by Mamman | 12.10.2016 | Foreldrar, Líkar við & mælir með
Þann 6. október hóf Lindex sölu á Bleiku línunni þar sem 10 % af sölu hennar rennur til styrktar baráttunni við brjóstakrabbamein.
Á síðustu árum hefur Lindex unnið með alþjóðlegum hönnuðum s.s. Missoni, Matthew Williamsson og Jean Paul Gaultier, en nú í ár er það hönnunarteymi Lindex sem er ábyrgt fyrir línunni sem hefur fengið heitið Bleika línan.
“Við báðum hönnuði okkar að hanna línuna í ár og útkoman var Bleika línan – nútímaleg, kvenleg og frumleg lína með vandlega völdum flíkum og fylgihlutum í spennandi litapallettu. Það er frábær tilfinning að leggja sitt af mörkum við baráttuna við brjóstakrabbamein með okkar eigin hönnuðum þetta árið”, segir Annika Hedin, yfirhönnuður Lindex.
Nú þegar hafa safnast um 5 milljónir til baráttunnar en 10% af andvirði sölu línunnar gengur beint til baráttu Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini.
Bleika línan samanstendur af 19 mjúkum, prjónuðum og ofnum flíkum og fylgihlutum í litapallettu haustsins, allt frá djúpum burgundy lit í fölbleikan. Bleika armbandið mun einnig vera hluti af línunni en allur ágóði af sölu þess rennur til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Armbandið sem er framleitt úr leðri og málmi er framleitt í Svíþjóð með umhverfisvænum hætti.
Nú þegar hefur Lindex á Íslandi, í krafti viðskiptavina sinna, safnað um fimm milljónum króna til styrktar baráttunni og er þetta nú fimmta árið í röð sem félagið veitir baráttunni lið. Styrkurinn mun í heild sinni renna til Krabbameinsfélags Íslands en auk þess að selja Bleiku línuna mun Lindex á Íslandi einnig selja Bleiku slaufuna í öllum sínum verslunum.
Buxur: 9995,- Húfa: 2795,- Leðurhanskar: 8995,- Sokkar: 893,- Kjóll: 9995,- Bleika armbandið: 1915,- Hálsmen: 2995,- Armband: 1095;- Taska: 6995,-
by Mamman | 28.09.2016 | Foreldrar
Það er ekkert verra en að horfa á barnið sitt rembast og þjást og vita ekki nákvæmlega hvað er að hrjá það. Oft er orsökin einfaldlega mataræði þitt en þó er alls ekkert einfalt að finna út hvað má og hvað má ekki. Að hafa barn á brjósti er full vinna og held ég að margir geri sér enga grein fyrir hversu flókin brjóstagjöf getur verið og hversu miklar pælingar liggja á bakvið hana. Börn eru mismunandi og misviðkvæm og hvað móðir getur borðað til þess að viðhalda mjólkurframleiðslu getur verið mikill hausverkur. Ég er ein þessara mæðra sem þarf að spá í allt sem fer ofan í mig og hef þurft að gera með öll mín börn. Þrátt fyrir að vera nýbúin að eignast barn númer þrjú þá er þetta alltaf sami hausverkurinn, enda alls ekki algilt að það sem fór illa í eitt barn fari illa í annað. Það eru þó alltaf svipaðar fæðutegundir sem ég þarf að forðast og ef ég passa mig á að vera á frekar hreinu og einföldu fæði þá gengur allt svo miklu betur. Ég ákvað að deila með ykkur þeim fæðutegundum sem eru á algjörum bannlista hjá mér en einnig aflaði ég mér upplýsinga á netinu og sá þar að aðrar mæður hafa svipaðan lista og ég.
- Laukur, rauðlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur eða allt sem heitir LAUKUR! Ef ég borða eitthvað með lauk í þá þýðir það andvökunótt hjá mér og barninu með tilheyrandi gráti og rembingi. Þó hefur verið í lagi að prufa mig áfram með eldaðan lauk (laukur í mat) þegar barnið er byrjað að borða.
- Hvítkál
- Jarðarber
- Sítrusávextir og -safar: Appelsínur, sítrónur, lime og grape
- Kíví
- Ananas
- Vínber
- Sterk krydd t.d. karrý og chili
- Tómat pure / paste
- Egg
- Gos (þá sérstaklega appelsín)
Aðrar fæðutegundir sem ég fann sem geta farið illa í börnin eru:
- Súkkulaði
- Kál, blómkál, spergilkál, agúrkur og paprika
- Ávextir með hægðalosandi áhrifum t.d. kirsuber og plómur
Mér finnst mjög gott að fá mér einn og einn kaffibolla yfir daginn en ég passa mig þó á að drekka mikið vatn með, ekki er mælt með að innbyrða mikið koffín meðan þú ert með barn á brjósti.
Þetta eru helstu fæðutegundirnar sem ég forðast. Ég er líka mjög dugleg að gera allt frá grunni sem ég fæ mér og veit ég því nákvæmlega hvað ég set ofan í mig. Það auðveldar mér að finna út hvort ég borða eitthvað “rangt” ef lillan mín er óróleg og bæti því þá á listann minn.
Það kemur að því að ég geti byrjað að “borða” aftur en þangað til þá ætla ég og lillan mín að njóta brjóstagjafarinnar.
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 15.07.2016 | Brúðkaup, Foreldrar
Ég vil hafa hlutina frekar einfalda í kringum mig, það sést kannski best á því að ég kann best við mig í gallabuxum, svörtum “plane” bol eða peysu og jakka, alltaf! Ég á frekar erfitt með að klæða heimilið mitt í gallabuxur og bol en myndi eflaust gera það ef ég gæti og því myndi ég lýsa heimilinu mínu sem frekar látlausu á smartan hátt þó. Ég elska samt sem áður að skreyta heimilið með einföldum og fallegum hlutum í minimalískum stíl.
Þegar ég var að pæla í skreytingum í salinn fyrir brúðkaupið mitt var því enginn vafi á því að ég vildi hafa fáar og einfaldar skreytingar. Ekkert of áberandi og litaþemu valdi ég út frá brúðarvendinum mínum. Stelpurnar í Blómabúðinni 18 Rauðar rósir sáu um blómaskreytingarnar fyrir mig þannig að þegar við hittumst og fórum yfir málin komu þær með frábærar hugmyndir að blómaskreytingum. Ég var með þrjú stór hringborð og mig langaði að hafa fallega hringlaga blómaskreytingu í miðjunni á hverju borði. Þær áttu ofsalega fallega hringlaga vasa sem þær skreyttu með sömu blómum og voru í brúðarvendinum mínum og einu hvítu kerti. Ég heyrði það fyrir mörgum árum síðan að þegar dekkuð væru borð fyrir brúðkaup og aðrar veislur þyrfti að hafa í huga að ef blómaskreytingar væru á miðju borði þá mættu þær alls ekki vera það háar að þær takmörkuðu yfirsýn yfir borðið því þá ætti fólk erfitt með að halda augnsambandi í samræðum sín á milli. Þessar skreytingar voru því fullkomnar og hentuðu að öllu leyti á hringborðin.
Brúðartertan sem var frá Sætum syndum stóð sér á borði þannig að hún fengi að njóta sín sem best. Hún var ótrúlega vel heppnuð, einföld, hvít, og skreytt með nokkrum bleikum sykurrósum. Til að ná sama lit á rósirnar og voru í blómaskreytingunum sendi ég henni Evu Maríu hjá Sætum syndum mynd af rósunum í vendinum og þannig náði hún nákvæmlega sama lit. Kakan var á þremur hæðum og var ekki bara fullkomin í útliti heldur líka einstaklega bragðgóð. Hægt er að nálgast upplýsingar um pantanir og verð á Facebooksíðu Sætra synda. Kökuborðið og þrjú há hringborð skreytti ég með fallegu handmáluðu keramiki frá Dagnýju Gylfadóttur keramikhönnuði en hún hannar vörur sínar undir merkinu DayNew. Hönnun DayNew og þessa fallegu vasa og kertastjaka er hægt að kaupa í Stíg á Skólavörðustíg, Litlu hönnunar búðinni Strandgötu Hafnarfirði, í Kastalanum Selfossi, Listfléttunni á Akureyri og Húsi handanna á Egilsstöðum. Þessar skreytingar voru svo fallegar, í mildum og rómatískum litum og áttu svo sannarlega sinn þátt í því að gera daginn fullkominn í alla staði. Ég mæli eindregið með að fá aðstoð hjá fagfólki sem lifir og hrærist í skreytingum og getur fullkomnað þær hugmyndir sem þú þegar hefur fyrir stóra daginn.
Auður Eva Auðunsdóttir
by Mamman | 3.06.2016 | Foreldrar
18 Rauðar rósir er falleg og rótgróin blómabúð staðsett í Hamraborg í Kópavogi. Didda, eigandi versluninnar, og Inga Víðis, starfsmaður þar eru blómaskreytar og óhætt að kalla þær fagmenn með græna fingur. Þær fylgjast vel með nýjustu tískustraumum í blómaskreytingum. Ég kíkti í búðina til þeirra og viðmót þeirra var hlýlegt og vingjarnlegt. Ég fann strax að þarna væri ég í góðum höndum við val á brúðarvendinum mínum og skreytingum í veisluna en brúðkaup er framundan hjá mér. Þær hlustuðu á þær hugmyndir sem ég hafði og það var nánast eins og þær læsu hugsanir mínar því þær skildu alveg um leið hvað ég hafði í huga. Þær sýndu mér myndir og blóm sem hæfðu þeim hugmyndum sem ég var með og fljótlega vorum við komnar að niðurstöðu um hvernig við myndum hafa þetta.

Inga og Didda reyndust mjög hjálplegar þegar kom að því að velja réttu blómin og litasamsetningu í brúðarvöndinn.
Mig langaði líka að forvitnast um tískustrauma í skreytingum, hvort miklar breytingar séu ár frá ári og einhverjir ákveðnir litir allsráðandi á tímabilum. Einnig lék mér forvitni á að vita muninn á sumar- og vetrarbrúðarvöndum og öðrum skreytingum eftir árstíðum. Hér fáum við nokkur góð ráð frá þeim stöllum sem gott er að hafa í huga þegar valinn er vöndur fyrir stóra daginn.
Með hve miklum fyrirvara er gott að panta skreytingar og brúðarvönd fyrir brúðkaupsdaginn?
Það er alltaf gott fyrir brúðina að velta vel fyrir sér hvernig hún vilji hafa vöndinn sinn og taka þá líka tillit til hvernig kjóllin er. Gott er að skoða á netinu, í blöðum og mynda sér skoðun um liti og lag. Kíkja svo til okkar með frumhugmyndir sínar og við förum yfir málin í sameiningu. Stundum þurfum við að panta blóm erlendis frá svo gott er að geta gert endanlega pöntun með tveggja til þriggja vikna, eða jafnvel lengri, fyrirvara. Auðvitað reddum við eftir bestu getu, því sem hægt er, þó fyrirvarinn sé styttri.
Eru einhverjir ákveðnir litir áberandi í skreytingum og vöndum þetta sumarið?
Bleikt er alltaf mjög vinsælt á sumrin og hvítt sem og allir bjartir sumarlitir. Um þessar mundir eru áberandi svona”gammel” rómantískur bleikur litur og ferskjulitur.
Eru aðrir litir einkennandi fyrir vetrarbrúðkaup?
Brúðarvendir eru frekar klassískir en ef eitthvað er þá er aðeins meira um einlita vendi á veturna, þá einna helst rauða og hvíta.
Hvernig vendir eru vinsælastir? (stórir, kúptir, langir, litlir) Verðið þið varar við að það sé mismunandi eftir aldri brúðarinnar eða stærð brúðkaupsins?
Undanfarin ár hafa kúluvendir verið lang vinsælastir þ.e.a.s handbundnir kringlóttir vendir í nettari kantinum, þó aðrar útfærslur séu einnig áberandi. Eldri konur, sem eru jafnvel ekki að gifta sig í fyrsta sinn, kjósa yfirleitt frekar einfaldari og nettari vendi.
Hvað þarf að hafa í huga þegar salurinn er skreyttur með blómum?
Þegar blóm eru notuð til skreytinga á veisluborðum kemur vel út að nota háa glervasa og skreyta ofan í þá, þannig njóta blómin sín best. Oftast eru brúðhjónin búin að ákveða litaþema og þá er gott að halda sig við þá liti í skreytingum líka. Allir litlu hlutirnir skipta máli t.d servíettur og kerti setja ótrúlega mikinn svip á heildarmyndina á salnum. Handbundnu kúluvendina er hægt að setja í vasa og leyfa vendinum að njóta sín í veislunni t.d skreyta háborðið með honum, muna bara að hafa stilkana bera neðst í vatni
Hvernig er hægt að halda vendinum sem lengst ferskum?
Til að láta blómin endast sem lengst skal passa að hafa hreinan vasa og skipta reglulega um vatn, gott er að geyma vöndinn á frekar dimmum stað og ekki láta sólina skína á hann.
Er hægt að gera eitthvað við vöndinn eftir brúðkaupið?
Það fer eftir því hvernig blóm eru í honum og hvernig þau þurrkast en best er að þurrka rósir.
Við hjá mamman.is þökkum stelpunum hjá 18 Rauðum rósum fyrir frábær ráð. Falleg blóm og skreytingar geta svo sannarlega hjálpað til við að skapa fallegar minningar á brúðkaupsdeginum sem og öðrum viðburðum á lífsleiðinni.
Í blómabúðinni 18 Rauðar rósir í Hamraborg má finna mikið af fallegum gjafavörum.
by Mamman | 31.05.2016 | Foreldrar
Ég er einstæð móðir og hef verið frá fæðingu sonar míns fyrir 4 árum. Til að byrja með var auðvitað ekkert hlaupið að því að fara á stefnumót en „if there´s a will, there´s a way“! Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þennan pistil er hversu mikið stefnumótamenning Íslendinga hefur breyst á þessum fjórum árum. Margt til hins betra, til dæmis það að ekki er lengur tiltökumál að fara á stefnumót því þó það sjáist til manns á kaffihúsi að spjalla við einhvern þá er það ekki feimnismál lengur. Það var nefnilega mín mesta hræðsla hér áður fyrr, að vera á stefnumóti og hitta einhvern sem ég þekkti!.
Ég held að Tinder hafi svo kollvarpað öllu. Mér finnst Tinder snilld að mörgu leyti til dæmis fyrir okkur sem erum mikið til föst heimavið. Þarna kemst fólk í kynni við aðra í sömu stöðu og byrjar jafnvel að spjalla og eitt leiðir af öðru. Ég veit um nokkur pör sem hafa kynnst í gegnum Tinder. Hins vegar er fólk þarna inni á mismunandi forsendum og ég held að það sé mikilvægt að vera heiðarlegur og að þeir sem eru ekki að leita að föstu sambandi segi hreinskilnislega frá því af. Það sem mér finnst Tinder hafa breytt til hins verra er að allt í einu er það viðurkennd hegðun að vera með marga bolta á lofti í einu.
Það er ekki meira en ca. ár síðan að viðkomandi hefði verið talinn algjört fífl ef hann/hún leyfði sér að vera með nokkur járn í eldinum en núna er það orðið normið og enginn getur sagt neitt við því. Þú ert kannski búin/n að fara á 2-3 deit með einhverjum, fréttir svo að sá hinn sami sé að spjalla við fleiri (þetta er lítið land, allt fréttist!) en getur ekkert sagt þar sem engar skuldbindingar hafa verið gerðar. Þannig að það eina sem fólk getur gert er að annaðhvort „play it cool“ eða vera talið hálf klikkað ef það sættir sig ekki við það. Það segir sig þó alveg sjálft að þegar fólk fær á tilfinninguna að hinn aðilinn sé með margt í gangi í einu að þá setur það ekki fulla alvöru í þetta. Ég meina af hverju ætti maður að gera það? Ég persónulega bakkaði alltaf þegar ég annað hvort frétti eða fékk á tilfinninguna að eitthvað svoleiðis væri í gangi, enda yfirleitt frekar augljóst.
Það sem varð þó til þess að ég lokaði reikningnum mínum endanlega var að ég var farin að rekast á menn þarna inni sem voru í samböndum. Ég þekkti jafnvel konurnar þeirra. Þetta var mjög erfið samviskuklemma fyrir mig og ég átti mörg samtöl við vinkonur mína um hvað rétt væri að gera. Við ákváðum að það eina rétta væri að segja konunum frá þessu. Til að sanna mál mitt „screenshottaði“ ég þá til að sýna konunum þeirra. Kannski eru ekki allir endilega sammála því að gera þetta svona en ég veit að ég myndi allavega vilja vita það ef maðurinn minn væri að standa í þessu. Það er hins vegar ekki gaman að vera sendiboði þessara frétta og það varð til þess að ég ákvað að draga mig í hlé frá þessum heimi, þetta var bara orðið of mikið álag á hausinn og tilfinningarnar!
Ég lokaði Tinder, fékk mér kött og hef aldrei verið hamingjusamari 🙂
by Mamman | 20.05.2016 | Foreldrar, Óflokkað
Að mörgu þarf að hyggja þegar ákvörðun er tekin um að ganga í hjónaband. Mismikið þó því allt fer það eftir því tilstandi sem tilvonandi brúðhjón ætla að hafa. Sumir vilja fara til sýslumanns og láta gefa sig saman við látlausa athöfn, aðrir vilja litla athöfn í kirkju svo vilja enn aðrir stórt kirkjubrúðkaup með öllu tilheyrandi. Ávallt fylgir þó eitthvað umstang og gott er að skipuleggja sig vel fyrir stóra daginn svo allt fari eins og planað var. Ef við gefum okkur það að brúðhjón ætli að gifta sig við fallega athöfn í kirkju þá eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga. Þessi listi er þó ekki tæmandi.
Bóka prest og panta kirkju
Sumir eiga sér “uppáhalds” prest sem hefur jafnvel um áraraðir séð um athafnir fyrir fjölskylduna, aðrir kjósa að nota sóknarprest þeirrar kirkju sem verður fyrir valinu. En gott er að bóka kirkju og prest með góðum fyrirvara, út frá því er svo hægt að fara að plana brúðkaupið í heild sinni.
Söngur við athöfn
Flestir vilja bjóða uppá fallegan söng við athöfnina. Það er gott að bóka tónlistaratriði með fyrirvara ef þú átt þér uppáhalds söngvara sem þig langar að syngi í athöfninni. Flestir listamenn í dag eru með undirspil og hljóðbúnað með sér. Þeir eru einnig vanir að syngja í brúðkaupum og geta jafnvel gefið góð ráð varðandi lagaval, ef þess er þörf.
Brúðarkjóll á brúði og föt á brúðguma
Hvort sem þú ætlar að leigja, kaupa eða panta kjól og annan fatnað þurfa flestir að gefa sér 8-12 vikur fyrir athöfn, að lámarki, til að vinna í þeim málum. Brúðarkjólaleiga Katrínar í Mjódd býður bæði uppá leigu á kjólum og eins er mikið úrval af fallegum kjólum til sölu hjá henni. Panta þarf tíma í mátun og bóka fyrir þig og þína. Gott er að brúður taki með sér í mátun vinkonu, móður, tengdamóður, systur eða hvern þann sem hún veit að hefur gott auga fyrir því hvaða snið fer henni best. Starfsstúlkur Brúðarkjólaleigu Katrínar eru einnig fagmenn fram í fingurgóma og töfra fram kjóla, til að máta, í mismunandi sniðum og hjálpa til við að finna draumakjólinn. Gott er fyrir brúðgumann að fara á öðrum tíma í mátun því flestar vilja halda kjólnum leyndum fyrir tilvonandi eiginmanni þar til á brúðkaupsdaginn sjálfan. Einnig er gott að gefa sér góðan tíma ef þú ert með börn sem þarf að finna fatnað á, hvort sem þú ætlar að kaupa eða leigja föt á þau. Heimasíða Brúðarkjólaleigu Katrínar er www.brudhjon.is
Salur og veitingar
Hvernig á svo veislan að vera? Að degi til, að kvöldi til, kökur og meðlæti, fingramatur, hlaðborð eða þjónað til borðs. Útfærslunar eru endalausar og allt fer það auðvitað eftir smekk brúðhjóna og kostnaði. Margir velja sér það að leigja sal og skreyta hann sjálfir og í flestum tilfellum geta brúðhjónin sett upp skreytingar daginn fyrir brúðkaup. Margir salir eru með veisluþjónustu og bjóða uppá úrval veitinga og drykkja sem og starfsmenn sem sjá um að þjóna. Í öðrum tilfellum er hægt að kaupa mat af veisluþjónustu úti í bæ og ráða nokkra þjóna til að sjá um að allt gangi snurðulaust fyrir sig í veislunni. Einnig eru flest brúðhjón með veislustjóra sem sér til þess að allt gangi samkvæmt skipulaginu.
Brúðarvöndur & skreytingar
Flestar konur kjósa að bera brúðarvönd við athöfnina, en hvernig vönd þær kjósa er misjafnt. Hægt er að útfæra brúðarvöndinn á marga vegu og mikið úrval blóma í boði. Hægt er að hafa vendi kúpta, langa, með blönduðum blómum eða einfalda einlita með einni gerð af blómum. Eins er oft litaþema í brúðkaupum og þá eru blómin í brúðarvendinum oft höfð í sama lit og er í skreytingum í veislunni. Þá eru skreytingar unnar í samvinnu við blómaskreytinn sem býr til vöndinn.
Hringar
Sumir kjósa að nota nýja hringa við giftingu, aðrir nota hringa sem settir voru upp við trúlofun en láta bæta áletrun inní þá með dagsetningu og nafni. Fyrir þau sem ætla að nota trúlofunarhringa sem þau eiga fyrir er gott að fara með þá til gullsmiðs og láta pússa þá og yfirfara.
Morgungjöf
Skapast hefur hefð fyrir því að brúðhjón gefi hvort öðru morgungjöf, yfirleitt er morgungjöfin skartgripur. Allur gangur er á því hvað brúðhjón gefa hvort öðru en fallegur skartgripur getur svo sannarlega glatt.
Förðun & hár
Mælt er með að fara í svokallaða prufuförðun fyrir brúðkaupsdaginn þannig að brúðurin og förðunarfræðingurinn geti fundið út saman hvaða “förðunarlúkk” hentar best. Á netinu er að finna myndir af flottum brúðarförðunum og gott ráð er að skoða þær og mynda sér skoðun um hvernig förðun myndi henta. Brúðurin getur þá prófað förðuni
na í einn dag og gert þá breytingar fyrir stóra daginn ef þörf er á. Yfirleitt eru brúðarfarðanir ekki jafn dökkar og kvöldfarðanir, litirnir eru mun ljósari og bjartari. Sama gildir um hárið, margir förðunarfræðingar gera einfaldar greiðslur en ef ætlunin er að hafa flókna greiðslu er best að panta tíma hjá faglærðu hárgreiðslufólki. Þar gildir það sama um að skoða myndir og fara í prufugreiðslu með góðum fyrirvara.
Neglur og handsnyrting
Hendur brúðhjóna fá mikla athygli á brúðkaupsdaginn, flestir vilja skoða hringana og oft tekur ljósmyndarinn fallegar myndir af höndunum þar sem hringarnir sjást. Því er tilvalið að fara á snyrtistofu og fá handsnyrtingu. Vinsælt er hjá brúðinni að fá sér naglaásetningu, fallegar gervineglur, jafnvel í lit, sem láta fingurna sýnast lengri og gera mikið fyrir heildarútlitið.
Myndataka
Flestallir vilja eiga góðar og fallegar myndir frá þessum merka degi. Ljósmyndarar bjóða oftast uppá alls konar pakka. Hægt er að kaupa ljósmyndara allan daginn, hann kemur þá og fylgist með undirbúningi, tekur myndir í athöfninni, eftir athöfn af brúðhjónunum sjálfum og svo í veislunni. Sumir vilja bara ljósmyndara í hina hefðbundna brúðarmyndatöku á meðan aðrir vilja “allan pakkann”.
Gisting á brúðkaupsnótt
Mikilvægur partur af hinu fullkomna brúðkaupi er brúðkaupsnóttin sjálf. Sumir fara heim og fara síðan í brúðkaupsferð saman síðar. Aðrir fara jafnvel í fjölskyldubústað og svo fara aðrir á hótel. Mörg hótel bjóða uppá brúðarpakka en þó eru nokkur sem bjóða þá ekki yfir sumartímann. Það er svolítið skrýtið því að sumarið er tími brúðkaupa. Hótel Glymur í Hvalfirði býður uppá frábæran brúðarpakka allan ársins hring. Aðstæður þar eru hreint út sagt frábærar og þar er h
aft að leiðarljósi að brúðhjónin njóti sín í botn. Við komu bíður brúðhjónanna freyðivín, ostar og konfekt. Þar eru heitir pottar og hvað er betra en að enda daginn á slökun í heitum potti með elskunni sinni og það besta er að það þarf ekki að “tékka sig út” fyrr en klukkan 17 daginn eftir. Því er yndislegt að snæða síðbúinn morgunverð, fara aftur í pottinn og leggja sig áður en lagt er af stað heim. Gerist ekki rómantískara! Allar upplýsingar er að finna á heimasíðu Hótel Glyms, www.hotelglymur.is.