Bollywoodpopp fyrir sælkera-uppskrift

Bollywoodpopp fyrir sælkera-uppskrift

Poppskálin frá Lékué sem seld er í Dúka er algjör snilld sem ég kynntist um daginn. Ég hef verið að hreinsa til í mataræði mínu og hef því reynt að hafa fæðuna sem hreinasta og umfram allt þá vil ég vita hvað ég er að setja ofan í mig. Ég elska popp og hef í gegnum tíðina verið stór styrktaraðili framleiðenda örbylgjupopps sem er kannski ekki það hollasta sem til er og eins getur verið erfitt að átta sig á innhaldsefnunum í því. Ég hef hreinlega verið löt við að poppa mér sjálf popp í potti og ef ég hef brett upp ermarnar og gert slíka tilraun þá hef ég yfirleitt brennt poppið við og endað á því að þurfa að loftræsa íbúðina og henda viðbrenndu poppinu í ruslið. Þess vegna varð ég svo glöð þegar ég uppgvötvaði þessa snilldarpoppskál frá Lékué sem er úr platínum silikoni. Það eru mælieiningar í botninum sem sýna magnið af poppmaísnum og svo þarf smáklípu af smjöri eða olíu, ég t.d nota yfirleitt kókosolíu á mitt popp því hún gefur svo góðan keim, hendi svo skálinni inní örbylgjuofn í 2-3 mínútur og voila, hollt og gott popp tilbúið án aukaefna!

Eins er hægt að prófa alls konar útfærslur af poppi. Mér finnst æði að setja Herbamare kryddblöndu yfir. Í henni er hafsalt með kryddjurtum þannig að hún er einstaklega góð með poppi. En hér ætla ég að láta fylgja eina uppskrift af poppi með karrí.

Bollywoodpopp

  • poppmaís + olía eða smjör
  • 20 g  smjör
  • Tæplega 1 tsk karrí
  • 15 gr kókosmjöl stráð yfir

Poppaðu eina skál af poppi með Lékué skálinni þinni. Bræddu smjörið og blandaðu karríinu saman við. Þegar poppið er tilbúið hellir þú karríblöndunni og kókósmjölinu yfir poppið og þá er karrípoppið tilbúið. Njótið!

Þessi færsla er ekki kostuð.

 

Matur sem skal forðast með barn á brjósti

Matur sem skal forðast með barn á brjósti

Það er ekkert verra en að horfa á barnið sitt rembast og þjást og vita ekki nákvæmlega hvað er að hrjá það. Oft er orsökin einfaldlega mataræði þitt en þó er alls ekkert einfalt að finna út hvað má og hvað má ekki. Að hafa barn á brjósti er full vinna og held ég að margir geri sér enga grein fyrir hversu flókin brjóstagjöf getur verið og hversu miklar pælingar liggja á bakvið hana. Börn eru mismunandi og misviðkvæm og hvað móðir getur borðað til þess að viðhalda mjólkurframleiðslu getur verið mikill hausverkur. Ég er ein þessara mæðra sem þarf að spá í allt sem fer ofan í mig og hef þurft að gera með öll mín börn. Þrátt fyrir að vera nýbúin að eignast barn númer þrjú þá er þetta alltaf sami hausverkurinn, enda alls ekki algilt að það sem fór illa í eitt barn fari illa í annað. Það eru þó alltaf svipaðar fæðutegundir sem ég þarf að forðast og ef ég passa mig  á að vera á frekar hreinu og einföldu fæði þá gengur allt svo miklu betur. Ég ákvað að deila með ykkur þeim fæðutegundum sem eru á algjörum bannlista hjá mér en einnig aflaði ég mér upplýsinga á netinu og sá þar að aðrar mæður  hafa svipaðan lista og ég.

  • Laukur, rauðlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur eða allt sem heitir LAUKUR! Ef ég borða eitthvað með lauk í þá þýðir það andvökunótt hjá mér og barninu með tilheyrandi gráti og rembingi. Þó hefur verið í lagi að prufa mig áfram með eldaðan lauk (laukur í mat) þegar barnið er byrjað að borða.
  • Hvítkál
  • Jarðarber
  • Sítrusávextir og -safar: Appelsínur, sítrónur, lime og grape
  • Kíví
  • Ananas
  • Vínber
  • Sterk krydd t.d. karrý og chili
  • Tómat pure / paste
  • Egg
  • Gos (þá sérstaklega appelsín)

Aðrar fæðutegundir sem ég fann sem geta farið illa í börnin eru:

  • Súkkulaði
  • Kál, blómkál, spergilkál, agúrkur og paprika
  • Ávextir með hægðalosandi áhrifum t.d. kirsuber og plómur

Mér finnst mjög gott að fá mér einn og einn kaffibolla yfir daginn en ég passa mig þó á að drekka mikið vatn með, ekki er mælt með að innbyrða mikið koffín meðan þú ert með barn á brjósti.

 Þetta eru helstu fæðutegundirnar sem ég forðast. Ég er líka mjög dugleg að gera allt frá grunni sem ég fæ mér og veit ég því nákvæmlega hvað ég set ofan í mig. Það  auðveldar mér að finna út hvort ég borða eitthvað “rangt” ef lillan mín er óróleg og bæti því þá á listann minn.

Það kemur að því að ég geti byrjað að “borða” aftur en þangað til þá ætla ég og lillan mín að njóta brjóstagjafarinnar.

Elsa Kristinsdóttir

 

 

 

 

Nærðu húðina fyrir veturinn

Nærðu húðina fyrir veturinn

Mamman mælir með því að skella á sig góðum rakamaska fyrir veturinn. Nú er sólin heldur betur búin að verma okkur í sumar, allavega hér á Suðvesturhorninu og nú fara kuldaboli og haustlægðirnar að banka uppá fljótlega.

Húðin er okkar stærsta líffæri og það þarf að hugsa vel um hana allan ársins hring. Sólin hefur sín áhrif á húðina og eftir sumarið er húðin oft orðin svolítið þurr. Þegar hausta tekur og veður fer kólnandi þarf að undirbúa húðina og gefa henni gott “rakabúst” fyrir komandi vertíð. Þess vegna mælum við með því að setja á sig góðan rakamaska. Um daginn prófaði ég þennan fína rakamaska frá Dr. Braga og hann stóð svo sannarlega fyrir sínu. Ég fann bara hvað húðin mín varð hamingjusöm eftir að ég setti þennan maska á mig. Þessi maski er kannski í dýrari kantinum en vel þess virði. Hann kemur í fallegum pakkningum og inniheldur grímu sem þú setur yfir andlitið og lætur liggja á. Eftir maskann er gott að setja á sig gott serum eða næringaríkt rakakrem. Persónulega finnst mér best að setja á mig maska á kvöldin. Ég byrja á því að yfirborðshreinsa húðina vel fyrst, set síðan maskann á mig og enda svo rútínuna á góðu rakakremi eða serum fyrir svefninn, þá er húðin vel mettuð af næringu þegar maður vaknar.

Nokkrar staðreyndir um Dr.Braga vörurnar.

Þær eru:

  • Án tilbúinna rotvarnarefna

  • Án parabena

  • Án ilmefna

  • Án silíkons

  • Án glýkóls

  • Án litarefna

  • Án fituefna (lípíða)
  • 
Án lanólíns

Dr. BRAGI býður upp á nýjung hvað varðar einstaka virkni og þar sem engin óþarfa aukaefni eru notuð, eru þær með öruggustu húðvörum á markaðnum. Í vörunum er sneitt hjá skaðlegum efnum sem ekki hafa raunveruleg jákvæð áhrif á húðina. Þetta lágmarkar líkur á ofnæmis viðbrögðum við notkun og því eru þær sérstaklega hentugar fyrir einstaklinga með viðkvæma húð. Frekari upplýsingar um vörurnar: www.drbragi.is

 

Dr. Jón Bragi Bjarnason

Brakandi brjóstakökur fyrir mjólkandi mæður

Brakandi brjóstakökur fyrir mjólkandi mæður

Flestar nýbakaðar mæður kannast við stressið sem getur fylgt brjóstagjöf og velta fyrir sér hvað sé til ráða ef mjólkurframleiðslan er ekki næg. Sjálf er ég nýbökuð móðir með stórt heimili hefur mjólkurframleiðslan ekki verið sem skyldi. Eftir að hafa prufað ýmis gömul húsráð ákvað ég að leita að ráðum hjá Google. Þar fann ég geggjaða uppskrift af smákökum sem áttu að auka brjóstamjólkurframleiðsluna og ótrúlegt en satt þá flæddi mjólkin hjá mér nokkrum klukkustundum síðar. Það tók ekki nema um 15 mínútur að skella í kökurnar og um 10 mínútur að baka þær.

  • 100 gr smjör (við stofuhita)
  • 1 bolli hveiti
  • ½ bolli púðursykur
  • 1 ½ bolli haframjöl
  • 1 egg
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk möluð hörfræ (ekkert mál að mala í t.d. matvinnsluvél)
  • 2-3 tsk vatn
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk kanill
  • ½ tsk gróft salt
  • 1-2 tsk brewers yeast

Bakað við 180°í 8-10 mín.

brjostakokur1 Brewers yeast er fæðubótarefni frá t.d. NOW, en það er ekki til hér á landi (allaveganna hef ég ekki fundið það) og varð ég að sleppa því úr uppskriftinni. Samkvæmt innihaldslýsingu NOW þá er þetta tegund af geri sem er framleitt úr ákveðnu byggi sem er notað í t.d. bjórframleiðslu. Gerið hefur náttúruleg prótein ásamt B-vítamínum. Ráðlagt er að taka tvær msk daglega í mjólk eða safa. Einnig er hægt að bæta því í matreiðslu eða bakstur til að auka þar með næringargildi.

Til þess að gera kökurnar ennþá betri þá má bæta við t.d. súkkulaði, rúsínum eða einhverju öðru með. Ég bætti við sirka einum dl. af kókosmjöl og um 100 gr af þurrkuðum trönuberjum.

Kökurnar voru æðislegar og slógu í gegn hjá öllum heimilismeðlimum.

Ég mæli með því að bera þær fram með ískaldri mjólk.

Njótið!

Elsa Kristinsdóttir

Nýr lífsstíll – án öfga

Nýr lífsstíll – án öfga

Tinna Arnardóttir starfar sem hóptímakennari og einkaþjálfari hjá World Class í Egilshöll. Síðan 2009 hefur hún verið með námskeiðið Nýr lífstíll og er það eitt það vinsælasta hjá World Class. Við spjölluðum við Tinnu og fengum nánari útskýringar á námskeiðinu hjá henni og eina uppskrift.

Tinna Arnardóttir

Tinna Arnardóttir

Nýr lífstíll er námskeið fyrir konur sem þurfa að missa 15 kg eða meira. Það verður vinsælla með hverju árinu sem líður og fyllist alltaf strax. Ég hef það að sjónarmiði að nr.1, 2 og 3 sé að konur hafi gaman af því að hreyfa sig og komi hreyfingunni inn í rútínuna sína. Mataræðið er svo smám saman tekið með án þess að það séu einhverjir öfgar því tengdir.

Í því þjóðfélagi sem við búum í dag er oft lítill tími til að standa í eldamennsku og sumum finnst hreinlega ekkert gaman að elda þ.m.t. ég. Því einbeiti ég mér að einföldum uppskriftum sem eru ekki með milljón hráefni og taka helst ekki lengri tíma en 30-40 mín en eru næringagóðar og hollar.

Ef það eru einhverjar spurningar varðandi námskeiðið þá er velkomið að senda mér tölvupóst á tinna@worldclass.is – Einnig er hægt að fylgjast með á instagram tinna_funworkout

Eitt það besta sem ég og dætur mínar fá í hádegis- eða kvöldmat þessa dagana er eggjatortilla. Það tekur ca 15 mín að útbúa hana frá grunni.

Fyrir 1

  • 1 heilveititortilla
  • 2 eggjahvítur og 1 eggjarauða
  • ½ lítið avocado
  • 1 msk salsasósa
  • 1 msk saxaður rauðlaukur
  • Lime
  • guacamolikrydd

Eggin eru þeytt saman og steikt á pönnu, ég steiki báðar hliðar. Tortillan er svo hituð yfir eggjunum eftir að þeim er snúið til að fá hana mjúka. Salsa smurt á, eggin sett ofaná og tortiunni rúllað upp. Borið fram með heimagerðu guacamole.

Guacamole

  • ½ lítið avacado stappað
  • 1 msk smátt saxaður rauðaukur
  • guacamolikrydd eftir smekk
  • smá lime kreist yfir

Njótið!

Pin It on Pinterest