Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Fyrir foreldra: Þegar börnin flytja að heiman

Að finna rétt jafnvægi þegar börnin fara að heiman, eða „fljúga úr hreiðrinu“ getur reynst mörgum foreldrum erfitt. Það fer hins vegar eftir því hversu tengd/ur þú ert börnunum, hversu erfitt eða auðvelt aðskilnaðurinn kann að vera.

Þið óluð upp börn og lögðuð mikið á ykkur og svo kemur að því að þau finna sér íbúð, fara í samband eða flytja af landi brott. Ánægjulegt, eða hvað? Kannski ekki alltaf. Börnin finna líka fyrir söknuði og eiga einnig erfitt með að fara frá heimilinu, kannski fyrir fullt og allt. Mörgum foreldrum reynist þetta erfitt og kvíðvænlegt. Hvað ef allt verður ekki í lagi? Hvað getum við gert?

Samkvæmt Psychology Today er ráðlagt fyrir foreldra að greina hvernig tengslin eru áður en ungmennið flytur að heiman eða þegar sú staða kemur upp.

Öruggir foreldrar

Öruggir foreldrar eru þeir sem eru hvað farsælastir í þessum stóra „aðskilnaði“ og halda sambandi og hvetja ungmennið til að kanna nýjar slóðir. Þessir foreldrar horfa á heiminn sem öruggan stað og hafa sterk félagsleg tengsl og hafa ekki miklar áhyggjur að missa tengsl við börnin sín. Þar sem foreldrarnir eru andlega sterkir er líklegt að hið brottflutta ungmenni sé það einnig. Þessi ungmenni eru einnig líklegri til að vera sjálfstæðari og halda sínum sérkennum og eru þar af leiðandi líklegri til að standa sig vel í skóla sem og lífinu almennt.

Forðunarforeldrar

Þeir foreldrar sem eiga til að forðast átök eða afgreiða hlutina fljótt geta saknað barnanna sinna í fyrstu en aðlagast nýjum raunveruleika fljótt. Í sumum (öfgafullum) tilfellum geta þau jafnvel fagnað því að hafa fengið líf sitt til baka og gera það jafnvel opinberlega. Um leið og börn þeirra flytja að heiman eru þeir líklegri til að halda áfram með líf sitt og eru ánægðir með að börnin þeirra hafi samband við þá, en ekki öfugt. Ef barnið hefur samband varðandi félagsleg mál eða særðar tilfinningar getur verið að foreldrið hafi ekki áhuga á að ræða þau mál en annað virðist vera uppi á teningnum þegar barnið ræðir keppni af einhverju tagi, eða það er að klífa metorðastigann. Þeir foreldrar eru líklegir til að blanda sér í málin og eru jafnvel stjórnsamir. Vegna þess hve árangursdrifnir þeir eru getur verið að þeir hafi samband við barnið bara til að fá að frétta af árangri þess. Hins vegar upplifir barnið þetta sem sjálfselsku þar sem foreldrarnir eru ekki mjög áreiðanlegir og veita barninu ekki þann stuðning sem það þarfnast.

Uppteknir eða kvíðnir foreldrar

Þeir foreldrar sem eru mjög uppteknir í daglegu lífi eða glíma við kvíða eru líklegastir til að upplifa depurð eða missi þegar börn þeirra flytja að heima. Þeir eru líklegir til að sakna sambandsins sem þeir áttu við barnið (jafnvel þótt sambandið hafi ekki verið sérlega gott). Þessir foreldrar hafa áhyggjur af samböndum og vilja að þeir séu elskaðir og fólk þurfi á þeim að halda og þar af leiðandi eiga þeir erfiðara með að sleppa hendinni af barninu. Þeir vilja oft fá meiri athygli frá barninu og það sé alltaf í sambandi og þeir séu minntir á það góða í sambandi þeirra og vilja vera nálægt því. Þeir eru einnig líklegri til að hafa áhyggjur af félagslífi barnsins og einnig frammistöðu þess í skóla eða í vinnu. Í sérstökum tilfellum getur slíkt gengið út í öfgar; þeir geta verið allt of afskiptasamir eða „hangið í“ barninu. Þetta getur orsakað að barnið vill ekki kanna heiminn og/eða verið ósjálfstætt, þar sem foreldrið hindrar barnið í sjálfstæði.

Óttaslegnir foreldrar

Þessir foreldrar eru ólíkir hinum því þeir eru bæði kvíðnir og forðast náin sambönd. Þeir geta farið frá því að vera of nálægt barninu og svo algerlega lokast og vilja ekki nein samskipti. Í öfgafyllri dæmum geta þessir foreldrar orðið fjandsamlegir, jafnvel, og ásaka barnið um afskiptaleysi eða væna það um að elska þá ekki. Eins og sjá má, er þetta mynstur líklegt til að valda barninu mikilli streitu og ábyrgðartilfinningu og getur það sveiflast frá því að finnast það vera eitt í heiminum og afskiptalaust. Slíkar uppeldisaðstæður bjóða upp á að barnið verði síður sjálfstætt og sé hrætt við að kanna heiminn.

Að horfast heiðarlega í augu við sig sjálfa/n getur látið þig sjá hvers konar foreldri þú ert og hvernig samskiptum við barnið þitt er háttað. Börnin okkar verða líklega ekki heima að eilífu þannig það er ekki úr vegi að athuga hvort hægt sé að breyta um „taktík“ til að aðskilnaðurinn verði sem auðveldastur fyrir alla. Þrátt fyrir að sjá sjálfa/n sig í einhverju af þessum mynstrum, ekki láta það hafa áhrif á hversu oft þú hefur samband við barnið þitt eða hvernig samskiptunum er háttað. Sniðugt er að ákveða tíma í hverri viku þar sem foreldri/foreldrar og barn/börn „taka stöðuna.“ Best er að gera slíkt í persónu eða í síma, ekki í gegnum textaskilaboð.

Ekki hætta samskiptum við barnið eða refsa því fyrir að hafa of oft samband eða of sjaldan að þínu mati.

Gefðu barninu þínu tíma og rými til að finna út úr eigin lífi.

Barnið má gera mistök til að læra og halda áfram. Og þú getur svo alltaf verið til staðar þegar það snýr aftur til þín til huggunar, hvatningar og stuðnings.

 

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

14 góð ráð fyrir örþreyttar mæður

Móðurhlutverkið er virkilega erfitt. Viðurkennum það bara. Við þurfum að hagræða öllu, framkvæma endalaust marga hluti og það er oft stutt í örmögnun og jafnvel kulnun. Tölum ekki um hvað er erfitt að vera jákvæðar þrátt fyrir að eiga bestu börn eða maka í heimi. Við þurfum stöðugt að taka ákvarðanir og bera ábyrgð og þessi atriði hlaðast upp þar til okkur finnst við vera að drukkna. Vð verðum úrvinda og hættum að sjá ljósið við enda ganganna. Að vera mamma er svolítið eins og að vera í áskrift að örmögnun, samviskubiti (eða mammviskubiti) eins og við sumar köllum það. 

Það eru samt ýmsar leiðir til að gera dagana auðveldari. Það er kannski ekki hægt að hagræða öllu en þessar leiðir geta haft lítil áhrif á hverjum degi sem gera heildarmyndina bærilegri. 

Hér eru 14 ráð sem ofurþreyttar mæður geta nýtt sér!

Er eðlilegt að vera örþreytt mamma?

Svarið er einfalt: „JÁ!“ Í nútímasamfélagi er það í raun afskaplega algengt. Ef þér finnst móðurhlutverkið erfitt, ertu svo sannarlega ekki ein um það. Nútímasamfélagið hefur fjarlægt okkur rótum okkar. Þegar mannfólkið bjó í litlum þorpum var allt nærsamfélagið búið til úr vinum, kunningjum og ættingjum. Mæður höfðu stuðningsnet í kringum sig, ömmur og afar voru til taks og börnin léku sér og foreldrar tóku að sér að gæta þeirra í sameiningu. Og … það þurfti ekki að vinna til að standa undir reikningum frá daggæslu barna. 

Þannig málshátturinn um að það taki þorp til að ala upp barn (e. it takes a village to raise a child) er sannur … en hvað ef við höfum ekki þetta „þorp“ í kringum okkur?

Í nútímasamfélagi þykir mæðrum þær oft bera alla ábyrgð og gera allt, og helst gera það sjálfar. Mæður sem upplifa þreytu og örmögnun eru bara venjulegar mæður. Þó við upplifum þrýsting að vera sjálfstæðar og gera allt sjálfar, er það í alvöru nauðsynlegt? Og þegar við upplifum að við séum að „drukkna“ er erfitt að flýja. En það er samt hægt að gera hlutina bærilegri og forðast algera kulnun. 

1. Viðurkenndu hvernig þér líður

Fyrsta skrefið er að tala um þessa örmögnun og tilfinningarnar sem fylgja henni. Þrátt fyrir að það sé ekkert ánægjulegt við þessar tilfinningar er fyrsta skrefið að viðurkenna þær, bera kennsl á þær, til að hægt sé að halda áfram þaðan. Það þýðir aldrei að þú sért klúðrari, hvorki sem mamma né maki (sé hann til staðar). Það þýðir bara að eitthvað sé í ójafnvægi og þú þarft að tala um þessar tilfinnigar og breyta einhverju í lífi þínu. 

Spyrðu sjálfa þig: „Hvernig líður mér?“ Ertu: reið, upplifirðu vonbrigði, útkeyrð, sakbitin? Allar þessar tilfinningar eiga rétt á sér og við verðum að taka mark á þeim. Þær eru til staðar vegna einhverrar ástæðu. Treystu og skilgreindu tilfinninguna til að læra hvað þú eigir að gera næst. Annars er bara um eina stóra tilfinningaóreiðu að ræða sem ekki er hægt að leysa út. 

2. Segðu „nei“!

Sértu uppgefin ættir þú að segja nei við öllu sem þú ert ekki viss um. Það skiptir engu þó fjölskyldu eða vinum finnist þú vera eigingjörn eða þér sé sama um þau. Þú verður að hugsa um sjálfa þig fyrst og fremst til að geta hugsað um börnin, makann og aðrar skyldur sem þú kannt að gegna. Mundu bara að það er best fyrir alla að þú sért úthvíld, glöð og sért við stjórnvölinn í lífi þínu. 

Fyrsta skrefið er að meta núverandi skuldbindingar þínar og ábyrgð áður en þú ákveður nokkuð annað fyrir sjálfa þig eða aðra til að sjá í raunsæu ljósi hvað þú getur tekið mikið að þér. Um leið og þú hefur ákvarðað hversu mikið þú getur höndlað, svo að segja, er mikilvægt að þú deilir þessum upplýsingum til þeirra sem þurfa að heyra þær til að þeir geti vitað við hverju er að búast. Þú hreinlega verður að fá þinn frítíma.

3. Taktu frá tíma í þakklæti 

Okkur yfirsést oft þakklæti þegar við erum stressaðar. Einföld lausn á þessu er að taka nokkrar mínútur fyrir okkur sjálfar til að setja hlutina í samhengi og róa taugarnar. Ef lífið er sérlega erfitt er gott að taka nokkrar mínútur til að skrifa niður þá hluti sem þú ert þakklát fyrir eða það góða sem hefur hent þig að undanförnu. Þetta snýst ekki um „eitraða jákvæðni“ (e. toxic positivity) eða að útrýma neikvæðum tilfinningum heldur er til að finna nýtt sjónarhorn á lífið til að dvelja ekki í neikvæðninni. 

4. Biddu um hjálp

Þegar þú ert aðframkomin ættirðu ekki að skammast þín fyrir að biðja þína nánustu um hjálp; foreldra eða tengdaforeldra, vini, maka þinn eða aðrar mæður. Skiptist á börnum til að létta lífið. Ekki er heldur bara nauðsynlegt að biðja um hjálp hvað börnin varðar, heldur einnig þrif, smáhluti á borð við að taka upp af gólfinu eða setja í þvottavél. Ef þú þarft er kannski sniðugt að biðja fólkið þitt um aðstoð við matseld. 

5. Farðu út á hverjum degi

Að hreyfa sig á hverjum degi getur minnkað streitu. Það er líka mikilvægt að anda að sér fersku lofti og njóta náttúrunnar, breyta um umhverfi, hreyfa sig og njóta sín. Við erum sumar hverjar duglegar að fara með börnin út í kerru þegar veður leyfir ef börnin eru það lítil. Það er nefnilega svo auðvelt að sitja allan daginn á sófanum, gefa barninu og horfa á þætti … freistandi en ekki hjálplegt! 

Það eru að sjálfsögðu óteljandi góðar ástæður fyrir hreyfingu eins og við flestar erum meðvitaðar um en það mikilvægasta er að þú njótir þess. Best er að finna æfingu sem þú nýtur. 

6. Sjálfsást

Við þurfum að hugsa vel um sjálfa okkur til að líða tilfinningalega vel. Þegar við hugsum um okkur sjálfar erum við líklegri til að hafa styrk og orku til að gera hluti fyrir aðra án þess að finna fyrir drunga eða særindum. Það er svo auðvelt að réttlæta að gera ekkert fyrir sig sjálfa þegar við höfum milljón verkefni heima fyrir og í vinnu. En þegar þú tekur tíma til að gera hluti sem endurnýja þig og gera þig glaða á ný. Þá ertu ekki bara að gefa sjálfri þér þann stuðning og ást sem allar mannverur eiga skilið, en þú ert einnig að setja gott fordæmi fyrir börnin þín 

7. Borða hollari mat

Þetta segir sig sjálft, en aldrei er góð vísa of oft kveðin! Það er að sjálfsögðu lykilatriði að vera við góða heilsu. Að viðhalda heilbrigðu mataræði hefur margt gott í för með sér, s.s. lægri blóðsykursgildi, líkamsþyngd helst í jafnvægi og lækkar kólesteról í blóði. Einnig hefur það jákvæð andleg áhrif, þannig líður þér betur og sjálfsöryggið eykst. 

Ruslfæði eða mikið unninn matur hefur neikvæð áhrif á okkur og eykur líkur á ofþyngd sem svo leiðir til heilsufarsvandamála. Léleg næring getur orsakað heilaþoku, meltingarvanda, geðrænan vanda og jafnvel getur haft áhrif á framkvæmdagleði og velgengni. 

8. Að passa upp á svefninn

Færri hafa meiri þörf fyrir góðan svefn en mæður. Þegar líkamar okkar fá ekki nægan svefn fer það fljótt að segja til sín. Þyngdaraukning, léleg einbeiting og jafnvel getur það aukið streitu og pirring. Hormónar sem hafa áhrif á matarlyst, skap, kvíða og samúð fara í algert rugl þegar svefn skortir. 

Það er hægara sagt en gert að fá nægan svefn þegar krakkarnir eru veikir, fá martraðir eða vakna kannski klukkutíma fyrr en vanalega. Prófaðu að fara sjálf í rúmið stuttu eftir að börnin sofna. Allar viljum við halda okkur vakandi og gera þá loksins eitthvað barnlausar en líkaminn mun þakka þér að morgni! Þegar þú vaknar og ert ekki þreytt hefurðu meiri tíma og orku til að hugsa um þig og þína nánustu. 

9. Settu símann niður

Það er í raun góð regla að takmarka skjátíma hjá okkur sjálfum og eyða minni tíma á samfélagsmiðlum. Við sökkvum í algóriþmann því hann er hannaður til að vekja athygli okkar. Við eigum líka til að skoða aðrar mömmur og bera okkur saman við þær, líf sem kannski er ekki einu sinni raunverulegt. 

10. Settu maka mörk

Það er ekki allt á þína ábyrgð. Þrátt fyrir meira jafnrétti og á Íslandi erum við heppnar hvað flestir eru um umræðuna um þriðju vaktina er hávær. Skiptið á milli húsverkum, skipuleggið fjölskyldutíma og þú átt alltaf rétt á klukkutíma eða meira út af fyrir þig. Eigir þú maka er líka nauðsynlegt að þið eigið tvö/tvær saman og ákveðið fyrir fram hvenær sá tími á að vera. 

11. Verðu tíma með vinkonum 

Það er alger blessun að verja tíma með konum í lífi okkar til að fá stuðning eða geta speglað okkur í. Hvort sem þær eru mömmur eður ei. Þær geta alltaf gefið okkur góð ráð sem hafa gagnast þeim. Það er nauðsynlegt að rækta vinasambönd, vera í mömmuhópum eða vera í góðum samskiptum við aðrar konur. Vinasambönd hjálpa okkur við tilfinningastjórnun, streitu og félagsleg samskipti eru okkur sérstaklega nauðsynleg þegar við erum heima með börn. 

12. Slepptu takinu

Þetta hljómar auðvelt, ekki satt? Samt er það erfiðara en að segja það! Oft höngum við á smáatriðum sem skipta kannski ekki öllu í stóra samhenginu þannig best er að velja hverju máli skiptir að berjast fyrir og hvað annað má sleppa takinu á. Notaðu hugleiðslu, staðfestingu eða sjáðu fyrir þér hvernig hlutirnir eiga að vera til að komast nær markmiðinu. 

13. Ekki „múltítaska!“

Einbeittu þér að einum hluti í einu. Eins mikið og þig langar að gera margt í einu gefur það betri raun og vellíðan að dvelja við eitt atriði í einu. Við teljum að við séum að ná svo miklu betri árangri með því að gera margt í einu og við séum að spara tíma. En það er bara blekking því heilinn þarf því að deila einbeitingu á milli verka. Þannig verðum við minna einbeittar, munum minna og náum ekki jafn miklu, sérstaklega fyrir úrvinda mömmur. 

14. Sérfræðihjálp

Það er aldrei nein skömm í því að leita sér hjálpar. Þær mæður sem upplifa fæðingarþunglyndi ættu að ræða við heilbrigðisstarfsmann hvað það varðar. Þú þarft ekki að þjást ein og mikilvægt er að leita aðstoðar áður en hlutirnir verða enn verri. 

Ef þú tengir við að vera úrvinda móðir ertu á réttum stað! Fylgdu mamman.is á Facebook og Instagram þar sem við deilum frábærum ráðum fyrir mæður.

Þýtt og endursagt af Wildsimplejoy.com 

 

 

 

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, feitar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu

Halldóra Skúladóttir er sannarlega kjarnakona, enda hefur hún hjálpað fjölmörgum í gegnum tíðina. Breytingaskeið kvenna er henni hugleikið þessa dagana, enda er hún sjálf á breytingaskeiðinu og finnst mikilvægt að breyta hugsunargangi allra og útrýma fordómum gagnvart því, enda um eðlilegt skeið að ræða sem helmingur mannkyns gengur í gegnum!

Halldóra býr í dag með manninum sínum í Þýskalandi, á fjórar dætur og eitt barnabarn. Dæturnar búa þrjár á Bretlandi og ein á Íslandi, „þannig við erum svolítið út um allt,” segir hún.

Í dag er Halldóra í sóttkví uppi í bústað og féllst á að svara nokkrum spurningum mömmunnar um þetta spennandi og dálítið…dularfulla skeið, breytingaskeiðið.

Halldóra segir varðandi sig sjálfa, menntun hennar og nám að hún hafi fyrst hjálpað fólki að bæta lífsstílinn sinn í meira en tvo áratugi: „Fyrst var það mest tengt næringu og hreyfingu en fljótlega fór ég að sjá að ef að hugarfarið var ekki á réttum stað var lífsstíllinn voðalega fljótur að fara aftur í sama gamla farið. Þannig að ég fór að einbeita mér meira að því að hjálpa fólki að breyta hugarfarinu sínu gagnvart lífsstílsbreytingum.

Ég lærði markþjálfun hér heima, en eftir að ég flutti til Bretlands bætti ég við mig diplomu í NLP og núna nýlega kláraði ég diplomu í Lausnamiðaðri dáleiðslu- og sálmeðferð.

Ég starfa í gegnum netið, og þessa dagana er ég mest að einbeita mér að því að hjálpa konum, hef eitthvað einstaklega mikið passion fyrir því. Líklega af því að ég veit af eigin raun hvað við getum verið duglegar í að flækja hlutina í hausnum á okkur…þannig að ég er að hjálpa konum að greiða úr hugarflækjunni.”

Hypno-birthing og breytingaskeiðið

„Ég er í reglulegri endurmenntun í tengslum við dáleiðsluna og núna nýverið lauk ég námi í Hypno-birthing practitioner level1 – en það er mjög vinsælt í Bretlandi að nýta sér það í fæðingarferlinu. Þar kenni ég pörum ýmsar aðferðir sem þau geta notað til að skapa hugarró bæði hjá verðandi móður sem og fæðingarfélaganum, rétt öndun á mismunandi stigum fæðingarinnar og hvernig þau geta verið við stjórnina innra með sér sama hvað gerist í fæðingunni, því stundum fer hún ekki alveg eins og við óskum, en þá er mikilvægt að halda ró. Í tengslum við þetta vinn ég líka með pörum sem hafa farið í gegnum erfiða fæðingu og vilja hjálp við að vinna úr þeirri reynslu.

 Annað endurmenntunarnám sem ég fór líka nýverið í gegnum er hvernig er hægt að hjálpa konum á breytingaskeiðinu að vinna sig í gegnum það tímabil, sem getur reynst mörgum mjög erfitt.

En mjög margar konur fara í gegnum miklar breytingar með tilheyrandi einkennum á þessu tímabili. Einkenni sem tengjast öllum kerfum líkamans, frá toppi til táar, s.s. svefnleysi, hitakóf, kvíða, þunglyndi og pirring, aukna verki í vöðum og liðum, þreyta, meltingarvandamál og svo ótal margt fleira.

Rannsóknir hafa sýnt að dáleiðsla getur hjálpað konum mikið við ráða við einkenni breytingaskeiðsins, sérstaklega hita- og svitakóf.

Í meðferðunum hjá mér blanda ég saman dáleiðslu, sálmeðferð, NLP (NLP er ákveðin tækni til að hjálpa fólki að breyta/endurforrita hugsana- og hegðunarmynstrið sitt, n.k. hugræn atferlismeðferð) og markþjálfun.”

Halldóra Skúladóttir

 

Halldóra gerði óformlega könnun á Instagramsíðu sinni varðandi breytingaskeiðið og niðurstöðurnar komu henni á óvart

Halldóra segir breytingaskeiðið vera sér mjög ofarlega í huga þessa dagana: „Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég komst að því síðasta haust að ég væri greinilega komin á þetta „alræmda” skeið! Ég vissi ekkert um þetta – eina hugmyndin sem ég hafði um breytingaskeiðið er að maður ætti að vera að kafna úr hita og svita daginn út og inn, og þar sem ég var ekki að glíma við það datt mér ekki í hug að ég væri komin þangað.

Mér var hins vegar búið að líða mjög illa andlega í nokkurn tíma, tengdi það fyrst við flutningana mína til Þýskalands, en samt ekki því ég var svo engan veginn ég sjálf, var með stöðugan kvíða yfir öllu og engu, mjög döpur og búin að týna gleðinni minni, gat svo bara farið að gráta allt í einu yfir öllu og næstu mínútu var ég síðan bara brjálæðislega pirruð.

Ég hreinlega þekkti sjálfa mig ekki!

Það var síðan bara fyrir tilviljun að ég datt inn á fyrirlestur um heila kvenna að það rann upp fyrir mér að ég væri komin á breytingaskeiðið! Það var ótrúlega mikill léttir að vita að það voru eðlilegar líffræðilegar ástæður fyrir þessari líðan minni.

Þarna fór ég að grúska og komst að svo ótrúlega mörgu sem ég vissi ekki um breytingaskeiðið! Og það sem mér fannst ótrúlegast er að konur eru helmingur mannkynsins og við förum ALLAR í gegnum þetta tímabil – hvort sem okkur líkar betur eða verr – og það veit bara enginn neitt um þetta! Það er engin fræðsla um þetta, það er helst ekki talað um þetta í samfélaginu, það liggur einhver skömm yfir þessu tímabili, konur eru bara að þjást í hljóði af ótta við að það sé gert grín að þeim og að þær séu dæmdar ónýtar og úr leik.

Og það versta er að mjög margir læknar, bæði heimilis- og kvensjúkdómalæknar eru illa upplýstir um þetta skeið í lífi allra kvenna. Þannig að þær konur sem leita sér hjálpar eru oft van- og ranggreindar og vanmeðhöndlaðar. Það er mjög algengt að konur séu t.d. settar á kvíða- og þunglyndislyf á þessum tíma í stað þess að hormónaskorturinn í líkamanum sé meðhöndlaður. Og af því að kvíðinn og þunglyndið er vegna skorts á estrógenni, virka kvíða- og þunglyndislyf oft takmarkað og þær halda áfram að þjást og líða illa, og vita ekkert hvert þær eiga að leita.

Breytingaskeiðið er samt miklu alvarlegra en bara „óþægindi” vegna hitakófa, svefntruflana og pirrings. Konur á breytingaskeiðinu eru mun útsettari fyrir alvarlegri sjúkdómum s.s. beinþynningu, hjartasjúkdómum og Alzheimers – en fyrir hverja þrjá sem greinast með Alzheimers eru tvær konur!

Alzheimer byrjar með neikvæðum breytingum í heilanum mörgum árum ef ekki áratugum áður en klínísk einkenni koma fram, sérstaklega hjá konum.

Læknar og hormónameðferðir

Ég komst líka að því hormónameðferð, sem var búið að fordæma í mörg ár, var ekki eins hættuleg og búið er að halda fram og margir halda ennþá. Ég las rannsóknir og hlustaði á viðtöl við lækna og sérfræðinga eins og Dr. Louise Newson sem er breskur heimilislæknir og sérfræðingur í breytingaskeiði kvenna, og er að umbylta umræðu, greiningu og meðhöndlun kvenna í Bretlandi ásamt því að endurmennta lækna og heilbrigðisstarfsfólk í þessum efnum. Ég las og hlustaði á Dr. Lisa Mosconi sem er með Phd í Neuroscience og Nuclear medicine og rannsakar heila kvenna.

Í kringum aldamótin 2000 var gerð risastór rannsókn á hormónameðferð kvenna á breytingaskeiðinu sem var ekki rétt staðið að og hætt við eftir bara fimm ár, en það voru eingöngu neikvæðar tilgátur úr þessari gölluðu og hálfkláruðu rannsókn sem fóru á flug í fjölmiðlum og nánast á einni nóttu hættu konur að nota hormóna, allir urðu hræddir við aukaverkanirnar, bæði konur og læknar og síðan þá hafa hormónar verið nánast titlaðir sem „verkfæri djöfulsins” og enginn hefur þorað að snerta á þeim. Og í kjölfarið stoppaði bara rannsóknarvinna og þróun í þessum málum og búið að vera erfitt að ná upp þekkingu hvað varðar hormónameðferð, þangað til núna nýlega. Nú eru komnar miklu betri klínískar rannsóknir en því miður eru þær niðurstöður ekki að rata til lækna eða kvenna, margir læknar eru enn hræddir við að ávísa hormónum til kvenna og konur eru líka hræddar og illa upplýstar um ávinning af hormónameðferðum.

Í þessu grúski mínu lærði ég svo mikið um ekki bara einkennin og meðhöndlun breytingaskeiðsins heldur hvað rannsóknir og meðhöndlun á kvennasjúkdómum hafa fengið lítið vægi í vísindasamfélaginu.

Lengi vel voru konur bara skilgreindar sem „litlir kallar” og allt sem ekki rúmaðist undir bikinínu var bara meðhöndlað eins og hjá körlum. Þetta gerði það t.d að verkum að konur fengu oft á tíðum of stóra skammta af lyfjum, skammta sem hentuðu stærri karlmannskroppum með tilheyrandi aukaverkunum.

Eftir þessa uppgötvun ákvað ég að athuga hvort ég gæti mögulega verið sú eina sem var alveg týnd þegar kom að breytingaskeiðinu, sú eina sem vissi ekki um alla þessa tugi einkenna (en einkenna listi kvenna á breytingaskeiðinu getur verið á bilinu 20-40 atriði). Og hvort ég væri sú eina sem vissi ekki um þessa alvarlegu sjúkdóma og að hormónar væru í flestum tilfellum mjög örugg meðferð sem umbyltir oftast líðan og lífsgæðum kvenna.

Kvennaráð og einkenni breytingaskeiðsins

Ég held úti vefsíðu og instagram aðgangi sem heitir kvennarad.is og ég ákvað að gera óformlega könnun á Instagram, setti þar inn allskonar spurningar varðandi breytingaskeiðið og fékk frábær viðbrögð.

Það sem kom út úr þessu var að ég var svo langt frá því að vera sú eina sem vissi ekki neitt, flest allar konur töluðum að þær höfðu ekki hugmynd um öll þessi fjölmörgu einkenni sem við getum fundið fyrir og breytingaskeiðið kom algjörlega aftan að þeim.

Þær voru líka flestar jafn ringlaðar og ég þegar kom að því að fá greiningu og meðhöndlun. Flestar vissu ekki hvernig þær gætu vitað hvort þær væru komnar á breytingaskeiðið – en samkvæmt Dr. Louise Newson þá ættu læknar að styðjast við einkenni fremur en blóðprufur hjá konum sem eru 45 ára eða eldri, þar sem hormónaframleiðslan á þessu fyrsta stigi breytingaskeiðsins getur verið skrykkjótt, góð suma daga en lítil aðra daga og þess vegna getur verið erfitt að fá nákvæma mynd af hormónunum með einni blóðprufu. En það voru einmitt margar konur sem töluðu um að læknirinn hefði sent þær í blóðprufu sem kom „eðlilega” út og þar af leiðandi var ekkert aðhafst meira, þrátt fyrir að þær væru með bullandi einkenni sem var að hafa hamlandi áhrif á lífið þeirra, lífsgæði og líðan.

Þegar ég spurði um hormóna voru mjög margar konur hræddar við að fara á hormónameðferð og ætluðu bara að harka þetta af sér. Þegar ég spurði hvaðan konur fengu upplýsingar um hormóna var það oft bara héðan og þaðan, jafnvel frá læknum, þar sem álitið var að þeir væru stórhættulegir.

En í dag er talað um að með hormónameðferð séum við að bæta upp fyrir hormónaskort, bara svipað og þeir sem þurfa skjaldkirtilshormónameðferð við vanvirkum skjaldkirtli, eða insúlín vegna skorts á insúlínframleiðslu í brisinu.
Hormónameðferð á breytingaskeiðinu er ekkert annað en uppbót fyrir lífsnauðsynlega hormóna sem eru ekki framleiddir lengur í líkamanum.

Það hefur orðið bylting í framleiðslu hormóna í dag, hér áður fyrr voru þeir t.d. framleiddir úr hlandi þungaðra hryssa…já, það var verið að gefa konum hestahormóna!

Í dag er mælt með notkun svokallaðra Body Idendicalhormóna, en þetta eru hormónar unnir úr plöntum sem hafa svipaða mólekúluppbyggingu og líkaminn og eru því auðnýttir.Síðan er ekki sama hvernig hormónar eru teknir inn, sérstaklega estrógen, þar er mælt með að taka það inn í gegnum húð – annaðhvort með plástri, geli eða spreyi, þannig minnkar þáttur lifrarinnar í niðurbrotinu og samkvæmt Dr. Newson er nánast engin hætta á blóðtappa þegar estrógen er tekið á þennan hátt.

Þær konur sem svöruðu því að þær væru að nota hormónameðferð sögðu að ALLT hefði lagast og þær eignast nýtt líf eða fengið lífið sitt aftur þegar þær byrjuðu á hormónum.

Eiginlega engar konur vissu um hættuna á þessum alvarlegu sjúkdómum sem konur geta þróað með sér á þessu tímabili með skorti á estrógeni. En sú vitneskja hafði mest áhrif á mig þegar ég ákvað að fara á hormóna.

 Sumar konur sögðu að þær fengju neikvæð viðbrögð frá vinkonum þegar þær tala um hormónameðferð, mörgum hefur verið neitað um hormóna af læknum, þrátt fyrir að þær hafi beðið um þá og klárlega verið á breytingaskeiðinu og ekki með neina undirliggjandi áhættuþætti eða fjölskyldusögu sem gæfi til kynna að hormónameðferð hentaði þeim ekki.

Mjög margar konur voru að finna fyrir neikvæðum og hamlandi áhrifum breytingaskeiðsins á lífið sitt þar með talið vinnu, áhugamál og sambönd. Sumar konur sögðust hafa verið frá vinnu í lengri tíma, þurft að hætta að sinna ákveðnum áhugamálum og að það væri lítill skilningur á þessu í samfélaginu.

Flest allar konurnar töluðu um að það væri mjög neikvæð ímynd af breytingaskeiðinu, bæði hjá þeim sjálfum og öðrum, það sé talað um þreytta, feita, sveitta, pirraða kellingu þegar er talað um konur á breytingaskeiðinu og jafnvel gert grín að þeim þegar þær tali um líðan sína, sem gerir það að verkum að þær forðast að ræða þetta, jafnvel við vinkonur og maka.

 

Neikvætt viðhorf – hvers vegna telur þú að það sé tilkomið og hvað er hægt að gera til að breyta þessu, koma skeiðinu í umræðuna og fjalla um það á jákvæðan og kannski sjálfsagðan hátt?Eru þetta fordómar því konur fara úr barneign, séu ekki lengur „ungarog ætli það tengist æskudýrkun?

Þegar ég fór að gramsa í þessu uppgötvaði ég að ég var sjálf með fordóma gagnvart þessu skeiði, ætli maður sé ekki svolítið að ýta þessu frá sér því umræðan/hugmyndin hefur verið svolítið á þá leið að þegar maður er komin þangað sé maður bara orðinn gamall. Enginn kona vill missa „kúlið” og vera sett í flokk með þessari þreyttu, sveittu, feitu, pirruðu kellingu.

Og það ríkir mikil æsku- og útlitsdýrkun í samfélaginu, við sjáum sjaldnast lífið eins og það raunverulega er og þar af leiðandi erum við kannski með pínu brenglaða hugmynd af því hvernig við „eigum” að vera, líta út og líða.

En breytingaskeiðið þarf svo sannarlega ekki að vera alslæmt, með réttri meðhöndlun, skilningi í samfélaginu og skilningi hjá konum á því hvað er að gerast í líkamanum þegar þær fara í gegnum þetta tímabil getur ýmislegt jákvætt gerst.

Margar konur í könnuninni töluðu um að í fyrsta lagi væri mjög gott að losna loksins við blæðingar og mjög margar konur sögðu að það færðist yfir þær einhvers konar kæruleysi gagnvart áliti annarra og í fyrsta skipti jafnvel á ævinni væri þeim sama um hvað öðrum finnst og þær væru loksins að ná að hlusta á sig sjálfar og sínar þarfir.

Hvað má gera til að fræða konur frekar, um hormóna, staðreyndir, að breytingaskeiðið þurfi ekki að vera eins erfitt og talið er? Hvernig má breyta umræðunni, hvað getum við gert sjálfar?

Í fyrsta lagi þá þurfum við konur sem erum á þessum stað að tala um þetta, hætta að þagga þetta niður, hætta að gera þetta að einhverju tabúi, fatta að þetta er ekkert til að skammast sín fyrir, við förum allar í gegnum þetta tímabil á lífsleiðinni og lífið er alls ekki búið þegar maður er kominn á breytingaskeiðið, heldur er hægt að líta á þetta sem nýjan kafla í lífinu, kafla sem maður fær kannski svolítið tækifæri á að skrifa sjálfur. Í mínu tilfelli var ég mjög ung þegar ég eignaðist börn, þegar ég var 22 ára var ég komin með þrjú börn undir 2ja ára aldri, var 28 ára komin með fjögur börn! Og var svolítið bara komin á milljón í lífinu og reyna að halda öllum boltunum á lofti.

En þegar breytingaskeiðið kemur erum við margar búnar með þetta tímabil, búnar að ala upp börnin okkar, komnar á okkar stað í vinnunni, komnar í meiri ró og vitum betur hvað við viljum í lífinu, þannig að það gefst oft tækifæri til að hanna þennan kafla á þann hátt sem við viljum.

Það þarf líka að fræða samfélagið, við þurfum að tala um þetta við makann okkar og börnin, það segir sig sjálft að þetta tímabil getur reynt gífurlega á sambönd og samskipti. Við vitum öll hvað það getur verið stuttur þráðurinn hjá okkur eftir eina svefnlitla nótt…en hvað þá þegar þær verða margar í röð, jafnvel svo mánuðum skiptir? Ofan á þetta bætist að konum líður illa, eru hræddar og kvíðnar yfir því sem þær eru að upplifa, vita jafnvel ekki hvað er að gerast, allt í einu hefur líkaminn brugðist þeim og þær þekkja ekki sjálfa sig, upplifa jafnvel vonleysi og finnst þær vera hjálparlausar, vita ekki hvert þær geta leitað, sumar hafa jafnvel reynt að ræða þetta við heimilislækni en upplifað lítinn skilning og jafnvel verið gert lítið úr því sem þær eru að fara í gegnum og ekki fengið neina aðstoð.

Skilnings- og ráðleysi

Ég hef fengið skilaboð frá þó nokkrum konum sem sjá það núna eftir á, að breytingaskeiðið og skilningsleysið því tengt hafi átti stóran þátt í skilnaði þeirra við makann sinn.

Ég og maðurinn minn höfum verið dugleg að ræða þetta allt, hann á ekki til orð yfir hvernig hefur verið staðið að þessu og lítið hlúð að konum á þessu tímabili. Við höfum líka rætt vanmátt makans, að sjálfsögðu eiga þeir erfitt með að skilja hvað er í gangi – konan skilur það ekki einu sinni sjálf – og þar af leiðandi eiga þeir erfitt með að bregðast við á réttan hátt, enda erfitt að ræða eitthvað þegar hvorugur aðilinn veit hvað er í gangi. Þannig að það þarf líka alveg að huga að mökunum, þeir þurfa að skilja hvað er að gerast, ef þeir vita t.d. að ástæðan fyrir kvíðanum, reiðinni, geðsveiflunum, geðdeyfðinni og minnkaðri kynhvöt hjá konunni er út af líffræðilegum ástæðum, minnkuðu estrógeni eru minni líkur á allskonar misskilningi og leiðindum.

Ég hef heyrt af konum sem hafa verið svo langt niðri af kvíða, vonleysi og þunglyndi að þær hafa jafnvel leitt hugann að sjálfsvígi. Ég viðurkenni að ég sjálf fann fyrir hugsunum í þessa átt á mínum verstu dögum en sem betur fer gat ég bægt þeim frá mér.

Allir þurfa fræðslu

Það þarf að uppfræða lækna mun betur, þá sérstaklega heimilislækna því þar er fyrsti viðkomustaður okkar þegar eitthvað bjátar á. Það dettur fáum konum í hug að leita til kvensjúkdómalæknis þegar þær fara allt í einu að upplifa mígreni, hjartsláttarflökt, vöðvaverki, kvíða og þunglyndi. Þarna þarf heimilislæknirinn að vera vakandi og geta gripið inn í, annað hvort með því að veita viðeigandi meðhöndlun eða vísa konum á réttan stað. En ef heimilislæknar vita ekki að þetta geta allt verið einkenni breytingaskeiðsins þá er ansi hætt við að konur séu ranggreindar og meðhöndlaðar t.d. með kvíða- og þunglyndislyfjum í stað hormómameðferðar. En nýleg könnun í Bretlandi sýndi að í 60% tilfella þegar konur leituðu læknis vegna depurðar var þeim boðið upp á þunglyndislyf í stað hormónameðferðar, þrátt fyrir að leiðbeiningar heilbrigðiskerfisins segi annað.

 Með aukinni fræðslu, til bæði kvenna, heilbrigðisstéttarinnar og samfélagsins þá vonandi verður litið á breytingaskeiðið sem eðlilegt ferli í lífi kvenna og þannig myndast vonandi betri skilningur allstaðar í samfélaginu, líkt og þegar konur eru barnshafandi, það hafa allir fullan skilning á því og veita konum mikinn stuðning meðan á því stendur.

Fordómar og skilningsleysi verður ekki upprætt nema með fræðslu og umfjöllun og þar komum við konurnar sjálfar inn.  Við þurfum að vera óhræddar við að krefjast svara og viðeigandi meðferðar, vera óhræddar að tala um þetta við fólkið okkar, láta vita að okkur líður illa og biðja um skilning og umburðarlyndi.

Þegar ég horfi til baka finn ég svo til með konunum sem á undan hafa gengið, ég sé tengingarnar núna við þessa stóru alvarlegu sjúkdóma, man eftir konum sem hafa greinst með Alzheimers, þjáðst af beinbrotum vegna beinþynningar og hreinlega látið lífið af völdum ótímabærra hjartasjúkdóma.

Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að það verði breyting á þessu málum, ég á fjórar dætur og vil ekki að þær þurfi að fara í gegnum vanlíðan og skert lífsgæði bara af því að ég sagði ekkert!

Halldóra heldur úti síðunni Kvennarad.is og er með frábæra Instagramsíðu með myndböndum þar sem hún fer ítarlega yfir þessi mál sem henni eru svo hugleikin. Mælum við eindregið með að konur kíki einnig á þessar síður! Linkur inná samfélagsmiðla Kvennaráðs í hnöppum hér fyrir neðan.

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Yrja Kristinsdóttir er 36 ára þriggja barna mamma og eigandi fyrirtækisins Dafna, sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf fyrir foreldra og börn. Einnig rekur Yrja Vellíðunarsetrið sem staðsett er í Urriðaholti í Garðabæ. Blaðakona Mamman.is hitti Yrju yfir kaffibolla í Vigdísarhúsi sem var einkar vel við hæfi enda Yrja hæfileikarík kona og augljós leiðtogi í sér, líkt og Vigdís. Þegar blaðakona rakst á Instagramreikning Döfnu vakti upp forvitni hver stæði á bak við síðuna. Þar var mikið fjallað um foreldrakulnun og að það sé eðlilegt sem foreldri að upplifa allskonar tillfinningar, ekki bara eintóma gleði. Við byrjuðum því eðlilega á því að spyrja, hver er konan á bak við Dafna?  

„Ég heiti Yrja Kristinsdóttir og er eigandi Dafna sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf og rek einnig Vellíðanarsetrið sem er staðsett í Urriðaholti, Garðabæ. Dafna sérhæfir sig í börnum, unglingum og fullorðnum sem vilja auka vellíðan sína og ná betra jafnvægi. Ég vinn út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar. Þar er lögð áhersla á þætti á borð við jákvæðar tilfinningar, styrkleika og hugarfar sem eiga þátt í því að einstaklingurinn blómstrar, vex og dafnar. Auk þessa er ég að vinna að verkefni ásamt Marit Davíðsdóttur, sem ber nafnið Gleðiskruddan. Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og er tilgangur hennar að auka sjálfsþekkingu, trú á eigin getu, bjartsýni og vellíðan,” segir Yrja og bætir við: „Gleðiskruddan er bæði á Instagram og á Facebook og þar er að finna bæði fræðslu og fróðleik sem nýtist fólki á öllum aldri. Einnig höfum við opnað vefsíðuna Glediskruddan.is en þar má finna upplýsingar um dagbókina, námskeið og fyrirlestra sem eru í boði,” segir Yrja. 

Hefur mikla ástríðu að aðstoða einstaklinga við að efla vellíðan

„Ég hef fjölbreytilega menntun en þar má nefna: BA. í félagsráðgjöf, MA. í uppeldis-og menntunarfræði með áherslu á lífsleikni, sjálfsmynd og farsæld, diplóma í djáknafræðum, diplóma í jákvæðri sálfræði á meistarastigi, dáleiðslutækni og markþjálfun. Ég er einnig að klára framhaldsnám í markþjálfun í maí og verð þar að auki vottaður NBI þjálfi,” segir Yrja. „Ég hef mikla ástríðu fyrir að aðstoða einstaklinga við að efla andlega heilsu, vellíðan og auka hamingju. Ég vinn mikið með foreldrum, þá sérstaklega mæðrum sem eru að koma úr fæðingarorlofi og/eða eru að finna jafnvægið á milli móðurhlutverksins, vinnu og þess að vera þær sjálfar. Ég legg mikla áherslu í mínu starfi á að þær fái aðstoð við að aðlaga móðurhlutverkið að sér, í stað þess að aðlaga sjálfa sig að móðurhlutverkinu,” segir Yrja sannfærandi. 

En hvað er foreldrakulnun? 

„Foreldrahlutverkið er margslungið, það er krefjandi, skemmtilegt, erfitt, yndislegt, gefandi og fjölbreytilegt. Foreldrar eru orðnir hreinskilnari og opnari í umræðunni um upplifun á streitu, kvíða og ójafnvægi í foreldrahlutverkinu. Það er jákvæð þróun því að foreldrakulnun (e. parental burnout) er staðreynd og er afleiðing af langvarandi þreytu og streitu í krefjandi aðstæðum,” segir Yrja. 

“Foreldrakulnun lýsir sér þannig að foreldrahlutverkið verður einstaklingnum bæði líkamlega og tilfinningalega ofviða og getur valdið efasemdum um getu til að vera gott foreldri og/ eða tilfinningalegri fjarveru.” 

Einkenni foreldrakulnunar eru meðal annars: Foreldrar upplifa kvíða og áhyggjur. Mikil þreyta. Foreldrar eiga erfitt með að vera meðvitað til staðar og njóta þess að eiga tíma með fjölskyldunni. Foreldrar geta upplifað efasemdir um að að vera gott foreldri og því fylgir sektarkennd. 

Er þetta eðlilegt ástand? 

„Það er eðlilegt að upplifa streitu, þreytu, ójafnvægi og allskonar tilfinningar þegar maður er foreldri, en að lenda í kulnun getur haft skaðleg áhrif. Það er því mjög mikilvægt að vera meðvitaður um öll þau einkenni sem eru til staðar til að geta leitað sér aðstoðar áður en foreldri upplifir foreldrakulnun,” segir Yrja. 

Hvaða hópur foreldra er líklegastur til að upplifa foreldrakulnun? 

„Samkvæmt rannsóknum á foreldrakulnun eru ákveðnir hópar foreldra í áhættuhóp en það eru þeir sem a) eiga erfitt með tilfinningastjórn og streitu, b) skortir stuðning frá maka og/eða hinu foreldri, c) skortir uppeldisfærni, d) eiga börn með sérþarfir og e) vinna hlutavinnu eða eru heimavinnandi.“. 

Hvert er hægt að leita sér eftir aðstoð? 

„Allir foreldrar geta upplifað einhver af þessum einkennum og þess má geta að það er fullkomlega eðlilegt að upplifa einhver af þeim án þess að lenda í kulnun. Ef að einkennin verða langvarandi er ráðlagt að leita sér aðstoðar. Það er án efa hægt að leita til margvíslegra meðferðaraðila sem geta aðstoðað foreldra sem eru að upplifa þessi einkenni en markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er ein þeirra leiða,” segir Yrja og bætir við: „Aðferðir jákvæðrar sálfræði bjóða uppá möguleika til að koma á jafnvægi, draga úr álagi og auka vellíðan á þessu sviði en meðal rannsóknarefna innan greinarinnar eru vellíðan, jákvæðar tilfinningar, hamingja, þrautseigja, sambönd, hugarfar, tilgangur og hvað fær fólk til að vaxa og dafna í lífinu. Í jákvæðri sálfræði eru rannsakaðir þeir þættir sem hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fá þá til að blómstra. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvætt viðhorf er verndandi þáttur fyrir sálræna og líkamlega heilsu. Það hafa jafnframt verið rannsakaðar aðferðir og æfingar sem rækta með okkur jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir og kallast þær jákvæð inngrip,” segir Yrja og bætir við að lokum: „Markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er því tilvalin fyrir skipulag, sjálfsþekkingu, markmiðasetningu, aukið jafnvægi og ná að vera í núinu og njóta eða vera til staðar með vakandi athygli. Semsagt aukin vellíðan, jafnvægi og hamingja. Eins og oft er talað um þá þurfum við að setja á okkur súrefnisgrímuna áður en við getum aðstoðað aðra.” 

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast inn á vefsíðu dafna.is einnig er hægt að senda Yrju tölvupóst á dafna@dafna.is Við hvetjum alla þá sem tengja við einkenni kulnunar að leita sér aðstoðar.

 

10 leiðir að heilbrigðri meðgöngu

10 leiðir að heilbrigðri meðgöngu

10 leiðir að heilbrigðri meðgöngu

Meðganga er kjörin til að hugsa vel um þig sjálfa, bæði líkamlega og tilfinningalega. Hér eru nokkur frábær ráð til að hugsa vel um sjálfa þig á meðgöngunni og eignast heilbrigt barn.

Hittu lækni eða ljósmóður eins fljótt og auðið er

Um leið og þú uppgötvar að þú ert með barni, hafðu samband við heilsugæsluna þína til að panta tíma. Að vera undir eftirliti tryggir að þú færð góð heilsufarsleg ráð frá byrjun. Þú hefur þannig líka tíma til að undirbúa þig undir sónar og þau próf sem þú kannt að þurfa að taka.

Borðaðu rétt

Reyndu að halda þig við hollan og vel ígrundaðan mat eins oft og þú getur. Reyndu að hafa allavega fimm mismunandi grænmetistegundir á dag og tvo ávexti.

Fullt af kolvetnum, s.s. brauði, pasta og hrísgrjónum. Veldu óunninn eða lítið unnin kolvetni frekar en mikið unnin svo þú fáir öll nauðsynleg næringarefni ásamt trefjum.

Einnig þarf að huga að próteininntöku, s.s. með hnetum, eggjum, mögru kjöti, fiski eða baunum.

Einnig má snæða mjólkurvörur og/eða soja/hafravörur.

Ekki borða fyrir tvo þegar þú ert ólétt! Þú getur haldið uppi orkunni með orkumiklu snarli.  

Taktu vítamín

Meðgönguvítamín koma ekki í stað næringarríks matar. Þau geta þó hjálpað ef þú ert ekki að nærast nóg eða þú ert of lasin til að borða mikið. Vertu viss um að fá 500 míkrógrömm (mcg) af fólínsýru á dag. Þú þarft fólínsýru bæði þegar þú ert að reyna að eignast barn sem og á fyrsta þriðjungi. Þannig minnkarðu áhættu á hryggrauf og öðrum kvillum hjá barninu. Ráðfærðu þig við lækni ætlir þú að taka fæðubótaefni fyrir fæðinguna. Ef þú tekur ekki fjölvítamín fyrir vanfærar konur er hægt að kaupa fólínsýruna sér. Ef þú borðar ekki fisk er hægt að taka ómega sýrur í töfluformi.

Passaðu að taka ekki lýsi sem búið er til úr lifur fisksins því það inniheldur A-vítamín í formi retínóls sem er ekki ráðlagt á meðgöngu. Hvanneyrarveiki (e. listeriosis) er ekki algeng og oftast nær er hún ekki heilsuspillandi venjulegu fólki og leggst frekar á dýr. Bakterían kallast listería. Hún getur þó valdið vandkvæðum á meðgöngu og í fæðingu og getur jafnvel valdið fósturláti.

Best er því að forðast matvæli sem gætu innihaldið listeríu:

  • Kæfa hverskonar
  • Ógerilsneydd mjólk
  • Þurrvara sem ekki er nægilega mikið elduð
  • Mygluostar, s.s. camembert og gráðaostur
  • Listeríubakterían drepst við hitun þannig þú þarft alltaf að vera viss um að maturinn sé vel eldaður.
  • Salmonellubaktería getur valdið matareitrun. Hana kann að vera að finna: í vanelduðum kjúkling og fuglakjöti
  • Hráum eða lítið elduðum eggjum
  • Eldið egg þar til hvítan og rauðan eru elduð í gegn.
  • Þvoið alltaf áhöld, skurðarbretti og hendur eftir að hafa meðhöndlað hráan kjúkling og egg. Hreinlæti skiptir öllu máli þegar þú ert með barni.

Bogfrymlasótt er sýking sem berst með sníkjudýrum. Hún er einnig sjaldgæf en getur haft áhrif á ófætt barn. Þú getur minnkað möguleikana á sýkingu með því að:

  • Elda allan mat alltaf í gegn
  • Þvo grænmeti og ávexi afar vel fyrir neyslu
  • Nota hanska þegar skipt er um kattasand eða unnið í mold.  

Æfðu reglulega  

Regluleg líkamsrækt getur haft góð áhrif á óléttar konur. Þú byggir upp styrk og þol og einnig höndlarðu betur þyngdaraukninguna og fæðinguna sjálfa. Það gerir þér einnig kleift að komast aftur í form eftir barnsburð.

Það gefur góða tilfinningu og minnkar líkur á depurð.

Góðar tillögur að hreyfingu eru t.d.

  • Rösk ganga
  • Sund
  • Meðgöngutímar í líkamsræktarstöðvum
  • Jóga
  • Pilates

Ef þú tekur þátt í íþróttum getur þú haldið því áfram eins lengi og þér þykir þægilegt. Ef íþróttin eykur hættu á föllum eða byltum eða mikið álag er á liðina er kannski ráð að endurskoða það. Talaðu við lækninn þinn eða ljósmóður ef þú ert ekki viss.  

Grindarbotnsæfingar

Grindarbotninn er eins og hengirúm vöðva í grindarholinu. Þessir vöðvar styðja við þvagblöðruna, leggöngin og fleira. Þeir eru stundum veikari en vanalega á meðgöngu því mikið álag er á þeim. Meðgönguhormónin orsaka einnig stundum að það slaknar á þessum vöðvum. Stundum finna óléttar konur fyrir þvagleka af þessum sökum. Þú getur styrkt þessa vöðva með því að gera reglulegar grindarbotnsæfingar.

Ekkert áfengi

Allt áfengi sem þú drekkur fer beint til barnsins í gegnum blóðrásina og legkökuna. Það veit enginn hversu mikið áfengi er „öruggt“ að drekka á meðgöngu þannig best er að taka enga áhættu og sleppa því algerlega. Að drekka mikið eða „detta í það“ á meðgöngu er hættulegt barninu. Ef þú átt við drykkjuvanda að stríða er best að leita sérfræðiaðstoðar strax ef þú getur ekki hætt að drekka (saa.is, aa.is)

Áfengisneysla getur valdið fósturskemmdum og vandinn getur verið frá vægum til alvarlegra einkenna.  

Minnkaðu koffínneyslu  

Kaffi, te, kóladrykkir og orkudrykkir eru örvandi. Það hefur lengi verið deilt um áhrif koffínneyslu á meðgöngu á fóstrið, oft tengt of léttum börnum við fæðingu. Ídag er sagt að að 200mg af koffíni á dag skaði ekki barnið. Það eru u.þ.b. tveir bollar af tei, einn bolli af instant kaffi eða einn bolli af espresso.

Eins og með áfengið er vert að huga að engri neyslu á meðgöngu, sérstaklega á fyrsta þriðjunginum. Koffínlaust kaffi og te, ávaxtate og ávaxtasafar koma vel í staðinn.  

Ekki reykja  

Að reykja á meðgöngu getur valdið miklum skaða, bæði fyrir þig og barnið.

Aukin áhætta er á:

Fósturláti

Ótimabærri fæðingu

Léttu barni

Ungbarnadauða  

Reykingar auka einnig hættu á andláti barns í fæðingu.

Reykingar auka ógleði og uppköst

Utanlegsþykkt

Fylgjan getur losnað frá veggnum fyrir fæðingu  

Ef þú reykir er best að hætta, fyrir þína eigin heilsu og barnsins. Því fyrr – því betra. Það er aldrei of seint, jafnvel þó þú hættir á síðustu vikunum. Leitaðu sérfræðiaðstoðar ef þú þarft  

Hvíld  

Þreytan sem þú finnur fyrir fyrstu mánuðina er vegna hárrar tíðni meðgönguhormóna í líkamanum.

Síðar er þetta leið líkamans til að segja þér að slaka á. Ef þú getur ekki sofið á nóttunni skaltu taka lítinn blund um daginn til að ná hvíld. Ef það er ekki hægt skaltu reyna að taka allavega hálftíma hvíld með tærnar upp í loft!   Ef þér er illt í bakinu og getur ekki sofið, reyndu að liggja á vinstri hlið með hnéin beygð. Þú getur einnig fengið þér snúningslak og kodda undir bumbuna til að létta á bakinu. Líkamsrækt getur einnig hjálpað til við bakverki sem og svefninn, svo lengi sem þú tekur ekki æfingu rétt fyrir svefninn!

  • Til að róa þig fyrir svefn, reyndu róandi æfingar á borð við:
  • Jóga
  • Teygjur
  • Djúpöndun
  • Hugleiðslu
  • Nudd

Pin It on Pinterest