by Mamman | 19.11.2016 | Barnaföt, Líkar við & mælir með
Þessa dagana er mér bara alltaf kalt! Kalt á tám og fingrum og á nefbroddinum. Helst langar mig að vera í kósýgallanum allan daginn og strákunum mínum líka. Stundum er bara allt í lagi að vera í kósýgallanum allan daginn, sérstaklega um helgar eða á veikindadögum sem eru oft margir á stórum heimilium. Lindex klikkar ekki í þessari deild frekar en neinni annarri og er úrvalið af náttfötum, hlýjum heilgöllum og sloppum mikið í barnadeild Lindex. Eins er tilvalið að gefa falleg náttföt eða kósýgalla í jólagjöf. Hér má sjá brot af því úrvali sem Lindex býður uppá af kósýgöllum, sloppum og náttfötum.
Spiderman náttföt 3.695 kr.
Mynd: Heilgalli 4.595,- kr. Náttföt bleik/blá 3.695,- kr. Prinsessuspöng 1.095,- kr. Grár sloppur 4.995,- kr. Hárspennur 555,- kr. Sokkar 1.495,-
by Mamman | 15.11.2016 | Barnið
Eru börn ekki dásamleg? Þessum unga dreng leiddist ekki í söngstund og fékk hvert hláturskastið á eftir öðru. Þetta myndband fær mann svo sannarlega til að skella uppúr.
by Mamman | 14.10.2016 | Barnið
Yndislegar handprjónaðar peysur frá NóNa
NóNa er fallegt íslenskt hönnunarmerki sem er í eigu Sifjar Vilhjálmsdóttur en hún á heiðurinn af allri hönnun og handverki undir merki NóNa. Sif stundar fullt nám í Háskóla Íslands og bíður þar að auki eftir komu fyrsta erfingjans. Á milli verkefna og prófa grípur hún í prjónana til að anna pöntunum og til að eiga lager því peysurnar hennar og fylgihlutir hafa svo sannarlega átt velgegni að fagna.
Ég var búin að dást af peysum Sifjar í dágóðan tíma áður en ég, eða réttara sagt Eric litli 2ja ára snúllinn minn, eignaðist slíka og maður minn hvað við erum ánægð með peysuna! Peysurnar og fylgihlutirnir hjá Sif er allt handprjónað úr Merino ull sem er bæði mjúk og hlý og umfram allt þá stingur hún ekki sem mér finnst vera lykilatriði. Peysurnar koma í nokkrum stærðum og litum og hægt er að panta trefla og húfur í stíl.
Ég spurði Sif aðeins út í hvað varð til þess að hún fór að hanna og prjóna peysur og fylgihluti svona samhliða fullu námi og hvaðan nafnið NóNa er komið?
“Ég hef alltaf verið mikil prjónakona og langaði að hanna mína eigin línu svo ég ákvað að slá til. Það var hellings vinna í kringum þetta, spá í garni, stærðum, merkingum og fleira en alveg þess virði. Nafnið NóNa kemur frá ömmu minni, Jóneu, sem var alltaf kölluð Nóna og var mikil prjónakona svo mér fannst nafnið alveg tilvalið. Þar sem allt er handprjónað er þetta svolítið púsluspil með skólanum en ég gríp alltaf í prjónana þegar ég hef lausan tíma. Væri voða gott að vera með aukahendur stundum”, segir Sif kímin.
Núna í Október rennur 10% af söluandvirði af bleikum flíkum beint til Ljóssins. Allar upplýsingar er hægt að nálgast á Facebook síðu NóNa.
Auður Eva
by Mamman | 15.07.2016 | Barnið
Nú eru flestir leikskólar komnir í sumarfrí og tími fjölskyldunnar framundan. Margir horfa á þessa tíma með kvíða, börnin krefjast vinnu og foreldrarnir þreyttir, flestir eftir langa vinnutörn. Sumarfrí eru líka kostnaðarsöm og fjárhagur heimilanna ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.
Sumarið er tími samveru og gleði. Kröfurnar í þjóðfélaginu er miklar, hvað á að gera í fríinu? Sumir fara til útlanda, í sólina og alla skemmtigarðana, aðrir ferðast innanlands og enn aðrir kjósa að vera heima í fríinu. Margir horfa í kringum sig og spyrja sig hvað sé hægt að gera sem kostar ekki mikla vinnu eða peninga.
Róló
Ferð á róluvöll sem börnin hafa ekki komið á áður getur verið hin besta skemmtun. Á Klambratúni er mjög skemmtilegur leikvöllur, þar er stórt tún og mikið pláss inni í miðri borg og hægt er að eiga góðan dagspart þar. Leikskólarnir eru flestir með opna garða í sumarlokuninni, það getur verið gaman að prófa nýja leikskólalóð.
Fjöruferð
Fjöruferðir eru spennandi, fjaran úti við Gróttu er mjög skemmtileg og þar er hægt að fara í fótabað í lítilli laug. Fjaran sem er lengst úti á Álftanesi er líka stór og skemmtileg. Við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er veðursælt og skemmtilegt svæði, mikið af trjám og vatn sem gaman er að vaða pínulítið í. Nauthólsvík og baðströndin í Garðabæ eru skemmtilegir staðir þar sem gaman er að moka í sandinum og sulla í sjónum.
Strætóferð
Strætóferðir eru eitt það skemmtilegasta sem börnin gera. Þeim finnst flestum spennandi að fara í strætó og skoða umhverfið út um strætógluggann með þeim sem standa þeim næst.
Gefa öndunum brauð
Sumir fara oft niður að tjörn til þess að gefa öndunum brauð. Í Kópavogi er lítil tjörn þar sem má finna endur og gæsir. Tjörn er við íþróttasvæði Breiðabiks, þar er hægt að leggja bílnum og taka smá göngu í kringum hana. Eins er gaman að stoppa við lækinn í Hafnarfirði og gefa öndunum þar.
Göngur
Hellisgerði í Hafnarfirði, Guðmundarlundur í Kópavogi, Rútstún í Kópavogi, Grasagarðurinn í Laugardal og Heiðmörk eru fallegir og skemmtilegir staðir til að fara í göngutúra.
Túristaleikur
Eldri börnum þykir oft gaman að ganga niður Laugaveginn og fara í smá túristaleik. Skoða bókabúðir og túristabúðir og gefa svo öndunum brauð.
Allt eru þetta staðir sem eru opnir og almenningur getur nýtt sér til dægrastyttingar. Gaman er að útbúa nesti smyrja brauð, skera niður ávexti og taka með sér drykki og eiga góða samverustund.
Hafið það gott saman í fríinu og skapið minningar.
Hanna María Ásgrímsdóttir
by Mamman | 28.04.2016 | Barnið
Börn þroskast á mishratt og yfirleitt er ekki ástæða til að hafa áhyggjur þó að þau séu seinni til, á sumum sviðum, en jafnaldrar þeirra. Hins vegar er mikilvægt að vera með augun opin og vera óhræddur við að viðurkenna að mögulega sé vandamál til staðar. Það þarf ekki að leggja sleggjudóm á foreldra eða barn þó að það sé seinþroska á einhverjum sviðum. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum fyrir barnið og því mikilvægt að vera tilbúinn til að þiggja þá aðstoð sem er í boði.
Ég er móðir barns með slakan málþroska, hann fékk málþroskatöluna 82 sem er töluvert undirmeðaltali og þegar hann var rúmlega þriggja ára þá var hann með orðaforða á við rúmlega tveggja ára barn. Sem betur fer uppgötvaðist þetta snemma en það vöknuðu áhyggjur í tveggja og hálfs árs skoðuninni og var málið þá strax sett í ferli.
Það er þó áhyggjuefni að biðtími í talþjálfun á einkareknum stofum er u.þ.b. 12-20 mánuðir en það er alltof langur tími þegar svona ung börn eiga í hlut. Það segir sig sjálft að það munar mjög miklu fyrir barnið að komast í talþjálfun þriggja ára frekar en nær fimm ára þegar það er augljóslega vandamál til staðar. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands reynir þó að brúa bilið að einhverju leyti en það þarf að gera betur í þessum málaflokki.
Albert Einstein var seinn til máls og var af kennara sínum í barnaskóla álitinn tossi.
Við vorum svo heppin að fá átta tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og heyrði ég mikinn mun á barninu eftir hvern tíma. Talmeinafræðingurinn greinir líka hluti sem ég áttaði mig ekki á að þyrfti að vinna með (enda er ég ekki talmeinafræðingur). Það er mjög fróðlegt að fylgjast með þessu og mikilvægt að halda áfram að vinna með þessa þætti þegar heim er komið. Við höfum nýtt okkur efni sem við fáum með okkur heim úr talþjálfuninni auk þess sem ég hef notað „Lærum og leikum“ forritið í iPadinum. Einnig hefur verið mælt með að nota„Lubbi finnur málbein“, en ég hef ekki enn komist í að kaupa þær bækur en ekki er ósennilegt að ég muni fjárfesta í þeim einhvern daginn. Það kemur þó ekkert í staðinn fyrir að lesa fyrir barnið, spjalla við það og jafnvel spila alls kyns spil. Við förum töluvert í samstæðuspil og „Sequence for kids“.
Mikilvægt er að gagnrýna barnið ekki, heldur að endurtaka orð og setningar rétt þannig að það heyri hvernig þau hljóma. Ef maður er stöðugt að leiðrétta barnið er hætta á að það veigri sér við að reyna og það muni hafa slæm áhrif á sjálfsmynd þess og sjálfstraust.
Börn sem eiga á hættu að verða svolítið undir eru þau sem lenda á gráu svæði þ.e, börn sem eru ekki nógu slök til að fá niðurgreidda talþjálfun. Fyrir marga er ekkert grín að þurfa að borga rúmlega 6000.- krónur fyrir hvert skipti. Skólakerfið hefur að sama skapi fá úrræði til að hjálpa þessum börnum.
Þessi klausa er ansi áhugaverð og sýnir kannski hvað best hvað snemmtæk íhlutun er mikilvæg:
„Þegar þessir einstaklingar hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að sex ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa vegna frávika í málþroska og eiga því íerfiðleikum við að ná undirstöðuatriðum lesturs. Þar með er hafinn ferill neikvæðara upplifana í skólanum. Þeim gengur illa að læra að lesa sér til gagns og ánægu og eiga þá jafnframt erfitt með að tileinka sér námsefnið. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að þessi hópur stendur sig illa á samræmdum prófum í íslensku í 4. Bekk.“ (tekið af malefli.is).
Hérna er svo ítarlegri skilgreining á málþroskaröskun: hér
Á heimasíðu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar (hti.is) er líka gátlisti sem er ágætt að hafa til hliðsjónar um það hvað barnið á að geta á hverju aldursskeiði fyrir sig.
Við megum ekki gleyma því að við foreldrarnir erum sérfræðingar í eigin börnum og ef við höfum áhyggjur þá eigum við að bera okkur eftir því að fá hjálp. Við erum þau sem eigum að gæta hagsmuna barna okkar á meðan þau geta það ekki sjálf. Kannski eru áhyggjurnar óþarfar en það er þá gott að fá það staðfest. Stundum þarf þó að grípa inn í og það er engin skömm að því að þurfa að þiggja aðstoð fyrir barnið sitt.
Að sama skapi er mikilvægt að horfa líka á styrkleikana hjá barninu og vera dugleg að hrósa og styrkja þá eiginleika. Það er enginn góður í öllu en það eru allir góðir í einhverju!
Höfundur
Bjarney Bjarnadóttir
íþróttafræðingur, grunnskólakennari og móðir
by Mamman | 27.04.2016 | Barnaföt, Barnið, Óflokkað
Við kaup á fyrstu skónum þarf að huga að ýmsu. Við spurðum því hana Kristínu Johanssen eiganda skóverslunarinnar Fló um hvað hafa ber í huga við fyrstu skókaupin.
Hvað ber að hafa í huga við kaup á fyrsta skóparinu fyrir barnið?
Við kaup á fyrstu skóm er gott að þreifa á skónum til að ganga úr skugga um að þeir séu úr mjúku og góðu leðri, nái upp á ökklann og séu með mátulega sveigjanlegan sóla. Sólinn má ekki vera of stífur og ef barnið er enn valt á fótunum er betra að hafa sólann sveigjanlegri þar sem það er enn að skríða heilmikið. Einnig þarf sólinn að vera stamur til að börnin renni ekki á sléttum gólfflötum. Skórnir þurfa að vera rúmir en þó má ekki muna meira en 1cm á lengdina..Það er mikilvægt að kaupa skó sem passa, því þá eru börnin örugg á fótunum og beita þeim síður rangt. Svo skoðar maður hvernig börnin bera sig í skónum og ef þau bera sig vel og eru glöð er það yfirleitt merki um að þeim líði vel í þeim. Ef þau eru hikandi að ganga eða setjast alltaf niður þegar þau eru í skónum þá þarf að finna aðra.
Er einhver litur að koma sterkur inn fyrir vor og sumar þetta árið?
Mér finnst klassískir litir vera ráðandi fyrir strákana eins og cognac brúnn og dökkblár, og fölbleikur, silfur og gull hjá stelpunum. Í sumar verða sandgrár og mintugrænn einnig áberandi.
Eru miklar tískubylgjur í skófatnaði barna?
Ekki kannski eins miklar og hjá fullorðnum en auðvitað eru viss snið vinsælli en önnur og helst það þá oft í hendur við þann fatnað sem er í tísku. Annars finnst mér gaman að reyna að halda í fjölbreytnina því hún er mikil en svo er alltaf smekkur fólks misjafn.
Einhver “tips” sem þið viljið gefa að lokum?
Það er alltaf gott að minna á að góðir skór eru einn af undirstöðuþáttum vellíðunar, ef þú ert í óþægilegum skóm líður þér ekki vel. Það er því mikilvægt að vanda valið þegar kemur að skóm.
Kristín Johansen eigandi skóverslunarinnar Fló