Á dögunum þurfti ég að fara í snemmbúið fæðingarorlof og fékk að gjöf, frá vinnunni, æðislega bók eftir Anítu Bríem og Sólveigu Eiríksdóttur, Mömmubitar. Það var því ekki seinna vænna, á öðrum degi í orlof að skella í eina af girnilegustu uppskriftunum, að mínu mati, sem finna má í bókinni, Snickersköku.
Botn
- 200 g döðlur
- 100 g kókosmjöl
- 1 dl hnetusmjör
Ég notaði venjulegar döðlur frá H-berg, sauð vatn og leyfði þeim að liggja í bleyti í smá stund. Hnetusmjörið sem ég notaði er frá Whole Earth og fæst m.a. í Krónunni og öðrum heilsubúðum. Það sem heillar mig við þá tegund hnetusmjörs er að það er enginn viðbættur sykur í því (en er vinna í að gera mitt eigið hnetusmjör svo það verði sem hollast).
Þessu skellti ég svo öllu saman í matvinnsluvél og leyfði að maukast vel saman. Maukinu þjappaði ég svo í eldfast mót og setti það í frysti á meðan ég bjó til karamelluna.
Karamellulag
- 1 ½ dl hlynsíróp eða önnur sæta
- 1 dl kókosolía
- 1 dl hnetusmjör
- ½ tsk sjávarsalt
Ég átti ekki hlynsíróp svo ég notaðist við agavesíróp og smá hunang og náði ég sirka 1 dl af sætu úr því þar sem ég átti ekki meira til. Einnig setti ég ekki hálfa tsk af salti eins og ráðlagt er í uppskriftinni þar sem ég reyni að forðast salt eins og heitan eldinn því mér hættir til að fá bjúg á meðgöngu. Þessu smellti ég svo í matvinnsluvélina, lét hana skila sínu og smurði því svo sem öðru lagi yfir botninn og setti aftur í frystinn meðan ég bjó til súkkulaðið.
Súkkulaðilag
- ½ dl kókósolía
- ½ dl kakóduft
- 1 msk hlynsýróp
- nokkur saltkorn
Þar sem ég notaði allt sýrópið mitt í karamelluna þá setti ég sirka 1 tsk af hunangi til að fá sætu, einnig átti ég ekki til stevíu svo ég setti í staðinn 2-3 dropa af vanilludropum (en sleppti saltinu). Hrærði öllu saman og hellti yfir karamellulagið og setti í frysti í smá stund eða þar til súkkulaðið var orðið stíft.
Næst skar ég kökuna í lengjur og frysti hverja lengju fyrir sig. Auðvitað bauð ég sjálfri mér og heimilisfólkinu strax upp á nammi og var þetta guðdómlega gott.
Næstu daga þegar einhver kom í kaffi (eða sykurpúkinn mætti á svæðið) þá var ein lengja sótt í frystinn og skorin í litla bita og hafa þeir slegið í gegn í hvert skipti.
Ég mæli með þessari ef þú vilt seðja sykurpúkann en vera samt sem áður í hollari kantinum.
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir