Kostir þess að eiga gæludýr á meðan barnauppeldi stendur

Kostir þess að eiga gæludýr á meðan barnauppeldi stendur

Kostir þess að eiga gæludýr á meðan barnauppeldi stendur

Ertu að velta fyrir þér hvort þú ættir að bæta gæludýri í fjölskylduna? Stutta svarið ætti að vera: „Já“. Hér eru nokkrar frábærar ástæður sem hjálpa þér að taka réttu ákvörðunina!

Gæludýr hjálpa börnum

Börn elska gæludýrin sín, og það er af góðri ástæðu. Dýr, hvort sem þau eru stór eða smá, veita einstakan félagsskap. Allir vita að börn elska dýr! Þú þarft ekki að leita lengi í herbergi barnsins þíns til að finna þar bækur, myndir, leikföng og fleira sem minna á dýr.

Talið er að um fjögur af hverjum 10 börnum hefji líf sitt í fjölskyldu sem heldur dýr á heimili sínu og um 90% barna alast upp með dýri á einhverjum tímapunkti æskunnar, segir Gail F. Melson, PhD,rithöfundur bókarinnar Why the Wild Things Are: Animals in the Lives of Children.

Foreldrar halda kannski að gæludýrið veiti barninu einungis skemmtun eða félagsskap, en það er svo miklu, miklu meira. Það kennir börnum samkennd, ábyrgð og hjálpar til við tilfinninga-, tauga- og félagsþroska ásamt líkamlegum þroska.

Börn læra mikið af dýrum

Börn lesa stundum fyrir dýrin sín og leika við þau í leikjum. „Það er ekkert skrýtið,” segir Mary Renck Jalongo, PhD, rithöfundur The World of Children and Their Companion Animals. Kennarar hafa löngum vitað að dýr hafa hjálpað börnum og eru meðferðardýr (aðallega hundar) oft hafðir við hlið barna sem hafa átt í náms- og þroskaerfiðleikum. Nú hafa rannsóknir sýnt að öll börn hafa ávinning af því að umgangast dýr. Í einni rannsókn voru börn sem rannsökuð voru, beðin að lesa upp fyrir framan vin, fullorðinn og hund. Rannsakendur mældu streituþröskuld barnanna og sáu að börnin voru minnst stressuð í kringum dýrið, ekki mennina: „Ef þú ert í erfiðleikum með að lesa og einhver segir við þig: „Taktu upp bókina og farðu að vinna,“ er það ekki mjög spennandi tilboð,“ segir Dr Jalongo. „Nú ef einhver býður þér að koma þér þægilega við hlið hunds eða kattar, það hljómar mun betur, ekki satt?“

Dýrin veita öryggi

Í annarri rannsókn voru börn beðin um að gefa vinafáum og óvinsælum börnum ráð, hvernig þau gætu bætt úr stöðunni. Svarið sem skoraði hæst var ekki að eignast flottasta leikfangið eða eiga dýrustu strigaskóna, heldur að eiga gæludýr. Hvort sem það væri hamstur eða hestur skipti það ekki máli, það væri að geta talað um dýrið og fundið sameiginlegan grundvöll með öðrum krökkum.

Dýr veita líka öryggiskennd. Dr. Melson spurði hóp af fimm ára börnum sem átti gæludýr hvað þau gerðu þegar þau voru leið, hrædd, reið eða byggju yfir leyndarmáli. Meira en 40% barnanna svaraði strax að þau myndu knúsa dýrið sitt. „Börnin sem fengu stuðning frá gæludýrunum sínum voru talin af foreldrum þeirra vera minna kvíðin og til baka,“ sagði hún.

Gæludýr auka samkennd

Dr. Melson hóf rannsóknir á áhrifum gæludýra á börn að sýna samkennd og hluttekningu. „Hluttekning er ekki endilega eiginleiki sem allt í einu birtist, heldur er lærður. Þó börn hafi upplifað kærleika og væntumþykju í æsku kennir það þeim ekki að vera umhyggjusöm, þau þurfa að þjálfa það.“

Það er ekki margt sem börn geta gert í að hugsa um aðra í nútímasamfélagi, annað en að hugsa um gæludýr. „Í mörgum löndum hugsa börn um systkini sín, en í Vestrænum löndum er það ekki menningarlega samþykkt. Það er í raun ólöglegt í mörgum ríkjum Bandaríkjanna að láta börn í pössun hjá unglingum undir 16 ára aldri.“

Að sýna öðrum samkennd er drengjum sérstaklega mikilvægt, segir Dr. Melson: „Að hugsa um dýr er ekki litið á sem „stelpulegt“ s.s. að passa börn, leika sér í mömmó eða með dúkkur,“ segir hún. „Stúlkur eru líklegri um átta ára aldurinn að hugsa um börn á einhvern hátt en drengir, en að hugsa um dýr er í jöfnu hlutfalli.“

Heilsa barna og gæludýr

Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var afDennis Ownby, MD, barnalækni í Augusta, er dýrahald ástæða þess að börn þróa ekki með sér ákveðin ofnæmi. Hópur hans rannsakaði 474 börn frá fæðingu fram að sjö ára aldri.

Börn sem höfðu einn til tvo hunda og/eða kött á heimilinu voru helmingi ólíklegri til að fá þau ofnæmi sem önnur börn höfðu sem ekki áttu gæludýr á heimilinu.

Börn sem áttu dýr höfðu minna dýraofnæmi, en einnig gras- og frjókornaofnæmi. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að börn sem umgangast reglulega gæludýr hafa minni astma en önnur. Enginn veit hvers vegna þetta er en Dr. Ownby hefur kenningu: „Þegar barn leikur við kött eða hund sleikir dýrið þau oft. Munnvatnið flytur bakteríur úr munni dýrsins og þessi snerting barnsins við bakteríuna getur sett ónæmiskerfi barnsins af stað og breytir því hvernig ónæmiskerfið bregsti við öðrum ofnæmisvökum.“

Gæludýr og fjölskyldubönd

Gæludýr færa fjölskylduna nær hvort öðru og sú fjölskylda verður sterkari og nánari fyrir vikið. „Alltaf þegar ég spyr börn eða foreldra hvort gæludýrin séu hluti af fjölskyldunni svara þau – oftast hissa eða móðguð – „auðvitað!“ segir Dr. Melson.

Gæludýrið er oft hvati að samverustundum fjölskyldunnar. Allir fara út að labba með hundinn, greiða honum eða gefa honum að borða, eða leika við hann á gólfinu. Það eru meira að segja bónusar sem fylgja því að horfa á kött leika sér eða að fisk í búri sínu. Að eyða slíkum tíma býður upp á núvitund og rólegheit. Ef einhver spyr þig hvað þú hefur verið að gera og þú svarar: „Ekkert“ og þegar fjölskyldur hafa allt of mikið að gera getur þetta „ekkert“ verið hvað mikilvægast í lífum þeirra!

Heimild: Parents.com

Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

„Hún fær alltaf að fara í bíó með vinum sínum! Af hverju fæ ég að fara svona sjaldan?“

„Þú elskar hann meira en mig!“

„Ég vildi að ég ætti engin systkini!“

Foreldrar sem eiga fleira en eitt barn hafa allir heyrt eitthvað svipað. Þrátt fyrir að systkini geti verið nánir vinir er ólíklegt að allt gangi fullkomlega friðsamlega fyrir sig öllum stundum.

Bræður og systur rífast og slást, það er bara eins og fjölskyldur eru. Ólíkir persónuleikar og aldursmunur spilar stóran þátt en systkini sjá líka hvort annað sem keppinaut sem keppast um hluta af takmörkuðum auðlindum fjölskyldunnar s.s. baðherberginu, símanum eða síðustu kökusneiðinni, sem og athygli foreldranna.

Það er eðlilegt að systkini eigi í ágreiningi en það getur gert foreldrana brjálaða. Lykillinn að færri árekstrum?

Að vita hvenær börnin geta leyst málin sjálf og hvenær þú átt að skipta þér af.

Ástæður ágreinings

Börn eru ekki alltaf raunsæ, sérstaklega þau yngri. Stundum getur eitthvert smáatriði snúist upp í risastórt mál og það virðist sem þakið ætli að fjúka af húsinu í kjölfarið.

Athugið að börn eru afskaplega oft að reyna að ná athygli þinni. Því uppteknari sem foreldrarnir eru, því meiri áhersla er hjá börnunum að ná þessari athygli því það þýðir að foreldrið hefur minni tíma fyrir hvert barn fyrir sig.

Þegar nýtt barn bætist í fjölskylduna verður erfitt fyrir yngsta barnið að missa sæti sitt sem miðpunktur athyglinnar. Stundum eru foreldrarnir uppteknir af barninu sem hefur sérstakar þarfir eða er veikt. Börn munu alltaf vera með læti eða vera óþekk til að ná athygli finnist þeim þau ekki fá hana.

Flest heimili hafa ekki ótakmarkaðar auðlindir

Það þýðir að systkini þurfa að deila einhverjum hlutum. Að þurfa að gefa eftir er stundum afskaplega erfitt, sérstaklega yngri börnum.

Einstakir persónuleikar

Elsta barnið kann að vera þrjóskt á meðan það yngsta er þögult og innhverft. Mismunandi skaplyndi getur valdið árekstrum. Aldur og kyn geta einnig leitt til rifrildis.

Réttlætismál

Börn eru eins og litlir lögfræðingar, alltaf að krefjast réttlætis og sanngirni og þau berjast fyrir rétti sínum. Yngra systkini kann að kvarta yfir því að eldra systkini má fara á tónleika á meðan það þarf að vera heima, á meðan eldra systkini kann að kvarta yfir að þurfa að passa yngra systkini í stað þess að fara út með vinunum. Tilfinningar vegna óréttlátrar meðferðar og afbrýðisemi meðal systkina getur leitt til ósættis.

Að finna fjölskyldujafnvægi

Öskur og rifrildi geta gert foreldra brjálaða, en forðist að lenda í hringiðu rifrildanna nema að barn sé í hættu að verða meitt. Reyndu að láta krakkana finna út úr hlutunum sjálfir. Að blanda þér í málin kennir ekki krökkunum að leysa málin og þá er auðvelt að benda á þig sem sökudólg, „þú stendur alltaf með honum/henni!“

Sum ágreiningsmál eru auðveldari en önnur fyrir börnin sjálf að leysa. Hér eru nokkur ráð til að enda rifrildi ef þú þarft að skipta þér af:

Aðskildu þau. Taktu börnin úr aðstæðum og láttu þau í sitthvort herbergið. Stundum þurfa þau bara fjarlægð frá hvort öðru.

Kenndu samningaviðræður og hliðranir

Sýndu börnunum hvernig leysa á ágreiningsmál til að báðir aðilar séu sáttir. Biddu þau um að hætta að öskra og fara að tala frekar. Gefðu hvoru barni fyrir sig tækifæri á að tjá sína hlið. Hlustaðu á báðar og passaðu að dæma ekki. Reyndu að orða vandamálið: „Það hljómar eins og þú sért reið út í Jóa fyrir að taka uppáhalds tölvuleikinn þinn.“

Biddu þau svo að koma upp með lausn sem gæti hentað öllum. Ef ekki, getur þú komið með uppástungu. Til dæmis, ef börnin eru að slást um nýjan tölvuleik, gætir þú sett tímatöflu sem gefur hvoru barni fyrir sig tíma til að spila leikinn.

Settu reglur

Vertu viss um að börnin séu að fylgja sömu reglum. Þær ættu að snúast um að enginn meiði hvorn annan, ekki sé uppnefnt eða eyðilagt eitthvað fyrir hinum. Láttu börnin búa til reglurnar með þér. Ef ekki er farið að reglum er refsað, t.d. að barnið fái ekki að horfa á sjónvarpið í eitt kvöld. Með því að börnin semji reglurnar saman gefur það þeim tilfinningu að þau hafi einhverja stjórn. Þegar börnin fara eftir reglunum skaltu hrósa þeim. Reglurnar kunna að vera breytilegar eftir aldri barnanna, en einnig afleiðingarnar.

Ekki velja þér hlið

Ef eitt af börnunum þínum er stöðugt að lenda í vandræðum, en hin ekki, passaðu þig að fara ekki í samanburð. T.d. „Af hverju getur þú ekki verið meira eins og systir þín?“

Það elur enn meira á ósætti milli systkinanna. Að gefa einu barni sérmeðferð getur eyðilagt sambandið milli þín og barnanna.

Ekki gera allt jafnt

Það er ekkert sem heitir fullkomið jafnvægi í fjölskyldu. Eldra barn mun óhjákvæmilega fá eitthvað umfram hið yngra þannig það er ómögulegt að gera öllum til hæfis. Þess í stað skaltu koma fram við hvert barn á sinn einstaka hátt og láta það finna fyrir mikilvægi sínu.

Gefðu börnunum réttindi yfir sínum eigin eigum. Að deila er mikilvægt, en börn ætti ekki að þvinga til að deila öllu. Börnin þín ættu öll að eiga eitthvað sérstakt sem er aðeins þeirra.

Haldið fjölskyldufundi

Einu sinni í viku er ágætt að kalla til fjölskyldufund til að ræða málin. Gefðu hverjum og einum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og allir ættu að finna lausn á málunum saman.

Gefðu hverju barni fyrir sig sérstaka athygli

Það getur verið erfitt að eiga gæðastund með hverju barni fyrir sig, sérstaklega ef þú átt stóra fjölskyldu. Ein af ástæðum systkinaágreinings er m.a. athyglin sem þú sýnir hinum systkinunum. Láttu börnin þín vita að þú elskir og virðir hvert og eitt og eigðu stund með hverju og einu.

Búðu til sérstaka daga þar sem þú ferð með syni þínum í bíó eða dótturinni í búðir, bara þið tvö. 10-15 mínútur af gæðastund með hverju og einu á hverjum degi leyfir barninu að finna til mikilvægi síns.

Þegar ágreiningur fer úr böndunum

Það er að sjálfsögðu eðlilegt fyrir systkini að rífast öðru hvoru. Þegar slagsmál fara hinsvegar úr böndunum og átökin verða líkamleg eða meiða verða þau að stoppa.

Ef um endurtekin slagsmál er að ræða, ef annaðhvort bítur eða „kvelur“ hitt (s.s. kitlar, stríðir eða gerir lítið úr hinu) er um ofbeldi að ræða og þú þarft að skipta þér af því.

Ef þú getur ekki stöðvað hegðunina verður þú að leita aðstoðar, t.d. hjá heilbrigðisstarfsmanni eða sálfræðingi.

Heimild: Daily Mail 

Pin It on Pinterest