Brakandi brjóstakökur fyrir mjólkandi mæður

Brakandi brjóstakökur fyrir mjólkandi mæður

Flestar nýbakaðar mæður kannast við stressið sem getur fylgt brjóstagjöf og velta fyrir sér hvað sé til ráða ef mjólkurframleiðslan er ekki næg. Sjálf er ég nýbökuð móðir með stórt heimili hefur mjólkurframleiðslan ekki verið sem skyldi. Eftir að hafa prufað ýmis gömul húsráð ákvað ég að leita að ráðum hjá Google. Þar fann ég geggjaða uppskrift af smákökum sem áttu að auka brjóstamjólkurframleiðsluna og ótrúlegt en satt þá flæddi mjólkin hjá mér nokkrum klukkustundum síðar. Það tók ekki nema um 15 mínútur að skella í kökurnar og um 10 mínútur að baka þær.

  • 100 gr smjör (við stofuhita)
  • 1 bolli hveiti
  • ½ bolli púðursykur
  • 1 ½ bolli haframjöl
  • 1 egg
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk möluð hörfræ (ekkert mál að mala í t.d. matvinnsluvél)
  • 2-3 tsk vatn
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk kanill
  • ½ tsk gróft salt
  • 1-2 tsk brewers yeast

Bakað við 180°í 8-10 mín.

brjostakokur1 Brewers yeast er fæðubótarefni frá t.d. NOW, en það er ekki til hér á landi (allaveganna hef ég ekki fundið það) og varð ég að sleppa því úr uppskriftinni. Samkvæmt innihaldslýsingu NOW þá er þetta tegund af geri sem er framleitt úr ákveðnu byggi sem er notað í t.d. bjórframleiðslu. Gerið hefur náttúruleg prótein ásamt B-vítamínum. Ráðlagt er að taka tvær msk daglega í mjólk eða safa. Einnig er hægt að bæta því í matreiðslu eða bakstur til að auka þar með næringargildi.

Til þess að gera kökurnar ennþá betri þá má bæta við t.d. súkkulaði, rúsínum eða einhverju öðru með. Ég bætti við sirka einum dl. af kókosmjöl og um 100 gr af þurrkuðum trönuberjum.

Kökurnar voru æðislegar og slógu í gegn hjá öllum heimilismeðlimum.

Ég mæli með því að bera þær fram með ískaldri mjólk.

Njótið!

Elsa Kristinsdóttir

Nýr lífsstíll – án öfga

Nýr lífsstíll – án öfga

Tinna Arnardóttir starfar sem hóptímakennari og einkaþjálfari hjá World Class í Egilshöll. Síðan 2009 hefur hún verið með námskeiðið Nýr lífstíll og er það eitt það vinsælasta hjá World Class. Við spjölluðum við Tinnu og fengum nánari útskýringar á námskeiðinu hjá henni og eina uppskrift.

Tinna Arnardóttir

Tinna Arnardóttir

Nýr lífstíll er námskeið fyrir konur sem þurfa að missa 15 kg eða meira. Það verður vinsælla með hverju árinu sem líður og fyllist alltaf strax. Ég hef það að sjónarmiði að nr.1, 2 og 3 sé að konur hafi gaman af því að hreyfa sig og komi hreyfingunni inn í rútínuna sína. Mataræðið er svo smám saman tekið með án þess að það séu einhverjir öfgar því tengdir.

Í því þjóðfélagi sem við búum í dag er oft lítill tími til að standa í eldamennsku og sumum finnst hreinlega ekkert gaman að elda þ.m.t. ég. Því einbeiti ég mér að einföldum uppskriftum sem eru ekki með milljón hráefni og taka helst ekki lengri tíma en 30-40 mín en eru næringagóðar og hollar.

Ef það eru einhverjar spurningar varðandi námskeiðið þá er velkomið að senda mér tölvupóst á tinna@worldclass.is – Einnig er hægt að fylgjast með á instagram tinna_funworkout

Eitt það besta sem ég og dætur mínar fá í hádegis- eða kvöldmat þessa dagana er eggjatortilla. Það tekur ca 15 mín að útbúa hana frá grunni.

Fyrir 1

  • 1 heilveititortilla
  • 2 eggjahvítur og 1 eggjarauða
  • ½ lítið avocado
  • 1 msk salsasósa
  • 1 msk saxaður rauðlaukur
  • Lime
  • guacamolikrydd

Eggin eru þeytt saman og steikt á pönnu, ég steiki báðar hliðar. Tortillan er svo hituð yfir eggjunum eftir að þeim er snúið til að fá hana mjúka. Salsa smurt á, eggin sett ofaná og tortiunni rúllað upp. Borið fram með heimagerðu guacamole.

Guacamole

  • ½ lítið avacado stappað
  • 1 msk smátt saxaður rauðaukur
  • guacamolikrydd eftir smekk
  • smá lime kreist yfir

Njótið!

Glúteinlausar haframúffur að hætti Heiðu

Glúteinlausar haframúffur að hætti Heiðu

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir, alltaf kölluð Heiða, starfar sem einkaþjálfari í World Class Laugum. Heiða er einnig með síðuna www.heidiola.is en þar er að finna skemmtilegan fróðleik og uppskriftir sem tengjast góðu og heilsusamlegu líferni. Við hjá mömmunni fengum Heiðu til að gefa okkur uppskrift af girnilegum og hollum haframúffum sem hægt er að skipta út fyrir hafragrautinn á morgnana og smyrja með íslensku smjöri eða jafnvel sykurlausu Nutella á tyllidögum.

heidiola

“Þessar múffur eru mjög einfaldar og hægt er að nota í þær það sem manni dettur í hug. Grunnurinn er haframjöl, egg og bananar og svo er hægt að leika sér með hitt. Hér er ein af mörgum útfærslum,” segir Heiða

  • 4 bollar haframjöl (hægt að nota glúteinlausa hafra frá Urtekram, fæst m.a. í Hagkaup, Krónunni, Nettó og Samkaup)
  • 2 bananar (betra að þeir séu þroskaðir)
  • 4 egg
  • 1 kúfuð msk grísk jógúrt (má nota hreina jógúrt eða súrmjólk)
  • 1 dl kókosmjöl (má sleppa)
  • 5 dropar kókos stevia dropar (má sleppa)
  • 1 msk sukrin sykur eða stevia sykur (má sleppa)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • smá klípa af maldon salti mulið yfir

Öllu er hrært saman í eina skál með sleif. Setjið svo ca tvær matskeiðar í hvert muffinsform og bakið í 20 mín við 200°C.

“Ég var í bústað með fjölsyldunni um helgina og bakaði eftir þessari uppskrift nema ég bætti í hana döðlum og sykurlausu súkkulaði til að gera múffurnar aðeins meira spari. Hér kemur það sem ég bætti við:

  • 1 dl skornar döðlur, ég klippti þær með eldhússkærum sem er mun fljótlegra.
  • 1 plata Balace dökkt súkkulði með stevia.
  • 1 banani sem ég skar niður og notaði sem skraut ofan á.

Auður Eva Auðunsdóttir

Sinnepsgljáður lax með blómkálsmús

Sinnepsgljáður lax með blómkálsmús

Lax er ekki bara hollur heldur er fátt sem mér finnst betra en ferskur bakaður lax.

Hægt er að kaupa ferskan lax bæði í fiskverslunum og mörgum matvöruverslunum. Sumir kunna að meta frosinn lax en ég vel að kaupa hann ferskan því mér finnst hann bara miklu betri þannig. Þessi uppskrift miðar við að laxinn sé ekki marineraður á nokkurn hátt heldur sé hann bakaður í ofni en það er ekkert því til fyrirstöðu að skella honum á grillið í staðinn.

Sinnepsgljáður lax

Uppskrift:

  • 1 kíló ferskur lax
  • 2 msk gróft sinnep
  • 1 hvítlauksgeiri
  • safi úr ½ sítrónu
  • salt og pipar eftir smekk

 Aðferð:

Hitið ofninn í 200 gráður.

Leggið laxinn á bökunarplötu ofan á smjörpappír.

Kryddið laxinn með salti og pipar og látið bakast í 10 mín.

Á meðan laxinn er að bakast blandið þá saman sinnepinu, hvítlauknum og sítrónusafanum í skál og þegar hann hefur bakast í 10 mín penslið þá gljáann á (notið allan gljáann) og bakið áfram í 5 mín eða þar til laxinn er eldaður í gegn.

 Blómkálsgratín

Uppskrift:

  • 1 blómkálshaus
  • 4 msk smjör
  • 4 msk hveiti
  • 2 tsk Sinneps duft
  • 2 bollar mjólk
  • 1 ¼ bolli og 2 msk Cheddar ostur
  • salt og pipar eftir smekk en einnig er hægt að nota cayenne pipar

Aðferð:

Skerið blómkáls blómin af stilknum og sjóðið í 6-7 mínútur. (Líka hægt að setja í örbylgjuofninn í u.þ.b 8 mín.) Kreistið svo mesta vatnið úr blómkálinu með því að leggja það á þurrt viskustykki og vinda vatnið úr. Setjið blómkálið svo í eldfast mót.

Notið miðlungsstóran pott og bræðið smörið og bætið svo við hveitinu og búið til smjörbollu. Bætið þá við sinnepsduftinu og piparnum. Þynnið svo varlega út með mjólkinni og passið að ekki myndist kekkir. Saltið eftir smekk og látið svo malla þar til sósan er orðin nægilega þykk að ykkar mati. Bætið þá við 1 ¼ bolla af cheddar osti og leyfið honum að bráðna. Smakkið og bætið við salti og pipar eftir þörfum.

Hellið svo sósunni yfir blómkálið og setjið 2 msk af rifnum cheddar yfir og bakið í ofni í u.þ.b. 30-35 mín á 200 gráðum.

Þegar gratínið er tilbúið (osturinn orðinn gullinn) þá er gratínið stappað með gaffli þar til það er farið að líkjast mús. Einnig má skella þessu í blandarann.

Berið svo fram með laxinum og fersku salati. 

Bon apetit!

Karlotta Ósk Jónsdóttir

 

Einfaldasti pastaréttur í heimi

Einfaldasti pastaréttur í heimi

Á sumrin langar mann oft í eitthvað létt og frískandi og þessi réttur er það einmitt. Það er ekki venjulegt pasta í þessum rétti heldur svokallað kúrbítspasta sem er bara eintómur kúrbítur sem búið er að skera í ræmur með spíralskera. Spíralskerar fást í flestum verslunum sem selja áhöld til matargerðar en það er hægt að nota rifjárn í staðinn fyrir þá.

Eins og sést á fyrirsögninni er þetta svo einfalt að það tekur enga stund að skella í þennan holla og bragðgóða rétt. Hægt er að hafa „pastað“ eitt og sér eða bæta við það grilluðum kjúklingi, skinku eða öðru kjöti eftir smekk hvers og eins.

Uppskrift: (Þessi uppskrift miðast við 6 manns)

  • 1 dós Philadelphia rjómaostur með hvítlauk og jurtum
  • 1 dl mjólk
  • 4 spíralaðir Kúrbítar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 4 kjúklingabringur bakaðar í ofni (ég nota cajun krydd á kjúklinginn)
  • Ferskur parmesan ostur

Aðferð:

  • Byrjið á að skella kjúklingnum í ofninn og steikið hann þar til hann er tibúinn.
  • Á meðan kjúklingurinn er eldaður er upplagt að spírala kúrbítinn.
  • Setjið rjómaostinn og mjólkina í pott og hrærið vel saman og hitið þar til osturinn er orðinn að sósu. Passið upp á hitann, það er betra að hafa stillt á miðlungshita svo osturinn brenni ekki við.
  • Kúrbíturinn léttsteiktur á pönnu í 2-3 mínútur og svo er sósunni hellt yfir.

Berið þetta fram með kjúklingnum (eða öðru kjöti), saltið og piprið eftir smekk og rífið góðan slatta af ferskum parmesan yfir. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og/eða fersku salati. Yndislega léttur og góður réttur fyrir sumarið.

Bon apetit!

Karlotta Ósk Jónsdóttir

Nammi með næringu

Nammi með næringu

Hér kemur ein ofureinföld uppskrift af nammi sem er stútfullt af orku og næringu og ekki er verra að það tekur aðeins um 20 mínútur að töfra þessa dásemd fram.

Hráefni:

  • 150 g kasjúhnetur
  • 100 g pekahnetur
  • handfylli af graskersfræi
  • handfylli af trönuberjum
  • handfylli af kókosflögum
  • 1-2 tsk agave sýróp

heilsusnakkk22Það er algjörlega smekksatriði hversu miklu af hverju hráefni er blandað saman en þessi hlutföll klikka ekki. Innihaldsefnum er dreift á bökunarplötu, sýrópi hellt yfir í mjórri bunu og öllu svo hrært saman. Þessu er svo skellt í ofninn á 180° í ca. 10 mínútur eða þar til kókosflögurnar eru farnar að taka smá lit en þær eru viðkvæmar fyrir því að brenna svo fylgjast þarf vel með.

Eftir að nammið er tekið úr ofninum er því leyft að kólna í smástund. Þá er ekki annað eftir en að setja í góða nammiskál og njóta!

 

Höfundur 

Elsa Kristinsdóttir

Pin It on Pinterest