by Mamman | 28.11.2016 | Uppskriftir
Þessi skemmtilegi réttur vakti mikla lukku á mínu heimili um daginn og fannst mér því upplagt að deila honum með ykkur. Hann er bæði einfaldur og fljótlegur og alveg einstaklega bragðgóður.
Uppskriftin
- 4 kjúklingabringur
- ¼ tsk salt
- ¼ tsk svartur pipar
- 1 msk kókosolía
- 1 rauðlaukur (hakkaður)
- 1 rauður chili (ef vill)
- 1 bolli kjúklingasoð
- 1 lime
- 1 msk ferskt kóríander (hakkað)
- ½ tsk chiliflögur
- ½ dós kókosmjólk
- maizena jafnari (ef vill)
Aðferð
Saltið og piprið kjúklingabringurnar og léttsteikið á pönnu í kókosolíunni og leggið svo til hliðar.
Steikið rauðlaukinn þar til hann er orðinn mjúkur og bætið við chili ef þið ætlið að nota hann. Bætið þá við kjúklingasoðinu, limesafanum, kóríander og chiliflögunum og látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann og látið malla í um það bil fimm mínútur. Bætið þá við kókosmjólkinni og látið suðuna koma aftur upp og lækkið svo aftur og látið malla í fimm mínútur. Ef þið viljið að sósan sé þykkari þá er tímabært að bæta maizena jafnaranum útí.
Bætið svo kjúklingabringunum út í sósuna og látið malla í um það bil tíu mínútur í viðbót eða þar til kjúklingurinn er orðinn eldaður í gegn.
Berið fram með hrísgrjónum eða blómkáls “hrísgrjónum”.
Bon apetit!
Karlotta Jónsdóttir
by Mamman | 25.11.2016 | Uppskriftir
Ég elska góð bananabrauð og hafði prófað ótalmargar uppskriftir þar til ég rakst á þessa, á Gulur, rauður, grænn & salt, þá þurfti ég ekki að leita lengra. Allir á heimilinu elska þegar ég baka þetta brauð og er nánast rifist um hver fær mest. Ég reyni að henda sem minnstu og skelli alltaf í þetta brauð þegar ég á nokkra banana sem eru farnir að dökkna.
- 1 egg
- 1 dl púðursykur
- 3 bananar, vel þroskaðir
- 5 dl hveiti
- 1/2-3/4 tsk salt (ég nota smá klípu af grófu sjávarsalti)
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
Þar sem ég á ekki hrærivél þá set ég egg og púðursykur í blandara og hræri þar til blandan er létt og ljós (sirka 3-4). Því næst set ég bananana út í og hræri í nokkrar sekúndur. Set þurrefnin í skál og blanda þeim varlega saman við hin hráefnin með sleif. Set svo deigið í sílíkon brauðform og baka í ofni við 190°c í 40 mínútur.
Borðist heitt úr ofninum með nógu af smjöri.
Njótið <3
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 23.11.2016 | Uppskriftir
Fiskur er eitt af því besta sem ég fæ og finnst mér mjög gaman að prófa mig áfram með hinar og þessar uppskriftir af fiskréttum. Einnig finnst mér gaman að gera eitthvað alveg upp úr sjálfri mér. Nýlega greindist þriggja mánaða dóttir mín með mjólkurofnæmi og er ég því að læra að borða upp á nýtt. Mjólk leynist í ótrúlega mörgu og því finnst mér mikilvægt að gera sem flest sjálf frá grunni. Sigrún Þorsteinsdóttir heldur úti vefsíðunni www.cafesigrun.com , þar er hægt að haka í þá ofnæmisvalda sem þú vilt forðast og finna alls konar flottar uppskriftir. Einnig eru allar þær uppskriftir sem ég hef skoðað með tillögu að öðru hráefni sem hægt er skipta út. Ég rakst á fiskrétt frá henna á dögunum sem ég ákvað að prófa og kom hann skemmtilega á óvart. Ég mæli algjörlega með þessum en til gamans má geta að tveggja ára dóttir mín sem er nú ekki sú duglegasta að borða bað tvisvar um ábót.
Fiskur með kókosflögum og basil
- 175 g kirsuberjatómatar skornir í tvennt (ég notaði ca eitt box sem var farið að slá örlítið í)
- 1 hvítlauksrif, saxað smátt
- 450 g ýsa (bein- og roðlaus)
- 25 g kartöflumjöl eða spelt
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- smá svartur pipar
- 1 tsk kókosolía
- 2 msk rautt, thailenskt karrímauk (mér fannst þetta heldur sterkt og mun nota 1 tsk næst)
- 1 msk fiskisósa
- 250 ml léttmjólk eða undanrenna (ég notaði möndlu-kókosmjólk)
- 2 msk kókosflögur
- 20 fersk basil blöð, skorin í ræmur eða rifin (ég átti ekki fersk svo ég notaði smá þurrkað basil)
Skerið fiskinn í meðalstóra bita og veltið upp úr kartöflumjölinu (kryddið mjölið með smá salti og pipar). Hitið kókosolíu á stórri pönnu og léttsteikið fiskinn. Blandið saman hvítlauk, karrímauki, fiskisósu og mjólk, hellið því næst blöndunni yfir fiskinn og hitið að suðu. Bætið þá tómötunum við og látið krauma í 5 mínútur. Dreifið að lokum basilblöðunum og kókosflögunum yfir og berið fram. Gott er að hafa hrísgrjón með en ég hefði viljað hafa ferskt salat líka og mun því bæta úr því næst.
Þessi réttur hentar vel fyrir uppteknar húsmæður þar sem það tók aðeins 20 mínútur að gera hann.
Njótið <3
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 19.11.2016 | Barnaföt, Líkar við & mælir með
Þessa dagana er mér bara alltaf kalt! Kalt á tám og fingrum og á nefbroddinum. Helst langar mig að vera í kósýgallanum allan daginn og strákunum mínum líka. Stundum er bara allt í lagi að vera í kósýgallanum allan daginn, sérstaklega um helgar eða á veikindadögum sem eru oft margir á stórum heimilium. Lindex klikkar ekki í þessari deild frekar en neinni annarri og er úrvalið af náttfötum, hlýjum heilgöllum og sloppum mikið í barnadeild Lindex. Eins er tilvalið að gefa falleg náttföt eða kósýgalla í jólagjöf. Hér má sjá brot af því úrvali sem Lindex býður uppá af kósýgöllum, sloppum og náttfötum.
Spiderman náttföt 3.695 kr.
Mynd: Heilgalli 4.595,- kr. Náttföt bleik/blá 3.695,- kr. Prinsessuspöng 1.095,- kr. Grár sloppur 4.995,- kr. Hárspennur 555,- kr. Sokkar 1.495,-
by Mamman | 15.11.2016 | Barnið
Eru börn ekki dásamleg? Þessum unga dreng leiddist ekki í söngstund og fékk hvert hláturskastið á eftir öðru. Þetta myndband fær mann svo sannarlega til að skella uppúr.