Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Sólveig María Svavarsdóttir er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands. Ásamt því að sinna móðurhlutverkinu að mikilli natni heldur hún úti skemmtilegum reikningi á Instagram sem heitir Útivera og börnin.

Við heyrðum í Sólveigu og spurðum hana hvaða áherslur hún væri með á síðunni sinni þegar kemur að útisamveru með börnum: „Á síðunni legg ég áherslu á útiveru, hægan lífstíl og núvitund. Útivera er stór hluti í uppeldi barna minna og sýni ég á síðunni meðal annars frá útiverum okkar og gef öðrum hugmyndir að útiveru. Útiveran þarf ekki að vera flókin en getur gefið bæði foreldrum og börnum mikið. Ég legg áherslu á að minna fólk á að staldra við og gefa augnablikinu sérstakan gaum. Mér finnst mikilvægt að gefa börnum frelsi og rými til að upplifa og kanna. Útbúa börnin vel og leyfa þeim svo að vaða út í næsta poll eða drullumalla að vild. Eins er mikilvægt fyrir okkur fullorðna fólkið að muna að staldra við, vera í meðvitund og jafnvel prófa að upplifa með börnunum! Börn eru svo miklir núvitundarkennarar,” segir Sólveig. 

Hér eru nokkrar hugmyndir sem Sólveig gaf okkur hjá Mömmunni að útiveru út frá þessari árstíð. 

Það eru kannski ekki allir sem eru til í að leyfa börnunum sínum að leika í pollum, en af hverju ekki „gó wild” eins og einu sinni! Það að fara með börnin út í gönguferð og leyfa þeim að leika sér í pollum, vötnum, ám getur verið stórkostleg upplifun fyrir þau og geggjuð núvitund. Þá skiptir máli að klæða sig rétt og vel eftir veðri. 

Að setja upp góðar aðstæður fyrir leik úti getur skipt miklu máli. Börn geta leikið sér tímunum saman með vatn, sand og mold. Það er mjög sniðugt að fara á nytjamarkaði og kaupa gamalt eldhússdót í leik. Þá er hægt að baka drullukökur, búa til súpur, kaffi og allt sem hugurinn girnist. 

Að fara í skógarferð er dásamleg upplifun. Að eyða hálftíma í grænu umhverfi getur gert mikið fyrir andlega líðan og líkamlega líðan. Það er sannað að grænt umhverfi getur haft mikil áhrif á streitu og róað taugakerfið. Það er upplagt að leyfa börnunum að klifra í trjám, æfa jafnvægið á mismunandi undirlagi eða taka með sér greinar og köngla heim í föndur. 

Að borða úti er enn betra en borða inni. Að baka og taka kaffitímann úti getur verið svo hressandi. Gönguferð með nesti á leikvöll er einföld hugmynd en getur gefið svo mikið! 

Nú er upplagður tími til að setja niður fræ með börnunum. Það getur gefið þeim svo mikið að rækta sitt eigið grænmeti ásamt því að það eykur umhverfisvitund þeirra. Það þarf ekki að vera flókið – til dæmis ein tómataplanta út í glugga, gulrætur í garði eða salat á svölum.

Sólveig er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands.

Mamman mælir með að kíkja á heimasíðu Hæglætishreyfingu Íslands www.hæglæti.is og hér fyrir neðan er hægt að klikka á samfélagsmiðla hnappa Útivera & börnin á Instagram og Hæglætishreyfingu Íslands á Facebook.

 

Hvenær á að færa barnið úr rimlarúmi í stærra rúm?

Hvenær á að færa barnið úr rimlarúmi í stærra rúm?

Hvenær á að færa barnið úr rimlarúmi í stærra rúm?

Það er enginn sérstakur tími heilagur hvenær færa skal barn úr rimlarúmi yfir í venjulegt rúm, þrátt fyrir að flest börn skipti frá aldrinum eins og hálfs til þriggja og hálfs.

Það er oftast best að bíða þar til barnið nálgast þriggja ára aldurinn þar sem mörg lítil hjörtu eru ekki tilbúin í þessa breytingu. Auðvitað þarftu samt að færa barnið þegar það er orðið of stórt eða hreyfir sig of mikið fyrir rimlarúmið.

Margir foreldrar skipta því þeir eru hræddir við að smábarnið klifri eða hoppi úr rimlarúminu – og það getur verið hætta á ferð. Það er samt best að bregðast ekki við klifri eða slíku með einhverri skelfingu.

Ekki flýta þér út og kaupa rúmið í fyrsta sinn er barnið klifrar upp úr rúminu. Það kann að vera að það sé ekki tilbúið að skipta og það gæti skapað hættu ef það er vakandi og á ferðinni þegar aðrir eru steinsofandi. Kauptu þér smá tíma með því að færa dýnuna í neðstu stillingu þannig rimlarnir séu hærri og erfiðara sé að klifra upp úr því.

Önnur ástæða þess að foreldrar vilja skipta yfir í rúm er þegar von er á systkini. Ef þetta er raunin skaltu skipta sex til átta vikum áður en nýja barnið kemur. Þú vilt að smábarnið sé vel vant nýja rúminu áður en það sér systkinið taka yfir „hans“ eða „hennar“ rúm. Það fer auðvitað eftir aldri barnsins en svo væri einnig hægt að bíða með breytinguna þar til nýja barnið er þriggja eða fjögurra mánaða gamalt. Nýja barnið mun hvort eð er sofa í vöggu þannig eldra barnið þarf að venjast líka og það verður þá einfaldara að skipta yfir í stærra rúm þegar það gerist.

Vertu viss um að skipta um rúm þegar barnið er tilbúið frekar en það þurfi að „losa“ rimlarúmið. Margir foreldrar hafa komist of seint að því að einfaldara hefði verið að fá lánað annað rúm eða kaupa heldur en að færa það áður en barnið varð tilbúið í það.

Sum börn eiga mjög auðvelt með þessa breytingu á meðan öðrum finnst það erfiðara. Öll börn eru einstök og engin ein rétt leið. Það er samt ekki óalgengt að fyrsta barn muni vera ósátt við breytinguna. Það kann að vera mjög háð rúminu sínu. Þetta er samt bara eitt af því sem smábarnið þarf að venjast, enda mikið um breytingar á þessu aldri – fara að nota klósett, byrja í leikskóla og fleira.

Ef nýtt barn er á leiðinni gæti eldra barnið verið mjög passasamt um sína hluti, líka rúmið. Ef barnið á eldri systkini finnst því kannski ekkert mál að fara í venjulegt rúm þar sem eldri systkinin eru í slíkum rúmum. Þau eru kannski spennt að færa sig úr „barnarúminu“ í rúm fyrir stóra krakka!

Til að gera breytinguna einfaldari, settu nýja rúm barnsins á sama stað og rimlarúmið var. Kannski viltu hafa teppið úr eldra rúminu í því nýja, það kann að veita barninu öryggi. Ekki gleyma að hafa öryggisgrind á nýja rúminu svo barnið detti ekki úr því.

Þú getur gert barnið spennt fyrir nýja rúminu með því að fara með því í búð að velja rúmið eða sýna því, ef þú færð það notað. Leyfðu barninu að velja sængurföt og hvettu það til að sýna vinum og fjölskyldu nýja rúmið þegar þau koma í heimsókn.

Ef þú sérð að þú hefur skipt of snemma og barnið er í uppnámi, leyfðu því samt að hafa sinn gang í einhvern tíma. Hvettu barnið til að nota rúmið. Ef það er enn í uppnámi eftir einhverja daga, leyfðu því að sofa í rimlarúminu.

Sum smábörn eru bara ekki tilbúin í venjulegt rúm. Það þarf ákveðinn þroska fyrir barnið að átta sig á að það þarf að dveljast í þessu rúmi og má ekki bara fara á flandur. Ef barnið á allt í einu í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, þarf oft að fara fram úr, fer á flandur eða annað er það kannski ekki tilbúið fyrir sitt eigið rúm.

Eins og með að venja á kopp er stundum þess virði að taka eitt skref aftur á bak og reyna aftur seinna. Vertu bara viss um að þú kynnir rimlarúmið ekki aftur til sögunnar sem einhver vonbrigði eða refsingu.

Að lokum, mundu að þessi breyting er líka þér mikils virði. Barnið þitt er að stækka! Mundu þegar þú settir barnið í rimlarúmið í fyrsta sinn. Þetta gerist svo hratt – njóttu þess líka.

Þegar brjóstagjöf gengur ekki upp

Þegar brjóstagjöf gengur ekki upp

Þegar brjóstagjöf gengur ekki upp

Rannsóknir sýna að níu af hverjum tíu konum reyna alltaf fyrst að gefa börnum sínum brjóst. Flestar mæður vilja hafa börnin sín á brjósti. Því miður, stundum þvert á óskir okkar, vonir og tilraunir, gengur brjóstagjöf ekki upp.

Margar mæður upplifa djúpan missi þegar þær geta ekki gefið barnið sínu brjóst, annaðhvort alls ekki eða þegar þær geta það ekki jafn lengi og þær hefðu óskað.

Það er eðlilegt að vera döpur og finna fyrir sorg og samviskubiti. Það er mikilvægt að leyfa sér að upplifa þessar tilfinningar. Það getur verið að þér finnist reynslan hafa verið slæm og þú hafir ákveðið allt annað. Þrátt fyrir að þú hafir gefið barninu brjóst í stuttan tíma, jafnvel bara nokkra daga, er það dýrmæt gjöf sem þú getur verið ánægð með.

Það getur tekið einhvern tíma að ná sátt aftur. Að ræða við þína nánustu, s.s. vini, maka eða fjölskyldu um málið getur alltaf verið gott. Þú getur einnig rætt við ljósmóður eða lækni til að fá tilfinningalegan og andlegan stuðning.

Næstum allar mæður byrja á brjóstagjöf en minna en helmingur barna eru ekki 100% á brjósti eftir fjóra mánuði. Stundum er það vegna þess að konur fá ekki réttar upplýsingar eða réttan stuðning á réttum tíma.

Börn yngri en 12 mánaða þurfa brjóstamjólk eða þurrmjólk til að vaxa og þroskast. Ef þú ert ekki að gefa barni þínu brjóst getur þú:

  • Mjólkað þig
  • Notað þurrmjólk
  • Fengið brjóstamjólk frá annarri móður
  • Notað blöndu af ofangreindu

Stundum hefja mæður brjóstagjöf aftur eftir hlé. Með þolinmæði og ákveðni (og samvinnuþýðu barni) getur móðirin oft náð upp mjólkurbirgðum á ný og það getur gengið ágætlega.

Taka tvö

Margar konur geta gefið næsta barni sínu brjóst þrátt fyrir að það hafi ekki gengið upp áður.

Það sem getur hjálpað er að ræða við brjóstagjafaráðgjafa eða lært á netinu eða námskeiðum.

                                                                                               Heimild: Australian Breastfeeding Association 

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Hvenær eru börn tilbúin að vera ein heima?

Að treysta barninu einu heima í húsinu með öllu sem því fylgir er stórt skref, sérstaklega milli aldursins 9-12 ára – barnið er ekki barn lengur en ekki orðið unglingur.

Það hefur vissulega sína kosti að skilja barnið eftir heima að sjálfsögðu, eða láta það gæta yngri systkina. Þarna ertu að treysta barninu og það lærir ábyrgð. Það gæti líka verið huggulegt að komast út að borða með vinkonunum eða makanum barnlaus, svona til tilbreytingar!

Þannig – hvenær er í lagi að skilja barnið eftir eitt heima? Hvenær eru börn tilbúin að passa? Sérfræðingar segja að svörin við þessum spurningum velti á þroska barnsins og aðstæðum ykkar.

Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga áður en þessi ákvörðun er tekin:

Fullorðinsmælikvarðinn

Engin lög eru á Íslandi um hvenær börn „mega“ vera ein heima. Ákvörðunin er foreldranna. Það er augljóst að þú skilur ekki fimm ára barn eftir eitt heima..en hvað með 11 eða 12 ára barn?

Flestir sérfræðingar eru sammála um að aldurinn 10-11 ára sé í lagi, að skilja barnið eftir í stuttan tíma í senn (minna en klukkustund) að degi til, svo lengi sem barnið upplifir ekki ótta og þú telur að það sé orðið nægilega þroskað.

Svo gætu liðið eitt eða tvö ár þar til barnið er eitt heima að kvöldi til.

Hvar þið búið getur líka haft áhrif á þetta. Búið þið í rólegu íbúðarhverfi eða annasömu?

Eruð þið með þjófavarnarkerfi? Kann barnið á það?

Getur barnið fylgt einföldum reglum og skilur það þær, s.s. að læsa dyrum og opna ekki fyrir ókunnugum?

Telur þú barnið þitt hafa góða dómgreind í öðrum kringumstæðum?

Eru vinir, nágrannar eða fjölskyldumeðlimir í nágrenninu sem gætu brugðist við, komi eitthvað upp á?

Er barnið þitt ábyrgðarfullt? T.d. klárar það heimavinnu án þess að vera ýtt á það, gerir það einföld húsverk?

Hvað finnst barninu sjálfu um að vera eitt heima?

Húsreglur

Ef þú hefur svarað flestum eða öllum spurningum ofangreindum játandi gæti barnið þitt verið tilbúið að vera eitt heima.

Áður en þú ferð í fyrsta skipti skaltu búa til reglur varðandi eftirfarandi atriði:

Hvað á að gera ef dyrabjallan hringir? Síminn hringir?

Hversu lengi má barnið vera í tölvunni eða horfa á sjónvarpið?

Að láta barnið passa yngri systkini

Sum börn hafa þroska til að passa önnur börn frá 11-13 ára aldri. Stundum er betra að bíða ef maður er ekki viss.

Áður en þú lætur barnið þitt passa, skaltu spyrja sömu spurninga og þú myndir spyrja manneskju sem ekki væri barnið þitt.

Allar barnfóstrur þurfa að vera:

  • Ábyrgar
  • Fullorðinslegar
  • Geta tekið góðar ákvarðanir
  • Fylgja reglum
  • Höndla vel valdið án þess að misnota það
  • Geta höndlað óvænt atvik án æsings
  • Best væri einnig að barnið kynni fyrstu hjálp, en barnfóstrunámskeið eru mjög góð og í boði.

Húsið tilbúið

Hafðu húsið í standi og eins barnvænt og hægt er til að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur þegar þú ferð út.

Til dæmis er gott að búa til símanúmeralista með þínu númeri, náinna ættingja, nágranna og auðvitað 1-1-2.

Einnig er gott að ræða við unglinginn hvað hann myndi gera ef upp kæmi neyðartilfelli s.s. eldsvoði. Láttu hann vita hvar sjúkrakassinn er og kenndu honum á hann.

Hafðu hollan mat handhægan. Ef þarf að nota eldavél eða örbylgjuofn skaltu vera viss um að unglingurinn kunni á þau tæki.

Áður en þú leyfir unglingnum að passa eða vera einn heima er ágætt að fara yfir þau atriði sem huga þarf að – t.d. ef einhver ókunnugur bankar upp á, ef systkinið tekur bræðiskast eða önnur atriði sem þér finnst vert að taka fram.

Farðu í fyrsta sinn eitthvert stutt, um hálftíma eða svo. Ræddu svo hvernig gekk. Ef allt gekk vel má lengja tímann í hvert skipti.

Passaðu að þegar þú ferð út sé síminn handhægur. Ef þig langar að „tékka inn“ skaltu hafa símtöl og skilaboð í lágmarki til að sýna unglingnum að þú treystir honum og getir notið þess að vera að heiman.

Heimild: WebMD

Pin It on Pinterest