Vissir þú að börn þurfa að hreyfa sig af mikilli ákefð í klukkustund á dag? Þú þarft samt ekki að beita neinu harðræði til að fá þau til að hreyfa sig, þú þarft bara að vera sniðug/ur!
Hér eru nokkur frábær ráð:
Gerið það saman
Kvöldmaturinn er búinn. Í stað þess að fara inn í sjónvarpsherbergi, farðu beint að útidyrahurðinni. Farið út að labba eða hjóla. Finnið körfuboltavöll, farið í eltingaleik eða dansið. Hafið umræðuefnið létt, ekki rétti tíminn til að skammast út af einkunnum eða hegðun. Ef það er gaman hjá öllum vilja allir fara út að leika aftur.
Reynið að finna klukkutíma á dag
Börn þurfa að hreyfa sig í 60 mínútur á dag. Hreyfingin ætti að samanstanda af æfingum sem reyna á hjartað (labba hratt eða hlaupa), æfa vöðvana (armbeygjur) og styrkja beinin (sippa o.þ.h.).
Þessi klukkutími þarf samt ekki að vera tekinn allur í einu. Hægt er að skipta þessu upp í nokkrar lotur. Til dæmis, ef barnið hefur farið í 40 mínútna íþróttatíma í skólanum, gerið eitthvað sniðugt í 20 mínútur um kvöldið, út að labba með hundinn eða í sund.
Að nota skrefateljara
Krakkar elska tæknidót. Að gefa barninu úr með skrefateljara getur virkilega haft góð áhrif á að það hreyfi sig meira. Enn betra er að ef allir í fjölskyldunni hafi slíkt tæki. Þá er hægt að koma með litlar áskoranir af og til eða keppni milli fjölskyldumeðlima. Hversu mörg skref eru út í búð? Hvað ertu fljót/ur að taka 80 skref? Krakkar elska að taka þátt í svona leikjum og það er ekkert nema hollt.
Að eiga rétta búnaðinn
Þú þarft ekki að eyða fúlgu fjár í búnað, þó það sé líka gaman. Hægt er að kaupa sippuband eða uppblásinn bolta sem gerir það sama. Eigðu kannski varasjóð með nýju dóti sem hægt er að leika með úti. Svo getur þú verið hetjan þegar börnunum leiðist!
Veldu umhverfið
Hljómar einfalt, en stundum þarftu að kjósa rétta staðsetningu. Farðu með börnin á róló, fótboltavöllinn eða í garðinn. Takið með ykkur nesti og vini þeirra. Þú þarft ekki að hafa mikið fyrir því, hreyfingin kemur að sjálfu sér.
Fjárfestu í íþróttatímum
Hvað sem það er, karate, tennis, jóga eða dans – getur verið frábær leið til að leyfa börnunum að verða heilluð af íþrótt. Farið í heimsókn í tíma áður en þið ákveðið ykkur og leyfið barninu að velja uppáhaldið sitt. Þannig veistu að peningunum er vel varið.
Spila tölvuleiki? Já!
Hreyfingin þarf ekki að vera óvinurinn. Ef þið eigið eða hafið aðgang að tölvu á borð við Kinect eða Wii eru þar margir leikir sem innihalda líkamsrækt, jóga, íþróttir, dans og fleira. Krakkar sem hreyfa sig í leik brenna um 200% meira en þeir sem sitja við leikinn.
Hafðu gaman
Taktu í hönd barnsins þíns og hoppaðu í lauf- eða snjóhrúgu. Þú þarft ekkert að minnast á „hreyfingu“ – hún gerist að sjálfu sér. Plantið blómum. Labbið í bókasafnið. Búið til snjókall. Hafðu skemmtunina fumlausa á hverjum degi, ekki eitthvað sem „þarf að gera.“
Vertu hvetjandi
Ef barnið þitt hefur ekki áhuga á hreyfingu um leið, ekki gefast upp. Hrósaðu því fyrir það sem það gerir. Ef barnið hefur ekki gaman af keppni, reyndu eitthvað annað, s.s. fjallgöngu eða kayak. Lykilinn er að finna það sem þeim finnst gaman. Haltu áfram að prófa mismunandi íþróttir eða athafnir. Hjálpaðu þeim að sjá að hreyfing er fyrir alla.
Finndu það sem þú brennur fyrir
Ef þú vilt sjá börnin þín hreyfa sig hjálpar það til ef þú gerir það líka. Ef þau sjá þig stunda hreyfingu sjá þau að hún er hluti af lífinu og hún er skemmtileg. Svo, hvað finnst þér gaman? Finndu það sem þú elskar og deildu því svo með börnunum. Það er allt í lagi þó þið hafið ekki verið að hreyfa ykkur mikið saman. Þið getið byrjað á því saman.
Laumaðu því inn
Til dæmis, ef þú ert að fara í verslun skaltu leggja langt frá innganginum. Sleppið lyftunni og notið stigann. Búðu til smá keppnir, hver getur tekið til fljótast eða búið til stærsta snjóskaflinn? Gríptu hvert tækifæri til að ganga, hlaupa, hoppa og leika til að gera hreyfinguna órjúfanlega hluta lífsins.
Heimild: WebMd