Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Fyrir meira en tveimur áratugum síðan var algengast að konur ólu upp börnin ásamt því að sinna öllum heimilisstörfum. Kynjahlutverk foreldra breyttust lítið, hvort sem mæður unnu utan heimilis eður ei. Í dag er þetta afar lítið breytt. Mömmur ala enn upp börnin. Mömmur sinna oftast eldamennskunni, þrifum, þvotti og svo framvegis. Á síðastliðnum árum hafa mæður farið að upplifa kulnun, þó þær eigi maka, þær eyða meirihluta tíma síns í að sinna börnum, heimilum og mökum, á meðan þær reyna að sinna öllu hinu líka.

Því miður er það svo að karlmenn sinna minnihluta þessara athafna og sannleikurinn er sá að við höfum ekki gert nægilega mikinn skurk í að breyta því að húsverkin séu kvennanna að sinna.

Þegar Covid-19 faraldurinn fór að herja á heiminn í fyrra fór álagið á mæður hins vestræna heims aukandi. Fjölskyldur fundu fyrir auknum húsverkum þar sem flestir í fjölskyldunni eyddu heilu dögunum heima. Það þurfti að kaupa meira inn, gæta þurfti að sóttvörnum, meira þurfti að elda heima og fleiri diskar fóru í uppþvottavélina. Herbergi urðu skítugri og börnin þurftu meiri hjálp við heimavinnuna. Fólk í vinnu þurfti að sinna fjarfundum. Og mömmur þurftu að skipuleggja þetta allt saman og meira til.

Eftir ár af þessu kapphlaupi eru mæður alveg búnar á því. Og við erum bara að tala um þessa vinnu sem maður sér.

Tilfinningaleg vinna

Við vitum af þessum praktísku hlutum, að halda heimilinu gangandi er ekkert grín. En það er önnur vinna sem tekur jafn mikið á, ef ekki enn meira. Tilfinningaleg vinna, ef við getum kallað hana svo, er að taka að sér allt tilfinningatengt sem tengist fjölskyldulífinu. Barnið er ósátt við að missa af leik, danssýningu, æfingu eða útskrift og mömmur þurfa að útskýra, hugga og vera til staðar. Mömmur eru í sambandi við þá sem eru einmana, syrgjandi, óttaslegnir og svo framvegis. Makar þurfa líka „umönnun“ – atvinnumissir, reiði, kvíði eða annað.

Mæður lenda því miður oft í því að stilla af tilfinningarnar á heimilinu – einhver á í erfiðleikum, einhverjir rífast, einhver er að missa þolinmæðina, einhver þarf einveru, einhver þarf á meðferð að halda. Þetta er eitthvað sem verður að taka með í reikninginn.

Að halda heimilinu saman tilfinningalega er meira en að segja það. Það tekur á og mæður bera oftast þungann.

Breyting á feðrahlutverkinu

Feður eru meiri þátttakendur í lífum barna sinna en oft áður. Þeir eru til staðar, mæta á leiki, styðja börnin, mæta í foreldraviðtöl og eru almennt mun „aktífari“ en feður hér á áratugum áður.

Þeir hafa samt, oftar en ekki, skilning á því hlutverki sem mamman sinnir. Oft eru áhyggjur kvennanna taldar minna mikilvægar eða óþarfar.

Það er ekki það sama að maðurinn vinni kannski heima og konan sé að sjá um allt uppeldið og heimilið, og sé jafnvel líka að afla tekna annars staðar. Mæður bera ábyrgð á of mörgu.

Feður geta gert mikið til að dreifa álaginu, og til þess þarf að spyrja mæðurnar. Það þarf að deila þessari ábyrgð, hún er allt of oft talin „sjálfsögð“ af mæðrum.

Það er mjög sniðugt að gera einhverskonar áætlun, hvað þarf að gera á hverjum degi, vikulega, mánaðarlega. Finnið jafnvægi sem virkar fyrir ykkur bæði, ekki bara vegna faraldursins, heldur í framtíðinni líka. Þetta er mikilvægt.

Það er kominn tími til að karlmenn auki við tilfinningagreindina, þannig þeir geti líka tekið á sig þessa tilfinningavinnu sem á sér stað á heimilinu. Til að kenna þeim það þurfa þeir að geta talað og borið kennsl á tilfinningar sínar. Allir þurfa að hlusta betur, með víðsýnni huga.

Við þurfum líka að bera kennsl á tilfinningalegt álag sem við kunnum að leggja á börn og maka.

Konur og kulnun

Allt of oft gleyma konur að sinna sér sjálfum þegar mikið er um að vera á heimilinu. Vinnan endar aldrei, hvorki heimilisverkin né tilfinningavinnan. Konur þurfa að vera skýrar – hvað þær þurfa og þær þurfa að fá tíma fyrir sig á hverjum degi, hvernig sem því er háttað. Þær þurfa að leyfa börnunum að fara og vera með föður sínum eða öðrum fjölskyldumeðlimum á meðan þær hlaða batteríin. Þær ættu að setja tíma daglega til að næra andann, hugann og líkamann. Það þarf að setja það í forgang, því það er eins og með súrefnisgrímuna, fyrst á þig, svo á barnið.

Það þarf kannski einhvern aðlögunartíma, en mæður ættu ekki að gefa neinn afslátt af þessum tíma fyrir sig á degi hverjum. Hinir verða að aðlagast þeim.

Mæður eru alltaf hjartað í fjölskyldunni og ólíklegt er að það breytist á næstunni. Þessvegna er það enn mikilvægara að þær fái tíma til að rækta sig sjálfar til að þær geti hreinlega verið til staðar í öll þessi ár til viðbótar.

Heimild: CNN/John Duffy

 

Pin It on Pinterest