Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir rekur fyrirtækið Tvö heimili sem er ráðgjafarþjónusta og sáttamiðlun fyrir foreldra og  börn sem búa á tveimur heimilum. Snýr ráðgjöfin að öllu því sem viðkemur fjölskyldum sem eru að skilja, hafa skilið eða vilja hafa samkomulagið sem best þegar kemur að því að ala upp börn á tveimur heimilum.

Frá því að Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir var lítil stelpa langaði hana að starfa sem félagsráðgjafi eða sálfræðingur: „Mér fannst það ótrúlega heillandi framtíðarsýn að vinna við að hjálpa börnum. Ég hef alltaf verið upptekin af rétti barna til að hafa áhrif á eigin aðstæður og líf, hafa rödd og hvaða leiðir við fullorðnu getum farið til að haga hlutum út frá sjónarhorni barna.”

Aðspurð um námsferilinn segir Ragnheiður: „Eftir að grunnskóla lauk fór ég í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þar námi af félagsfræðibraut. Fór svo í BA nám í félagsráðgjöf og í framhaldinu af því í meistaranám í félagsráðgjöf til starfsréttinda og lauk því námi árið 2013. Meðfram námi starfaði ég á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá barnavernd Reykjavíkur. Eftir útskrift hóf ég starf í búsetuúrræði fyrir unga menn með félags – og fíkniefnavanda. Vann að undirbúningi og opnun á frístundarheimili í Laugardal og starfaði svo sem félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu. Fékk starf sem sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016 og starfa þar enn í hlutastarfi meðfram störfum á stofunni minni Tvö heimili sem opnaði í febrúar 2020.”

Í starfi Ragnheiðar nýtir hún ýmiskonar hugmyndafræði og nýtir það sem við á s.s. jákvæða sálfræði, tengslaeflandi nálgun, áfallamiðaða nálgun og lausnamiðaða nálgun: „Ég er almennt lífsglöð og nálgast fólk af virðingu og auðmýkt og hef ánægju af starfinu mínu. Hugsa að það viðhorf smiti út frá sér til skjólstæðinga. Ég vona það allavega.”

Ragnheiður heldur áfram: „Ég legg mikið upp úr því að skapa notalegt andrúmsloft á stofunni minni og vil að þeim sem til mín leita líði eins vel og hægt er þegar það er að takast á við, oft á tíðum, sína mestu erfiðleika í lífinu. Undirbúningur fyrir viðtöl skiptir miklu máli, bæði hvað varðar aðstæðurnar sem viðtalið fer fram í en einnig varðandi mig sjálfa sem er verkfærið sjálft. Þess vegna huga ég vel að svefni, næringu og andlegri líðan til að vera vel í stakk búin að mæta fólki í erfiðri stöðu og mæta þörfum þeirra um samhyggð, hlustun og ráðgjöf.”

Hverjir leita helst til þín og á hvaða forsendum?

Til mín leita fyrst og fremst foreldrar sem búa ekki saman og þurfa aðstoð og ráðgjöf við að bæta foreldrasamstarf sitt. Ég veiti einnig sáttameðferð skv. 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 og fara slík mál í ferli skv. reglum um sáttameðferð.

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Til mín leita foreldrar vegna ýmissa ástæða er varðar aðstæður þeirra og barna eftir skilnað/sambandsslit. Sem dæmi foreldrar og/eða stjúpforeldrar sem leita einstaklingsráðgjafar vegna samskipta við barnsforeldri, foreldrar sem koma saman til að bæta samskipti sín á milli og verklag, foreldrar sem eru að slíta sambandi sínu og vilja gera sitt besta til að hlífa barni sínu við breyttum aðstæðum. Þá koma foreldrar með börn sín í viðtal sem þau upplifa að líði ekki nægjanlega vel í aðstæðum sínum.

Íslenskar fjölskyldur: Hafa þær breyst á undanförnum áratugum? Hversu algengar eru fjölskyldur sem búa ekki saman/foreldrar hafa skilið?

Fjölskyldur hafa breyst að því leytinu til að það er samfélagslega viðurkenndara í dag að skilja eða slíta sambandi þegar börn eru í spilinu en þótti hér áður fyrr. Áður var lögð ríkari áhersla á að hjónabandið héldi og var það talið gæfuríkara fyrir börn. Því var lögð áhersla á forvarnarvinnu til að koma í veg fyrir að skilnað hjá foreldrum. Þegar farið var að framkvæma rannsóknir á þessum málefnum kom í ljós að börnum vegnaði betur eftir skilnað foreldra þegar samskipti voru góð heldur en börnum sem ólust upp í hjá foreldrum sem voru óhamingjusamir og/eða í stormasömu sambandi.

Þátttaka ferða hefur einnig aukist með auknu jafnrétti kynjana. Hér áður fyrr var það venjan við skilnað foreldra að börnin byggju áfram hjá mæðrum sínum en fóru í heimsóknir til föður síns eða dvöldu aðra hverja helgi. Rannsóknir sýndu fram á mikilvægi tengsla barns við báða foreldra sína og því hafa verið stigin skref í átt að jafnari stöðu kynjana hvað þetta varðar. Sem betur fer. Mikilvægt er fyrir börn að eiga ríkuleg tengsl við báða foreldra sína og að þeir báðir taki virkan þátt í hversdagslegri umönnun þeirra.

Talið að um 40% hjónabanda endi með skilnað en svo eru auðvitað fjöldi barna sem eiga foreldra sem aldrei voru í sambandi. Það er gífurlega mikilvægt að foreldrar fái viðeigandi ráðgjöf og þjónustu við skilnað eða þegar barn er að koma í heiminn og foreldrar eru ekki saman. Rannsóknir sýna að börnum sem alast upp við jákvæða foreldrasamvinnu vegnar nánast jafn vel í lífinu og börnum sem alast upp í hamingjusamri sambúð foreldra. Slík samvinna virðist hafa svo mikil áhrif á á framtíð barna að mögulega ættum við sem samfélag að taka málefni barna sem búa á tveimur heimilum fyrir sem lýðheilsumál.

Hvað er foreldrasamvinna? Hvernig er best að fá foreldra til að vinna saman? Hvaða þættir er það einna helst sem foreldrar þurfa aðstoð við?

Með foreldrasamvinnu er átt við samstarf foreldra er varðar uppeldi og umönnun barns á tveimur heimilum. Mikilvægt er að foreldrar ræði strax í upphafi hvernig þeir sjái samstarfið fyrir sér og hvert markmiðið með því sé. Marmiðið hlýtur þá að snúa að því að skapa sem bestu umgjörð um líf barns á tveimur heimilum til að lágmarka skaðlegar afleiðingar þess að eiga foreldra sem hafa farið í sundur. Verkaskipting, skipting ábyrgðar og samskiptaleiðir þarf að ræða og ákveða hvernig skal haga því í samstarfinu. Þá er einnig gott að tileinka sér jákvætt hugarfar gagnvart hinu foreldrinu og aðstæðum. Vera auðmjúkur, þakklátur og einlægur í breyttum aðstæðum.

Hvernig virkar sáttamiðlun?

Sáttamiðlun fer fram skv. 33.gr. a barnalaga nr. 76/2003 og þeim reglum sem fjalla um sáttamiðlun skv. fyrrgreindum lögum. Hugmyndafræði sáttamiðlunar er sú að aðilar verði að taka sjálfviljugir þátt. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara er markmiðið að aðilar komist sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins sem þeir meta viðunandi fyrir alla aðila, í gegnum skipulagt og mótað ferli.

Á Tveimur heimilum er unnið út frá aðferð sem kallast barnamiðuð sáttamiðlun (e. child focused og child inclusive mediation). Þá miðast sáttameðferðin út frá sjónarmiðum barnins sem ekki er á svæðinu og hvað kann að vera best fyrir það. Barninu er boðið að tjá afstöðu sína við sáttamiðlara sem í framhaldinu nýtur afstöðuna sem vegvísi í áframhaldandi sáttaferli.

Hversu mikið vægi hafa óskir barnsins í ferlinu, er barnið þátttakandi í öllu?

Út frá faglegu sjónarmiði sem og réttindum barns er mikilvægt að það sé hluti af ferli þegar verið er að taka ákvarðanir um líf þess. Í sumum tilvikum hefst ferli á að rætt er við barnið og líðan þess og upplifun af aðstæðum þess á tveimur heimilum könnuð. Viðtalið er svo notað í áframhaldandi ráðgjöf foreldranna sem snýr þá að því að bæta aðstæður barnsins með því t.d. að breyta umgengni, aðstæðum á heimilum, samskiptum foreldra. Stundum er unnið barnið og foreldri saman eftir aðstæðum, aldri og þroska barnsins.

Smellið á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á síður Tveggja heimila! 

 

 

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Að busla í pollum og drullumalla er geggjuð núvitund

Sólveig María Svavarsdóttir er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands. Ásamt því að sinna móðurhlutverkinu að mikilli natni heldur hún úti skemmtilegum reikningi á Instagram sem heitir Útivera og börnin.

Við heyrðum í Sólveigu og spurðum hana hvaða áherslur hún væri með á síðunni sinni þegar kemur að útisamveru með börnum: „Á síðunni legg ég áherslu á útiveru, hægan lífstíl og núvitund. Útivera er stór hluti í uppeldi barna minna og sýni ég á síðunni meðal annars frá útiverum okkar og gef öðrum hugmyndir að útiveru. Útiveran þarf ekki að vera flókin en getur gefið bæði foreldrum og börnum mikið. Ég legg áherslu á að minna fólk á að staldra við og gefa augnablikinu sérstakan gaum. Mér finnst mikilvægt að gefa börnum frelsi og rými til að upplifa og kanna. Útbúa börnin vel og leyfa þeim svo að vaða út í næsta poll eða drullumalla að vild. Eins er mikilvægt fyrir okkur fullorðna fólkið að muna að staldra við, vera í meðvitund og jafnvel prófa að upplifa með börnunum! Börn eru svo miklir núvitundarkennarar,” segir Sólveig. 

Hér eru nokkrar hugmyndir sem Sólveig gaf okkur hjá Mömmunni að útiveru út frá þessari árstíð. 

Það eru kannski ekki allir sem eru til í að leyfa börnunum sínum að leika í pollum, en af hverju ekki „gó wild” eins og einu sinni! Það að fara með börnin út í gönguferð og leyfa þeim að leika sér í pollum, vötnum, ám getur verið stórkostleg upplifun fyrir þau og geggjuð núvitund. Þá skiptir máli að klæða sig rétt og vel eftir veðri. 

Að setja upp góðar aðstæður fyrir leik úti getur skipt miklu máli. Börn geta leikið sér tímunum saman með vatn, sand og mold. Það er mjög sniðugt að fara á nytjamarkaði og kaupa gamalt eldhússdót í leik. Þá er hægt að baka drullukökur, búa til súpur, kaffi og allt sem hugurinn girnist. 

Að fara í skógarferð er dásamleg upplifun. Að eyða hálftíma í grænu umhverfi getur gert mikið fyrir andlega líðan og líkamlega líðan. Það er sannað að grænt umhverfi getur haft mikil áhrif á streitu og róað taugakerfið. Það er upplagt að leyfa börnunum að klifra í trjám, æfa jafnvægið á mismunandi undirlagi eða taka með sér greinar og köngla heim í föndur. 

Að borða úti er enn betra en borða inni. Að baka og taka kaffitímann úti getur verið svo hressandi. Gönguferð með nesti á leikvöll er einföld hugmynd en getur gefið svo mikið! 

Nú er upplagður tími til að setja niður fræ með börnunum. Það getur gefið þeim svo mikið að rækta sitt eigið grænmeti ásamt því að það eykur umhverfisvitund þeirra. Það þarf ekki að vera flókið – til dæmis ein tómataplanta út í glugga, gulrætur í garði eða salat á svölum.

Sólveig er fjögurra barna móðir, grunnskólakennari að mennt og varaformaður Hæglætishreyfingar Íslands.

Mamman mælir með að kíkja á heimasíðu Hæglætishreyfingu Íslands www.hæglæti.is og hér fyrir neðan er hægt að klikka á samfélagsmiðla hnappa Útivera & börnin á Instagram og Hæglætishreyfingu Íslands á Facebook.

 

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Börn og bræðisköst: Hvað er til ráða?

Bræðisköst barna eru jafn óútreiknanleg og íslenska veðrið. Eina mínútuna eruð þið á veitingastað að njóta góðs matar, hina næstu er barnið þitt að skæla og öskra því rörið er beygt. Börn á aldrinum eins til þriggja ára taka oft bræðisköst.

Þú kannt að hafa áhyggjur af því að þú sért að ala upp harðstjóra en ólíklegt er að barnið sé að reyna að stjórna. Það er líklegra að barnið sé að taka kast vegna einhverra vonbrigða eða vanmáttarkenndar.

Claire B. Kopp, prófessor í sálfræði í Claremont Graduate University, Kaliforníuríki, segir að vandinn liggi í mismunandi skilningi á tungumálinu: „Smábörn eru farin að skilja meira af þeim orðum sem sagt er í kringum þau, samt sem áður er þeirra orðaforði takmarkaður.“

Þegar barnið getur ekki orðað hvað það vill eða hvernig því líður svellur upp reiði og vanmáttarkennd.

Hvernig á að höndla bræðisköst: Sjö ráð

Í fyrsta lagi, ekki láta þér bregða.Bræðiskast er vissulega ekkert skemmtilegt að horfa upp á. Barnið getur sparkað, öskrað og stappað niður fótunum og að auki getur það kastað hlutum, slegið frá sér og jafnvel haldið niðri í sér andanum þar til það verður blátt í framan. Þrátt fyrir að þetta sé afar erfitt að horfa upp á, er það í raun eðlileg hegðun hjá barnið sem er að taka bræðiskast. Þegar barnið er í miðju kasti er ekki hægt að koma að góðum ráðum þó það muni svara – þá á neikvæðan hátt! – þegar þú öskrar á það eða hótar því: „Ég áttaði mig á að því meira sem ég gargaði á Brandon að hætta, því trylltari varð hann,“ segir móðir tveggja ára drengs. Það sem virkaði best fyrir hana var að setjast niður hjá honum og bíða þar til kastið liði hjá.

Almennt séð er góð hugmynd að vera hjá barninu meðan það rasar út. Að rjúka út úr herberginu kann að vera freistandi hugmynd, en það gefur barninu þá tilfinningu að það sé yfirgefið. Holskefla tilfinninga sem barnið ræður ekki við getur hrætt það og það vill hafa þig nálægt sér.

Ef þú finnur að þú getur ekki meira ráðleggja sumir sérfræðingar að fara út úr herberginu, rólega, í nokkrar mínútur og koma aftur þegar barnið er hætt að gráta. Með því að vera róleg/ur verður barnið líka rólegra.

Sumir sérfræðingar mæla með að taka barnið upp og halda á því ef það hentar (sum börn berjast of mikið um). Aðrir segja að það sé betra að verðlauna ekki neikvæða hegðun og betra sé að hunsa kastið þar til barnið róast.

Stundum er líka gott að taka smá hlé eða „pásu“ (e. time-out) en öll börn eru misjöfn þannig foreldrar verða að læra hvaða aðgerð hentar þínu barni. Hvernig sem þú kýst að gera það er stöðugleiki lykillinn að árangri.

Mundu að þú ert fullorðni aðilinn

Hversu lengi sem kastið kann að standa skaltu forðast að láta undan óskynsamlegum kröfum barnsins eða að reyna að semja við það eða „múta“ því.

Það kann að vera freistandi að beita slíku, sérstaklega ef þið eruð úti meðal fólks. Reyndu að hafa ekki áhyggjur af hvað öðrum finnst því allir foreldrar hafa reynslu af svipuðu.

Ekki gefa eftir því þá ertu að kenna barninu að taka kast sé góð leið til að fá það sem það vill og gerir hlutina bara erfiðari í framtíðinni. Fyrir utan það er barnið hrætt við að vera svona stjórnlaust. Það síðasta sem það þarf er að þú sért stjórnlaus líka.

Ef köst barnsins þróast á þann hátt að það slær fólk eða gæludýr, kastar hlutum eða öskrar án afláts skaltu taka það upp og bera það á öruggan stað, s.s. svefnherbergi. Segðu því hvers vegna það er þar („Því þú slóst ömmu“), og láttu það vita að þú munir vera hjá því þar til það róast.

Ef þú ert úti á meðal fólks (vinsæll staður fyrir köst!) vertu þá viðbúin/n því að þurfa að fara þar til barnið róast.

„Þegar dóttir mín var tveggja ára brjálaðist hún á veitingastað þar sem spagettíið sem hún pantaði kom með klipptri steinselju yfir. Þó að ég skildi óánægju hennar ætlaði ég mér ekki að eyðileggja matinn fyrir öllum. Við fórum út þar til hún slakaði á.“

Ekki taka hlé nema það sé nauðsynlegt

Að taka barnið úr aðstæðum, má gerast frá 18 mánaða aldri. Það getur hjálpað barninu við að ná betri tökum á tilfinningum sínum þegar það tekur kast. Það getur verið hjálplegt þegar kastið er sérlega slæmt og önnur ráð bregðast. Að fara með barnið á rólegan stað, eða enn betra – leiðinlegan stað – í smástund (ein mínúta fyrir hvert aldursár) getur verið góð lexía í að ná sér sjálfur niður. Útskýrðu hvað þú ert að gera („Mamma ætlar að leyfa þér að taka smá pásu og mamma verður hér rétt hjá þér“), og láttu það vita að þetta sé ekki refsing. Ef barnið vill ekki vera á réttum stað, færðu það aftur á staðinn rólega og gerðu það sem þú sagðist ætla að gera. Passaðu að barnið sé öruggt en ekki eiga samskipti við það eða gefa því athygli í pásunni.

Talið um atvikið eftir á

Þegar stormurinn líður hjá skaltu taka barnið í fangið og ræða það sem gerðist. Notaðu einföld orð og viðurkenndu að þú skiljir vanmátt barnsins. Hjálpaðu því að koma tilfinningum í orð, t.d. „Þú varst reið því maturinn var ekki eins og þú vildir hafa hann.“

Leyfðu barninu að sjá að um leið og það tjáir sig með orðum skiljir þú það betur. Brostu og segðu: „Mér þykir leiðinlegt að ég skildi þig ekki. Nú ertu ekki að öskra þannig ég get skilið hvað þú vilt.“

Leyfðu barninu að finna að þú elskir það

Um leið og barnið þitt er rólegt og þú hefur fengið tækifæri að ræða kastið, faðmaðu það og segðu þú elskir það. Það er nauðsynlegt að verðlauna góða hegðun, til dæmis að barnið geti sest niður og talað um hlutina.

Reyndu að forðast aðstæður sem setja bræðiskast af stað

Veittu þeim aðstæðum athygli sem geta komið kasti af stað hjá barninu, sem „ýtir á takka“ þess. Gerðu ráðstafanir. Ef barnið brotnar niður þegar það er svangt, hafðu alltaf snarl meðferðis. Ef barnið verður pirrað í eftirmiðdaginn, farðu með það fyrr út á daginn. Ef það á erfitt með að breyta til, fara á milli staða svo dæmi sé tekið, láttu það vita áður. Að láta barnið vita að það sé tími til að fara af rólóinum eða að matur sé að koma gefur því tækifæri á að sætta sig við það í stað þess að bregðast bara við.

Ef þú skynjar að kast er á leiðinni skaltu reyna að dreifa athygli barnsins með því t.d. að breyta um stað, gefa því nýtt leikfang, gera eitthvað sem það býst ekki við, með því að gretta þig eða benda á fugl.

Smábarnið þitt er að verða æ sjálfstæðara þannig þú skalt gefa því kosti þegar hægt er. Engum líkar að vera sífellt skipað fyrir! Segðu t.d. „Viltu kartöflur eða hrísgrjón“ í stað þess að segja „Borðaðu kartöflunar þínar!“ Þannig fær barnið þá tilfinningu að það hafi einhverja stjórn. Skoðaðu hvenær þú segir „nei.“ Ef þú gerir það of oft ertu kannski að skapa streitu hjá ykkur báðum. Veldu slagina þína og reyndu að slaka á.

Passaðu að barnið verði ekki of stressað

Þrátt fyrir að dagleg bræðisköst geti verið eðlileg á þessum aldri er ágætt að hafa augun opin fyrir hugsanlegum vanda. Hafa breytingar átt sér stað í fjölskyldunni? Er mikið um að vera, meira en vanalega? Eru samskipti foreldranna strekkt? Allt þetta kann að koma af stað kasti.

Ef köstin eru óvenju mörg eða slæm eða barnið meiðir sig sjálft eða aðra skaltu leita ráða sérfræðinga. Læknirinn þinn getur rætt við þig um þroska barnisins og hversu langt það er komið með þér þegar þú ferð í skoðun með það.

Þessar heimsóknir gefa gott tækifæri til að ræða áhyggjur sem þú kannt að hafa varðandi hegðun barnsins og þannig getur þú útilokað alvarleg vandamál. Læknirinn kann einnig að hafa ráð við slíkum köstum. Einnig skaltu ræða við lækninn ef barnið þitt heldur niðri í sér andanum of oft. Það eru einhverjar líkur á að slíkt geti bent til járnskorts.

Heimild: Babycenter

Pin It on Pinterest