Engar öfgar á meðgöngunni-5 góð ráð Heiðu

Engar öfgar á meðgöngunni-5 góð ráð Heiðu

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir, snyrtifræðingur, einkaþjálfari og fitnessdrottning, á von á sínu fyrsta barni. Heiða, eins og hún er jafnan kölluð, lifir heilsusamlegu lífi og hugsar alla jafna vel um heilsuna. Fyrsta þriðjung meðgöngunnar fann hún fyrir þreytu og ógleði en nú þegar hún er komin lengra á leið er hún farin að stunda aftur reglulega líkamsrækt. Það má með sanni segja að Heiða geisli á meðgöngunni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

heida18vikur

Ég bað Heiðu um að gefa lesendum mamman.is fimm góð ráð til að fylgja á meðgöngu og spurði einnig örlítið út í óléttuna. Hún gefur lesendum líka eina einfalda uppskrift af múffum, með eplum og kanil, sem eru algjört nammi.

“Ég á von á mínu fyrsta barni í byrjun maí 2017,  settur dagur er 6 maí. Ég er svo ótrúlega spennt fyrir þessu öllu saman. Allt hefur gengið rosalega vel og ég er núna komin rúmlega 18 vikur á leið. Ég fann fyrir smá ógleði og þreytu fram að 12 viku og hafði ekki mikla orku í æfingar og lét vinnuna bara duga. En svo hefur mér bara liðið vel eftir það og er farin að fá orku aftur til að æfa og er að fara hægt af stað aftur.

  • Ég passa mig að drekka vel af vatni. Það er líka gott fyrir húðina sem er að teygjast.

  • Passa mig að hafa engar öfgar í æfingum og klára mig ekki í settum ef ég er að lyfta. Öll liðamót eru mýkri og allt viðkvæmara á þessum tíma. Einnig fylgjist ég vel með púlsinum.

  • Borða hollt og reglulega.

  • Sef nóg, ég reyni núna að ná átta tímum.

  • Tek inn holla fitu bæði úr fæðu, t.d. laxi, avocado og möndlum og tek omega 3 bæði á morgana og á kvöldin.

Ég er vön að lyfta og hef gert það í mörg ár. Hef alltaf verið í íþróttum svo ég held mínu striki eins lengi og ég treysti mér til. Finn samt strax að ég ræð ekki við eins mikla þyngd og venjulega og er ekki að klára mig í settum. Fer líka mikið í spinning og passa mig þar að púlsinn fari ekki of hátt.  Er svo að hugsa um að prófa meðgönguyoga eða meðgöngusund þegar á líður.”  

Hér kemur svo uppskrift af múffum með eplum og kanil sem Heiða deildi með okkur.

muffurmedeplumogkanil

Hitið ofnin í 200°C

  • 4 bollar haframjöl (ég nota glutein free hafra frá Urtekram, fæst m.a. í Hagkaup, Krónunni, Nettó og Samkaup)
  • 1 skvísa Ella´s epla- og banana barnamauk
  • 4 egg
  • 4 lítil eða 2 stór epli skorin í litla bita (ég hafði hýðið með, val)
  • 1 kúfuð msk grísk jógúrt (má nota hreina jógúrt eða súrmjólk)
  • 1 msk sukrin sykur eða stevia sykur (má sleppa)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2-3 tsk kanill
  • smá klípa af maldon salti mulið yfir
  • 4 msk rúsínur má sleppa.

Öllu hrært saman í einni skál með sleif og gott að setja í muffins form með tveimur skeiðum og bakað í 20 mín. Ég set ýmist í pappaform eða silikon form. Þær eru bestar heitar með smjöri og osti. Annars er hægt að grípa þær með sér í nesti á morgnana einar og sér til að hafa með kaffinu  eða einum ísköldum Hámark.

Hægt er að nálgast þessa uppskrift og margar fleiri inná www.heidiola.is

Við þökkum Heiðu góð ráð og vonum að meðgangan gangi að óskum.

Bakaðar veislukartöflur

Bakaðar veislukartöflur

Ostur, í hvaða mynd sem er, er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það á einnig við um kartöflur og ég gæti mögulega borðað þær og ost í öll mál. Cheddar ostur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, enda er hann bragðsterkur og bragðbætir nánast alla rétti sem hann er settur í. Þessi kartöfluréttur getur staðið bæði sem meðlæti og einn og sér en hann er svolítið tímafrekur þar sem það þarf að baka kartöflurnar fyrst. Engu að síður er hann mjög ljúffengur, einfaldur og ódýr.

Uppskrift

  • 4 bökunarkartöflur
  • 1 tsk ólívuolía
  • 3 msk smjör
  • ½ bolli grísk jógúrt
  • 3 msk súrmjólk (buttermilk, 1 bolli mjólk og 1msk sítrónusafi)
  • ½ tsk salt
  • ¼ tsk pipar
  • ¾ tsk vorlaukur
  • ½ tsk hvítlauksduft
  • ½ tsk laukduft
  • ½ tsk dill
  • ½ tsk paprikuduft
  • 1 ½ bolli eldað spergilkál
  • 1 bréf beikon (ef vill)
  • 1 bolli Cheddar ostur

Aðferð

Hitið ofninn á 210 gráður og bakið kartöflurnar í 45-60 mínútur.

Leyfið þeim svo að kólna aðeins svo auðveldara sé að meðhöndla þær.

Steikið beikon í ofninum þar til það er stökkt og skerið svo eða klippið í litla bita.

Skerið kartöflurnar í tvennt langsum, og skafið aðeins upp úr þeim en skiljið eftir nóg í hliðunum og á botninum til að þær falli ekki saman.

Bætið smjörinu við innvolsið og búið til kartöflumús.

Bætið svo restinni af innihaldsefnunum saman við en notið aðeins ¾ af ostinum.

Fyllið kartöflurnar af músinni og dreifið afganginum af ostinum yfir og bakið í ca 20-25 mínútur á 180 gráðum eða þar til karftöflurnar eru orðnar heitar í gegn og osturinn er bráðnaður og örlítið farinn að fá gullinn lit.

Berið strax fram með salati (ef á að borða eitt og sér) og ég mæli hiklaust með að notast við sinneps- og graslaukssósu eða hvítlaukssósu til að færa réttinn upp á næsta plan.

Bon apetit!

Karlotta Jónsdóttir

Girnileg graskerssúpa með keim af reyk – Eldhús grænkerans

Girnileg graskerssúpa með keim af reyk – Eldhús grænkerans

Nú eru jólin framundan og eins og vanalega er bókaflóðið mikið og margar bækur sem heilla. Ég verð að segja fyrir mína parta að þegar ég heyrði af þessari bók, Eldhús grænkerans varð ég strax mjög heilluð og hún er mjög ofarlega á mínum lista. Ég hef verið að minnka kjötát og hallast alltaf meira að því að gerast grænmetisæta. Ég mæli með þessari bók ef þú ert líka í þessum hugleiðingum því hún er svo sannarlega þess virði. Þú þarft svo sem ekkert að vera grænmetisæta eða langa til þess að gerast slík til að fjárfesta í þessari bók. Það eitt er nóg að vilja innleiða meira grænt og hollt inní þitt líf. Ég náði tali af Katrínu Rut sem er ein þriggja kvenna sem kom að því að gera þessa bók að veruleika. Höfundarnir eru þrjár grænmetisætur, Hanna Hlíf Bjarnadóttir, Rut Sigurðardóttir og Katrín Rut Bessadóttir þær vinna þessa bók saman af alúð, Eldhús grænkerans.

Hver er forsaga Eldhúss grænkerans?

Við Hanna kynntumst fyrir fyrir mörgum árum á Akureyri en leiðir okkar lágu síðan alltaf saman aftur og aftur fyrir algera tilviljun. Ég byrjaði síðan að vinna á Gestgjafanum árið 2013 og okkur vantaði lausapenna til að gera mat fyrir grænmetisætur. Þá hafði ég samband við Hönnu og hún sló til! Rut byrjaði síðan á ljósmyndadeild Birtíngs. Þegar við Hanna vorum komnar af stað með hugmyndina höfðum við samband við Rut, sem er líka grænmetisæta, og hún var strax til í verkefnið. Síðan töluðum við við stelpurnar í Sölku sem tóku strax vel í bókina og þá fór boltinn að rúlla og nú ári síðar er bókin komin út!

stelpur

Eruð þið allar vinkonur og grænmetisætur?

Já við erum vinkonur 🙂

Ég hætti að borða kjöt um síðustu áramót, Rut hefur verið grænmetisæta í 3 ár og er næst okkur því að vera vegan. Hanna hefur verið grænmetisæta í meira en 30 ár. Við Rut höfum óbilandi matarást á Hönnu svo hver tökudagur var þvílík veisla. Hanna eldaði allan matinn og er höfundur uppskrifta, ég hélt utan um textann og var stílisti.

Hér er finna uppskrift úr bókinni, ein af mörgum girnilegum.

Graskerssúpa með reyktum keim

Fyrir 4.

  • 1 lítið grasker (butternut), u.þ.b. 300 grömm
  • 1 msk. olía
  • 3 msk. smjör eða vegansmjör
  • 1 laukur, saxaður
  • 2 msk. grænmetiskraftur eða 1-2 grænmetisteningar
  • 200 ml vatn
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 tsk. malaður pipar
  • 2 tsk. hot madras karrí
  • 1 ½ tsk. reykt paprika
  • 1 tsk. kanill
  • 1 tsk. turmerik
  • 400 ml kókosmjólk (1 dós)
  • 1 dl Smokey Mesquite BBQ-sósa frá Stubbs (getið notað hvaða BBQ sósu sem er en þessi gefur mjög gott reykt bragð)
  • 50 g reyktur ostur, eða sterkur cheddar – eða veganostur að eigin vali
  • 150 ml rjómi eða veganrjómi
  • 1-2 msk. tamarisósa
  • 4-5 msk. rifinn appelsínubörkur

Hitið ofninn í 230°C. Skerið graskerið í tvennt, smyrjið sárið með olíu og bakið í ofni í u.þ.b. 40 mín. eða þar til kjötið er orðið mjúkt. Bræðið smjör í potti við meðalhita og mýkið lauk í 2-3 mín. Skafið kjötið úr graskerinu og bætið í pottinn ásamt grænmetiskraftinum og vatni. Setjið hvítlauk og annað krydd saman við ásamt kókosmjólkinni. Bætið BBQ-sósunni og ostinum við og látið samlagast við vægan hita í um 10 mín. Hellið þá rjómanum út í og hitið að suðu. Lækkið hitann. Rífið appelsínubörk yfir, smakkið til með pipar. Berið fram með sýrðum rjóma og krydduðum kjúklingabaunum.

 

Paprikukryddaðar kjúklingabaunir

  • 150 g kjúklingabaunir, soðnar
  • 1 msk. olía
  • ½ tsk. sjávarsalt
  • 1 tsk. reykt paprikuduft
  • ½ tsk. chiliduft

Skolið og þerrið baunirnar. Setjið þær á bökunarpappír, hellið olíu yfir og veltið þeim upp úr olíunni. Stráið salti, paprikudufti og chilidufti jafnt yfir baunirnar. Bakið í u.þ.b. 20 mín, snúið baununum við og bakið í 15 mín. til viðbótar eða þar til þær eru orðnar stökkar.

Njótið!

bokarkapa

 

Kókos og lime kjúklingur

Kókos og lime kjúklingur

Þessi skemmtilegi réttur vakti  mikla lukku á mínu heimili um daginn og fannst mér því upplagt að deila honum með ykkur. Hann er bæði einfaldur og fljótlegur og alveg einstaklega bragðgóður.

Uppskriftin

  • 4 kjúklingabringur
  • ¼ tsk salt
  • ¼ tsk svartur pipar
  • 1 msk kókosolía
  • 1 rauðlaukur (hakkaður)
  • 1 rauður chili (ef vill)
  • 1 bolli kjúklingasoð
  • 1 lime
  • 1 msk ferskt kóríander (hakkað)
  • ½ tsk chiliflögur
  • ½ dós kókosmjólk
  • maizena jafnari (ef vill)

 

Aðferð

Saltið og piprið kjúklingabringurnar og léttsteikið á pönnu í kókosolíunni og leggið svo til hliðar.

Steikið rauðlaukinn þar til hann er orðinn mjúkur og bætið við chili ef þið ætlið að nota hann. Bætið þá við kjúklingasoðinu, limesafanum, kóríander og chiliflögunum og látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann og látið malla í um það bil fimm mínútur. Bætið þá við kókosmjólkinni og látið suðuna koma aftur upp og lækkið svo aftur og látið malla í fimm mínútur. Ef þið viljið að sósan sé þykkari þá er tímabært að bæta maizena jafnaranum útí.

Bætið svo kjúklingabringunum út í sósuna og látið malla í um það bil tíu mínútur í viðbót eða þar til kjúklingurinn er orðinn eldaður í gegn.

Berið fram með hrísgrjónum eða blómkáls “hrísgrjónum”.

 

Bon apetit!

Karlotta Jónsdóttir

Bananabrauðið sem allir elska

Bananabrauðið sem allir elska

Ég elska góð bananabrauð og hafði prófað ótalmargar uppskriftir þar til ég rakst á þessa, á Gulur, rauður, grænn & salt, þá þurfti ég ekki að leita lengra. Allir á heimilinu elska þegar ég baka þetta brauð og er nánast rifist um hver fær mest. Ég reyni að henda sem minnstu og skelli alltaf í þetta brauð þegar ég á nokkra banana sem eru farnir að dökkna.

 

  • 1 egg
  • 1 dl púðursykur
  • 3 bananar, vel þroskaðir
  • 5 dl hveiti
  • 1/2-3/4 tsk salt (ég nota smá klípu af grófu sjávarsalti)
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft

 

Þar sem ég á ekki hrærivél þá set ég egg og púðursykur í blandara og hræri þar til blandan er létt og ljós (sirka 3-4). Því næst set ég bananana út í og hræri í nokkrar sekúndur. Set þurrefnin í skál og blanda þeim varlega saman við hin hráefnin með sleif. Set svo deigið í sílíkon brauðform og baka í ofni við 190°c í 40 mínútur.

Borðist heitt úr ofninum með nógu af smjöri.

Njótið <3

Elsa Kristinsdóttir

 

 

Fiskréttur með kókosflögum

Fiskréttur með kókosflögum

Fiskur er eitt af því besta sem ég fæ og finnst mér mjög gaman að prófa mig áfram með hinar og þessar uppskriftir af fiskréttum. Einnig finnst mér gaman að gera eitthvað alveg upp úr sjálfri mér. Nýlega greindist þriggja mánaða dóttir mín með mjólkurofnæmi og er ég því að læra að borða upp á nýtt. Mjólk leynist í ótrúlega mörgu og því finnst mér mikilvægt að gera sem flest sjálf frá grunni. Sigrún Þorsteinsdóttir heldur úti vefsíðunni www.cafesigrun.com , þar er hægt að haka í þá ofnæmisvalda sem þú vilt forðast og finna alls konar flottar uppskriftir. Einnig eru allar þær uppskriftir sem ég hef skoðað með tillögu að öðru hráefni sem hægt er skipta út. Ég rakst á fiskrétt frá henna á dögunum sem ég ákvað að prófa og kom hann skemmtilega á óvart. Ég mæli algjörlega með þessum en til gamans má geta að tveggja ára dóttir mín sem er nú ekki sú duglegasta að borða bað tvisvar um ábót.

 

 Fiskur með kókosflögum og basil

  • 175 g kirsuberjatómatar skornir í tvennt (ég notaði ca eitt box sem var farið að slá örlítið í)
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 450 g ýsa (bein- og roðlaus)
  • 25 g kartöflumjöl eða spelt
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • smá svartur pipar
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 msk rautt, thailenskt karrímauk (mér fannst þetta heldur sterkt og mun nota 1 tsk næst)
  • 1 msk fiskisósa
  • 250 ml léttmjólk eða undanrenna (ég notaði möndlu-kókosmjólk)
  • 2 msk kókosflögur
  • 20 fersk basil blöð, skorin í ræmur eða rifin (ég átti ekki fersk svo ég notaði smá þurrkað basil)

Skerið fiskinn í meðalstóra bita og veltið upp úr kartöflumjölinu (kryddið mjölið með smá salti og pipar). Hitið kókosolíu á stórri pönnu og léttsteikið fiskinn. Blandið saman hvítlauk, karrímauki, fiskisósu og mjólk, hellið því næst blöndunni yfir fiskinn og hitið að suðu. Bætið þá tómötunum við og látið krauma í 5 mínútur. Dreifið að lokum basilblöðunum og kókosflögunum yfir og berið fram. Gott er að hafa hrísgrjón með en ég hefði viljað hafa ferskt salat líka og mun því bæta úr því næst.

fiskur2

Þessi réttur hentar vel fyrir uppteknar húsmæður þar sem það tók aðeins 20 mínútur að gera hann.

 

Njótið <3

Elsa Kristinsdóttir

Pin It on Pinterest