Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

Góð ráð! Hvernig á að auka sjálfstraust barna þinna í skólanum

 

Byrjun skólaársins er frábær tími til að „endurmóta“ viðhorf barnanna okkar. Börnin þurfa oft að byrja í nýjum árgangi, nýjum skóla jafnvel þannig þau geta glímt við alls konar efasemdir um sig sjálf og þau þurfa því að vera örugg með sig. Til að þrífast, bæði tilfinningalega sem og í náminu sjálfu, þurfa börn bæði að trúa á hæfileika sína og einnig skilja hverjir hæfileikar þeirra eru.

Það er skiljanlegt að foreldrar óski þess heitast að verja börn gegn mistökum og að þau upplifi ekki höfnunartilfinningu eða að þau hafi brugðist. Þau þurfa samt rými til að „melta“ þessar tilfinningar – því þannig læra þau. Að læra af slíkum mistökum eða einhverju tilfinningalegu uppnámi af einhverju tagi mun hjálpa þeim að þroskast og fullorðnast. Með ferðalaginu í gegn um þeirra eigin styrk- og veikleika þróa börnin með sér heilbrigða sjálfsmynd

Með heiðarleika, gagnsæi og einlægni getum við hjálpað börnunum okkar í gegnum nýja skólaárið með frábærum árangri.

Hér eru nokkur ráð sem foreldrar af vefnum Parents.com gefa öðrum foreldrum! 

Litlir Post-it miðar

„Að skrifa til barnanna minna er ein leið sem ég nota til að tengjast þeim,” segir faðir einn. „Ég tengist þeim og eykur sambandið við þau í gegnum miða sem ég set í nestið þeirra. Það gefur þeim sjálfstraust og kraft til að átta sig á að þau eru mikils virði og það er einnig áminning um ástina sem bíður þeirra þegar þau koma heim.“

Jákvæðar staðhæfingar

Staðfestingar (e. affirmation) eru kort með jákvæðum staðhæfingum sem börn geta lesið og sagt upphátt. Þetta má nota sem daglega núvitundaræfingu eða verkfæri til að bregðast við erfiðum tilfinningum eða reynslu. Það getur reynst vel fyrir börn að fara með slíkar staðhæfingar eins oft og hægt er. samkvæmt Psychology Today segir að því oftar sem við endurtökum jákvæðar hugsanir/staðhæfingar, því auðveldara er að minnast þeirra yfir daginn.

Húðkrem eða ilmur

Lykt eða eitthvað sem minnir á öryggi. Sjálfsöryggi þýðir að einstaklingi finnst hann vera öruggur og lykt getur hjálpað okkur að muna að við erum örugg. Hvaða ilmur eða lykt sem barnið þitt líkar við er hægt að taka með í litla flösku eða pakkningu sem þau geta lyktað af milli tíma.

Fjölskyldumynd

Sjálfstrausts„búst“ getur falið í sér að barnið er minnt á hversu elskað það er. Að vera minnt á fjölskylduna, menninguna eða arfleifðina eykur sjálfstraust og það er góð hugmynd að setja fjölskyldumynd einhvers staðar þar sem barnið getur horft á hana og fundið fyrir hlýju og öryggi.

 

Dagbók eða skipulagsmiðar

Að skrifa niður það sem þarf að gera og minna barnið á getur hjálpað því að halda sig við verkin og undirbúa sig. Þetta getur líka verið notað til að létta á barninu, sérstaklega ef það á erfitt með að skipuleggja sig eða sjá hluti fyrir fram. Að hafa eitthvert kerfi við lýði getur minnkað óvissu. Vertu viss um að dagbókin eða skipulagsmiðar séu rökréttir og innihaldi skýr skilaboð. Tilgangurinn er ekki að búa til kvíða eða ýta undir formfestu.

Miðar með umræðuefni

Ef barnið á erfitt með að halda uppi samræðum er sniðugt að búa til miða með setningum sem hægt er að spyrja að eða búa til umræðuefni.

Að lesa með barninu

Hvaða bók höfðar hvað mest til barnsins þíns? Hvernig líður því eftir lestur? Sniðugt er að finna uppáhalds bók barnsins og halda henni við með því að lesa hana reglulega. Þannig búið þið til tíma fyrir ykkur og veitir lesturinn barninu öryggi.

Föt sem börnunum líður vel í

Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þau börn sem eru „skynsegin“ en það er íslenska yfir þau börn sem hafa greiningar á taugamargbreytileika. 

Börn sem greind eru með einhverfu eða ADHD til dæmis skipta oft um föt. Þar sem föt hafa mismunandi áferð, stíla og liti er því um að ræða leið fyrir þau börn til að tjá sig. Sumir vilja ráða sjálfir í hverju þeir eru til að sýna hvernig þeim líður. Einnig má nota hárskraut, sólgleraugu, skó og mismunandi hárstíla. Svo er sniðugt að gefa þeim skartgripi sem geta sagt hvernig skapi þau eru í þann daginn.

 

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Að finna rétt jafnvægi þegar börnin fara að heiman, eða „fljúga úr hreiðrinu“ getur reynst mörgum foreldrum erfitt. Það fer hins vegar eftir því hversu tengd/ur þú ert börnunum, hversu erfitt eða auðvelt aðskilnaðurinn kann að vera.

Þið óluð upp börn og lögðuð mikið á ykkur og svo kemur að því að þau finna sér íbúð, fara í samband eða flytja af landi brott. Ánægjulegt, eða hvað? Kannski ekki alltaf. Börnin finna líka fyrir söknuði og eiga einnig erfitt með að fara frá heimilinu, kannski fyrir fullt og allt. Mörgum foreldrum reynist þetta erfitt og kvíðvænlegt. Hvað ef allt verður ekki í lagi? Hvað getum við gert?

Samkvæmt Psychology Today er ráðlagt fyrir foreldra að greina hvernig tengslin eru áður en ungmennið flytur að heiman eða þegar sú staða kemur upp.

Öruggir foreldrar

Öruggir foreldrar eru þeir sem eru hvað farsælastir í þessum stóra „aðskilnaði“ og halda sambandi og hvetja ungmennið til að kanna nýjar slóðir. Þessir foreldrar horfa á heiminn sem öruggan stað og hafa sterk félagsleg tengsl og hafa ekki miklar áhyggjur að missa tengsl við börnin sín. Þar sem foreldrarnir eru andlega sterkir er líklegt að hið brottflutta ungmenni sé það einnig. Þessi ungmenni eru einnig líklegri til að vera sjálfstæðari og halda sínum sérkennum og eru þar af leiðandi líklegri til að standa sig vel í skóla sem og lífinu almennt.

Forðunarforeldrar

Þeir foreldrar sem eiga til að forðast átök eða afgreiða hlutina fljótt geta saknað barnanna sinna í fyrstu en aðlagast nýjum raunveruleika fljótt. Í sumum (öfgafullum) tilfellum geta þau jafnvel fagnað því að hafa fengið líf sitt til baka og gera það jafnvel opinberlega. Um leið og börn þeirra flytja að heiman eru þeir líklegri til að halda áfram með líf sitt og eru ánægðir með að börnin þeirra hafi samband við þá, en ekki öfugt. Ef barnið hefur samband varðandi félagsleg mál eða særðar tilfinningar getur verið að foreldrið hafi ekki áhuga á að ræða þau mál en annað virðist vera uppi á teningnum þegar barnið ræðir keppni af einhverju tagi, eða það er að klífa metorðastigann. Þeir foreldrar eru líklegir til að blanda sér í málin og eru jafnvel stjórnsamir. Vegna þess hve árangursdrifnir þeir eru getur verið að þeir hafi samband við barnið bara til að fá að frétta af árangri þess. Hins vegar upplifir barnið þetta sem sjálfselsku þar sem foreldrarnir eru ekki mjög áreiðanlegir og veita barninu ekki þann stuðning sem það þarfnast.

Uppteknir eða kvíðnir foreldrar

Þeir foreldrar sem eru mjög uppteknir í daglegu lífi eða glíma við kvíða eru líklegastir til að upplifa depurð eða missi þegar börn þeirra flytja að heima. Þeir eru líklegir til að sakna sambandsins sem þeir áttu við barnið (jafnvel þótt sambandið hafi ekki verið sérlega gott). Þessir foreldrar hafa áhyggjur af samböndum og vilja að þeir séu elskaðir og fólk þurfi á þeim að halda og þar af leiðandi eiga þeir erfiðara með að sleppa hendinni af barninu. Þeir vilja oft fá meiri athygli frá barninu og það sé alltaf í sambandi og þeir séu minntir á það góða í sambandi þeirra og vilja vera nálægt því. Þeir eru einnig líklegri til að hafa áhyggjur af félagslífi barnsins og einnig frammistöðu þess í skóla eða í vinnu. Í sérstökum tilfellum getur slíkt gengið út í öfgar; þeir geta verið allt of afskiptasamir eða „hangið í“ barninu. Þetta getur orsakað að barnið vill ekki kanna heiminn og/eða verið ósjálfstætt, þar sem foreldrið hindrar barnið í sjálfstæði.

Óttaslegnir foreldrar

Þessir foreldrar eru ólíkir hinum því þeir eru bæði kvíðnir og forðast náin sambönd. Þeir geta farið frá því að vera of nálægt barninu og svo algerlega lokast og vilja ekki nein samskipti. Í öfgafyllri dæmum geta þessir foreldrar orðið fjandsamlegir, jafnvel, og ásaka barnið um afskiptaleysi eða væna það um að elska þá ekki. Eins og sjá má, er þetta mynstur líklegt til að valda barninu mikilli streitu og ábyrgðartilfinningu og getur það sveiflast frá því að finnast það vera eitt í heiminum og afskiptalaust. Slíkar uppeldisaðstæður bjóða upp á að barnið verði síður sjálfstætt og sé hrætt við að kanna heiminn.

Að horfast heiðarlega í augu við sig sjálfa/n getur látið þig sjá hvers konar foreldri þú ert og hvernig samskiptum við barnið þitt er háttað. Börnin okkar verða líklega ekki heima að eilífu þannig það er ekki úr vegi að athuga hvort hægt sé að breyta um „taktík“ til að aðskilnaðurinn verði sem auðveldastur fyrir alla. Þrátt fyrir að sjá sjálfa/n sig í einhverju af þessum mynstrum, ekki láta það hafa áhrif á hversu oft þú hefur samband við barnið þitt eða hvernig samskiptunum er háttað. Sniðugt er að ákveða tíma í hverri viku þar sem foreldri/foreldrar og barn/börn „taka stöðuna.“ Best er að gera slíkt í persónu eða í síma, ekki í gegnum textaskilaboð.

Ekki hætta samskiptum við barnið eða refsa því fyrir að hafa of oft samband eða of sjaldan að þínu mati.

Gefðu barninu þínu tíma og rými til að finna út úr eigin lífi.

Barnið má gera mistök til að læra og halda áfram. Og þú getur svo alltaf verið til staðar þegar það snýr aftur til þín til huggunar, hvatningar og stuðnings.

 

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut: „Ég fékk að leika mér, ég fékk að vera barn”

Alma Rut skrifar: Þegar ég var lítil átti ég ekki gsm síma, ég var ekki með internet og notkun á heimasímanum var takmörkuð þar sem að dýrt var að hringja og þá sérstaklega út á land.
 
Þegar ég var lítil mættu vinir mínir heim til mín til þess að spyrja eftir mér og ég heim til þeirra. Stundum þá töluðumst krakkarnir saman í skólanum og ákváðu tíma og stað til að hittast á um kvöldið. Það voru lang flestir úti, alltaf og hvernig sem veðrið var. Við bara klæddum okkur vel.
 
Þegar ég var lítil safnaði ég öllu sem ég gat safnað held ég. Límmiðum, lukkutröllum, steinum, og sérvéttum. Ég talaði við alla og kynntist fólki út um allt. Sumar konurnar í hverfinu tóku fyrir mig sérvéttur þegar þær fóru í veislu og geymdu í kassa sem ég svo sótti til þeirra.
 
Þegar ég var lítil sótti ég mat handa kettinum í fiskibúðina því ég hafði nokkru áður gefið mig á tal við starfsmann þar sem síðan safnaði afgöngum fyrir mig. Svo mætti ég nokkrum sinnum í viku eða daglega og sótti allskonar hausa og fleira af fiskum handa kisunni okkar henni Lúsí.
 
Alma Rut á góðri stundu með Axel, syni sínum

 
Þegar ég var lítil tók ég strætó niður á bryggju með systur minni og bauð fram vinnuafl, mig og Thelmu systir og í laun vildum við fá hamborgaratilboð.
Við gengum á milli báta og fengum að lokum vinnu. Við verkuðum heilan dag, vorum allar í slori og enduðum daginn stoltar og sælar, angandi af fiski fýlu fyrir framan afraksturinn, launin okkar sem voru hamborgari, franskar og kók.
 
Þegar ég var lítil þá gladdi ég mömmu með blómum, steinum, bréfum og ljóðum. Ég bjó til kaffi handa henni og kom henni á óvart með því að taka til áður en hún kom heim. Hún tók sér tíma í að þakka mér fyrir og ég vissi og fann í hjartanu mínu að hún meinti það.
Þegar ég var lítil þá leiddi ég blindan mann sem bjó á neðstu hæðinni hjá ömmu fram og til baka upp götuna.
 
Éģ var þarna fjögurra ára gömul, gekk niður tröppurnar og „sótti” hann, bað hann um að koma því nu værum við sko að fara út að labba. Mín tilfinning var greinilega sú að ég gæti hjálpað honum þar sem að hann sá ekki. Og saman gengum við fram og til baka.
Þegar ég var lítil þá sat ég heilu tímana og gramsaði í geymslunni, ég heimsótti gamlar konur og ég bauð þeim aðstoð. Ég bjó til allskonar úr öllu og lék mér með fullt sem var ekki dót.
 
Þegar ég var lítil þá fékk ég mikið frelsi til að vera barn og það frelsi var mér ómetanlegt. Ég sullaði í drullupollum, lék mér í fötunum hennar ömmu, gerði rennibraut úr borðstofuborðinu og ég lék mér á ruslahaugum. Ég fékk að baka uppskrift sem ég bjó til sjálf úr öllu sem varð að engu. Og það mikilvægasta var að ég fékk að njóta mín, ég fékk frelsi til að prófa mig áfram og mér var treyst, ég fékk að leika mér og vera barn.
 
Barnæskan er svo ofboðslega dýrmæt og það er svo mikilvægt að njóta hennar. Það er auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og að segja nei, mátt þetta ekki, þú verður skítug/skítugur, hef ekki tíma núna eða seinna. Stundum er bara svo ótrúlega gott að staldra við og leyfa, segja já þrífa bara skítug föt og njóta. Gleðin, vellíðan, hamingja, kærleikur, ást, leikur, samvera og hlátur er svo dýrmætt fyrir börnin okkar og okkur öll.
 

Alma Rut heldur úti síðunni Leikum okkur sem snýst um dýrmætustu samveruna – samveruna með börnum okkur og hugmyndir að því sem hægt er að gera saman. Alma er bæði á Facebook og Instagram 

Smellið á samfélagsmiðlahnappana hér að neðan til að fara inn á síðurnar hennar!

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Vissir þú að börn þurfa að hreyfa sig af mikilli ákefð í klukkustund á dag? Þú þarft samt ekki að beita neinu harðræði til að fá þau til að hreyfa sig, þú þarft bara að vera sniðug/ur!

Hér eru nokkur frábær ráð:

Gerið það saman

Kvöldmaturinn er búinn. Í stað þess að fara inn í sjónvarpsherbergi, farðu beint að útidyrahurðinni. Farið út að labba eða hjóla. Finnið körfuboltavöll, farið í eltingaleik eða dansið. Hafið umræðuefnið létt, ekki rétti tíminn til að skammast út af einkunnum eða hegðun. Ef það er gaman hjá öllum vilja allir fara út að leika aftur.

Reynið að finna klukkutíma á dag

Börn þurfa að hreyfa sig í 60 mínútur á dag. Hreyfingin ætti að samanstanda af æfingum sem reyna á hjartað (labba hratt eða hlaupa), æfa vöðvana (armbeygjur) og styrkja beinin (sippa o.þ.h.).

Þessi klukkutími þarf samt ekki að vera tekinn allur í einu. Hægt er að skipta þessu upp í nokkrar lotur. Til dæmis, ef barnið hefur farið í 40 mínútna íþróttatíma í skólanum, gerið eitthvað sniðugt í 20 mínútur um kvöldið, út að labba með hundinn eða í sund.

Að nota skrefateljara

Krakkar elska tæknidót. Að gefa barninu úr með skrefateljara getur virkilega haft góð áhrif á að það hreyfi sig meira. Enn betra er að ef allir í fjölskyldunni hafi slíkt tæki. Þá er hægt að koma með litlar áskoranir af og til eða keppni milli fjölskyldumeðlima. Hversu mörg skref eru út í búð? Hvað ertu fljót/ur að taka 80 skref? Krakkar elska að taka þátt í svona leikjum og það er ekkert nema hollt.

Að eiga rétta búnaðinn

Þú þarft ekki að eyða fúlgu fjár í búnað, þó það sé líka gaman. Hægt er að kaupa sippuband eða uppblásinn bolta sem gerir það sama. Eigðu kannski varasjóð með nýju dóti sem hægt er að leika með úti. Svo getur þú verið hetjan þegar börnunum leiðist!

Veldu umhverfið

Hljómar einfalt, en stundum þarftu að kjósa rétta staðsetningu. Farðu með börnin á róló, fótboltavöllinn eða í garðinn. Takið með ykkur nesti og vini þeirra. Þú þarft ekki að hafa mikið fyrir því, hreyfingin kemur að sjálfu sér.

Fjárfestu í íþróttatímum

Hvað sem það er, karate, tennis, jóga eða dans – getur verið frábær leið til að leyfa börnunum að verða heilluð af íþrótt. Farið í heimsókn í tíma áður en þið ákveðið ykkur og leyfið barninu að velja uppáhaldið sitt. Þannig veistu að peningunum er vel varið.

Spila tölvuleiki? Já!

Hreyfingin þarf ekki að vera óvinurinn. Ef þið eigið eða hafið aðgang að tölvu á borð við Kinect eða Wii eru þar margir leikir sem innihalda líkamsrækt, jóga, íþróttir, dans og fleira. Krakkar sem hreyfa sig í leik brenna um 200% meira en þeir sem sitja við leikinn.

Hafðu gaman

Taktu í hönd barnsins þíns og hoppaðu í lauf- eða snjóhrúgu. Þú þarft ekkert að minnast á „hreyfingu“ – hún gerist að sjálfu sér. Plantið blómum. Labbið í bókasafnið. Búið til snjókall. Hafðu skemmtunina fumlausa á hverjum degi, ekki eitthvað sem „þarf að gera.“

Vertu hvetjandi

Ef barnið þitt hefur ekki áhuga á hreyfingu um leið, ekki gefast upp. Hrósaðu því fyrir það sem það gerir. Ef barnið hefur ekki gaman af keppni, reyndu eitthvað annað, s.s. fjallgöngu eða kayak. Lykilinn er að finna það sem þeim finnst gaman. Haltu áfram að prófa mismunandi íþróttir eða athafnir. Hjálpaðu þeim að sjá að hreyfing er fyrir alla.

Finndu það sem þú brennur fyrir

Ef þú vilt sjá börnin þín hreyfa sig hjálpar það til ef þú gerir það líka. Ef þau sjá þig stunda hreyfingu sjá þau að hún er hluti af lífinu og hún er skemmtileg. Svo, hvað finnst þér gaman? Finndu það sem þú elskar og deildu því svo með börnunum. Það er allt í lagi þó þið hafið ekki verið að hreyfa ykkur mikið saman. Þið getið byrjað á því saman.

Laumaðu því inn

Til dæmis, ef þú ert að fara í verslun skaltu leggja langt frá innganginum. Sleppið lyftunni og notið stigann. Búðu til smá keppnir, hver getur tekið til fljótast eða búið til stærsta snjóskaflinn? Gríptu hvert tækifæri til að ganga, hlaupa, hoppa og leika til að gera hreyfinguna órjúfanlega hluta lífsins.

Heimild: WebMd

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Leikur og sköpunarkraftur: Börn verða að kynnast verkum ÞYKJÓ

Fjórar framúrskarandi konur á sínu sviði sameinast í hönnunarverkefni sem öll börn verða að fá að kynnast. Á HönnunarMars stendur nú yfir sýning í Salnum, Gerðarsafni og Bókasafni Kópavogs sem er opin börnum og foreldrum frá 19.-23. maí.

Sköpunarverk ÞYKJÓ hafa það markmið að örva ímyndunarafl barna og sköpunarkraft í gegnum frjálsan leik. Þær vinna mikið með börnum, til að fá að vita hvað þau vilja og hvað þeim finnst skemmtilegt, mikil áhersla er lögð á samvinnu við börnin sjálf. Einnig leggja hönnuðirnir áherslu á að nota náttúruleg og endurvinnanleg efni, enda hafa þær skýra umhverfisstefnu í vinnu sinni.

Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikmynda- og búningahönnuður og Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, hittu blaðakonur Mömmunnar í Kópavogi þar sem þær sýndu blaðakonum afrakstur vinnu sinnar.
Hinir meðlimir ÞYKJÓ eru þær Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, fatahönnuður og klæðskeri.

Hönnunarteymi ÞYKJÓ. Mynd: Sigga Ella

Kyrrðarrými: Kuðungur, ígulker og snigill

Hönnuðir ÞYKJÓ höfðu listamannadvöl í Stúdíó Gerðar í Gerðarsafni frá janúar til apríl 2021. Skúlptúrar eftir Gerði standa í rýminu og var listakonan ásamt vinnuferli hennar þeim stöllum mikill innblástur í hönnunarferlinu. Í rýminu standa þrjár hönnunarvörur, kuðungur, ígulker og snigill sem þær kalla Kyrrðarrými: Hvíldarhjúp fyrir börn. Enda geta börnin sest inn í Kyrrðarrýmin, lesið bók, slakað á eða leikið sér.

Fyrst unnu þær í ÞYKJÓ með litlar myndir, smálíkön í hlutföllunum 1:5, líkt og Gerður vann sína skúlptúra. Skólabörn í Kópavogi sem fengu að fylgjast með hönnunarferlinu sáu fyrst smálíkönin og fengu svo að sjá afraksturinn síðar: „Þetta var mikill lærdómur fyrir þau“ segir Sigríður Sunna. „Þau fengu innsýn í rannsóknar- og þróunarvinnuna, upplifðu eftirvæntingu að bíða eftir að verkið yrði að veruleika í raunstærð. Þau voru mjög spennt fyrir þessu og eru mörg hver að heimsækja safnið aftur með foreldrum sínum til að fá að prófa lokaútkomuna.“

Kuðungurinn. Takið eftir börðunum undir honum.
Mynd: Sigga Ella

Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim ýmsa gripi og sjá má stærðarinnar kuðung í sýningarrýminu. Kuðungur stækkar, hring eftir hring, og það var í raun eins og kuðungurinn var unninn í ferlinu. Erla Ólafsdóttir arkitekt skoðaði ólíkar gerðir kuðunga og komst að ýmsu áhugaverðu ásamt því að fínpússa hugmyndina. Hægt er nefnilega að lesa í hringina hversu gamall kuðungurinn er, líkt og árhringi í trjám.

Kyrrðarrýmin voru unnin í samstarfi við smiðina Ögmund Jónsson og Luis Castillo Nassur og eru þau afskaplega tilkomumikil að sjá, litrík og mjúk viðkomu. Efnið er lífrænt vottaður harðtrefjaviður sem kallast Valchromat, en hann er gegnumlitaður með lífrænum lit. Nánastekkert er límt eða skrúfað, heldur er notað gamalt handverk, fleygar sem kallast japönsk samskeyti. „Okkur fannst spennandi að nota það. Bæði af fagurfræðilegum ástæðum og svo gegnir það praktísku hlutverki líka, heldur strúktúrnum saman“ segir Sigríður Sunna. Púðarnir í rýmunum hafa áklæði sem einnig eru endurunnin, unnin úr ull sem til fellur til úr tískuiðnaðinum í Ítalíu og er spunninn upp í nýja efnisstranga.

Kuðungur í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Vísað er í náttúrufyrirbærin á leikrænan hátt í hverju rými fyrir sig – vísað er í brodda ígulkersins og barða kuðungsins í handverkinu, formin endurspegla náttúruna.
Rýmin hvetja til gæðastunda fyrir fjölskyldur, bjóða upp á hvíldarstund og að kúpla sig út…sem ekki er vanþörf á í hraða nútímasamfélagsins.

Fuglasöngvar

Næst er gengið inn í rými í Salnum og það er eins og að ganga inn í skóg, því fuglahljóð eru allsráðandi. Á gólfinu eru þrjú hreiður sem mannabörn geta fengið að prófa og hvíla í, alveg eins og litlir ungar. Börnin sem viðstödd eru í salnum eru augljóslega að njóta sín, slaka á, lesa bækur eða dunda sér með eggin. Eggin eru unnin úr textíl og gefa frá sér mismunandi fuglahljóð.

Slakað á í hreiðri
Mynd: Mamman

„Náttúran er svo magnaður hönnuður,“ segir Sigríður Sunna, og sýnir blaðakonum kassa með eggjum sem eru bæði pínulítil og risastór, í ólíkum litum og af ólíkri lögun sem Náttúrufræðistofa Kópavogs lánaði þeim til að hafa með í rýminu. Þær þurftu að leggjast í mikla rannsóknarvinnu hvað hreiður og egg varðaði og eftir þá rannsóknarvinnu fóru þær í samstarf við tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur og forritaði hún hljóð fuglanna og vann með þau og setti í eggin. Svo er ýtt hér og þar á eggin, togað eða potað og þá heyrast fuglahljóð. „Svo er hægt að stilla eggjunum upp eins og hljóðfærum og búa til tónverk“ segir Sigríður. „Krökkum finnst ótrúlega gaman að leika sér með þetta.“

Allskonar egg.
Mynd: Sigga Ella

Upplýsingaskilti eru allsstaðar í hæð barnanna til fróðleiks, ásamt bókum um fugla.

Eggin stórskemmtilegu í vinnslu.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin voru svo unnin í samstarfi við Blindravinnustofuna sem hafa áratuga reynslu af því að flétta körfur og vöggur úr tágum. Stefán B. Stefánsson, Denni, á Blindravinnustofunni vann þau ótrúlega hratt og vel, en hann var ekki vanur að vinna með svo óreglulegt form. Hann miðlaði sinni verkþekkingu til Ninnu sem mætti með honum klukkan fimm á morgnana í nokkrar vikur til að vefa hreiðrin.

Ninna vefar hreiður.
Mynd: Sigga Ella

Hreiðrin áttu að vera sem líkust alvöru hreiðrum og mjúk ull er í botninum eins og sumir fuglar nota þegar þeir búa til sín hreiður.

Með mörg egg í einu hreiðri.
Mynd: Mamman

Ofurhetjur jarðar: Búningalína fyrir börn

Í litlu herbergi innan af Bókasafni Kópavogs er svo búningaleikherbergi með búningum sem börn mega prófa og leika sér með. Samstarf ÞYKJÓ hófst með þessari búningalínu og allt efnið í búningunum er 100% endurunnið, ekkert nýtt efni er keypt í þá. Hönnuðirnir vinna í samstarfi við nokkur fyrirtæki á borð við Burstagerðina, Seglagerðina Ægi og Hampiðjuna og nýta afskorninga sem falla til hjá þeim. Hönnuðir ÞYKJÓ eru einnig í samstarfi við Rauða krossinn og kaupa efni þaðan til að endurnýta. Handverkið er ægifagurt og hönnunin sömuleiðis. Blaðakonu verður á orði hvort ekki sé hægt að fá búningana í fullorðinsstærð, svo skemmtilegir eru þeir.

Stórkostlega vandaðir og skemmtilegir búningar.
Mynd: Mamman

„Við vildum vinna þetta svona, það er ótrúlega mikil mengun í textíliðnaði. Hankarnir sem búningarnir eru hengdir á eru meira að segja unnir úr afskorningum frá Kyrrðarrýmunum, við viljum alltaf reyna að vera í sátt við umhverfið,“ segir Sigríður Sunna.

Gaman er að sjá börnin prófa búningana því allt þeirra atferli breytist. Þau fara að gefa frá sér hljóð, baða út öngunum og gogga jafnvel. Allt er þetta markmiðið í sjálfu sér – að örva hreyfiþroskann og einnig hvernig efnin eru viðkomu. Meðal búninganna er Ástarfuglinn og Feludýrið sem horfið getur inn í skel sína!

Sjáið hvað hún er flott!
Mynd: Mamman

Við hvetjum sem flesta til að gera sér ferð í Kópavoginn með börn á öllum aldri. Það er nefnilega svo gaman að leika sér.

Smellið á hnappana að neðan til að skoða Facebook- og Instagramsíður ÞYKJÓ 

Fyrsta vika í lífi móður og barns: Myndband

Fyrsta vika í lífi móður og barns: Myndband

Fyrsta vika í lífi móður og barns: Myndband

 
Ertu að eignast barn á næstunni? Að mörgu er að huga, því er fyrsta vikan afar mikilvæg fyrir alla í fjölskyldunni, sama hversu stór hún er. Margir gera sér ekki grein fyrir hversu mikið lífið breytist, en það þarf ekki að vera erfitt ef maður er vel undirbúinn! Sjáðu þetta frábæra myndband sem rúmlega milljón manna hafa séð:
 

Pin It on Pinterest