HypnoBirthing – hugleiðsla í fæðingu

HypnoBirthing – hugleiðsla í fæðingu

HypnoBirthing, The Mongan Method er aðferð notuð við fæðingar, þróuð af dáleiðslusérfræðingnum Marie F. Mongan. Í þessari aðferð er áhersla lögð á að meðganga og fæðing séu náttúruleg ferli sem líkami kvenna er skapaður til að fara í gegnum, ekki síður en aðra líkamsstarfsemi ef konan og barnið eru heilbrigð og meðgangan eðlileg. Þetta ferli hefur hins vegar í gegnum tíðana verið sjúkrahúsvætt og ákveðinn ótti skapaður meðal fólks um að fæðing sé hættuleg og þurfi að fara fram undir læknisumsjá.

Ég kynntist HypnoBirthing í gegnum Auði Bjarnadóttur jógakennara í meðgöngujóga þegar ég gekk með dóttur mína. Ég keypti mér bókina, HypnoBirthing, The Mongan Method, las hana og grúskaði heilmikið á internetinu. Það má segja að þetta hafi gjörbreytt allri minni upplifun á meðgöngunni. Ég man augnablikið þegar að ég fann nánast líkamlega, hvernig óttinn rann af mér. Óttinn sem ég vissi varla að væri til staðar en varð svo áþreifanlegur um leið og ég fann hann fara. Það skrýtna er að þetta gerðist þegar ég uppgötvaði að ég þyrfti bara alls ekki að fá mænudeyfingu eða aðra verkjastillandi meðferð. Þessu er eflaust öfugt farið með mjög margar konur en greinilega er þetta eitthvað sem mér er illa við, jafnvel bara ómeðvitað.

“HypnoBirthing byggir að miklu leyti á hugleiðslu, slökunaraðferðum, öndunaræfingum, jákvæðum hugsunum og líkamlegum undirbúningi.”

Mikilvægt er að konan fari inn í fæðinguna á eigin forsendum og finni sinn eigin styrk og getu til að fæða barnið. Talið er að ótti hafi neikvæð áhrif á upplifun á sársauka auk þess sem hann veldur spennu í vöðvum sem getur unnið á móti líkamanum í fæðingarferlinu. Ef konan er óhrædd og treystir líkama sínum á hún auðveldara með að slaka á og sársaukinn verður minni og þar af leiðandi dregur úr líkum á því að þörf sé á mænudeyfingu eða öðrum inngripum. Einnig er mikilvægt að skapa frið og ró í kringum fæðinguna, ljós dempuð og að utanaðkomandi aðilar séu í algjöru aukahlutverki, einungis til að rétta hjálparhönd en fjölskyldan og tengsl milli fjölskyldumeðlima eru í forgrunni.

Í bókinni HypnoBirthing, The Mongan Method, er mikil áhersla lögð á undirbúning fæðingarinnar og að foreldrar hafi hugað að og tekið ákvarðanir varðandi fæðinguna fyrirfram. Þetta eru stór og smá atriði eins og hvar fæðingin fer fram, hverjir verði viðstaddir, hvort verkjastillandi lyf verði notuð, hvort notast eigi við tónlist o.s.frv. Þarna skiptir fæðingarfélagi miklu máli en hann spilar mikilvægt hlutverk í bókinni. Með fæðingarfélaga er átt við hitt foreldri barnsins eða einhvern annan nákominn móðurinni sem er viðstaddur fæðinguna. Fæðingarfélaginn er mjög mikilvægur í fæðingunni, veitir móðurinni stuðning og hvatningu auk þess að vera milliliður og talsmaður hennar gagnvart ljósmóður eða öðrum umönnunaraðila. Þar sem konan getur verið berskjölduð í fæðingunni og er í djúpri slökun sem ekki má trufla þá er það fæðingarfélaginn sem sér um þessi samskipti til að fæðingin verði sem næst því sem þegar hefur verið ákveðið. Mikilvægt er þó, og talað um það í bókinni, að í eðli sínu sé fæðing náttúrulegt ferli þar sem allt getur gerst og því er sveigjanleiki og það að taka því sem að höndum ber alltaf nauðsynlegt.

Margar konur hafa nýtt sér HypnoBirthing tæknina á Íslandi en boðið er upp á námskeið í aðdraganda fæðingar fyrir verðandi foreldra. Taka skal fram að það hvernig kona ákveður að fæða barnið sitt er einstakt og persónulegt fyrir hverja og eina og mismunandi hvað hentar hverri konu hverju sinni. Það er ekkert betra eða verra að fæða með eða án verkjastillingar eða heima eða á sjúkrahúsi. Ég gerði mitt besta til að notast við aðferðina í fæðingu dóttur minnar og er viss um að það hafi nýst mér mjög vel, sérstaklega með öndun og að halda ró en einnig styrkti hún sjálfstraustið, það er að allt væri eins og það ætti að vera og ég gæti þetta vel, þó að ég hafi kannski misst trúna stöku sinnum. Ég veit að ég mun rifja upp kynni mín af HypnoBirthing þegar næsta barn kemur í heiminn. Í það minnsta er HypnoBirthing aðferðin falleg og áhugaverð fæðingaraðferð sem vert er fyrir verðandi foreldra að kynna sér.

Heimildir:

Mongan, Marie F. 1992. Hypnobirthing; The Mongan Method: a natural approach to safe, easier, more comfortable birthing. 3. útg. Health Communications, Inc.

Click to access Ljosmbl_2013_91_2.pdf

http://www.hypnobirthing.com/

 

Höfundur

María Þórólsdóttir

 

Skiptir mestu máli að vera mamma

Skiptir mestu máli að vera mamma

Halla Tómasdóttir býður sig fram til embættis forseta í komandi forsetakosningum og er kosningabaráttan í fullum gangi. Halla gaf sér smá tíma til að ræða móðurhlutverkið, fjölskyldulífið, starfsframann og helstu áherslur sínar og hugmyndir í forsetaframboðinu.

„Að vera mamma skiptir mestu máli að mínu mati. Ekkert sem ég hef gert er merkilegra en að eignast þessi tvö börn og ekkert verður nokkurn tímann merkilegra. Ég er gríðarlega stolt af þeim, ég fæ ekkert alltaf mæðraverðlaunin en það er ótrúlegt hvað rætist vel úr þeim þrátt fyrir það,“ segir Halla en hún á tvö börn, Auði Ínu 12 ára og Tómas 14 ára.

En það tekur líka sinn toll að hasla sér völl í atvinnulífinu og þar hefur Halla ekki látið sitt eftir liggja. Hún hefur komið víða við og á fjölbreyttan starfsferil að baki. Hún lærði mannauðsstjórnun og lauk Rekstrarhagfræði prófi með áherslu á tungumál og alþjóðleg samskipti. Í nokkur ár starfaði hún sem mannauðsstjóri í Bandaríkjunum hjá M&M/Mars og Pepsi og svo síðar hér á landi hjá Stöð 2. Eftir það tók hún þátt í því að byggja upp Háskólann í Reykjavík, byggði upp Stjórnendaskóla og Símenntun HR (í dag Opni Háskólinn) og sinnti kennslu í stofnun og rekstri fyrirtækja, forystu og hegðun í fyrirtækjum.

Hún kom á laggirnar öflugu verkefni fyrir konur með viðskiptahugmyndir, Auður í krafti kvenna. Þar bjó hún til vettvang fyrir konur með viðskiptahugmyndir til að þróa þær áfram og koma upp sínu eigin fyrirtæki. Hún tók við sem fyrsta konan sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands árið 2006 og sagði upp eftir eitt ár í starfi þar. „Mér hugnuðust ekki þau gildi sem mér fannst ráða för á þeim tíma og ákvað að fylgja því innsæi sem ég hafði öðlast í Auði í krafti kvenna og stofnaði ásamt öðrum Auði Capital, fyrsta fjármálafyrirtæki stofnað af konum vorið 2007. Við lögðum upp með aðra nálgun og gildi eins og áhættumeðvitund og samfélagslega ábyrgð.“

Heilt þorp þurfi til að ala upp barn

Halla segir það hafa gengið misvel að sameina foreldrahlutverkið samhliða störfum sínum í gegnum árin. Lykillinn að góðum árangri sé að hafa gifst góðum manni en hann heitir Björn Skúlason og er stjórnunarsálfræðingur og heilsukokkur. „Við erum mjög samhent og höfum skipst á að vera frammí og aftur í á þessari vegferð að eiga tvö börn og hafa metnað fyrir störfum okkar. Annað lykilleyndarmál er að eiga góða mömmu, hún hefur verið svona aukamamma og t.d núna í framboðinu þá hefur hennar aðstoð verið ómetanleg, auk góðra vinkvenna og systra. Ég trúi á þetta gamla hugtak að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég hef búið með börnin mín í Bretlandi, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum og þegar maður er ekki með þorpið með sér þá er það miklu erfiðara. Hér heima getur maður verið með þorpið með sér og börnin njóta þess að vera alin upp af fleiri mæðrum,“ segir Halla.

„Að vera góð fyrirmynd barnanna minna finnst mér mikilvægasta hlutverk móður. Ég tel til dæmis að það skipti miklu máli að dóttir mín sjái að ég trúi á mig og að sonur minn sjái að á okkar heimili er jafn eðlilegt að ég hafi metnað eins og pabbi hans og að hann eldi matinn eins og ég, sem ég geri reyndar sjaldan. Ég held að það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar sé að sýna þeim að það þarf ekki að fórna eigin metnaði þótt maður verði foreldri. Það þarf engu að síður að forgangsraða rétt og þau verða að finna með skýrum hætti að þau skipta mestu máli. Vera fyrirmynd í því að vera með rétt gildismat í lífinu og rétta forgangsröðun.“

Vill fleiri konur í áhrifastöður

Halla seldi hlut sinn í Auði Capital árið 2013. Frá þeim tíma hefur hún verið fyrirlesari um allan heim og talað fyrir fyrir því að fleiri konur séu í áhrifastöðum. „Ég trúi að með því breytist gildismatið í viðskiptum, fjármálum og leiðtogastöðum á hvaða sviði sem er í samfélaginu. Ég hef verið að tala fyrir því að við leggjum upp með aðrar og sjálfbærari áherslur. Ég trúi ekki að fjármálakerfið eins og það er í dag gangi upp til lengri tíma litið og tel mikilvægt að stuðla að jafnari kynjahlutföllum til að ná fram umbreytingum. Ég hef verið að tala fyrir meiri samfélagslegri ábyrð, minni áhættusækni og meiri sjálfbærni þetta eru áherslurnar sem ég brenn fyrir.“

Halla segist hafa áhyggjur af því að ungir drengir á Íslandi flosni upp úr námi og að börn standi ekki jöfn. Það fái ekki allir tækifæri til að taka þátt í tómstundastarfi og þessir einstaklingar eigi það á hættu að lenda undir mjög snemma á lífsleiðinni sem geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í þannig umhverfi blómstri einelti. „Ég vil ekki búa í þannig samfélagi heldur skapa samfélag sem hefur það að leiðarljósi að allir hafi jöfn tækifæri,“ segir Halla.

En hvað er sterkur forseti í huga Höllu?

Sterkur forseti er auðmjúkur og veit að embættið er stærra en persóna viðkomandi. Sterkur forseti þorir að viðurkenna að hann eða hún veit ekki allt kann ekki allt, getur ekki allt. Hann þorir að standa með sjálfum sér við stórar ákvarðanir og standa með þjóðinni þegar á reynir. Það skiptir miklu máli að forseti hafi framtíðarsýn, hjálpi þjóðinni að hrinda í framkvæmd sinni framtíðasýn og hafi vit á því að virkja visku og kraft hennar,“ segir Halla og bætir við að hún vilji opna Bessastaði og bjóða börnin velkomin. „Ég vil að börnin átti sig á því að þarna er mikil og merkileg lýðræðissaga, þarna eru t.d. merkilegar fornminjar. Mig myndi langa til að hafa tónleika og menningaratburði á túninu og fjölskyldudaga og sjá fólkið koma nær Bessastöðum, eða kannski öfugt. Ég myndi vilja sjá forseta taka þátt í samfélaginu og leggja góðum málefnum lið. Ég myndi vilja sjá forseta leiða umræðu um framtíðina og Bessastaði standa fyrir því að við töluðum um hluti sem varða okkur öll til lengra tíma litið. Ég var ein af þeim sem kom að þjóðfundi 2009, þar sem slembiúrtak þjóðarinnar kom saman og ræddi um framtíðina og grunngildin í samfélaginu. Ég myndi gjarnan vilja sjá Bessastaði standa fyrir árlegum þjóðfundum um stór mál sem varða okkur öll og hugsa til lengri tíma.“

Samverustundir mega ekki breytast

Nái Halla kjöri segist hún engu að síður vilja halda sínu fjölskyldulífi sem mest óbreyttu þótt annir verði miklar á köflum. Hún og maðurinn hennar leggi mikla áherslu á að borða saman einu sinni á dag. „Ég myndi vilja geta sótt börnin á fimleikaæfingar og farið á fótboltaæfingar eins ég hef gert áður. Auðvitað yrðu annir, þannig að maður gæti kannski ekki gert það alltaf, en ég hef aldrei getað haft það þannig að allir dagar séu eins. Mikilvægast er að finna jafnvægi í óreiðunni, að það séu þessar reglulegu stundir teknar til þess að tala saman og ég vona að það breytist aldrei. Við t.d tókum eina ákvörðun núna í framboðinu og hún var sú að við settumst niður með reglulegum hætti og þau segðu mér hvernig þeim liði yfir því að við værum á þessari vegferð, því auðvitað vissi ég að margt myndi ganga á. Í gamla daga þegar þau voru lítil fórum við í leikinn, hvað gerðist gott í dag og hvað var ekki eins gott í dag. Við reynum að gera það með reglulega millibili í þessu framboði og ég vona að við höldum áfram að tala þannig saman,“ segir Halla að lokum.

Með þessum orðum kveðjum við Höllu og óskum henni alls hins besta í sinni baráttu, hvort sem það er til kjörs í embætti forseta, til jafnréttis í samfélaginu eða fyrir konur í viðskiptalífinu.

Viðtal

Auður Eva Auðunsdóttir

Hollywoodmamman Anita Briem hugsar um heilsuna

Hollywoodmamman Anita Briem hugsar um heilsuna

Nafn: Aníta Briem
Búseta: LA
Starf: leikkona
Hjúskaparstaða: gift
Börn: Mia tveggja ára
Aldur: 33 ára

Greinin hefur verið leiðrétt og uppfærð.

Á fallegum vordegi í apríl hitti ég Anítu Briem leikkonu á Korpúlfsstöðum í úthverfi Reykjavíkur. Þessi fallega smágerða unga kona kom einstaklega vel fyrir, létt í bragði gaf hún mér hlýlegt faðmlag þó þetta væri í fyrsta sinn sem ég hitti hana en við höfðum áður verið í tölvupóstsamskiptum. Ástæðan fyrir komu hennar til landsins er útgáfa bókarinnar “Mömmubitar”, sem hún og Sólveig Eiríksdóttir vinna saman. Bókin er virkilega falleg og ætluð konum á meðgöngu en hugmyndin að bókinni kviknaði einmitt þegar Aníta gekk með sitt fyrsta barn, Miu sem er nýorðin tveggja ára gömul.

Nú ertu að gefa út bók sem ber nafnið Mömmubitar, viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði.

Ég hef verið að byggja mig upp og venja mig á heilsusamlegt mataræði og svoleiðis og þegar ég var var ólétt fannst mér alveg ofboðslega erfitt að hugsa um mat. Mér fannst erfitt að fara inn í búðir og reyna að velja mér eitthvað til að borða. Ég var svo meðvituð um hvað maður þarf að fá fjölbreytta næringu yfir daginn og ákveðin vítamín sem eru nauðsynleg fyrir fóstrið til að það þroskist eðlilega. Mér fannst þetta svo ofboðslega mikil vinna, mér var óglatt, ég var orkulaus og ég þurfti að hafa svo mikið fyrir því að finna rétta fæðið. Mér fannst allar bækur sem ég las vera svo neikvæðar, þær næringafræðibækur sem voru sérstaklega fyrir meðgöng fjölluðu allar um það sem er vont, hættulegt og skaðlegt. Ég var alltaf að leita mér að lítilli léttri bók sem myndi gefa mér hugmyndir og ég fann hana aldrei. Þannig að þegar langt var liðið á mína meðgöngu þá var ég búin að finna mér fullt af litlum “trixum” sem virkuðu mjög vel við hinum ýmsu einkennum meðgöngu. Ég byrjaði að skrá þetta niður og allt í einu sá ég þetta fyrir mér sem þessa bók sem ég var alltaf að leita að. Ég fékk Sollu Eiríks í lið með mér til þess að gera uppskriftirnar og þar á meðal voru litlir naslpokar sem voru undirstaða hjá mér. Í þá setti ég hnetur og þurrkaða ávexti og var alltaf með þá í veskinu og í bílnum. Bara þessi litla hugmynd varð til þess að ég borðaði reglulega, þannig varð mér síður óglatt og það hjálpaði gríðarlega mikið við orkuleysinu og ég vissi að barnið væri alltaf að fá reglulega næringu. Við ritun bókarinnar bjuggum við Solla til miklu betri poka en ég hafði gert. Innihaldið var allt valið útfrá þeirri rannsóknarvinnu sem ég er búin að stunda um það hvaða næringarefni koma úr hverju hráefni fyrir sig. Ákveðnir þurrkaðir ávextir og hnetur eru ofsalega góð fæða og næring bæði fyrir þig og fóstrið.

Blaðamaður tekur undir það hvað þessir naslpokar séu girnilegir, enda búin að skoða bókina og hafði verið einstaklega hrifinn af þeirri pælingu að hafa poka í bílnum til að grípa til í staðinn fyrir einhverja óhollustu.

“Allvega mín reynsla var sú að heilinn bara í frí. Ég gat hreinlega ekki hugsað um mat, langaði ekki í neitt að borða þannig að þegar mér datt í hug að blanda einhverju saman í poka þá notaði ég mikið af afar einföldum mat. Það kannski virðist auðvelt að setja saman svona litla poka eða velta fyrir sér hvernig er hægt að gera það áhugavert að drekka vatn. Á meðan ég var ófrísk hugsaði ég um hvernig hægt væri að hafa matinn einfaldan, hollan og góðan því það var það sem ég þráði svo mikið á meðgöngunni. Ég er með eitt innskot í bókinni sem er bara hugmyndir að einföldum mat sem þú getur keypt í næstu búð og haft í ísskápnum og þarft ekki að elda. Ef þú ert eins og ég og ert með geðveikan valkvíða þá er tilbúinn innkaupalisti í bókinni sem hægt er að nota ef þú lendir í vandræðum.

Snúum okkur nú að öðru. Nú býrðu í Los Angeles og ert leikkona. Getur þú sagt okkur frá dæmigerðum degi í þínu lífi?

Það er eiginlega ekkert sem heitir hinn dæmigerði dagur hjá mér, það eru einhvern veginn allir dagar ólíkir, fer eftir því hvar ég er, í hvaða ferli. Ef ég er í tökum t.d þá er þetta 12 tíma törn á dag á settinu og svo vakna ég einum til tveimur tímum áður en ég þarf að mæta aftur. Venjulega tekur smá tíma, eftir tökur, að ná mér niður á meðan dregur úr adrenalínframleiðslunni og svo fer ég að sofa. Svo eru aftur á móti tímar á milli þar sem ég er annað hvort að funda, þróa eitthvað eða undirbúa mig undir verkefni, þau tímabil eru mjög ólík. Mér finnst alltaf rosalega gott á að byrja daginn á því að fara í jóga, mér finnst það vekja mig upp á svo góðan hátt og koma huganum á svo gott ról. Í LA eru svo miklar vegalengdir, að þegar maður er að fara á fundi, þarf oft að keyra klukkatíma eða einn og hálfan, hvora leið til að komast á einn fund. Svo eru líka margir fundir og atburðir á kvöldin, formlegir eða óformlegir eða partý, frumsýningar eða eitthvað svoleiðis þannig að þetta er svo margþætt. Stundum er ég bara heima að undirbúa karakter eða verkefni og þá er ég bara í jogginbuxunum að brjóta niður handrit og prófa mig áfram með hitt og þetta.

Hvernig fer þessi vinna saman við móðurhlutverkið?

Það er svolítið erfitt því að líf mitt er svo ofboðslega óútreiknanlegt og venjulega veit ég varla hvaða dagur eða mánuður er og stundum veit ég ekki hvaða ár er, því að það skiptir eiginlega engu máli. Ég er alltaf að gera mjög mismunandi hluti alla daga, það er aldrei þannig að á sunnudögum geri ég þetta og fimmtudögum geri ég hitt, sem hentar illa þar sem börn þurfa rútínu. En við vorum bæði sammála, ég og maðurinn minn, um að börnin okkar yrðu að falla inn í okkar lífsstíl, við myndum ekki gjörbreyta lífi okkar þó það væru komin börn. Ég gæti aldrei hugsað mér að vera bara heima því ég er ekki þannig týpa. Núna er Mia í leikskóla því þegar þú lifir svona listamannslífi þá þarftu að vera svolítið agaður og taka tíma fyrir þig því þetta er allt undirbúningur. Ef þú ert ekki í einhverju sérstöku verkefni t.d í tökum, þá ertu að halda við þínu verkfæri, líkama og huga, það er svo mikilvægt. Þannig að hún byrjaði á leikskóla fyrir um sex mánuðum síðan. Hún var alveg tilbúin til þess að fara og hún nýtur þess svo mikið að vera með öðrum krökkum og við erum komin í ákveðna rútínu sem fjölskylda sem er gott  því það kemur sér vel fyrir okkur öll.

En þú segir börn, eru frekari barneignir á döfinni?

Að sjálfsögðu, ég myndi elska að eignast fleiri börn, en ég tel það mjög erfitt fyrir mig að eignast annað barn nema ég fái barnfóstru í fulla vinnu. Ég bara sé það ekki gerast núna því það er búið að vera svolítið erfitt að vera með eitt barn. Það var svolítið sjokk fyrir mig, sérstaklega út af vinnunni, af því ég treysti svo mikið á hugann og á ímyndunaraflið og hjartað og líkamann, að vera allt í einu með hugann stanslaust hjá barninu. Það þurfti að gefa henni að borða og sjá um allar hennar þarfirog allt í einu hafði ég ekki tíma til að fara eitthvað til að fá innblástur. Þetta var rosalega krefjandi fyrir mig og það hafa komið ákveðnir tímapunktar þar sem ég hef virkilega fundið fyrir því að alveg helmingurinn af mér er hjá henni. Mér finnst ég rétt núna vera að endurheimta sjálfa mig. Vissulega er það dásamleg upplifun, það eru algjörir töfrar að fá að upplifa svona en mér fannst þetta líka bara mjög krefjandi sem kvenmaður.

Nú er fjölskylda þín öll á Íslandi, finnst þér ekki erfitt að hafa ekki þetta tengslanet í kringum þig?

Jú, en ég held að ég hafi ekki alveg áttað mig á því til að byrja með af því ég leit svo mikið á mömmu og pabba, sem eru bæði tónlistarfólk, sem fyrirmynd. Hvernig ég ólst upp. Þau bara tóku mig með sér og ég var bara sofandi á stúdíógólfinu klukkan fjögur um nótt og það var bara ekkert mál eða þannig allvega mundi ég eftir þessu. Þegar ég var að hugsa um að eignast börn, hugsaði ég, ég vil gera þetta nákvæmlega svona, frjálslegur lífsstíll. Ég gleymdi að athuga það að auðvitað höfðu þau mikinn stuðning frá ömmum, öfum, frænkum, frændum og vinafólki. Það var rosalegt stuðningsnet. Systir mín býr reyndar með okkur úti og það hefur hjálpað rosalega mikið því hún hefur passað fyrir okkur. Við förum oft út á kvöldin með stuttum fyrirvara og að hafa hana hefur gert okkur það mögulegt. Það er vissulega erfitt að geta ekki leitað til annarra og líka auðvitað leiðinlegt að dóttir mín geti ekki að vera hjá afa og ömmu á hverjum degi. Fái ekki að sjá þau og þroskist með þeim daglega.

Nú hefur komið fram í öðrum miðlum að þú hafir glímt við fæðingarþunglyndi. Hvernig tókstu á við það?

Ég tæklaði það ekkert rosalega vel af því að ég held að ég hafi verið byrjuð að finna fyrir því þegar hún hefur verið um fjögurra mánaða. Ég hélt bara að þetta væri útaf því hvað þetta var erfitt , svefnleysi og það hvað þetta var rosaleg breyting. Ég var ekki farin að vinna aftur og mér fannst það ofboðslega erfitt, mér líður illa þegar ég er ekki að vinna. Þannig að ég hélt að þessi vanlíðan væri bara blanda af þessu öllu og það er ekki fyrr en á tíunda mánuði sem ég áttaði mig á því að það væri ekki allt í lagi. Þegar maður situr grátandi á klósettgólfinu út af engu þá er maður komin á vondan stað. Þá áttaði ég mig og hringdi í lækninn minn, fór svo til hennar, settist niður og tárin bara flæddu. Ég hágrét, gat ekki einu sinni talað og hún sagði bara já já, ég sé hvað er í gangi hérna. Hún mælti með því að ég tæki inn lyf en ég fór að lesa mér til um þau og þar sem ég var ennþá með hana á brjósti þá vildi ég ekki hætta á það. Ég vildi frekar finna einhverjar aðrar leiðir og ég byrjaði að stunda jóga daglega. Það hjálpaði mér alveg rosalega mikið. Hreyfing leysir serotonin úr læðingi og þetta vellíðunarhormón hjálpar rosalega mikið. Ég veit ekki alveg hvort jógað var nóg. Ég djöflaðist í gegnum þetta en hefði ábyggilega getað fengið meiri og betri aðstoð. Ef þetta myndi koma fyrir mig aftur þá held ég að ég gerði hlutina öðruvísi. Hugurinn er svo áhugaverður og ég held að það hugsi mjög fáir “ég er með fæðingarþunglyndi”, þú hugsar bara allt er ömurlegt og ég vildi að hlutirnir væru betri og þú sérð ekki ljósið. Það tók mig ofsalega langan tíma að átta mig á því að það gæti verið eitthvað svoleiðis í gangi. Í rauninni ætti maður að hugsa um þetta á meðan á meðgöngu stendur. Ég hugsaði alltaf meðgangan er allt, meðgangan er það sem er erfitt og þú ert þreytt og þér er óglatt og kannski gerist þetta, þetta og þetta. Ég hafði bara svo miklu minna heyrt um og kynnt mér hvað gerist eftir að barnið kemur í heiminn. Ég held að það sé gott að hafa í huga hversu mikilvægt það er fyrir nýbakaða móður að fá smá tíma, hvort sem það eru tuttugu mínútur eða klukkutími á dag, til að vera ein. Hvort sem hún vill fara á kaffihús með vinkonum sínum, fara í bað, út að labba, fara í jóga eða hvað sem er sem veitir henni smá frið. Líkaminn er í hormónarússíbana alla meðgönguna sem svo húrrar niður þegar barnið er fætt og auðvitað hefur það áhrif á andlega vellíðan. Við brjóstagjöf fara líka ýmsir hormónar af stað og hafa sitt að segja um líðan manns. Ef eða þegar ég geri þetta næst þá mun ég hugsa um fyrstu mánuðina í lífi barnsins eins og þeir séu partur af meðgöngunni því hægt er að líkja þessu við að líkami þinn sé í rosalegu ferðalagi þennan tíma. Þetta hættir ekkert bara þegar barnið fæðist , það heldur áfram í marga mánuði eftir á. Manni ber að vera meðvitaður um þetta því þá held ég að það sé auðveldara að sjá hlutina eins og þeir í rauninni eru. Það hefði breytt miklu fyrir mig að vita betur þegar ég var búin að eyða mörgum, mörgum mánuðum í að hugsa hvað allt væri hrikalega erfitt og hvað mér liði illa. Það hefði verið svo miklu auðveldara fyrir mig, ef ég hefði getað leitað mér hjálpar fyrr með þetta, eða ef ég hefði fattað þetta fyrr.

Að lokum hvað er á döfinni hjá Anítu Briem?

Ég er búin að ráða mig í nokkur verkefni og er að bíða eftir upplýsingum um hvenær þau fara af stað. Svo var ég að taka upp mynd með leikstjóranum Werner Herzog sem var mikill heiður. Einnig ætla ég að taka mér tíma í að þýða bókina mína svo að hún geti komið út erlendis líka. Svo er ég búin að vera að dunda mér í tónlist og ýmislegt fleira. Ég er alltaf að bralla eitthvað.

Hvað ertu að gera í tónlist, ertu líka söngkona?

Ég hef verið að dútla við að að syngja, notað sönginn sem þerapíu fyrir sjálfa mig. Hef líka verið að semja og notað það sem leið til að þróa karaktera eða koma mér í eitthvað ákveðið hugarástand áður en ég fer í tökur. Svo fór ég að spila fyrir leikstjóra sem ég er að vinna með, fannst þetta vera eitthvað fallegt til að deila með öðrum. Einn af þeim leikstjórum bað mig um að semja tónlist fyrir kvikmyndina sína, sem kom út á síðasta ári með Miru Sorvino og Dakota Johnson. Ég hef sungið nokkur lög með breskum DJ sem er svona klúbbamúsik og svo, eins og ég sagði áðan, hef ég verið að semja mína eigin músik. það er svolítið gott að hafa þetta þó ekki væri nema bara fyrir sálarlífið en mér finnst gaman að skapa og gott að hafa eitthvað sem fylgir minni pressa en leiklistinni.

Er plata í vændum?

Sjáum til segir Aníta létt í bragði og hlær sínum dillandi hlátri, kannski, kannski ekki, við sjáum til.

Ljósmyndir: Krissý
Fatnaður: AndreA Boutique og Ziska Art
Förðun: Harpa Rún

Viðtal
Auður Eva Auðunsdóttir

 

tom1

Mamman.is lífsstílsvefur fyrir konur

Mamman.is lífsstílsvefur fyrir konur

Ekki fyrir svo löngu síðan gekk ég með mitt þriðja barn og eignaðist son haustið 2014. Fyrir átti ég tvo syni annan á tíunda ári og hinn fimmtán ára. Ég fann töluvert meira fyrir þessari meðgöngu en mínum fyrri, enda orðin þrjátíu og fimm ára en ekki rúmlega tvítug lengur.

Ýmislegt annað hafði breyst en aldur minn og meira erfiði á þessari meðgöngu. Þar á meðal það upplýsingaflæði sem Internetið hefur uppá að bjóða því árið 2005 var netið ekki nema brot af því sem það er í dag. Engu að síður rak ég mig á að það var ekki til vefur á íslensku sem fjallaði um málefni sem snúa að okkur konum. Vefur þar sem hægt væri að leita upplýsinga um meðgöngu, fæðingu, líðan eftir fæðingu, samlíf para, börnin okkar, hvort sem um hvítvoðunga eða óharðnaða unglinga væri að ræða eða breytingaskeið kvenna. Hvar fengist t.d meðgöngusundfatnaður og hvar gæti ég lesið um og skoðað nýjustu barnafatatískuna svo eitthvað sé nefnt.

Mig langaði einnig að lesa um mömmur sem væru að gera góða hluti,því ég velti oft fyrir mér, hvernig sumar konur fara eiginlega að því að sjá um stórt heimili, verandi í fullri vinnu, krefjandi námi eða með sinn eigin rekstur. Eru þetta ofurkonur eða eru þær bara nett kærulausar? Er líf þeirra eitt “excelskjal” þar sem hver einasti viðburður er skipulagður í þaula?

Það er ekkert launungamál að það hefur reynst feðrum auðveldara að vera í þessum sporum því þrátt fyrir jafréttisbaráttu liðinna áratuga hvílir ábyrgð heimilisins meira á okkur konunum. Þó svo að mikil breyting hafi orðið til batnaðar. Ég fann fyrir vöntun á svona síðu fyrir mig, þar sem hægt væri að sækja sér upplýsingar, um málefni kvenna. Þannig að ég settist niður og velti fyrir mér hvað svona vefur gæti heitið. Það kom nokkuð fljótt og auðveldlega til mín, Mamman skyldi hann heita enda er það hlutverk sem fylgir okkur flestum stóran hluta af lífinu. Hvers konar mömmur við erum, er svo til í alls kyns útfærslum. Við getum verið stjúp- eða fósturmæður eða fætt okkar eigin börn en eitt er víst að við erum mæður allt til dauðadags. Flestallar reynum við að gera okkar allra besta í því hlutverki.

Eftir að hafa setið námskeið Nýsköpunarmiðstöðvar, Brautargengi sem er fyrir konur með viðskiptahugmyndir, einu sinni í viku, með barn á brjósti, þróaðist þessi hugmynd mín. Á endanum varð úr að stofna vef fyrir konur/mæður sem fjallar um brennandi málefni líðandi stundar. Ekkert er okkur óviðkomandi og alltaf munum við hafa lausnir og jákvæðni að leiðarljósi. Ég sá fram á að geta ekki unnið alla þessa vinnu ein og í eitt og hálft ár, með lítið sem ekkert fjármagn til að starta þessu, leitaði ég leiða til að gera þennan draum að veruleika. Mig langaði stundum að gefast upp og á einum tímapunkti reyndi ég að selja lénið mamman.is því mig langaði til að ýta þessu frá mér.

Þetta var eins og löng og erfið fæðing, en ég varð að komast í gegnum þetta.

Á endanum fann ég tvær frábærar konur sem voru tilbúinar til að koma að þessu með mér og nýta sína menntun og reynslu. Þær sáu sömu möguleika í þessu verkefni og ég..

Við þrjár, mjög ólíkar, með mismunandi bakgrunn en samt svo líkar, allar konur, allar mæður, allar hoknar af reynslu sem við vildum miðla .

Þarna voru fyrstu skref Mömmunar tekin og framundan er langt og skemmtilegt ferðalag sem spennandi verður að upplifa og fylgjast með. Ég hlakka til að þróa Mamman.is með ykkur öllum og tek glöð á móti ábendingum um áhugaverð efni. Við viljum kynnast mömmum sem eru að gera góða hluti, vantar upplýsingar um hvaðeina sem snýr að mæðrahlutverkinu. Sumar væri jafnvel hægt að fá í viðtal til okkar. Allar ábendingar má senda á netfangið audur@mamman.is.

Ást&friður
mamman

Auður Eva Auðunsdóttir

 

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Arite Fricke flugdrekahönnuður

Nafn: Arite Fricke
Nokkur hlutverk: Flugdrekahönnuður, grafískur hönnuður, kennari, nemandi og mamma
Hjúskaparstaða: Gift
Börn: Magnús 10 ára og Heiðrún 8 ára.

Hver er þinn náms og starfsferill?

Ég lærði skiltagerð og lauk sveinsprófi árið 1997 í Þýskalandi og útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 2001 frá Fachschule für Werbegestaltung í Stuttgart. Ég vann aðallega sem grafískur hönnuður bæði á auglýsingastofum og heima sem freelance hönnuður. Árið 2010 hlaut ég postgraduate diploma í International Hospitality Management og vann bæði á hótelum og ferðaskrifstofum til 2013. Ég fór síðan aftur í skóla árið 2013 og kláraði meistaranám í hönnun frá LHÍ árið 2015. Undanfarið hef ég verið að kenna skapandi flugdrekagerð og klára diplomanám í listkennslu frá LHÍ og útskrifast þaðan í júni 2016.

Það er fyrirhugað að ég muni kenna sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Listasafni Árnesinga og í Búðardal núna næsta sumar, svo það verður mikið um að vera hjá mér á næstunni!

Hvernig tekst þér að sameina foreldrahlutverkið vinnunni?

Það krefst mikils skipulags og hæfileika til að vera í núinu. Vera vakandi fyrir því hvað er nauðsynlegt og hverju má sleppa. Við deilum áhuga á  flugdrekum sem fjölskylda. Það er verið að pæla í eðlisfræðilegum lögmálum þegar flugdrekinn er smíðaður, prófa ný efni eða liti eða bara að vera úti og velja besta flugdrekan fyrir vindinn þann daginn. Í sumarfríinu förum við lika saman að veiða og ætlum að reyna að vera að minnsta kosti eina viku í sumar í tjaldvagni. Svo er Magnús oftast úti með vinum sínum á þeim fótboltavöllum sem eru nærri miðbænum. Heiðrún er hestaáhugastelpa og er hún á námskeiði einu sinni í viku.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum virkum degi?

Við borðum alltaf saman morgunmat, svo fer ég gangandi eða hjólandi í skólann ef veður leyfir. Ég er að klára námið og þarf að skrifa mikið. Svo er ég lika að pæla mikið í flugdrekunum, að reyna finna minn eigin stíl. Ég mun halda sýningu í lok maí svo það er nóg að gera! :-).  Seinni partinn eða eftir klukkan fjögur á daginn kem ég heim og er með krakkana. Þá er smá leiktími heima svo er lestur eða annar heimalærdómur. Á kvöldmatartíma eldum við mat og eftir matinn er svo fljótlega farið í rúmið til að lesa fyrir svefninn. Við hjónin horfum oft saman á bæði íslenskar og þýskar fréttir á netinu þar sem við erum ekki með sjónvarp. Stundum horfum við líka á þýska spennuþætti en ég fer eiginlega aldrei seint að sofa. Nægur svefn er mér mjög mikilvægur.

Hvað finnst ykkur gaman að gera um helgar?

Við höfum byggt okkur hús í sveitinni. Það er bara frábært að hafa þann möguleika að skreppa úr bænum og breyta til. Þarna er ýmislegt hægt að gera. Við erum mikið fuglaáhugafólk og bíðum spennt eftir vorinu, og t.d. núna í vetur höfum við séð uglu og ref á sveimi. Við förum mikið í sund og erum úti eins mikið og hægt er, t.d. við smíðar, í gönguferðum eða bara í frjálsum leik.

Geturðu lýst í stuttu máli muninum á þínum uppvexti og svo uppvexti barnanna þinna?

Heiðrún með hestana sína tvo sem hún sinnir vel

Þegar ég var að alast upp í sósialísku ríki Austur-Þýskalands var mikill agi og lögð áhersla á að uppfylla reglur og væntingar samfélagsins. Það þótti ekki gott að tjá sig um eða hafa eigin skoðanir á ákveðnum málum ef þær stönguðust á við stefnu stjórnvalda. Í náminu minu undanfarin þrjú ár gekk ég í gegnum þá mikilvægu og stundum erfiðu vinnu að finna “sjálfa mig” og mitt hlutverk utan heimilis og hvað mig langaði virkilega að gera.

Við sem foreldrar leggjum hinsvegar mikla áherslu á að leyfa börnunum að rækta sín áhugamál og byggja upp sjálfstraust og góða sjálfsmynd. Mér finnst mikilvægt að virkja þau til að hugsa sjálfstætt og finna lausnir og svör við ýmsum spurningum sjálf í staðinn fyrir að við sem foreldrar séum að mata þau. Einnig kennum við þeim að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra, en standa samt með sjálfum sér.

Hvað er framundan hjá þér?

Ég er að þróa áfram meistaraverkefni mitt Hugarflug eða Playful Workshops. Ég mun kenna á ýmsum stöðum í vor og sumar eins og í Gerðubergi, Listasafni Árnesinga í Hveragerði, í Búðardal. Einnig verð ég með sumarnámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég fékk nýsköpunarstyrk fyrir hugmynd um náms- og kennsluvefinn Loft- og Vatn þar sem ég mun safna flottum verkefnum sem kennarar eru að vinna með nemendum sínum þar sem þeir nýta sér vind- eða vatnsorku. Þessi vefur á að veita innblástur fyrir kennara, nemendur og foreldra þar sem fræðsla og leikgleði sameinast.

Verkefnin eru mörg en spennandi og snúast um það sem mér þykir skemmtilegast að gera. Ég er þakklát fyrir það.

DSCF4143

Vefur Arite: hugarflug.net

Viðtal tók: Helga Óskarsdóttir
Ljósmyndir: Una Haraldsdóttir

Pin It on Pinterest