


HypnoBirthing – hugleiðsla í fæðingu
HypnoBirthing, The Mongan Method er aðferð notuð við fæðingar, þróuð af dáleiðslusérfræðingnum Marie F. Mongan. Í þessari aðferð er áhersla lögð á að meðganga og fæðing séu náttúruleg ferli sem líkami kvenna er skapaður til að fara í gegnum, ekki síður en aðra líkamsstarfsemi ef konan og barnið eru heilbrigð og meðgangan eðlileg. Þetta ferli hefur hins vegar í gegnum tíðana verið sjúkrahúsvætt og ákveðinn ótti skapaður meðal fólks um að fæðing sé hættuleg og þurfi að fara fram undir læknisumsjá.
Ég kynntist HypnoBirthing í gegnum Auði Bjarnadóttur jógakennara í meðgöngujóga þegar ég gekk með dóttur mína. Ég keypti mér bókina, HypnoBirthing, The Mongan Method, las hana og grúskaði heilmikið á internetinu. Það má segja að þetta hafi gjörbreytt allri minni upplifun á meðgöngunni. Ég man augnablikið þegar að ég fann nánast líkamlega, hvernig óttinn rann af mér. Óttinn sem ég vissi varla að væri til staðar en varð svo áþreifanlegur um leið og ég fann hann fara. Það skrýtna er að þetta gerðist þegar ég uppgötvaði að ég þyrfti bara alls ekki að fá mænudeyfingu eða aðra verkjastillandi meðferð. Þessu er eflaust öfugt farið með mjög margar konur en greinilega er þetta eitthvað sem mér er illa við, jafnvel bara ómeðvitað.
“HypnoBirthing byggir að miklu leyti á hugleiðslu, slökunaraðferðum, öndunaræfingum, jákvæðum hugsunum og líkamlegum undirbúningi.”
Mikilvægt er að konan fari inn í fæðinguna á eigin forsendum og finni sinn eigin styrk og getu til að fæða barnið. Talið er að ótti hafi neikvæð áhrif á upplifun á sársauka auk þess sem hann veldur spennu í vöðvum sem getur unnið á móti líkamanum í fæðingarferlinu. Ef konan er óhrædd og treystir líkama sínum á hún auðveldara með að slaka á og sársaukinn verður minni og þar af leiðandi dregur úr líkum á því að þörf sé á mænudeyfingu eða öðrum inngripum. Einnig er mikilvægt að skapa frið og ró í kringum fæðinguna, ljós dempuð og að utanaðkomandi aðilar séu í algjöru aukahlutverki, einungis til að rétta hjálparhönd en fjölskyldan og tengsl milli fjölskyldumeðlima eru í forgrunni.
Í bókinni HypnoBirthing, The Mongan Method, er mikil áhersla lögð á undirbúning fæðingarinnar og að foreldrar hafi hugað að og tekið ákvarðanir varðandi fæðinguna fyrirfram. Þetta eru stór og smá atriði eins og hvar fæðingin fer fram, hverjir verði viðstaddir, hvort verkjastillandi lyf verði notuð, hvort notast eigi við tónlist o.s.frv. Þarna skiptir fæðingarfélagi miklu máli en hann spilar mikilvægt hlutverk í bókinni. Með fæðingarfélaga er átt við hitt foreldri barnsins eða einhvern annan nákominn móðurinni sem er viðstaddur fæðinguna. Fæðingarfélaginn er mjög mikilvægur í fæðingunni, veitir móðurinni stuðning og hvatningu auk þess að vera milliliður og talsmaður hennar gagnvart ljósmóður eða öðrum umönnunaraðila. Þar sem konan getur verið berskjölduð í fæðingunni og er í djúpri slökun sem ekki má trufla þá er það fæðingarfélaginn sem sér um þessi samskipti til að fæðingin verði sem næst því sem þegar hefur verið ákveðið. Mikilvægt er þó, og talað um það í bókinni, að í eðli sínu sé fæðing náttúrulegt ferli þar sem allt getur gerst og því er sveigjanleiki og það að taka því sem að höndum ber alltaf nauðsynlegt.
Margar konur hafa nýtt sér HypnoBirthing tæknina á Íslandi en boðið er upp á námskeið í aðdraganda fæðingar fyrir verðandi foreldra. Taka skal fram að það hvernig kona ákveður að fæða barnið sitt er einstakt og persónulegt fyrir hverja og eina og mismunandi hvað hentar hverri konu hverju sinni. Það er ekkert betra eða verra að fæða með eða án verkjastillingar eða heima eða á sjúkrahúsi. Ég gerði mitt besta til að notast við aðferðina í fæðingu dóttur minnar og er viss um að það hafi nýst mér mjög vel, sérstaklega með öndun og að halda ró en einnig styrkti hún sjálfstraustið, það er að allt væri eins og það ætti að vera og ég gæti þetta vel, þó að ég hafi kannski misst trúna stöku sinnum. Ég veit að ég mun rifja upp kynni mín af HypnoBirthing þegar næsta barn kemur í heiminn. Í það minnsta er HypnoBirthing aðferðin falleg og áhugaverð fæðingaraðferð sem vert er fyrir verðandi foreldra að kynna sér.
Heimildir:
Mongan, Marie F. 1992. Hypnobirthing; The Mongan Method: a natural approach to safe, easier, more comfortable birthing. 3. útg. Health Communications, Inc.
Click to access Ljosmbl_2013_91_2.pdf
http://www.hypnobirthing.com/
Höfundur
María Þórólsdóttir

Barnajóga
Jóga fyrir fullorðna er fyrir löngu orðið útbreitt um allan heim og nú er jóga fyrir börn farið að öðlast sífellt meiri vinsældir. Það er víða kennt í skólum og jafnvel í leikskólum. Líf barna er orðið flóknara og hraðinn hefur aukist með meira vinnuálagi foreldra og fleiri tómstundum utan skóla og því er jóga kærkomið inni í dagskrá skólanna sem stund milli stríða.
Sem jógakennari barna á leikskólaaldri, tveggja til sex ára, hef ég orðið vitni að því hvernig börn bregðast við jóga og hvaða áhrif það hefur á þau. Kennsluna þarf að sníða eftir þeirra áhuga og úthaldi og það er gaman að leika dýr, tré, stríðsmenn og gyðjur. Þessar æfingar efla líka samhæfingu, athygli og líkamlega getu barnanna.
Börnin sækja í rónna sem fylgir jógatímunum. Að anda djúpt, loka augunum og einbeita sér að því sem er að gerast í þeirra eigin líkama í stað þess að hugsa um hvað sé að gerast hjá vinkonum og vinum. Það er svo áhugavert að sjá hvað gerist hjá þeim þegar þau beina athyglinni inn á við, loka augunum og finna hvernig þeim líður þá stundina í tásunum, eyrunum eða nefinu. Það er álag að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í kringum þig og bregðast við áreitum frá umhverfinu. Þessar æfingar eru góð hvíld frá því.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að jóga hefur margvísleg jákvæð áhrif á börn. Það eykur liðleika samhæfingu, athygli,einbeitingu og sjálfstraust og þroskar að auki jafnvægisskynið. Sérlega áhugavert er þó að jóga hefur einstaklega góð áhrif á börn sem eiga að einhverju leyti erfitt uppdráttar, til dæmis börn með einhverfu eða með ofvirkni og athyglisbrest. Það dregur úr kvíða og eykur sjálfstjórn og þar af leiðandi getur það dregið úr félagslegri einangrun og óæskilegri hegðun eins og árásargirni.
Það mætti segja að jóga sé orðinn hluti af lífi margra barna frá því í móðurkviði en meðgöngujóga er ákaflega vinsælt meðal verðandi mæðra. Það er talið geta hjálpað bæði á meðgöngu og ekki síður í fæðingunni. Öndunin sem þar er kennd hjálpar við að beina athyglinni inn á við auk þess sem jóga eykur líkamsvitund og auðveldar konum í fæðingu að treysta líkamanum til að gera það sem hann er hannaður til að gera, sem hjálpar þeim að slaka á. Að sjálfsögðu geta fæðingar farið á alla vegu en jóga felst ekki síst í að sleppa takinu og taka við öllu því sem lífið færir okkur, gera okkar besta með það sem við höfum í hvert skipti.
Frá því börnin eru 6 – 8 vikna er hægt að stunda svokallað mömmujóga og eftir mömmujóga tekur svo við barnajóga sem hentar börnum frá 6 mánaða aldri. Líklega hefur jóga fyrir svo ung börn ekki meiri eða betri áhrif á þau en önnur hreyfing á þessum aldri en það er vissulega ein tegund af mjúkri hreyfingu sem mælt er með fyrir ungbörn.
Jóga er frábær blanda af hreyfingu og andlegri heilsurækt og hentar flestum þeim sem áhuga hafa. Ef vel er staðið að kennslunni getur hún verið sterkur grunnur fyrir börn til að byggja á fyrir líkamlega og andlega færni en jóga er ekki síst stórskemmtilegt og góð æfing í gleði og leik.
Frekari upplýsingar:
http://www.koreascience.or.kr/article/ArticleFullRecord.jsp?cn=TJHOBI_2011_v1n1_4.1
http://www.parents.com/fun/sports/exercise/the-benefits-of-yoga-for-kids/
http://www.yogajournal.com/article/family/yoga-kids/

Börn og skilnaður
Það getur oft og tíðum verið flókið að vera barn og hvað þá skilnaðarbarn. Börn eiga yfirleitt erfitt með að setja það í orð hvernig þeim líður og jafnvel á vanlíðan það til að brjótast út í slæmri eða óæskilegri hegðun.
Þau hafa ekki hugmynd um hvernig þau eiga að tjá tilfinningar sínar og upplifa oft kvíða og vanlíðan tengda óöryggi og nýjum aðstæðum. Sum flytja úr hverfinu sínu, þurfa að skipta um skóla og aðlagast öðru umhverfi. Það er mjög mikilvægt í öllu þessu ferli að gera ekki lítið úr upplifun barnsins þíns og ofar öllu þarftu að hugsa um það sem er því fyrir bestu. Einnig þarf að hafa í huga að þarfir barnsins þíns eru ekki endilega það sem hentar þér best.
Ég fann þennan lista um börn og skilnað og langaði að láta hann fylgja með. Því miður kemur ekki fram hver er höfundurinn að þessum lista en ég vona að sá hinn sami hafi haft það að leiðarljósi að sem flestir læsu hann.
Börn og skilnaður
Eftirfarandi er listi yfir helstu atriði sem foreldrar þurfa að vera vakandi yfir í fari barna sinni eftir skilnað.
- Hegðunarerfiðleikar (t.d hætta að hlusta og gegna, fá “köst” uppúr þurru).
- Draga sig inn í skel/einangra sig.
- Breytingar í hegðun í skóla/leikskóla.
- Borða minna eða meira.
- Sofa minna eða meira.
- Kvíði (t.d hegðunarerfiðleikar, eirðarleysi, pirringur, magaverkir,eða einbeitingarskortur).
- Þunglyndi (t.d grátur, dapurleiki, upplifa litla ánægju, pirringur).
- Viðkvæmni (stuttur þráður, aukinn grátur) og sektarkennd.
Munið þetta:
Ofangreint magnast upp og verður meira vandamál ef foreldar ná ekki að viðhalda góðum samskiptum við hvort annað eftir skilnað. Allar rannsóknir á afleiðingum skilnaðar fyrir börn sýna fram á það. Leggið því mikla áherslu á að halda kurteisum og yfirveguðum samskiptum ykkar á milli og þá sérstaklega fyrir framan barnið/börnin, þó það geti stundum verið erfitt.
Mikilvægt er að taka alvarlega allar breytingar sem fram koma á þessum lista og þú tekur eftir, þú þekkir barnið þitt best! Eðlilegt er að eitthvað af þessu komi fram í stuttan tíma en það er vandamál ef breytingin varir lengur en í nokkrar vikur. Ef það gerist er komin tími til að gera eitthvað í málinu.
Samvera með barninu skiptir mestu á þessum tímamótum. Það að leika inni í herbergi, lita á eldhúsborðinu eða elda saman veitir barninu þínu öryggi. Það þarf ekki að eyða peningum í utanaðkomandi skemmtanir þó að það sé gaman öðru hvoru.
Talaðu við barnið þitt reglulega um líðan þess og aldrei gera lítið úr tillfinningum þess þegar barnið tjáir sig um þær. Talaðu oft um tilfinningar og gerðu barninu þínu ljóst að þær eru eðlilegur hluti af þeim sem einstaklingum, ekki hættulegar en þurfa ekki alltaf að stjórna.