Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Halldóra Skúladóttir er sannarlega kjarnakona, enda hefur hún hjálpað fjölmörgum í gegnum tíðina. Breytingaskeið kvenna er henni hugleikið þessa dagana, enda er hún sjálf á breytingaskeiðinu og finnst mikilvægt að breyta hugsunargangi allra og útrýma fordómum gagnvart því, enda um eðlilegt skeið að ræða sem helmingur mannkyns gengur í gegnum!

Halldóra býr í dag með manninum sínum í Þýskalandi, á fjórar dætur og eitt barnabarn. Dæturnar búa þrjár á Bretlandi og ein á Íslandi, „þannig við erum svolítið út um allt,” segir hún.

Í dag er Halldóra í sóttkví uppi í bústað og féllst á að svara nokkrum spurningum mömmunnar um þetta spennandi og dálítið…dularfulla skeið, breytingaskeiðið.

Halldóra segir varðandi sig sjálfa, menntun hennar og nám að hún hafi fyrst hjálpað fólki að bæta lífsstílinn sinn í meira en tvo áratugi: „Fyrst var það mest tengt næringu og hreyfingu en fljótlega fór ég að sjá að ef að hugarfarið var ekki á réttum stað var lífsstíllinn voðalega fljótur að fara aftur í sama gamla farið. Þannig að ég fór að einbeita mér meira að því að hjálpa fólki að breyta hugarfarinu sínu gagnvart lífsstílsbreytingum.

Ég lærði markþjálfun hér heima, en eftir að ég flutti til Bretlands bætti ég við mig diplomu í NLP og núna nýlega kláraði ég diplomu í Lausnamiðaðri dáleiðslu- og sálmeðferð.

Ég starfa í gegnum netið, og þessa dagana er ég mest að einbeita mér að því að hjálpa konum, hef eitthvað einstaklega mikið passion fyrir því. Líklega af því að ég veit af eigin raun hvað við getum verið duglegar í að flækja hlutina í hausnum á okkur…þannig að ég er að hjálpa konum að greiða úr hugarflækjunni.”

Hypno-birthing og breytingaskeiðið

„Ég er í reglulegri endurmenntun í tengslum við dáleiðsluna og núna nýverið lauk ég námi í Hypno-birthing practitioner level1 – en það er mjög vinsælt í Bretlandi að nýta sér það í fæðingarferlinu. Þar kenni ég pörum ýmsar aðferðir sem þau geta notað til að skapa hugarró bæði hjá verðandi móður sem og fæðingarfélaganum, rétt öndun á mismunandi stigum fæðingarinnar og hvernig þau geta verið við stjórnina innra með sér sama hvað gerist í fæðingunni, því stundum fer hún ekki alveg eins og við óskum, en þá er mikilvægt að halda ró. Í tengslum við þetta vinn ég líka með pörum sem hafa farið í gegnum erfiða fæðingu og vilja hjálp við að vinna úr þeirri reynslu.

 Annað endurmenntunarnám sem ég fór líka nýverið í gegnum er hvernig er hægt að hjálpa konum á breytingaskeiðinu að vinna sig í gegnum það tímabil, sem getur reynst mörgum mjög erfitt.

En mjög margar konur fara í gegnum miklar breytingar með tilheyrandi einkennum á þessu tímabili. Einkenni sem tengjast öllum kerfum líkamans, frá toppi til táar, s.s. svefnleysi, hitakóf, kvíða, þunglyndi og pirring, aukna verki í vöðum og liðum, þreyta, meltingarvandamál og svo ótal margt fleira.

Rannsóknir hafa sýnt að dáleiðsla getur hjálpað konum mikið við ráða við einkenni breytingaskeiðsins, sérstaklega hita- og svitakóf.

Í meðferðunum hjá mér blanda ég saman dáleiðslu, sálmeðferð, NLP (NLP er ákveðin tækni til að hjálpa fólki að breyta/endurforrita hugsana- og hegðunarmynstrið sitt, n.k. hugræn atferlismeðferð) og markþjálfun.”

Halldóra Skúladóttir

 

Halldóra gerði óformlega könnun á Instagramsíðu sinni varðandi breytingaskeiðið og niðurstöðurnar komu henni á óvart

Halldóra segir breytingaskeiðið vera sér mjög ofarlega í huga þessa dagana: „Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég komst að því síðasta haust að ég væri greinilega komin á þetta „alræmda” skeið! Ég vissi ekkert um þetta – eina hugmyndin sem ég hafði um breytingaskeiðið er að maður ætti að vera að kafna úr hita og svita daginn út og inn, og þar sem ég var ekki að glíma við það datt mér ekki í hug að ég væri komin þangað.

Mér var hins vegar búið að líða mjög illa andlega í nokkurn tíma, tengdi það fyrst við flutningana mína til Þýskalands, en samt ekki því ég var svo engan veginn ég sjálf, var með stöðugan kvíða yfir öllu og engu, mjög döpur og búin að týna gleðinni minni, gat svo bara farið að gráta allt í einu yfir öllu og næstu mínútu var ég síðan bara brjálæðislega pirruð.

Ég hreinlega þekkti sjálfa mig ekki!

Það var síðan bara fyrir tilviljun að ég datt inn á fyrirlestur um heila kvenna að það rann upp fyrir mér að ég væri komin á breytingaskeiðið! Það var ótrúlega mikill léttir að vita að það voru eðlilegar líffræðilegar ástæður fyrir þessari líðan minni.

Þarna fór ég að grúska og komst að svo ótrúlega mörgu sem ég vissi ekki um breytingaskeiðið! Og það sem mér fannst ótrúlegast er að konur eru helmingur mannkynsins og við förum ALLAR í gegnum þetta tímabil – hvort sem okkur líkar betur eða verr – og það veit bara enginn neitt um þetta! Það er engin fræðsla um þetta, það er helst ekki talað um þetta í samfélaginu, það liggur einhver skömm yfir þessu tímabili, konur eru bara að þjást í hljóði af ótta við að það sé gert grín að þeim og að þær séu dæmdar ónýtar og úr leik.

Og það versta er að mjög margir læknar, bæði heimilis- og kvensjúkdómalæknar eru illa upplýstir um þetta skeið í lífi allra kvenna. Þannig að þær konur sem leita sér hjálpar eru oft van- og ranggreindar og vanmeðhöndlaðar. Það er mjög algengt að konur séu t.d. settar á kvíða- og þunglyndislyf á þessum tíma í stað þess að hormónaskorturinn í líkamanum sé meðhöndlaður. Og af því að kvíðinn og þunglyndið er vegna skorts á estrógenni, virka kvíða- og þunglyndislyf oft takmarkað og þær halda áfram að þjást og líða illa, og vita ekkert hvert þær eiga að leita.

Breytingaskeiðið er samt miklu alvarlegra en bara „óþægindi” vegna hitakófa, svefntruflana og pirrings. Konur á breytingaskeiðinu eru mun útsettari fyrir alvarlegri sjúkdómum s.s. beinþynningu, hjartasjúkdómum og Alzheimers – en fyrir hverja þrjá sem greinast með Alzheimers eru tvær konur!

Alzheimer byrjar með neikvæðum breytingum í heilanum mörgum árum ef ekki áratugum áður en klínísk einkenni koma fram, sérstaklega hjá konum.

Læknar og hormónameðferðir

Ég komst líka að því hormónameðferð, sem var búið að fordæma í mörg ár, var ekki eins hættuleg og búið er að halda fram og margir halda ennþá. Ég las rannsóknir og hlustaði á viðtöl við lækna og sérfræðinga eins og Dr. Louise Newson sem er breskur heimilislæknir og sérfræðingur í breytingaskeiði kvenna, og er að umbylta umræðu, greiningu og meðhöndlun kvenna í Bretlandi ásamt því að endurmennta lækna og heilbrigðisstarfsfólk í þessum efnum. Ég las og hlustaði á Dr. Lisa Mosconi sem er með Phd í Neuroscience og Nuclear medicine og rannsakar heila kvenna.

Í kringum aldamótin 2000 var gerð risastór rannsókn á hormónameðferð kvenna á breytingaskeiðinu sem var ekki rétt staðið að og hætt við eftir bara fimm ár, en það voru eingöngu neikvæðar tilgátur úr þessari gölluðu og hálfkláruðu rannsókn sem fóru á flug í fjölmiðlum og nánast á einni nóttu hættu konur að nota hormóna, allir urðu hræddir við aukaverkanirnar, bæði konur og læknar og síðan þá hafa hormónar verið nánast titlaðir sem „verkfæri djöfulsins” og enginn hefur þorað að snerta á þeim. Og í kjölfarið stoppaði bara rannsóknarvinna og þróun í þessum málum og búið að vera erfitt að ná upp þekkingu hvað varðar hormónameðferð, þangað til núna nýlega. Nú eru komnar miklu betri klínískar rannsóknir en því miður eru þær niðurstöður ekki að rata til lækna eða kvenna, margir læknar eru enn hræddir við að ávísa hormónum til kvenna og konur eru líka hræddar og illa upplýstar um ávinning af hormónameðferðum.

Í þessu grúski mínu lærði ég svo mikið um ekki bara einkennin og meðhöndlun breytingaskeiðsins heldur hvað rannsóknir og meðhöndlun á kvennasjúkdómum hafa fengið lítið vægi í vísindasamfélaginu.

Lengi vel voru konur bara skilgreindar sem „litlir kallar” og allt sem ekki rúmaðist undir bikinínu var bara meðhöndlað eins og hjá körlum. Þetta gerði það t.d að verkum að konur fengu oft á tíðum of stóra skammta af lyfjum, skammta sem hentuðu stærri karlmannskroppum með tilheyrandi aukaverkunum.

Eftir þessa uppgötvun ákvað ég að athuga hvort ég gæti mögulega verið sú eina sem var alveg týnd þegar kom að breytingaskeiðinu, sú eina sem vissi ekki um alla þessa tugi einkenna (en einkenna listi kvenna á breytingaskeiðinu getur verið á bilinu 20-40 atriði). Og hvort ég væri sú eina sem vissi ekki um þessa alvarlegu sjúkdóma og að hormónar væru í flestum tilfellum mjög örugg meðferð sem umbyltir oftast líðan og lífsgæðum kvenna.

Kvennaráð og einkenni breytingaskeiðsins

Ég held úti vefsíðu og instagram aðgangi sem heitir kvennarad.is og ég ákvað að gera óformlega könnun á Instagram, setti þar inn allskonar spurningar varðandi breytingaskeiðið og fékk frábær viðbrögð.

Það sem kom út úr þessu var að ég var svo langt frá því að vera sú eina sem vissi ekki neitt, flest allar konur töluðum að þær höfðu ekki hugmynd um öll þessi fjölmörgu einkenni sem við getum fundið fyrir og breytingaskeiðið kom algjörlega aftan að þeim.

Þær voru líka flestar jafn ringlaðar og ég þegar kom að því að fá greiningu og meðhöndlun. Flestar vissu ekki hvernig þær gætu vitað hvort þær væru komnar á breytingaskeiðið – en samkvæmt Dr. Louise Newson þá ættu læknar að styðjast við einkenni fremur en blóðprufur hjá konum sem eru 45 ára eða eldri, þar sem hormónaframleiðslan á þessu fyrsta stigi breytingaskeiðsins getur verið skrykkjótt, góð suma daga en lítil aðra daga og þess vegna getur verið erfitt að fá nákvæma mynd af hormónunum með einni blóðprufu. En það voru einmitt margar konur sem töluðu um að læknirinn hefði sent þær í blóðprufu sem kom „eðlilega” út og þar af leiðandi var ekkert aðhafst meira, þrátt fyrir að þær væru með bullandi einkenni sem var að hafa hamlandi áhrif á lífið þeirra, lífsgæði og líðan.

Þegar ég spurði um hormóna voru mjög margar konur hræddar við að fara á hormónameðferð og ætluðu bara að harka þetta af sér. Þegar ég spurði hvaðan konur fengu upplýsingar um hormóna var það oft bara héðan og þaðan, jafnvel frá læknum, þar sem álitið var að þeir væru stórhættulegir.

En í dag er talað um að með hormónameðferð séum við að bæta upp fyrir hormónaskort, bara svipað og þeir sem þurfa skjaldkirtilshormónameðferð við vanvirkum skjaldkirtli, eða insúlín vegna skorts á insúlínframleiðslu í brisinu.
Hormónameðferð á breytingaskeiðinu er ekkert annað en uppbót fyrir lífsnauðsynlega hormóna sem eru ekki framleiddir lengur í líkamanum.

Það hefur orðið bylting í framleiðslu hormóna í dag, hér áður fyrr voru þeir t.d. framleiddir úr hlandi þungaðra hryssa…já, það var verið að gefa konum hestahormóna!

Í dag er mælt með notkun svokallaðra Body Idendicalhormóna, en þetta eru hormónar unnir úr plöntum sem hafa svipaða mólekúluppbyggingu og líkaminn og eru því auðnýttir.Síðan er ekki sama hvernig hormónar eru teknir inn, sérstaklega estrógen, þar er mælt með að taka það inn í gegnum húð – annaðhvort með plástri, geli eða spreyi, þannig minnkar þáttur lifrarinnar í niðurbrotinu og samkvæmt Dr. Newson er nánast engin hætta á blóðtappa þegar estrógen er tekið á þennan hátt.

Þær konur sem svöruðu því að þær væru að nota hormónameðferð sögðu að ALLT hefði lagast og þær eignast nýtt líf eða fengið lífið sitt aftur þegar þær byrjuðu á hormónum.

Eiginlega engar konur vissu um hættuna á þessum alvarlegu sjúkdómum sem konur geta þróað með sér á þessu tímabili með skorti á estrógeni. En sú vitneskja hafði mest áhrif á mig þegar ég ákvað að fara á hormóna.

 Sumar konur sögðu að þær fengju neikvæð viðbrögð frá vinkonum þegar þær tala um hormónameðferð, mörgum hefur verið neitað um hormóna af læknum, þrátt fyrir að þær hafi beðið um þá og klárlega verið á breytingaskeiðinu og ekki með neina undirliggjandi áhættuþætti eða fjölskyldusögu sem gæfi til kynna að hormónameðferð hentaði þeim ekki.

Mjög margar konur voru að finna fyrir neikvæðum og hamlandi áhrifum breytingaskeiðsins á lífið sitt þar með talið vinnu, áhugamál og sambönd. Sumar konur sögðust hafa verið frá vinnu í lengri tíma, þurft að hætta að sinna ákveðnum áhugamálum og að það væri lítill skilningur á þessu í samfélaginu.

Flest allar konurnar töluðu um að það væri mjög neikvæð ímynd af breytingaskeiðinu, bæði hjá þeim sjálfum og öðrum, það sé talað um þreytta, feita, sveitta, pirraða kellingu þegar er talað um konur á breytingaskeiðinu og jafnvel gert grín að þeim þegar þær tali um líðan sína, sem gerir það að verkum að þær forðast að ræða þetta, jafnvel við vinkonur og maka.

 

Neikvætt viðhorf – hvers vegna telur þú að það sé tilkomið og hvað er hægt að gera til að breyta þessu, koma skeiðinu í umræðuna og fjalla um það á jákvæðan og kannski sjálfsagðan hátt?Eru þetta fordómar því konur fara úr barneign, séu ekki lengur „ungarog ætli það tengist æskudýrkun?

Þegar ég fór að gramsa í þessu uppgötvaði ég að ég var sjálf með fordóma gagnvart þessu skeiði, ætli maður sé ekki svolítið að ýta þessu frá sér því umræðan/hugmyndin hefur verið svolítið á þá leið að þegar maður er komin þangað sé maður bara orðinn gamall. Enginn kona vill missa „kúlið” og vera sett í flokk með þessari þreyttu, sveittu, feitu, pirruðu kellingu.

Og það ríkir mikil æsku- og útlitsdýrkun í samfélaginu, við sjáum sjaldnast lífið eins og það raunverulega er og þar af leiðandi erum við kannski með pínu brenglaða hugmynd af því hvernig við „eigum” að vera, líta út og líða.

En breytingaskeiðið þarf svo sannarlega ekki að vera alslæmt, með réttri meðhöndlun, skilningi í samfélaginu og skilningi hjá konum á því hvað er að gerast í líkamanum þegar þær fara í gegnum þetta tímabil getur ýmislegt jákvætt gerst.

Margar konur í könnuninni töluðu um að í fyrsta lagi væri mjög gott að losna loksins við blæðingar og mjög margar konur sögðu að það færðist yfir þær einhvers konar kæruleysi gagnvart áliti annarra og í fyrsta skipti jafnvel á ævinni væri þeim sama um hvað öðrum finnst og þær væru loksins að ná að hlusta á sig sjálfar og sínar þarfir.

Hvað má gera til að fræða konur frekar, um hormóna, staðreyndir, að breytingaskeiðið þurfi ekki að vera eins erfitt og talið er? Hvernig má breyta umræðunni, hvað getum við gert sjálfar?

Í fyrsta lagi þá þurfum við konur sem erum á þessum stað að tala um þetta, hætta að þagga þetta niður, hætta að gera þetta að einhverju tabúi, fatta að þetta er ekkert til að skammast sín fyrir, við förum allar í gegnum þetta tímabil á lífsleiðinni og lífið er alls ekki búið þegar maður er kominn á breytingaskeiðið, heldur er hægt að líta á þetta sem nýjan kafla í lífinu, kafla sem maður fær kannski svolítið tækifæri á að skrifa sjálfur. Í mínu tilfelli var ég mjög ung þegar ég eignaðist börn, þegar ég var 22 ára var ég komin með þrjú börn undir 2ja ára aldri, var 28 ára komin með fjögur börn! Og var svolítið bara komin á milljón í lífinu og reyna að halda öllum boltunum á lofti.

En þegar breytingaskeiðið kemur erum við margar búnar með þetta tímabil, búnar að ala upp börnin okkar, komnar á okkar stað í vinnunni, komnar í meiri ró og vitum betur hvað við viljum í lífinu, þannig að það gefst oft tækifæri til að hanna þennan kafla á þann hátt sem við viljum.

Það þarf líka að fræða samfélagið, við þurfum að tala um þetta við makann okkar og börnin, það segir sig sjálft að þetta tímabil getur reynt gífurlega á sambönd og samskipti. Við vitum öll hvað það getur verið stuttur þráðurinn hjá okkur eftir eina svefnlitla nótt…en hvað þá þegar þær verða margar í röð, jafnvel svo mánuðum skiptir? Ofan á þetta bætist að konum líður illa, eru hræddar og kvíðnar yfir því sem þær eru að upplifa, vita jafnvel ekki hvað er að gerast, allt í einu hefur líkaminn brugðist þeim og þær þekkja ekki sjálfa sig, upplifa jafnvel vonleysi og finnst þær vera hjálparlausar, vita ekki hvert þær geta leitað, sumar hafa jafnvel reynt að ræða þetta við heimilislækni en upplifað lítinn skilning og jafnvel verið gert lítið úr því sem þær eru að fara í gegnum og ekki fengið neina aðstoð.

Skilnings- og ráðleysi

Ég hef fengið skilaboð frá þó nokkrum konum sem sjá það núna eftir á, að breytingaskeiðið og skilningsleysið því tengt hafi átti stóran þátt í skilnaði þeirra við makann sinn.

Ég og maðurinn minn höfum verið dugleg að ræða þetta allt, hann á ekki til orð yfir hvernig hefur verið staðið að þessu og lítið hlúð að konum á þessu tímabili. Við höfum líka rætt vanmátt makans, að sjálfsögðu eiga þeir erfitt með að skilja hvað er í gangi – konan skilur það ekki einu sinni sjálf – og þar af leiðandi eiga þeir erfitt með að bregðast við á réttan hátt, enda erfitt að ræða eitthvað þegar hvorugur aðilinn veit hvað er í gangi. Þannig að það þarf líka alveg að huga að mökunum, þeir þurfa að skilja hvað er að gerast, ef þeir vita t.d. að ástæðan fyrir kvíðanum, reiðinni, geðsveiflunum, geðdeyfðinni og minnkaðri kynhvöt hjá konunni er út af líffræðilegum ástæðum, minnkuðu estrógeni eru minni líkur á allskonar misskilningi og leiðindum.

Ég hef heyrt af konum sem hafa verið svo langt niðri af kvíða, vonleysi og þunglyndi að þær hafa jafnvel leitt hugann að sjálfsvígi. Ég viðurkenni að ég sjálf fann fyrir hugsunum í þessa átt á mínum verstu dögum en sem betur fer gat ég bægt þeim frá mér.

Allir þurfa fræðslu

Það þarf að uppfræða lækna mun betur, þá sérstaklega heimilislækna því þar er fyrsti viðkomustaður okkar þegar eitthvað bjátar á. Það dettur fáum konum í hug að leita til kvensjúkdómalæknis þegar þær fara allt í einu að upplifa mígreni, hjartsláttarflökt, vöðvaverki, kvíða og þunglyndi. Þarna þarf heimilislæknirinn að vera vakandi og geta gripið inn í, annað hvort með því að veita viðeigandi meðhöndlun eða vísa konum á réttan stað. En ef heimilislæknar vita ekki að þetta geta allt verið einkenni breytingaskeiðsins þá er ansi hætt við að konur séu ranggreindar og meðhöndlaðar t.d. með kvíða- og þunglyndislyfjum í stað hormómameðferðar. En nýleg könnun í Bretlandi sýndi að í 60% tilfella þegar konur leituðu læknis vegna depurðar var þeim boðið upp á þunglyndislyf í stað hormónameðferðar, þrátt fyrir að leiðbeiningar heilbrigðiskerfisins segi annað.

 Með aukinni fræðslu, til bæði kvenna, heilbrigðisstéttarinnar og samfélagsins þá vonandi verður litið á breytingaskeiðið sem eðlilegt ferli í lífi kvenna og þannig myndast vonandi betri skilningur allstaðar í samfélaginu, líkt og þegar konur eru barnshafandi, það hafa allir fullan skilning á því og veita konum mikinn stuðning meðan á því stendur.

Fordómar og skilningsleysi verður ekki upprætt nema með fræðslu og umfjöllun og þar komum við konurnar sjálfar inn.  Við þurfum að vera óhræddar við að krefjast svara og viðeigandi meðferðar, vera óhræddar að tala um þetta við fólkið okkar, láta vita að okkur líður illa og biðja um skilning og umburðarlyndi.

Þegar ég horfi til baka finn ég svo til með konunum sem á undan hafa gengið, ég sé tengingarnar núna við þessa stóru alvarlegu sjúkdóma, man eftir konum sem hafa greinst með Alzheimers, þjáðst af beinbrotum vegna beinþynningar og hreinlega látið lífið af völdum ótímabærra hjartasjúkdóma.

Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að það verði breyting á þessu málum, ég á fjórar dætur og vil ekki að þær þurfi að fara í gegnum vanlíðan og skert lífsgæði bara af því að ég sagði ekkert!

Halldóra heldur úti síðunni Kvennarad.is og er með frábæra Instagramsíðu með myndböndum þar sem hún fer ítarlega yfir þessi mál sem henni eru svo hugleikin. Mælum við eindregið með að konur kíki einnig á þessar síður! Linkur inná samfélagsmiðla Kvennaráðs í hnöppum hér fyrir neðan.

Pin It on Pinterest