötfars og fiskibollur og þ.h. og því var ég ekki lengi að taka upp á spænskri matseld þegar fjölbreytnin í búðunum jókst og ég fór að búa sjálf.

Hvað stílinn á heimilinu varðar myndi ég segja að hann sé ekki mjög suðrænn í þetta skiptið þar sem hann er mjög skandinavískur en þar sem við bjuggum áður en við fluttum hingað var heimilið undir spænskum áhrifum já. Svo hef ég alltaf haldið fast í spænskar hefðir eins og t.d. að setja eyrnalokka strax í stelpurnar mínar þegar þær fæðast en báðar fengu þær eyrnalokka nokkra daga gamlar. Sú eldri 8 daga og hin 5 daga gömul. Amma mín Paz hafði gefið Gabríelu fyrstu lokkana og fékk sú yngri þá líka í eyrun svo Amma Paz er okkur alltaf efst í hjarta með marga hluti.

Viltu gefa okkur eina góða uppskrift af spænskum rétt?

Já endilega, rétturinn sem ég ætla að gefa ykkur uppskrift af kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling. Þessi réttur er svona stóra frænka Paellunar en hann er mjög svipaður henni nema meira svona hversdags og eldaður mun oftar en Paella á spænskum heimilum.

Arroz con Pollo

 • 1 bakki af úrbeinuðum kjúklingalærum
 • 1 græna papríku
 • 1-2 rauðar papríkur
 • 1 lauk
 • 1 hvítlauk
 • 1 bolla af grænum baunum (ég nota frosnar)
 • 1 -2 kjúklingasoðstening
 • 1 fiskisoðstening
 • 1-2 stóra tómata eða 5-7 litla plómutómata
 • 1 og hálft glas af grautarhrísgrjónum (mjög mikilvægt að þessi grjón séu notuð, keypti mín í Hagkaup)
 • 4 vatnsglös
 • Gulan lit sem kallast colorante (fæst ekki hér á Íslandi en hægt er að nota saffran frá Costco eða Turmerik fyrir litinn eða kippa colorante með sér heim úr sumarfríinu á Spáni en það fæst í öllum súpermörkuðum á Spáni)
 • Salt og pipar
 • ½ dl Ólifuolíu

 

Aðferð 

 • Skerið laukinn í smátt og merjið hvítlaukinn.
 • Skerið papríkurnar í langa þykka strimla og tómatana í litla bita
 • Sneiðið lærin í tvennt
 • Hitið ólífuolíu á stórri pönnu og setjið lauk og hvítlauk út á og saltið létt yfir og piprið.
 • Þegar laukurinn er orðin mjúkur setjið þá papríkurnar og tómatana út á og saltið aftur létt yfir og leyfið þeim að mýkjast við vægan hita. Passið að brenna ekki laukinn.
 • Næst er svo kjúklingurinn settur yfir allt á pönnuna og hrært í öllu og saltað og piprað aftur. Þegar kjúklingurinn er aðeins byrjaður að hvítna setjið þá grjónin yfir allt og hrærið vel í svo þau blandist vel saman við hin hráefnin.
 • Hellið nú grænum baunum yfir allt saman.
 • Næst er svo vatnið soðið í katli og teningarnir leystir upp í því. Því er svo hellt út á allt saman og hrært í síðasta skitpið saman. Athugið ekki hræra í réttinum neitt meir á meðan hann er að sjóða.
 • Látið sjóða í 25 mínútur við vægan hita.
 • Þegar rétturinn er til eiga grjónin að vera orðin mjúk og smá aukasoð á að vera á honum, ekki hafa áhyggjur af að vatnið sé ekki allt gufað upp því svona á hann vera.

 Berið svo fram með góðu snittubrauði sem er gott að dýfa í soðið!

Við þökkum Maríu Gomez kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara spurningum okkar og gefa okkur þessa grinilegu uppskrift! Eins óskum við henni til hamingju með flottu bloggsíðuna sína www.paz.is 

 

Auður Eva Ásberg

 

Pin It on Pinterest

Share This