Þegar fólk gefur þér uppeldisráð…óumbeðið

Þegar fólk gefur þér uppeldisráð…óumbeðið

Þegar fólk gefur þér uppeldisráð…óumbeðið

Flestir kannast við að eignast nýtt barn og allt í einu eru allir að segja þér hvernig þú átt að ala það upp og gera hlutina. Hér eru nokkur ráð hvernig höndla megi aðstæður.

Allir virðast vita hvernig á að ala upp barnið þitt, fólk sem hefur átt börn áður og meira að segja þeir sem engin börn eiga. Það virðist sem einhver viti alltaf betur hvernig ala eigi upp barnið þitt heldur en þú.

Og hvort sem manneskjan sem gefur ráðið meinar vel og vill hjálpa eða er bara að gagnrýna þig er erfitt að vita hvernig bregðast eigi við.

Að eiga við gagnrýni

Þegar einhver er bara að gagnrýna uppeldisaðferðir þínar getur það farið illa í mann. Og stundum, því miður, veit fullorðið fólk ekki sín mörk þegar kemur að annarra manna börnum.

Algengt er að fólk gagnrýni foreldra vegna eftirfarandi:

Fjölskyldunafna –„Skírðir þú barnið ekki eftir ömmunni? Ég hélt að það væri hefð í fjölskyldunni?“

Að sofa uppí – „Það er hættulegt að láta börnin sofa í þínu rúmi og þú ættir ekki að gera það.“

Taubleyjur valda útbrotum – „Hún er að fá útbrot því hún situr í tauinu og ekkert sýgur upp pissið.“

Brjóstagjöf – „Ertu að gefa honum aftur? Var hann ekki að drekka fyrir klukkutíma?“

 

Þegar við verðum foreldrar fáum við alveg okkar skerf af þessum ráðum, stundum upp að því marki að okkur langar að garga: „Hættu að segja mér hvernig ég á að ala barnið mitt upp!“

Það er samt ekki sniðug samskiptaleið og getur hreinlega eyðilagt sambönd okkar við annað fólk. Það þarf að taka ráðunum (óumbeðnu) án þess að láta það særa sig eða æsa sig. Hér eru nokkrar góðar leiðir:

 

Vertu róleg

Í fyrsta lagi, ef þú ert nýbúin að eiga barn, ertu líklega í tilfinningarússíbana vegna hormónabreytinganna sem líkaminn er að fara í gegnum. Af þessum ástæðum er mjög mikilvægt að þú sért róleg og yfirveguð, sérstaklega þegar barnið er nálægt. Barnið skynjar strax að þú sért í uppnámi og getur sjálft komist í uppnám og farið að gráta.

Hlustaðu og greindu hvað skiptir máli

Það er alltaf mikilvægt að hlusta á þessi ráð því þau geta í alvöru verið hjálpleg. Þegar einhver er að reyna að hjálpa, vertu viss um að vega og meta ráðið og hvort það gæti gagnast ykkur. Ef ráðið er bara einhver vitleysa, reyndu að láta það sem vind um eyrun þjóta.

Hver gefur ráðið?

Vertu viss að íhuga hver er að ráðleggja þér. Er það mamma þín sem er raunverulega annt um þig og vill hjálpa eða einhver ókunnugur sem þekkir þig jafnvel ekki eða barnið þitt? Því miður er sumt fólk sem ræður ekki við sig og finnst nauðsynlegt að gagnrýna foreldra og þeirra ákvarðanir því þær eru ekki nákvæmlega eins og það hefði gert hlutina. Staldraðu við og íhugaðu hvort ráðið komi frá góðum stað eða ekki.

Veldu barátturnar

Eitt af því stærsta sem allir foreldrar þurfa að læra með börn er að velja barátturnar vel. Sama á við um uppeldisráð.

Stundum dekra afi og amma börnin og kannski ertu ekki sammála því sem börnin komast upp með hjá þeim. Til dæmis: „Amma leyfir okkur alltaf að fá köku í búðinni“ og þá er fínt að svara „Ég er ekki amma þín og hlutirnir eru öðruvísi heima hjá okkur.“ Það eru sumir hlutir sem er ekki þess virði að rífast yfir, sérstaklega þegar það er ekki að skaða barnið þitt.

Lestu þér til

Ef þú veist ekki í raun hvað er besta ákvörðunin varðandi eitthvað er fínt að uppfræða sig. og þegar þú hefur fundið svarið og hefur eitthvað haldbært er ágætt að deila því með öðrum. Til dæmis að það sé í lagi að nota taubleyjur og stundum jafnvel betra en plastbleyjur vegna hitans og efnanna sem þrýstast upp að barninu.

Eða að börn á brjósti melta mjólkina á undaverðan hraða því hún er fullkomlega hönnuð fyrir líkama þeirra. Og af þeim ástæðum þurfa þau að borða oftar en barn sem drekkur þurrmjólk.

Og þú getur útskýrt að það sé fullkomlega skaðlaust að láta barnið sofa uppí ef þú gerir ráðstafanir áður.

Treystu innsæinu

Mömmur er „forritaðar“ á ákveðinn hátt þegar kemur að börnunum þeirra. Hvort sem það er að vita nákvæmlega hvað barnið þarfnast þegar það grætur, eða vita alveg hvað þarf að gera til að láta því líða betur, eru mömmurnar alveg í takt við börnin sín. Þannig ef þú ert ekki viss um ráðið sem þú færð, treystu mömmuinnsæinu.

Allar fjölskyldur eru misjafnar

Sumir afar og ömmur telja að nýjir foreldrar eigi að gera nákvæmlega eins og þau þegar þau ólu upp börn. Það er bara rugl. Þó eitthvað hafi virkað fyrir þessa fjölskyldu þýðir það ekki að það virki fyrir þína. Aðstæður eru öðruvísi, uppeldisaðferðir virka ekki eins á alla. Það er engin ein fullkomin leið. Allir eru bara alltaf að gera sitt besta.

Spyrðu barnalækninn þinn

Þegar ráð kemur sem tengist heilsu barnsins er alltaf hægt að spyrja lækninn. Þannig veistu nákvæmlega hvað er rétt.

Tímarnir breytast

Eitt sem hafa ber í huga er að tímarnir breytast síðan foreldrar okkar ólu okkur upp. Til dæmis þegar við vorum lítil var mælt með að barnið svæfi á maganum til að koma í veg fyrir að barnið svelgdist á. Í dag er bara mælt með að barnið sofi á bakinu til að það kafni ekki.

Með nýrri tækni og rannsóknum er alltaf verið að komast að því hvað sé börnum fyrir bestu og það er bara fínt að geta útskýrt það fyrir fólki.

Vertu hreinskilin/n

Ein af bestu leiðinum til að hjálpa þeim einstakling sem er að gefa þér óumbeðin ráð er að koma hreint fram. Reyndu að setjast niður með honum eða henni og útskýrðu hvernig þér líður þegar verið er að skipta sér af og segja þér hvernig ala eigi upp barnið, þannig fáir þú ekki tækifæri að læra það sjálf/ur.

Í mjög mörgum tilfellum áttar fólk sig ekki á að það hefur gengið of langt. Að vera hreinskilin/n heldur samskiptunum uppi á borðinu, setur mörk og styrkir sambandið.

Settu mörk

Þegar þú hefur sagt manneskjunni þetta reyndu að setja mörk svo hún viti hvaða línu hún getur ekki farið yfir. Þetta er frábært fyrir ömmur og afa til að bakka þegar þú ert að læra að ala upp barnið þitt.

Stattu með þér

Þegar þú hefur sett mörk, verið hreinskilin/n og allt ætti að vera á hreinu og einhver heldur áfram að reyna að segja þér hvað þú eigir að gera, stattu fast á þínu. Gerðu fólki ljóst að þú ert foreldrið, ekki þessi aðili. Og þar sem þú ert foreldrið tekur þú ákvarðanir fyrir barnið þitt.

Klappaðu þér á bakið

Það er erfitt að vera foreldri. Auðvitað hefur enginn haldið því fram að það sé auðvelt, en það er vissulega erfiðara að átta sig á hvernig ala eigi upp barn þegar maður er stöðugt gagnrýndur og fær misvísandi ráð úr öllum áttum.

Mundu bara að þú ert að gera eins vel og þú getur og klappaðu þér á bakið fyrir það.

 

Heimild: Veryanxiousmommy.com

 

Pin It on Pinterest