Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Framkoma foreldra við vini barnanna skiptir miklu máli

Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég góða vinkonu. Við kynntumst þegar við vorum sex ára og við vorum saman í skóla. Vinkona mín átti mömmu sem var alveg ótrúlega góð við mig. Ég man svo vel eftir því hvernig mér leið heima hjá þeim og í kringum þau. Ég var alltaf svo velkomin og ég fann það. Ég í alvöru fann það.

Alma Rut lítil

Einu sinni þegar ég átti níu ára afmæli tóku vinkona mín og mamma hennar sig saman og komu mér á óvart með afmælisgjöf. Gjöfin var samverustund með þeim, dagur þar sem ég og þær vorum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Dagur sem fór í að njóta, verja tíma saman, gleðjast og hafa gaman. Afmælisgjöfin var ekki dót, ekki föt, ekki hlutur heldur tími, minningar, samvera, leikur og gleði.

Mamma vinkonu minnar var perla, algjör perla. Hún átti það til að sitja heilu stundirnar og horfa á okkur sýna leikrit eða tískusýningu. Það var mikið umstang í kringum þessar sýningar og föt út um allt, en mamma vinkonu minnar var með fókusinn á okkur, gleðinni sem fylgdi því sem við vorum að gera og í hennar augum skiptu fötin sem lágu á gólfinu eftir okkur ekki máli heldur við. Tvær litlar stelpur að hlæja, brosa og leika sér.

Alma Rut

Mamma vinkonu minnar var mjög dugleg að taka mig með út um allt og ekki var ég fyrirferðarlítil! Ég fór stundum með þeim í ferðalög. Ég man að í eitt skipti þegar við vorum í ferðalagi ákváðu þau að taka ljósmynd í fallegri fjöru með svörtum sandi. Ljósmynd sem þau ætluðu svo að stækka í ramma. Þegar í fjöruna var komið þá fundu þau stað og vinkona mín stillti sér upp fyrir myndatöku. En þegar hún var búin þá var komið að mér. Þannig var þetta alltaf, ég var alltaf með, ég var alltaf líka. Seinna fengum við vinkonurnar stækkaða mynd af okkur í sitthvoru lagi, brosandi sælar í svörtum sandi.

Alma Rut

Mér þykir svo mikið vænt um hvernig þau voru við mig, hvernig þau létu mér líða og hvernig þau tóku mér. Mér þykir lika svo vænt um hvað þau gáfu mér mikið af skemmtun, gleði og hamingju inn í lífið og fullt af dásamlegum minningum.

Vinir barnanna okkar skipta okkur máli, og skipta börnin okkar máli. Það hvernig við tökum á móti þeim og hvernig við erum þegar þeir eru inni á okkar heimili skiptir lika máli. Ég held í alvöru að ein af ástæðunum, og bókað ein stærsta ástæðan fyrir því að ég hef alltaf verið mjög dugleg að bjóða vinum minna barna heim til okkar og með okkur sé út af mömmu vinkonu minnar, því ég man hvað það skipti mig miklu máli. 

Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um samveru með börnunum okkar og hvað er sniðugt að gera. 

Smelltu á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á Instagram og Facebooksíður Ölmu! 

Stórsniðugt: Sandur úr Cheerios!

Stórsniðugt: Sandur úr Cheerios!

Stórsniðugt: Sandur úr Cheerios!

Alma Rut heldur úti síðunum Leikum okkur á Instagram og Facebook. Alma Rut ákvað að prófa að búa til sand fyrir dóttur sína eftir að hún sá hugmyndina á Pinterest, sand úr Cheerios.

Alma varð nefnilega vör við að dóttir hennar var mikið að setja sand og steina upp í sig. Henni fannst þetta stórsniðug hugmynd og ákvað að prufa að búa til sand úr Seríósi, eins og við köllum það á íslensku! Þú tekur bara morgunkornið og setur það í matvinnsluvél og hellir í ílát! Gaman að leika og má borða. Gæti það verið betra?

Svo er líka hægt að hafa Seríósið bara heilt og búa til dýragarð eða frumskóg!

Smellið á hnappana hér að neðan til að fara inn á síður Leikum okkur hjá Ölmu Rut. Margar frábærar hugmyndir fyrir foreldra og börn!

 

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég ekki gsm síma, ég var ekki með internet og notkun á heimasímanum var takmörkuð þar sem að dýrt var að hringja og þá sérstaklega út á land.
 
Þegar ég var lítil mættu vinir mínir heim til mín til þess að spyrja eftir mér og ég heim til þeirra. Stundum þá töluðumst krakkarnir saman í skólanum og ákváðu tíma og stað til að hittast á um kvöldið. Það voru lang flestir úti, alltaf og hvernig sem veðrið var. Við bara klæddum okkur vel.
 
Þegar ég var lítil safnaði ég öllu sem ég gat safnað held ég. Límmiðum, lukkutröllum, steinum, og sérvéttum. Ég talaði við alla og kynntist fólki út um allt. Sumar konurnar í hverfinu tóku fyrir mig sérvéttur þegar þær fóru í veislu og geymdu í kassa sem ég svo sótti til þeirra.
 
Þegar ég var lítil sótti ég mat handa kettinum í fiskibúðina því ég hafði nokkru áður gefið mig á tal við starfsmann þar sem síðan safnaði afgöngum fyrir mig. Svo mætti ég nokkrum sinnum í viku eða daglega og sótti allskonar hausa og fleira af fiskum handa kisunni okkar henni Lúsí.
 
Alma Rut á góðri stundu með Axel, syni sínum

 
Þegar ég var lítil tók ég strætó niður á bryggju með systur minni og bauð fram vinnuafl, mig og Thelmu systir og í laun vildum við fá hamborgaratilboð.
Við gengum á milli báta og fengum að lokum vinnu. Við verkuðum heilan dag, vorum allar í slori og enduðum daginn stoltar og sælar, angandi af fiski fýlu fyrir framan afraksturinn, launin okkar sem voru hamborgari, franskar og kók.
 
Þegar ég var lítil þá gladdi ég mömmu með blómum, steinum, bréfum og ljóðum. Ég bjó til kaffi handa henni og kom henni á óvart með því að taka til áður en hún kom heim. Hún tók sér tíma í að þakka mér fyrir og ég vissi og fann í hjartanu mínu að hún meinti það.
Þegar ég var lítil þá leiddi ég blindan mann sem bjó á neðstu hæðinni hjá ömmu fram og til baka upp götuna.
 
Éģ var þarna fjögurra ára gömul, gekk niður tröppurnar og „sótti” hann, bað hann um að koma því nu værum við sko að fara út að labba. Mín tilfinning var greinilega sú að ég gæti hjálpað honum þar sem að hann sá ekki. Og saman gengum við fram og til baka.
Þegar ég var lítil þá sat ég heilu tímana og gramsaði í geymslunni, ég heimsótti gamlar konur og ég bauð þeim aðstoð. Ég bjó til allskonar úr öllu og lék mér með fullt sem var ekki dót.
 
Þegar ég var lítil þá fékk ég mikið frelsi til að vera barn og það frelsi var mér ómetanlegt. Ég sullaði í drullupollum, lék mér í fötunum hennar ömmu, gerði rennibraut úr borðstofuborðinu og ég lék mér á ruslahaugum. Ég fékk að baka uppskrift sem ég bjó til sjálf úr öllu sem varð að engu. Og það mikilvægasta var að ég fékk að njóta mín, ég fékk frelsi til að prófa mig áfram og mér var treyst, ég fékk að leika mér og vera barn.
 
Barnæskan er svo ofboðslega dýrmæt og það er svo mikilvægt að njóta hennar. Það er auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og að segja nei, mátt þetta ekki, þú verður skítug/skítugur, hef ekki tíma núna eða seinna. Stundum er bara svo ótrúlega gott að staldra við og leyfa, segja já þrífa bara skítug föt og njóta. Gleðin, vellíðan, hamingja, kærleikur, ást, leikur, samvera og hlátur er svo dýrmætt fyrir börnin okkar og okkur öll.
 

Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um dýrmætustu samveruna – samveruna með börnum okkur og hugmyndir að því sem hægt er að gera saman. Alma er bæði á Facebook og Instagram 

Smellið á samfélagsmiðlahnappana hér að neðan til að fara inn á síðurnar hennar!

Pin It on Pinterest