Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir, snyrtifræðingur, einkaþjálfari og fitnessdrottning, á von á sínu fyrsta barni. Heiða, eins og hún er jafnan kölluð, lifir heilsusamlegu lífi og hugsar alla jafna vel um heilsuna. Fyrsta þriðjung meðgöngunnar fann hún fyrir þreytu og ógleði en nú þegar hún er komin lengra á leið er hún farin að stunda aftur reglulega líkamsrækt. Það má með sanni segja að Heiða geisli á meðgöngunni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

heida18vikur

Ég bað Heiðu um að gefa lesendum mamman.is fimm góð ráð til að fylgja á meðgöngu og spurði einnig örlítið út í óléttuna. Hún gefur lesendum líka eina einfalda uppskrift af múffum, með eplum og kanil, sem eru algjört nammi.

“Ég á von á mínu fyrsta barni í byrjun maí 2017,  settur dagur er 6 maí. Ég er svo ótrúlega spennt fyrir þessu öllu saman. Allt hefur gengið rosalega vel og ég er núna komin rúmlega 18 vikur á leið. Ég fann fyrir smá ógleði og þreytu fram að 12 viku og hafði ekki mikla orku í æfingar og lét vinnuna bara duga. En svo hefur mér bara liðið vel eftir það og er farin að fá orku aftur til að æfa og er að fara hægt af stað aftur.

  • Ég passa mig að drekka vel af vatni. Það er líka gott fyrir húðina sem er að teygjast.

  • Passa mig að hafa engar öfgar í æfingum og klára mig ekki í settum ef ég er að lyfta. Öll liðamót eru mýkri og allt viðkvæmara á þessum tíma. Einnig fylgjist ég vel með púlsinum.

  • Borða hollt og reglulega.

  • Sef nóg, ég reyni núna að ná átta tímum.

  • Tek inn holla fitu bæði úr fæðu, t.d. laxi, avocado og möndlum og tek omega 3 bæði á morgana og á kvöldin.

Ég er vön að lyfta og hef gert það í mörg ár. Hef alltaf verið í íþróttum svo ég held mínu striki eins lengi og ég treysti mér til. Finn samt strax að ég ræð ekki við eins mikla þyngd og venjulega og er ekki að klára mig í settum. Fer líka mikið í spinning og passa mig þar að púlsinn fari ekki of hátt.  Er svo að hugsa um að prófa meðgönguyoga eða meðgöngusund þegar á líður.”  

Hér kemur svo uppskrift af múffum með eplum og kanil sem Heiða deildi með okkur.

muffurmedeplumogkanil

Hitið ofnin í 200°C

  • 4 bollar haframjöl (ég nota glutein free hafra frá Urtekram, fæst m.a. í Hagkaup, Krónunni, Nettó og Samkaup)
  • 1 skvísa Ella´s epla- og banana barnamauk
  • 4 egg
  • 4 lítil eða 2 stór epli skorin í litla bita (ég hafði hýðið með, val)
  • 1 kúfuð msk grísk jógúrt (má nota hreina jógúrt eða súrmjólk)
  • 1 msk sukrin sykur eða stevia sykur (má sleppa)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2-3 tsk kanill
  • smá klípa af maldon salti mulið yfir
  • 4 msk rúsínur má sleppa.

Öllu hrært saman í einni skál með sleif og gott að setja í muffins form með tveimur skeiðum og bakað í 20 mín. Ég set ýmist í pappaform eða silikon form. Þær eru bestar heitar með smjöri og osti. Annars er hægt að grípa þær með sér í nesti á morgnana einar og sér til að hafa með kaffinu  eða einum ísköldum Hámark.

Hægt er að nálgast þessa uppskrift og margar fleiri inná www.heidiola.is

Við þökkum Heiðu góð ráð og vonum að meðgangan gangi að óskum.

Pin It on Pinterest

Share This