Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

 

Byrjun skólaársins er frábær tími til að „endurmóta“ viðhorf barnanna okkar. Börnin þurfa oft að byrja í nýjum árgangi, nýjum skóla jafnvel þannig þau geta glímt við alls konar efasemdir um sig sjálf og þau þurfa því að vera örugg með sig. Til að þrífast, bæði tilfinningalega sem og í náminu sjálfu, þurfa börn bæði að trúa á hæfileika sína og einnig skilja hverjir hæfileikar þeirra eru.

Það er skiljanlegt að foreldrar óski þess heitast að verja börn gegn mistökum og að þau upplifi ekki höfnunartilfinningu eða að þau hafi brugðist. Þau þurfa samt rými til að „melta“ þessar tilfinningar – því þannig læra þau. Að læra af slíkum mistökum eða einhverju tilfinningalegu uppnámi af einhverju tagi mun hjálpa þeim að þroskast og fullorðnast. Með ferðalaginu í gegn um þeirra eigin styrk- og veikleika þróa börnin með sér heilbrigða sjálfsmynd

Með heiðarleika, gagnsæi og einlægni getum við hjálpað börnunum okkar í gegnum nýja skólaárið með frábærum árangri.

Hér eru nokkur ráð sem foreldrar af vefnum Parents.com gefa öðrum foreldrum! 

Litlir Post-it miðar

„Að skrifa til barnanna minna er ein leið sem ég nota til að tengjast þeim,” segir faðir einn. „Ég tengist þeim og eykur sambandið við þau í gegnum miða sem ég set í nestið þeirra. Það gefur þeim sjálfstraust og kraft til að átta sig á að þau eru mikils virði og það er einnig áminning um ástina sem bíður þeirra þegar þau koma heim.“

Jákvæðar staðhæfingar

Staðfestingar (e. affirmation) eru kort með jákvæðum staðhæfingum sem börn geta lesið og sagt upphátt. Þetta má nota sem daglega núvitundaræfingu eða verkfæri til að bregðast við erfiðum tilfinningum eða reynslu. Það getur reynst vel fyrir börn að fara með slíkar staðhæfingar eins oft og hægt er. samkvæmt Psychology Today segir að því oftar sem við endurtökum jákvæðar hugsanir/staðhæfingar, því auðveldara er að minnast þeirra yfir daginn.

Húðkrem eða ilmur

Lykt eða eitthvað sem minnir á öryggi. Sjálfsöryggi þýðir að einstaklingi finnst hann vera öruggur og lykt getur hjálpað okkur að muna að við erum örugg. Hvaða ilmur eða lykt sem barnið þitt líkar við er hægt að taka með í litla flösku eða pakkningu sem þau geta lyktað af milli tíma.

Fjölskyldumynd

Sjálfstrausts„búst“ getur falið í sér að barnið er minnt á hversu elskað það er. Að vera minnt á fjölskylduna, menninguna eða arfleifðina eykur sjálfstraust og það er góð hugmynd að setja fjölskyldumynd einhvers staðar þar sem barnið getur horft á hana og fundið fyrir hlýju og öryggi.

 

Dagbók eða skipulagsmiðar

Að skrifa niður það sem þarf að gera og minna barnið á getur hjálpað því að halda sig við verkin og undirbúa sig. Þetta getur líka verið notað til að létta á barninu, sérstaklega ef það á erfitt með að skipuleggja sig eða sjá hluti fyrir fram. Að hafa eitthvert kerfi við lýði getur minnkað óvissu. Vertu viss um að dagbókin eða skipulagsmiðar séu rökréttir og innihaldi skýr skilaboð. Tilgangurinn er ekki að búa til kvíða eða ýta undir formfestu.

Miðar með umræðuefni

Ef barnið á erfitt með að halda uppi samræðum er sniðugt að búa til miða með setningum sem hægt er að spyrja að eða búa til umræðuefni.

Að lesa með barninu

Hvaða bók höfðar hvað mest til barnsins þíns? Hvernig líður því eftir lestur? Sniðugt er að finna uppáhalds bók barnsins og halda henni við með því að lesa hana reglulega. Þannig búið þið til tíma fyrir ykkur og veitir lesturinn barninu öryggi.

Föt sem börnunum líður vel í

Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þau börn sem eru „skynsegin“ en það er íslenska yfir þau börn sem hafa greiningar á taugamargbreytileika. 

Börn sem greind eru með einhverfu eða ADHD til dæmis skipta oft um föt. Þar sem föt hafa mismunandi áferð, stíla og liti er því um að ræða leið fyrir þau börn til að tjá sig. Sumir vilja ráða sjálfir í hverju þeir eru til að sýna hvernig þeim líður. Einnig má nota hárskraut, sólgleraugu, skó og mismunandi hárstíla. Svo er sniðugt að gefa þeim skartgripi sem geta sagt hvernig skapi þau eru í þann daginn.

 

Makaleit kvenna: Að finna nálina í heystakkinum

Makaleit kvenna: Að finna nálina í heystakkinum

Makaleit kvenna: Að finna nálina í heystakkinum

Upp er komin hreyfing kvenna á Facebook sem hafa ákveðið að nýta sér stefnumótaöpp með skilvirkum hætti. Þær kalla aðferðina „The Burned Haystack Dating Method“ sem gæti útlagst á hinu ylhýra eitthvað á borð við aðferðina við að brenna heystakkinn til að finna ákjósanlegan maka. 

Jennie Young var fimmtug þegar hún ákvað að hún vildi láta reyna á stefnumótaöpp til að finna sér maka: „Ég var uppfull af hryllingi. Kvöld eftir kvöld fann ég hvað ég var að missa kjarkinn, flettandi í gegnum „match-in“ mín og samræðurnar með öllum klisjunum sem ég hafði heyrt um en vissi í raun ekki að væri raunveruleikinn. Mennirnir með fiskana, „seiðandi“ baðherbergissjálfurnar og svo allir mennirnir sem voru giftir og voru að „kanna markaðinn,““ segir hún í viðtali við Huffpost. 

Jennie var ekki í leit að skyndikynnum þannig henni virtist ómögulegt að finna mann við hæfi og taldi aldurinn ekki vera að vinna með sér: „Ég hélt þetta yrði allt í lagi því giftu vinkonur mínar sögðu mér að ég liti vel út þrátt fyrir aldur, en það sem ég fattaði ekki var að menn á mínum aldri vildu ekki vera í sambandi með konu á mínum aldri. Þeir vildu þrítugar konur.“ 

Jennie gafst samt ekki upp strax, það hlutu nú að vera álitlegir, almennilegir menn sem vildu bara eina konu og vildu það sama og hún í lífinu. „Mér hlaut að yfirsjást eitthvað augljóst með þessi stefnumótaöpp, þetta gat ekki verið allt svona. Ekkert af þeim ráðum sem ég fletti upp á netinu gerðu nokkurt gagn í að finna nálina mína í heystakkinum.“ 

Þannig Jennie gafst ekki upp og eitt kvöldið þegar hún var orðin rangeygð af „svæpi“ og „skrolli“ gúglaði hún í gamni: „Hvernig finnur maður nál í heystakki?“ 

Hún segir: „Ég var nú bara að grínast en þegar ég sá svarið rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Svarið var – til að finna nál í heystakki þarftu að brenna heyið. Það sem eftir er, er bara nálin, því nálin er úr málmi og brennur því ekki.“ 

„Ég vissi að þetta hlyti að vera lykillinn,“ segir Jennie. „Að pikka út strá og strá til að finna eina nál er yfirgnæfandi stórt og tímafrekt verkefni. Mér skilst að yngri konur noti Tinder eins og hobbý eða leik, og þær eru ekki alltaf að leita að „hinum eina rétta.“ Mér fannst ég ekki hafa þannig tíma. Ég vildi brenna heystakkinn og finna nálina mína.“

Þannig Jennie bjó til örfáar, einfaldar reglur fyrir leitina sem, að hennar sögn, breyttu öllu: „Ég varð mjög hörð á því hvað ég vildi og hvern ég vildi tala við þannig 100% af mínum tíma fór í að tala einungis við menn sem höfðu sömu gildi og markmið og ég.“

Fimm dögum seinna fann Jennie „nálina“ sína: „Við lokuðum bæði öllum stefnumótaöppunum okkar eftir fyrsta stefnumót (kannski ekki ráðlegt, en hvað get ég sagt, þannig var það). Hann var allt sem ég vildi: fyndinn, góður, stabíll, fjölskyldumaður, góður í sínu fagi og algerlega til í að vera bara með einni konu. Við vorum í sambandi í tvö ár og af ástæðum sem eru of flóknar til að fara út í hér gekk sambandið ekki upp. Hann er samt einn af mínum bestu vinum og ég myndi ekki vilja skipta þessari reynslu út fyrir nokkuð annað.“ 

Jennie langaði samt enn í maka. Þegar hún fór aftur af stað í makaleitina ákvað hún að móta aðferðina betur og deila henni með öðrum: „Þetta var svona mín femíniska bylting og smá í anda Ghandi að „vera breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.“ Einnig vildi ég opna augu fólks fyrir því að fólk á miðjum aldri kann ekkert að haga sér í þessum skelfilega heimi stefnumótaappanna. Konur af okkar kynslóð kunna að sjálfsögðu að nota netið og öpp en við erum með of skarpan heila til að falla fyrir nokkru kjaftæði.“

Þannig varð Facebookhópurinn „Burned Haystack Dating Method” til þar sem nú eru fleiri hundruð konur, flestar yfir fertugu að gefa hverri annarri ráð. 

10 reglur aðferðarinnar: 

Við tölum bara við menn sem komast vel að orði og tala ekki einhverja vitleysu

Þeir vísa í prófílinn okkar (að þeir hafi í raun og veru lesið hann)

Menn sem átt í raunverulegum samræðum fram yfir „hey sæta, hvað segist“ 

Menn sem eru að borga fyrir aðganginn að appinu*

Við neitum að vera pennavinir

Neitum að rífast við menn eða eyða tíma og orku í skammir eða álíka (þó þeir eigi það kannski skilið, marga konur verða fyrir áreiti og jafnvel ofbeldi á þessum öppum)

Í staðinn BLOKKUM við þá bara

Ef samræður eru ekki á leiðinni neitt, þrátt fyrir að þær séu ágætar og ekki er möguleiki á hittingi innan viku eða tveggja vikna blokkum við þá

„Block to burn“ er orðin einskonar mantra í hópnum þar sem blokkun á stefnumótaöppum er eini möguleikinn til að hætta samskiptum og þú þarft ekki að sjá aftur þá sem þú hefur afgreitt. Þannig þarf appið einnig að sýna nýja menn í staðinn. 

Jennie segir: „Að nota þessa aðferð er virkilega að borga sig. Við erum allt í einu að hitta menn sem sýna okkur virðingu og hafa alvöru samband í huga og við erum í alvöru að fara á mjög góð stefnumót. Auðvitað þarf gagnkvæm hrifning að myndast milli þessara tveggja einstaklinga, það er sennilega engin aðferð til að tryggja slíkt. En reglurnar tryggja að þó að við höfum ekki endilega hitt sálufélagann erum við að hitta frábæra menn og njótum þess.“

Ef eitthvað virkar ekki eru allskonar konur í hópnum, vel menntaðar og geta oft gefið góð ráð. Hópurinn er meira sjálfshjálparhópur með öðrum og oft er mikið fjör að fylgjast með umræðum. Konur eru konum bestar að þeirra mati og þar má finna samansafn kvenna af ýmsum þjóðernum sem eru hoknar af lífsreynslu og tala af reynslu. Þær byggja upp vinskap, skiptast á skoðunum og hlæja mikið.

„Markmiðið er í raun að gefa ráð sem allir geta nýtt sér. Við erum miðaldra konur á stefnumótamarkaðnum en reglurnar eru eitthvað sem allir í makaleit ættu að gera nýtt sér, burtséð frá aldri, kyni eða kynhneigð. Að fylgja þessum reglum lætur okkur hægja á okkur, nýta okkur núvitund, vera heiðarlegar og almennilegar – bæði við fólk sem við hittum og líka okkur sjálfar. Það er líka valdeflandi, við verðum sterkari og verjum okkur sjálfar á þá vegu sem er skapandi og heilandi. Að gera þetta í hóp ýtir enn frekar undir þessi jákvæðu áhrif, að sjálfsögðu,“ segir Jennie að lokum.

Jennie Young er rithöfundur og prófessor við háskólann í Wyomingríki í Bandaríkjunum.

Klikkaðu á samfélagsmiðlamerkin hér fyrir neðan til þess að sjá Instagram og Facebook síður Jennie.

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Að finna rétt jafnvægi þegar börnin fara að heiman, eða „fljúga úr hreiðrinu“ getur reynst mörgum foreldrum erfitt. Það fer hins vegar eftir því hversu tengd/ur þú ert börnunum, hversu erfitt eða auðvelt aðskilnaðurinn kann að vera.

Þið óluð upp börn og lögðuð mikið á ykkur og svo kemur að því að þau finna sér íbúð, fara í samband eða flytja af landi brott. Ánægjulegt, eða hvað? Kannski ekki alltaf. Börnin finna líka fyrir söknuði og eiga einnig erfitt með að fara frá heimilinu, kannski fyrir fullt og allt. Mörgum foreldrum reynist þetta erfitt og kvíðvænlegt. Hvað ef allt verður ekki í lagi? Hvað getum við gert?

Samkvæmt Psychology Today er ráðlagt fyrir foreldra að greina hvernig tengslin eru áður en ungmennið flytur að heiman eða þegar sú staða kemur upp.

Öruggir foreldrar

Öruggir foreldrar eru þeir sem eru hvað farsælastir í þessum stóra „aðskilnaði“ og halda sambandi og hvetja ungmennið til að kanna nýjar slóðir. Þessir foreldrar horfa á heiminn sem öruggan stað og hafa sterk félagsleg tengsl og hafa ekki miklar áhyggjur að missa tengsl við börnin sín. Þar sem foreldrarnir eru andlega sterkir er líklegt að hið brottflutta ungmenni sé það einnig. Þessi ungmenni eru einnig líklegri til að vera sjálfstæðari og halda sínum sérkennum og eru þar af leiðandi líklegri til að standa sig vel í skóla sem og lífinu almennt.

Forðunarforeldrar

Þeir foreldrar sem eiga til að forðast átök eða afgreiða hlutina fljótt geta saknað barnanna sinna í fyrstu en aðlagast nýjum raunveruleika fljótt. Í sumum (öfgafullum) tilfellum geta þau jafnvel fagnað því að hafa fengið líf sitt til baka og gera það jafnvel opinberlega. Um leið og börn þeirra flytja að heiman eru þeir líklegri til að halda áfram með líf sitt og eru ánægðir með að börnin þeirra hafi samband við þá, en ekki öfugt. Ef barnið hefur samband varðandi félagsleg mál eða særðar tilfinningar getur verið að foreldrið hafi ekki áhuga á að ræða þau mál en annað virðist vera uppi á teningnum þegar barnið ræðir keppni af einhverju tagi, eða það er að klífa metorðastigann. Þeir foreldrar eru líklegir til að blanda sér í málin og eru jafnvel stjórnsamir. Vegna þess hve árangursdrifnir þeir eru getur verið að þeir hafi samband við barnið bara til að fá að frétta af árangri þess. Hins vegar upplifir barnið þetta sem sjálfselsku þar sem foreldrarnir eru ekki mjög áreiðanlegir og veita barninu ekki þann stuðning sem það þarfnast.

Uppteknir eða kvíðnir foreldrar

Þeir foreldrar sem eru mjög uppteknir í daglegu lífi eða glíma við kvíða eru líklegastir til að upplifa depurð eða missi þegar börn þeirra flytja að heima. Þeir eru líklegir til að sakna sambandsins sem þeir áttu við barnið (jafnvel þótt sambandið hafi ekki verið sérlega gott). Þessir foreldrar hafa áhyggjur af samböndum og vilja að þeir séu elskaðir og fólk þurfi á þeim að halda og þar af leiðandi eiga þeir erfiðara með að sleppa hendinni af barninu. Þeir vilja oft fá meiri athygli frá barninu og það sé alltaf í sambandi og þeir séu minntir á það góða í sambandi þeirra og vilja vera nálægt því. Þeir eru einnig líklegri til að hafa áhyggjur af félagslífi barnsins og einnig frammistöðu þess í skóla eða í vinnu. Í sérstökum tilfellum getur slíkt gengið út í öfgar; þeir geta verið allt of afskiptasamir eða „hangið í“ barninu. Þetta getur orsakað að barnið vill ekki kanna heiminn og/eða verið ósjálfstætt, þar sem foreldrið hindrar barnið í sjálfstæði.

Óttaslegnir foreldrar

Þessir foreldrar eru ólíkir hinum því þeir eru bæði kvíðnir og forðast náin sambönd. Þeir geta farið frá því að vera of nálægt barninu og svo algerlega lokast og vilja ekki nein samskipti. Í öfgafyllri dæmum geta þessir foreldrar orðið fjandsamlegir, jafnvel, og ásaka barnið um afskiptaleysi eða væna það um að elska þá ekki. Eins og sjá má, er þetta mynstur líklegt til að valda barninu mikilli streitu og ábyrgðartilfinningu og getur það sveiflast frá því að finnast það vera eitt í heiminum og afskiptalaust. Slíkar uppeldisaðstæður bjóða upp á að barnið verði síður sjálfstætt og sé hrætt við að kanna heiminn.

Að horfast heiðarlega í augu við sig sjálfa/n getur látið þig sjá hvers konar foreldri þú ert og hvernig samskiptum við barnið þitt er háttað. Börnin okkar verða líklega ekki heima að eilífu þannig það er ekki úr vegi að athuga hvort hægt sé að breyta um „taktík“ til að aðskilnaðurinn verði sem auðveldastur fyrir alla. Þrátt fyrir að sjá sjálfa/n sig í einhverju af þessum mynstrum, ekki láta það hafa áhrif á hversu oft þú hefur samband við barnið þitt eða hvernig samskiptunum er háttað. Sniðugt er að ákveða tíma í hverri viku þar sem foreldri/foreldrar og barn/börn „taka stöðuna.“ Best er að gera slíkt í persónu eða í síma, ekki í gegnum textaskilaboð.

Ekki hætta samskiptum við barnið eða refsa því fyrir að hafa of oft samband eða of sjaldan að þínu mati.

Gefðu barninu þínu tíma og rými til að finna út úr eigin lífi.

Barnið má gera mistök til að læra og halda áfram. Og þú getur svo alltaf verið til staðar þegar það snýr aftur til þín til huggunar, hvatningar og stuðnings.

 

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

Móðurhlutverkið er virkilega erfitt. Viðurkennum það bara. Við þurfum að hagræða öllu, framkvæma endalaust marga hluti og það er oft stutt í örmögnun og jafnvel kulnun. Tölum ekki um hvað er erfitt að vera jákvæðar þrátt fyrir að eiga bestu börn eða maka í heimi. Við þurfum stöðugt að taka ákvarðanir og bera ábyrgð og þessi atriði hlaðast upp þar til okkur finnst við vera að drukkna. Vð verðum úrvinda og hættum að sjá ljósið við enda ganganna. Að vera mamma er svolítið eins og að vera í áskrift að örmögnun, samviskubiti (eða mammviskubiti) eins og við sumar köllum það. 

Það eru samt ýmsar leiðir til að gera dagana auðveldari. Það er kannski ekki hægt að hagræða öllu en þessar leiðir geta haft lítil áhrif á hverjum degi sem gera heildarmyndina bærilegri. 

Hér eru 14 ráð sem ofurþreyttar mæður geta nýtt sér!

Er eðlilegt að vera örþreytt mamma?

Svarið er einfalt: „JÁ!“ Í nútímasamfélagi er það í raun afskaplega algengt. Ef þér finnst móðurhlutverkið erfitt, ertu svo sannarlega ekki ein um það. Nútímasamfélagið hefur fjarlægt okkur rótum okkar. Þegar mannfólkið bjó í litlum þorpum var allt nærsamfélagið búið til úr vinum, kunningjum og ættingjum. Mæður höfðu stuðningsnet í kringum sig, ömmur og afar voru til taks og börnin léku sér og foreldrar tóku að sér að gæta þeirra í sameiningu. Og … það þurfti ekki að vinna til að standa undir reikningum frá daggæslu barna. 

Þannig málshátturinn um að það taki þorp til að ala upp barn (e. it takes a village to raise a child) er sannur … en hvað ef við höfum ekki þetta „þorp“ í kringum okkur?

Í nútímasamfélagi þykir mæðrum þær oft bera alla ábyrgð og gera allt, og helst gera það sjálfar. Mæður sem upplifa þreytu og örmögnun eru bara venjulegar mæður. Þó við upplifum þrýsting að vera sjálfstæðar og gera allt sjálfar, er það í alvöru nauðsynlegt? Og þegar við upplifum að við séum að „drukkna“ er erfitt að flýja. En það er samt hægt að gera hlutina bærilegri og forðast algera kulnun. 

1. Viðurkenndu hvernig þér líður

Fyrsta skrefið er að tala um þessa örmögnun og tilfinningarnar sem fylgja henni. Þrátt fyrir að það sé ekkert ánægjulegt við þessar tilfinningar er fyrsta skrefið að viðurkenna þær, bera kennsl á þær, til að hægt sé að halda áfram þaðan. Það þýðir aldrei að þú sért klúðrari, hvorki sem mamma né maki (sé hann til staðar). Það þýðir bara að eitthvað sé í ójafnvægi og þú þarft að tala um þessar tilfinnigar og breyta einhverju í lífi þínu. 

Spyrðu sjálfa þig: „Hvernig líður mér?“ Ertu: reið, upplifirðu vonbrigði, útkeyrð, sakbitin? Allar þessar tilfinningar eiga rétt á sér og við verðum að taka mark á þeim. Þær eru til staðar vegna einhverrar ástæðu. Treystu og skilgreindu tilfinninguna til að læra hvað þú eigir að gera næst. Annars er bara um eina stóra tilfinningaóreiðu að ræða sem ekki er hægt að leysa út. 

2. Segðu „nei“!

Sértu uppgefin ættir þú að segja nei við öllu sem þú ert ekki viss um. Það skiptir engu þó fjölskyldu eða vinum finnist þú vera eigingjörn eða þér sé sama um þau. Þú verður að hugsa um sjálfa þig fyrst og fremst til að geta hugsað um börnin, makann og aðrar skyldur sem þú kannt að gegna. Mundu bara að það er best fyrir alla að þú sért úthvíld, glöð og sért við stjórnvölinn í lífi þínu. 

Fyrsta skrefið er að meta núverandi skuldbindingar þínar og ábyrgð áður en þú ákveður nokkuð annað fyrir sjálfa þig eða aðra til að sjá í raunsæu ljósi hvað þú getur tekið mikið að þér. Um leið og þú hefur ákvarðað hversu mikið þú getur höndlað, svo að segja, er mikilvægt að þú deilir þessum upplýsingum til þeirra sem þurfa að heyra þær til að þeir geti vitað við hverju er að búast. Þú hreinlega verður að fá þinn frítíma.

3. Taktu frá tíma í þakklæti 

Okkur yfirsést oft þakklæti þegar við erum stressaðar. Einföld lausn á þessu er að taka nokkrar mínútur fyrir okkur sjálfar til að setja hlutina í samhengi og róa taugarnar. Ef lífið er sérlega erfitt er gott að taka nokkrar mínútur til að skrifa niður þá hluti sem þú ert þakklát fyrir eða það góða sem hefur hent þig að undanförnu. Þetta snýst ekki um „eitraða jákvæðni“ (e. toxic positivity) eða að útrýma neikvæðum tilfinningum heldur er til að finna nýtt sjónarhorn á lífið til að dvelja ekki í neikvæðninni. 

4. Biddu um hjálp

Þegar þú ert aðframkomin ættirðu ekki að skammast þín fyrir að biðja þína nánustu um hjálp; foreldra eða tengdaforeldra, vini, maka þinn eða aðrar mæður. Skiptist á börnum til að létta lífið. Ekki er heldur bara nauðsynlegt að biðja um hjálp hvað börnin varðar, heldur einnig þrif, smáhluti á borð við að taka upp af gólfinu eða setja í þvottavél. Ef þú þarft er kannski sniðugt að biðja fólkið þitt um aðstoð við matseld. 

5. Farðu út á hverjum degi

Að hreyfa sig á hverjum degi getur minnkað streitu. Það er líka mikilvægt að anda að sér fersku lofti og njóta náttúrunnar, breyta um umhverfi, hreyfa sig og njóta sín. Við erum sumar hverjar duglegar að fara með börnin út í kerru þegar veður leyfir ef börnin eru það lítil. Það er nefnilega svo auðvelt að sitja allan daginn á sófanum, gefa barninu og horfa á þætti … freistandi en ekki hjálplegt! 

Það eru að sjálfsögðu óteljandi góðar ástæður fyrir hreyfingu eins og við flestar erum meðvitaðar um en það mikilvægasta er að þú njótir þess. Best er að finna æfingu sem þú nýtur. 

6. Sjálfsást

Við þurfum að hugsa vel um sjálfa okkur til að líða tilfinningalega vel. Þegar við hugsum um okkur sjálfar erum við líklegri til að hafa styrk og orku til að gera hluti fyrir aðra án þess að finna fyrir drunga eða særindum. Það er svo auðvelt að réttlæta að gera ekkert fyrir sig sjálfa þegar við höfum milljón verkefni heima fyrir og í vinnu. En þegar þú tekur tíma til að gera hluti sem endurnýja þig og gera þig glaða á ný. Þá ertu ekki bara að gefa sjálfri þér þann stuðning og ást sem allar mannverur eiga skilið, en þú ert einnig að setja gott fordæmi fyrir börnin þín 

7. Borða hollari mat

Þetta segir sig sjálft, en aldrei er góð vísa of oft kveðin! Það er að sjálfsögðu lykilatriði að vera við góða heilsu. Að viðhalda heilbrigðu mataræði hefur margt gott í för með sér, s.s. lægri blóðsykursgildi, líkamsþyngd helst í jafnvægi og lækkar kólesteról í blóði. Einnig hefur það jákvæð andleg áhrif, þannig líður þér betur og sjálfsöryggið eykst. 

Ruslfæði eða mikið unninn matur hefur neikvæð áhrif á okkur og eykur líkur á ofþyngd sem svo leiðir til heilsufarsvandamála. Léleg næring getur orsakað heilaþoku, meltingarvanda, geðrænan vanda og jafnvel getur haft áhrif á framkvæmdagleði og velgengni. 

8. Að passa upp á svefninn

Færri hafa meiri þörf fyrir góðan svefn en mæður. Þegar líkamar okkar fá ekki nægan svefn fer það fljótt að segja til sín. Þyngdaraukning, léleg einbeiting og jafnvel getur það aukið streitu og pirring. Hormónar sem hafa áhrif á matarlyst, skap, kvíða og samúð fara í algert rugl þegar svefn skortir. 

Það er hægara sagt en gert að fá nægan svefn þegar krakkarnir eru veikir, fá martraðir eða vakna kannski klukkutíma fyrr en vanalega. Prófaðu að fara sjálf í rúmið stuttu eftir að börnin sofna. Allar viljum við halda okkur vakandi og gera þá loksins eitthvað barnlausar en líkaminn mun þakka þér að morgni! Þegar þú vaknar og ert ekki þreytt hefurðu meiri tíma og orku til að hugsa um þig og þína nánustu. 

9. Settu símann niður

Það er í raun góð regla að takmarka skjátíma hjá okkur sjálfum og eyða minni tíma á samfélagsmiðlum. Við sökkvum í algóriþmann því hann er hannaður til að vekja athygli okkar. Við eigum líka til að skoða aðrar mömmur og bera okkur saman við þær, líf sem kannski er ekki einu sinni raunverulegt. 

10. Settu maka mörk

Það er ekki allt á þína ábyrgð. Þrátt fyrir meira jafnrétti og á Íslandi erum við heppnar hvað flestir eru um umræðuna um þriðju vaktina er hávær. Skiptið á milli húsverkum, skipuleggið fjölskyldutíma og þú átt alltaf rétt á klukkutíma eða meira út af fyrir þig. Eigir þú maka er líka nauðsynlegt að þið eigið tvö/tvær saman og ákveðið fyrir fram hvenær sá tími á að vera. 

11. Verðu tíma með vinkonum 

Það er alger blessun að verja tíma með konum í lífi okkar til að fá stuðning eða geta speglað okkur í. Hvort sem þær eru mömmur eður ei. Þær geta alltaf gefið okkur góð ráð sem hafa gagnast þeim. Það er nauðsynlegt að rækta vinasambönd, vera í mömmuhópum eða vera í góðum samskiptum við aðrar konur. Vinasambönd hjálpa okkur við tilfinningastjórnun, streitu og félagsleg samskipti eru okkur sérstaklega nauðsynleg þegar við erum heima með börn. 

12. Slepptu takinu

Þetta hljómar auðvelt, ekki satt? Samt er það erfiðara en að segja það! Oft höngum við á smáatriðum sem skipta kannski ekki öllu í stóra samhenginu þannig best er að velja hverju máli skiptir að berjast fyrir og hvað annað má sleppa takinu á. Notaðu hugleiðslu, staðfestingu eða sjáðu fyrir þér hvernig hlutirnir eiga að vera til að komast nær markmiðinu. 

13. Ekki „múltítaska!“

Einbeittu þér að einum hluti í einu. Eins mikið og þig langar að gera margt í einu gefur það betri raun og vellíðan að dvelja við eitt atriði í einu. Við teljum að við séum að ná svo miklu betri árangri með því að gera margt í einu og við séum að spara tíma. En það er bara blekking því heilinn þarf því að deila einbeitingu á milli verka. Þannig verðum við minna einbeittar, munum minna og náum ekki jafn miklu, sérstaklega fyrir úrvinda mömmur. 

14. Sérfræðihjálp

Það er aldrei nein skömm í því að leita sér hjálpar. Þær mæður sem upplifa fæðingarþunglyndi ættu að ræða við heilbrigðisstarfsmann hvað það varðar. Þú þarft ekki að þjást ein og mikilvægt er að leita aðstoðar áður en hlutirnir verða enn verri. 

Ef þú tengir við að vera úrvinda móðir ertu á réttum stað! Fylgdu mamman.is á Facebook og Instagram þar sem við deilum frábærum ráðum fyrir mæður.

Þýtt og endursagt af Wildsimplejoy.com 

 

 

 

Gleðiskruddan: Hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði fyrir börn

Gleðiskruddan: Hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði fyrir börn

Gleðiskruddan: Hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði fyrir börn

Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-15 ára sem byggir á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði. Það er mikilvægt fyrir börn og ungmenni að hafa tækifæri til að efla sjálfsþekkingu sína sem hjálpar þeim um leið að takast á við verkefni og áskoranir daglegs lífs. Aðferðir innan jákvæðrar sálfræði geta stuðlað að persónulegum vexti og bjóða upp á möguleika fyrir einstaklinga að blómstra. Svokölluð jákvæð inngrip eða gleðiverkfæri hafa reynst áhrifarík í að viðhalda hamingju og öðrum jákvæðum tilfinningum ásamt því að minnka einkenni þunglyndis og kvíða.

Upphaflega var bókin lokaverkefni Maritar Davíðsdóttur og Yrju Kristinsdóttur úr diplómanámi í jákvæðri sálfræði á meistarastigi. Þær fengu svo góð viðbrögð frá foreldrum þar sem bókin bæði jók hamingju og vellíðan barnanna sem og samveru barns og foreldris. Þær fundu að það væri sannarlega þörf fyrir bók af þessu tagi og héldu því áfram að stækka bókina og fór hún frá því að vera hefti í að vera 176 blaðsíðna bók. Þær fengu til liðs við sig Helgu Valdísi Árnadóttur sem myndskreytti og Matthildi Lárusdóttur til að sjá um umbrotið. Bókina gáfu þær sjálfar út í júní 2021 og hafa viðtökurnar og salan farið fram úr þeirra björtustu vonum. Fyrsta upplag Gleðiskruddunnar seldist upp á skömmum tíma og eru þær komnar langt á leið með annað upplagið.

Yrja & Marit á góðri stundu

Yrja & Marit á góðri stundu

Dagbókin telur 100 daga þar sem jákvæða inngripið þrír góðir hlutir eru í forgrunni. Þar skráir barnið niður þrjá góða hluti sem áttu sér stað þann daginn. Dögunum er skipt upp í 21 þema; tilfinningar, styrkleika, hamingju, bjargráð við streitu og kvíða, gróskuhugarfar, trú á eigin getu, sjálfstal, sjálfsvinsemd, markmið, seiglu, svefn, hreyfingu, útiveru, núvitund, öndun, að njóta, flæði, þakklæti, góðvild, bjartsýni og von. Hvert og eitt þessara þema er útskýrt á einfaldan hátt til að auðvelt sé að nýta þau í daglegu lífi.

Á hverjum degi má einnig finna gleðimola eða gleðifræ dagsins sem tengist þemanu hverju sinni í formi hugleiðinga, tilvitnana, áskorana og æfinga.

Markmið Gleðskruddunnar er að efla sjálfsþekkingu, trú á eigin getu og þrautseigju, ásamt því að auka jákvæðar tilfinningar, bjartsýni og vellíðan.

Gleðiskruddan hefur vaxið ansi hratt á fáum mánuðum og bjóða Yrja og Marit einnig upp á námskeið fyrir börn og ungmenni, bæði helgarnámskeið og lengri námskeið. Einnig bjóða þær upp á örnámskeið fyrir grunnskólanemendur sem og fyrirlestra fyrir foreldra og þá sem vinna með börnum og ungmennum. Innan skamms verða sumarnámskeiðin hjá Gleðiskruddunni auglýst en þar er lögð áhersla á gleði og að hafa gaman og er blandað saman fræðslu og leik. Ef veður leyfir er einnig farið út í náttúruna.

Nánari upplýsingar um Gleðiskrudduna og tengda starfsemi er hægt að finna á glediskruddan.is.

Gleðiskruddan er einnig á Facebook og á Instagram:

 

Pin It on Pinterest