Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Sólveig María Svavarsdóttir er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands. Ásamt því að sinna móðurhlutverkinu að mikilli natni heldur hún úti skemmtilegum reikningi á Instagram sem heitir Útivera og börnin.

Við heyrðum í Sólveigu og spurðum hana hvaða áherslur hún væri með á síðunni sinni þegar kemur að útisamveru með börnum: „Á síðunni legg ég áherslu á útiveru, hægan lífstíl og núvitund. Útivera er stór hluti í uppeldi barna minna og sýni ég á síðunni meðal annars frá útiverum okkar og gef öðrum hugmyndir að útiveru. Útiveran þarf ekki að vera flókin en getur gefið bæði foreldrum og börnum mikið. Ég legg áherslu á að minna fólk á að staldra við og gefa augnablikinu sérstakan gaum. Mér finnst mikilvægt að gefa börnum frelsi og rými til að upplifa og kanna. Útbúa börnin vel og leyfa þeim svo að vaða út í næsta poll eða drullumalla að vild. Eins er mikilvægt fyrir okkur fullorðna fólkið að muna að staldra við, vera í meðvitund og jafnvel prófa að upplifa með börnunum! Börn eru svo miklir núvitundarkennarar,” segir Sólveig. 

Hér eru nokkrar hugmyndir sem Sólveig gaf okkur hjá Mömmunni að útiveru út frá þessari árstíð. 

Það eru kannski ekki allir sem eru til í að leyfa börnunum sínum að leika í pollum, en af hverju ekki „gó wild” eins og einu sinni! Það að fara með börnin út í gönguferð og leyfa þeim að leika sér í pollum, vötnum, ám getur verið stórkostleg upplifun fyrir þau og geggjuð núvitund. Þá skiptir máli að klæða sig rétt og vel eftir veðri. 

Að setja upp góðar aðstæður fyrir leik úti getur skipt miklu máli. Börn geta leikið sér tímunum saman með vatn, sand og mold. Það er mjög sniðugt að fara á nytjamarkaði og kaupa gamalt eldhússdót í leik. Þá er hægt að baka drullukökur, búa til súpur, kaffi og allt sem hugurinn girnist. 

Að fara í skógarferð er dásamleg upplifun. Að eyða hálftíma í grænu umhverfi getur gert mikið fyrir andlega líðan og líkamlega líðan. Það er sannað að grænt umhverfi getur haft mikil áhrif á streitu og róað taugakerfið. Það er upplagt að leyfa börnunum að klifra í trjám, æfa jafnvægið á mismunandi undirlagi eða taka með sér greinar og köngla heim í föndur. 

Að borða úti er enn betra en borða inni. Að baka og taka kaffitímann úti getur verið svo hressandi. Gönguferð með nesti á leikvöll er einföld hugmynd en getur gefið svo mikið! 

Nú er upplagður tími til að setja niður fræ með börnunum. Það getur gefið þeim svo mikið að rækta sitt eigið grænmeti ásamt því að það eykur umhverfisvitund þeirra. Það þarf ekki að vera flókið – til dæmis ein tómataplanta út í glugga, gulrætur í garði eða salat á svölum.

Sólveig er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands.

Mamman mælir með að kíkja á heimasíðu Hæglætishreyfingu Íslands www.hæglæti.is og hér fyrir neðan er hægt að klikka á samfélagsmiðla hnappa Útivera & börnin á Instagram og Hæglætishreyfingu Íslands á Facebook.

 

Pin It on Pinterest