Um hormónið Oxytoxin

Um hormónið Oxytoxin

Oxytoxin er stórmerkilegt hormón sem kemur mikið við sögu í fæðingum. Það er oft nefnt ástarhormónið og undanfarið hefur það fengið verðskuldaða athygli í fæðingarheiminum, því við erum farin að skilja hormónið og virkni þess mun betur. Oxýtoxin gerir allt aðeins auðveldara.

Oxýtoxin er stundum kallað kósý hormón, við finnum fyrir áhrifum af því þegar okkur líður vel, þegar við borðum góðan mat, hlæjum, njótum ásta og þegar við upplifum okkur örugg. Þegar því seytir fram veitir það okkur vellíðan. Þannig að þegar okkur líður vel og við erum örugg þá streymir hormónið um en ef við finnum fyrir óöryggi og hlutirnir ganga ekki vel þá stoppar það. Ástarhormónið er auðtruflað og Michel Odent segir að það sé feimið. Oxýtoxin spilar lykihlutverk í fæðingum en hagar sér á sama hátt og venjulega við þær aðstæður. Því seytir fram í öruggu umhverfi en dregur úr virkni sinni við ótta og kvíða eða þegar adrenalín er að trufla.

Michel Odent, franskur fæðingarlæknir, hefur verið óþreytandi í að benda á að til þess að oxýtoxinið streymi um konur í fæðingu verði að skapa aðstæður þar sem hún erum afslöppuð, róleg og örugg. Vera á stað þar sem hún er örugg og getur slökkt á heilanum (neo-cortexinu) s.s. þarf ekki að svara spurningum, spjalla, spá í útvíkkun eða annað álíka áreiti. Með því að slökkva á neo-cortexinu þá getur kona farið á fullt inn í fæðingu barns síns, oxýtoxinið flæðir fram og gerir sitt til að flýta framvindu.

Jafnframt er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem fæðandi kona hefur það ekki á tilfinningunni að verið sé að fylgjast með henni eða vakta hana. Sú tilfinning getur komið af nærveru utanaðkomandi aðila og tölvur, myndavélar og símar hafa sömu áhrif. Upplifi kona að verið sé að fylgjast með henni ,,kveikir hún á sér” og fer að huga að umhverfinu og þannig hægist á ferlinu.

Þá skiptir máli að staðurinn sé dimmur og engin skær ljós til staðar. Gott er að hafa dregið fyrir og/eða kveikt á kertum til að dempa birtuna. Allt þetta hjálpar til við að örva oxýtoxinið. Þá verður staðurinn að vera hlýr, mikilvægt er að hafa herbergið heitt og jafnvel hitara í gangi (kerti eða kamínu ef það má kveikja á svoleiðis) eða heitt vatn á réttum tíma. Allt getur þetta lagt sitt að mörkum til að örva oxýtoxinið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að halda adrenalíni í lágmarki. Adrenalín er mjög merkilegt hormón og getur það verið smitandi. Ef kona er stressuð, kvíðin og hrædd í fæðingu getur hún auðveldlega smitað aðra og fer þá öðru fólki í fæðingarrýminu ósjálfrátt að líða eins. Því er mikilvægt fyrir þá sem eru viðstaddir fæðingu að vera rólegir og ef ekki, taka á öllu sínu til að róa sig niður og í sumum tilfellum mælir Michel Odent hreinlega með því að fólk sem er stressað og gefur frá sér adrenalín yfirgefi herbergið, fái sér göngutúr og komi til baka þegar það hefur náð að róa sig.

Kannski hljómar þetta eins og það sé alls ekki hægt að vinna með þessi atriði í venjulegri fæðingu sem fer fram á spítala en það er auðveldara en maður heldur. Maður getur passað upp á að móðurinni sé hlýtt allan tímann og hún getur beðið um að hafa ljósin slökkt og dregið fyrir. Ef fylgjast þarf með hjartslættinum að hafa ekki kveikt á hljóðinu í mónitornum og passa að lítið sé talað við konuna. Jafnvel er hægt að nota bara eyrnatappa og benda henni á að loka augunum!

Svo getur viðvera doulu eða stuðningsaðila sem þekkir fæðingar hjálpað verðandi foreldrum mikið með rólegri nærveru og þannig viðhaldið eðlilegu flæði oxýtoxins.

Soffía Bæringsdóttir
doula og fæðingafræðari

Barnajóga

Barnajóga

Jóga fyrir fullorðna er fyrir löngu orðið útbreitt um allan heim og nú er jóga fyrir börn farið að öðlast sífellt meiri vinsældir. Það er víða kennt í skólum og jafnvel í leikskólum. Líf barna er orðið flóknara og hraðinn hefur aukist með meira vinnuálagi foreldra og fleiri tómstundum utan skóla og því er jóga kærkomið inni í dagskrá skólanna sem stund milli stríða.

Sem jógakennari barna á leikskólaaldri, tveggja til sex ára, hef ég orðið vitni að því hvernig börn bregðast við jóga og hvaða áhrif það hefur á þau. Kennsluna þarf að sníða eftir þeirra áhuga og úthaldi og það er gaman að leika dýr, tré, stríðsmenn og gyðjur. Þessar æfingar efla líka samhæfingu, athygli og líkamlega getu barnanna.

Börnin sækja í rónna sem fylgir jógatímunum. Að anda djúpt, loka augunum og einbeita sér að því sem er að gerast í þeirra eigin líkama í stað þess að hugsa um hvað sé að gerast hjá vinkonum og vinum. Það er svo áhugavert að sjá hvað gerist hjá þeim þegar þau beina athyglinni inn á við, loka augunum og finna hvernig þeim líður þá stundina í tásunum, eyrunum eða nefinu. Það er álag að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í kringum þig og bregðast við áreitum frá umhverfinu. Þessar æfingar eru góð hvíld frá því.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að jóga hefur margvísleg jákvæð áhrif á börn. Það eykur liðleika samhæfingu, athygli,einbeitingu og sjálfstraust og þroskar að auki jafnvægisskynið. Sérlega áhugavert er þó að jóga hefur einstaklega góð áhrif á börn sem eiga að einhverju leyti erfitt uppdráttar, til dæmis börn með einhverfu eða með ofvirkni og athyglisbrest. Það dregur úr kvíða og eykur sjálfstjórn og þar af leiðandi getur það dregið úr félagslegri einangrun og óæskilegri hegðun eins og árásargirni.

Það mætti segja að jóga sé orðinn hluti af lífi margra barna frá því í móðurkviði en meðgöngujóga er ákaflega vinsælt meðal verðandi mæðra. Það er talið geta hjálpað bæði á meðgöngu og ekki síður í fæðingunni. Öndunin sem þar er kennd hjálpar við að beina athyglinni inn á við auk þess sem jóga eykur líkamsvitund og auðveldar konum í fæðingu að treysta líkamanum til að gera það sem hann er hannaður til að gera, sem hjálpar þeim að slaka á. Að sjálfsögðu geta fæðingar farið á alla vegu en jóga felst ekki síst í að sleppa takinu og taka við öllu því sem lífið færir okkur, gera okkar besta með það sem við höfum í hvert skipti.

Frá því börnin eru 6 – 8 vikna er hægt að stunda svokallað mömmujóga og eftir mömmujóga tekur svo við barnajóga sem hentar börnum frá 6 mánaða aldri. Líklega hefur jóga fyrir svo ung börn ekki meiri eða betri áhrif á þau en önnur hreyfing á þessum aldri en það er vissulega ein tegund af mjúkri hreyfingu sem mælt er með fyrir ungbörn.

Jóga er frábær blanda af hreyfingu og andlegri heilsurækt og hentar flestum þeim sem áhuga hafa. Ef vel er staðið að kennslunni getur hún verið sterkur grunnur fyrir börn til að byggja á fyrir líkamlega og andlega færni en jóga er ekki síst stórskemmtilegt og góð æfing í gleði og leik.

Frekari upplýsingar:          

http://www.koreascience.or.kr/article/ArticleFullRecord.jsp?cn=TJHOBI_2011_v1n1_4.1

http://www.parents.com/fun/sports/exercise/the-benefits-of-yoga-for-kids/

http://www.yogajournal.com/article/family/yoga-kids/

Börn og skilnaður

Börn og skilnaður

Það getur oft og tíðum verið flókið að vera barn og hvað þá skilnaðarbarn. Börn eiga yfirleitt erfitt með að setja það í orð hvernig þeim líður og jafnvel á vanlíðan það til að brjótast út í slæmri eða óæskilegri hegðun.

Þau hafa ekki hugmynd um hvernig þau eiga að tjá tilfinningar sínar og upplifa oft kvíða og vanlíðan tengda óöryggi og nýjum aðstæðum. Sum flytja úr hverfinu sínu, þurfa að skipta um skóla og aðlagast öðru umhverfi. Það er mjög mikilvægt í öllu þessu ferli að gera ekki lítið úr upplifun barnsins þíns og ofar öllu þarftu að hugsa um það sem er því fyrir bestu. Einnig þarf að hafa í huga að þarfir barnsins þíns eru ekki endilega það sem hentar þér best.

Ég fann þennan lista um börn og skilnað og langaði að láta hann fylgja með. Því miður kemur ekki fram hver er höfundurinn að þessum lista en ég vona að sá hinn sami hafi haft það að leiðarljósi að sem flestir læsu hann.

Börn og skilnaður

Eftirfarandi er listi yfir helstu atriði sem foreldrar þurfa að vera vakandi yfir í fari barna sinni eftir skilnað.

  1. Hegðunarerfiðleikar (t.d hætta að hlusta og gegna, fá “köst” uppúr þurru).
  2. Draga sig inn í skel/einangra sig.
  3. Breytingar í hegðun í skóla/leikskóla.
  4. Borða minna eða meira.
  5. Sofa minna eða meira.
  6. Kvíði (t.d hegðunarerfiðleikar, eirðarleysi, pirringur, magaverkir,eða einbeitingarskortur).
  7. Þunglyndi (t.d grátur, dapurleiki, upplifa litla ánægju, pirringur).
  8. Viðkvæmni (stuttur þráður, aukinn grátur) og sektarkennd.

Munið þetta:

Ofangreint magnast upp og verður meira vandamál ef foreldar ná ekki að viðhalda góðum samskiptum við hvort annað eftir skilnað. Allar rannsóknir á afleiðingum skilnaðar fyrir börn sýna fram á það. Leggið því mikla áherslu á að halda kurteisum og yfirveguðum samskiptum ykkar á milli og þá sérstaklega fyrir framan barnið/börnin, þó það geti stundum verið erfitt.

Mikilvægt er að taka alvarlega allar breytingar sem fram koma á þessum lista og þú tekur eftir, þú þekkir barnið þitt best! Eðlilegt er að eitthvað af þessu komi fram í stuttan tíma en það er vandamál ef breytingin varir lengur en í nokkrar vikur. Ef það gerist er komin tími til að gera eitthvað í málinu.

Samvera með barninu skiptir mestu á þessum tímamótum. Það að leika inni í herbergi, lita á eldhúsborðinu eða elda saman veitir barninu þínu öryggi. Það þarf ekki að eyða peningum í utanaðkomandi skemmtanir þó að það sé gaman öðru hvoru.

Talaðu við barnið þitt reglulega um líðan þess og aldrei gera lítið úr tillfinningum þess þegar barnið tjáir sig um þær. Talaðu oft um tilfinningar og gerðu barninu þínu ljóst að þær eru eðlilegur hluti af þeim sem einstaklingum, ekki hættulegar en þurfa ekki alltaf að stjórna.

Pin It on Pinterest