Nú þegar jólaundirbúningurinn er að fara á fullt, ilmurinn af smákökum og greni liggur yfir heimilum landsmanna og börnin iða í skinninu af spenningi er eitt sem gleymist stundum þangað til á síðustu stundu en það er hvernig við ætlum að leggja á fallegt jólaborð.

Það er ekkert yndislegra en að setjast niður saman á aðfangadagskvöld yfir dýrindis jólasteik með fallega skreytt borð. Oftast er einfaldleikinn fallegastur og um að gera að láta matinn njóta sín á borðinu.

Auðvelt er að skreyta borðið með fallegum dúk og svo er auðvitað mikilvægt að nota fallegt matarstell og glös. Flest lumum við á sparistelli sem stundum gleymist inní skáp og það er sko ekkert betra tilefni en jólin til að nýta það og ekki má gleyma tauservíettunum.

Um er að gera að klippa niður greni eða aðrar greinar og nota til skrauts og nota fallegan flauelsborða til að binda saman hnífapörin eða jafnvel eitthvað grófara band. Auðvelt er að láta börnin hjálpa sér við að klippa út litlar stjörnur úr pappír eða búa til merkispjöld sem hægt er svo að skrifa nöfnin á. 

Einnig má oft finna eitthvað nothæft heimafyrir til að skreyta með eins og kanillengjur, jólakúlur, perlur, köngla, fallegar piparkökur og svo má ekki gleyma punktinum yfir i-ið, kerti.

Gleðilega hátíð!

Pin It on Pinterest

Share This