HypnoBirthing – hugleiðsla í fæðingu
HypnoBirthing, The Mongan Method er aðferð notuð við fæðingar, þróuð af dáleiðslusérfræðingnum Marie F. Mongan. Í þessari aðferð er áhersla lögð á að meðganga og fæðing séu náttúruleg ferli sem líkami kvenna er skapaður til að fara í gegnum, ekki síður en aðra líkamsstarfsemi ef konan og barnið eru heilbrigð og meðgangan eðlileg. Þetta ferli hefur hins vegar í gegnum tíðana verið sjúkrahúsvætt og ákveðinn ótti skapaður meðal fólks um að fæðing sé hættuleg og þurfi að fara fram undir læknisumsjá.
Ég kynntist HypnoBirthing í gegnum Auði Bjarnadóttur jógakennara í meðgöngujóga þegar ég gekk með dóttur mína. Ég keypti mér bókina, HypnoBirthing, The Mongan Method, las hana og grúskaði heilmikið á internetinu. Það má segja að þetta hafi gjörbreytt allri minni upplifun á meðgöngunni. Ég man augnablikið þegar að ég fann nánast líkamlega, hvernig óttinn rann af mér. Óttinn sem ég vissi varla að væri til staðar en varð svo áþreifanlegur um leið og ég fann hann fara. Það skrýtna er að þetta gerðist þegar ég uppgötvaði að ég þyrfti bara alls ekki að fá mænudeyfingu eða aðra verkjastillandi meðferð. Þessu er eflaust öfugt farið með mjög margar konur en greinilega er þetta eitthvað sem mér er illa við, jafnvel bara ómeðvitað.
“HypnoBirthing byggir að miklu leyti á hugleiðslu, slökunaraðferðum, öndunaræfingum, jákvæðum hugsunum og líkamlegum undirbúningi.”
Mikilvægt er að konan fari inn í fæðinguna á eigin forsendum og finni sinn eigin styrk og getu til að fæða barnið. Talið er að ótti hafi neikvæð áhrif á upplifun á sársauka auk þess sem hann veldur spennu í vöðvum sem getur unnið á móti líkamanum í fæðingarferlinu. Ef konan er óhrædd og treystir líkama sínum á hún auðveldara með að slaka á og sársaukinn verður minni og þar af leiðandi dregur úr líkum á því að þörf sé á mænudeyfingu eða öðrum inngripum. Einnig er mikilvægt að skapa frið og ró í kringum fæðinguna, ljós dempuð og að utanaðkomandi aðilar séu í algjöru aukahlutverki, einungis til að rétta hjálparhönd en fjölskyldan og tengsl milli fjölskyldumeðlima eru í forgrunni.
Í bókinni HypnoBirthing, The Mongan Method, er mikil áhersla lögð á undirbúning fæðingarinnar og að foreldrar hafi hugað að og tekið ákvarðanir varðandi fæðinguna fyrirfram. Þetta eru stór og smá atriði eins og hvar fæðingin fer fram, hverjir verði viðstaddir, hvort verkjastillandi lyf verði notuð, hvort notast eigi við tónlist o.s.frv. Þarna skiptir fæðingarfélagi miklu máli en hann spilar mikilvægt hlutverk í bókinni. Með fæðingarfélaga er átt við hitt foreldri barnsins eða einhvern annan nákominn móðurinni sem er viðstaddur fæðinguna. Fæðingarfélaginn er mjög mikilvægur í fæðingunni, veitir móðurinni stuðning og hvatningu auk þess að vera milliliður og talsmaður hennar gagnvart ljósmóður eða öðrum umönnunaraðila. Þar sem konan getur verið berskjölduð í fæðingunni og er í djúpri slökun sem ekki má trufla þá er það fæðingarfélaginn sem sér um þessi samskipti til að fæðingin verði sem næst því sem þegar hefur verið ákveðið. Mikilvægt er þó, og talað um það í bókinni, að í eðli sínu sé fæðing náttúrulegt ferli þar sem allt getur gerst og því er sveigjanleiki og það að taka því sem að höndum ber alltaf nauðsynlegt.
Margar konur hafa nýtt sér HypnoBirthing tæknina á Íslandi en boðið er upp á námskeið í aðdraganda fæðingar fyrir verðandi foreldra. Taka skal fram að það hvernig kona ákveður að fæða barnið sitt er einstakt og persónulegt fyrir hverja og eina og mismunandi hvað hentar hverri konu hverju sinni. Það er ekkert betra eða verra að fæða með eða án verkjastillingar eða heima eða á sjúkrahúsi. Ég gerði mitt besta til að notast við aðferðina í fæðingu dóttur minnar og er viss um að það hafi nýst mér mjög vel, sérstaklega með öndun og að halda ró en einnig styrkti hún sjálfstraustið, það er að allt væri eins og það ætti að vera og ég gæti þetta vel, þó að ég hafi kannski misst trúna stöku sinnum. Ég veit að ég mun rifja upp kynni mín af HypnoBirthing þegar næsta barn kemur í heiminn. Í það minnsta er HypnoBirthing aðferðin falleg og áhugaverð fæðingaraðferð sem vert er fyrir verðandi foreldra að kynna sér.
Heimildir:
Mongan, Marie F. 1992. Hypnobirthing; The Mongan Method: a natural approach to safe, easier, more comfortable birthing. 3. útg. Health Communications, Inc.
Click to access Ljosmbl_2013_91_2.pdf
http://www.hypnobirthing.com/
Höfundur
María Þórólsdóttir