Hvað eiga tveggja ára börn að geta og kunna?

Hvað eiga tveggja ára börn að geta og kunna?

Hvað eiga tveggja ára börn að geta og kunna?

Foreldrar sem fylgjast vel með þroska barna sinna þurfa að vita ýmsa hluti til að sjá hvort barnið sé að þroskast á eðlilegan hátt. Tveggja ára börn eru að læra ýmislegt og það sem þeim finnst einna skemmtilegast er að segja: „Nei!“

Þetta er aldurinn sem persóna barnsins fer að kom í ljós og þau fara að þroska sín eigin karaktereinkenni.

Þetta á tveggja ára barnið þitt að geta:

Hreyfiþroski

Standa á tám

Sparka í bolta

Fara að hlaupa

Klifra upp og niður af húsgögnum án hjálpar

Ganga upp og niður stiga án hjálpar

Henda bolta

Halda á stóru leikfangi eða nokkrum leikföngum á meðan það gengur

Þú hefur væntanlega tekið eftir að barnið er hætt að hika í göngu og gangan er orðin þjálli, hæl-tá ganga eins og fullorðnir ganga. Næstu mánuðina fer barnið að geta hlaupið á skipulagðan hátt, labbað aftur á bak, hlaupið fyrir horn og með smá hjálp, staðið á öðrum fæti.

Þau auka hreyfiþroska sinn með því að hlaupa, leika, renna sér í rennibraut og klifra. Það er gott fyrir þau að fara út á hverjum degi og fá frjálsan leik og að kanna ýmislegt. Það hefur líka góð sálræn áhrif á þau. Þú þarft samt að fylgjast með.

 

Hendur og fingur

Barnið á að geta:

Teiknað

Hellt hlutum úr kassa og tekið þá úr kassanum

Byggt turn úr fjórum kubbum eða fleirum

Núna ætti barnið að geta samhæft hreyfingar úlnliðs, fingra og lófa svo þau ættu að geta opnað kringlóttan hurðarhún eða opnað krukku með skrúfuðu loki. Þau ættu að geta haldið á lit eða blýanti, jafnvel þó gripið sé ekki fullkomið.

Þau ættu að geta teiknað línur og hringi á pappír

Þau ættu að geta haldið athygli lengur en þegar þau voru 18 mánaða og þau ættu að geta flett blaðsíðu bókar og tekið meiri þátt þegar þið lesið saman.

Að teikna, byggja með kubbum eða setja eitthvað saman heldur þeim ánægðum lengi.

Smábarnið ætti að sýna tilhneigingu til að nota hægri eða vinstri hönd meira á þessum aldri. Það er samt enginn þrýstingur að láta þau velja á þessum aldri, þau gera það seinna. Sum börn eru jafnvíg á báðar hendur. Láttu það gerast á eðlilegan hátt.

Málþroski

Barnið ætti að geta:

Bent á hluti eða myndir þegar þú nefnir þau

Segja nöfn foreldra, systkina, líkamshluta og annara hluta

Segja setningu með tveimur til fjórum orðum

Fylgja einföldum leiðbeiningum

Endurtaka orð sem það heyrir í samtölum

Tveggja ára barn ætti að geta sagt setningar á borð við: „Mamma, ég vil köku,“ í stað „mamma kaka.“

Þau fara einnig að nota „ég“ í stað þess að segja eigið nafn. Börn eru misjöfn að þessu leyti samt, þannig ekki hafa áhyggjur þó jafnaldrar tali meira en barnið þitt. Drengir fara líka seinna að tala en stúlkur.

Á þessum aldri skilur barnið meira en það getur tjáð sig um. Hvettu barnið áfram, segðu þeim hvað muni gerast á morgun og láttu það vita þegar athöfn er hætt og kominn er tími á eitthvað annað.

Þú gerir mest gagn með því að tala við barnið og lesa fyrir það. Notaðu þannig bækur að barnið bendir á hluti og endurtekur orðin. Með auknum málþroska njóta þau ljóða og brandara.

Félagshæfni

Barnið þitt kann að:

Herma eftir öðrum, sérstaklega fullorðnu fólki og eldri börnum

Verða spennt í kringum aðra krakka

Sýnt aukið sjálfstæði

Leikið við hlið annarra barna í stað þess að leika við þau

Sýnt aukna þrjósku eða mótþróa (gera hluti sem þú bannaðir)

Á þessum aldri verða þau varari við að þau eru einstök, ekki hluti af öðrum.

Þau telja sig nafla alheimsins og að deila hlutum eru þau sjaldan spennt fyrir.  Þau leika við hlið annarra barna en eiga ekki í samskiptum við þau, nema þau taki leikfang af þeim. Þetta er eðlilegt. Að spyrja barnið: „Hvernig fyndist þér að ég gerði þetta við þig?“ þýðir ekkert á þessum aldri, þannig fylgstu vel með barninu.

Barnið kann að tala við bangsann sinn á sama hátt og þú talar við það. Mundu því að vera góð fyrirmynd!

Lærdómur, hugsun

Barnið ætti að geta:

Fundið hluti, þó það sé undir einhverju

Flokka hluti af mismunandi lögun og litum

Endað setningar á lögum eða ljóðum í bókum sem þau kannast við

Leika einfalda hermileiki

Fylgja leiðbeininum í tveimur hlutum, s.s. „kláraðu djúsinn og réttu mér síðan glasið“.

Tökin á málinu aukast og þau fara að nota hugann til vandamálalausna. Þau fara einnig að skilja framtíð, s.s. „ég skal lesa fyrir þig sögu þegar við erum búin að bursta tennurnar.“

Þau fara að skilja tölur þannig þú getur farið að telja. Leikurinn verður flóknari og þau búa kannski til senu í kringum eitt leikfang en aðra fyrir annað leikfang.

Þroskamunur

Talaðu við lækninn ef barnið getur ekki:

Gengið eðlilega. Þau ætti ekki að ganga bara á tánum eða mjög óstöðuglega

Segja tveggja orða setningu

Herma eftir orðum eða athöfnum

Fylgja einföldum leiðbeiningum

Muna hæfni sem þau mundu áður

Skjátími

Við tveggja ára aldur geta börn lært af þáttum, en þau ættu ekki að horfa lengur en klukkustund á dag. Of mikill skjátími getur leitt til minnkandi hreyfingar og erfiðleika við svefn. Þú ættir alltaf að horfa með barninu. Ekki nota sjónvarpið sem bakgrunnshávaða, ef enginn er að horfa, slökktu á því.

 

Heimild: WebMd

 

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Útbrunnar mæður – hvernig við getum minnkað álagið

Fyrir meira en tveimur áratugum síðan var algengast að konur ólu upp börnin ásamt því að sinna öllum heimilisstörfum. Kynjahlutverk foreldra breyttust lítið, hvort sem mæður unnu utan heimilis eður ei. Í dag er þetta afar lítið breytt. Mömmur ala enn upp börnin. Mömmur sinna oftast eldamennskunni, þrifum, þvotti og svo framvegis. Á síðastliðnum árum hafa mæður farið að upplifa kulnun, þó þær eigi maka, þær eyða meirihluta tíma síns í að sinna börnum, heimilum og mökum, á meðan þær reyna að sinna öllu hinu líka.

Því miður er það svo að karlmenn sinna minnihluta þessara athafna og sannleikurinn er sá að við höfum ekki gert nægilega mikinn skurk í að breyta því að húsverkin séu kvennanna að sinna.

Þegar Covid-19 faraldurinn fór að herja á heiminn í fyrra fór álagið á mæður hins vestræna heims aukandi. Fjölskyldur fundu fyrir auknum húsverkum þar sem flestir í fjölskyldunni eyddu heilu dögunum heima. Það þurfti að kaupa meira inn, gæta þurfti að sóttvörnum, meira þurfti að elda heima og fleiri diskar fóru í uppþvottavélina. Herbergi urðu skítugri og börnin þurftu meiri hjálp við heimavinnuna. Fólk í vinnu þurfti að sinna fjarfundum. Og mömmur þurftu að skipuleggja þetta allt saman og meira til.

Eftir ár af þessu kapphlaupi eru mæður alveg búnar á því. Og við erum bara að tala um þessa vinnu sem maður sér.

Tilfinningaleg vinna

Við vitum af þessum praktísku hlutum, að halda heimilinu gangandi er ekkert grín. En það er önnur vinna sem tekur jafn mikið á, ef ekki enn meira. Tilfinningaleg vinna, ef við getum kallað hana svo, er að taka að sér allt tilfinningatengt sem tengist fjölskyldulífinu. Barnið er ósátt við að missa af leik, danssýningu, æfingu eða útskrift og mömmur þurfa að útskýra, hugga og vera til staðar. Mömmur eru í sambandi við þá sem eru einmana, syrgjandi, óttaslegnir og svo framvegis. Makar þurfa líka „umönnun“ – atvinnumissir, reiði, kvíði eða annað.

Mæður lenda því miður oft í því að stilla af tilfinningarnar á heimilinu – einhver á í erfiðleikum, einhverjir rífast, einhver er að missa þolinmæðina, einhver þarf einveru, einhver þarf á meðferð að halda. Þetta er eitthvað sem verður að taka með í reikninginn.

Að halda heimilinu saman tilfinningalega er meira en að segja það. Það tekur á og mæður bera oftast þungann.

Breyting á feðrahlutverkinu

Feður eru meiri þátttakendur í lífum barna sinna en oft áður. Þeir eru til staðar, mæta á leiki, styðja börnin, mæta í foreldraviðtöl og eru almennt mun „aktífari“ en feður hér á áratugum áður.

Þeir hafa samt, oftar en ekki, skilning á því hlutverki sem mamman sinnir. Oft eru áhyggjur kvennanna taldar minna mikilvægar eða óþarfar.

Það er ekki það sama að maðurinn vinni kannski heima og konan sé að sjá um allt uppeldið og heimilið, og sé jafnvel líka að afla tekna annars staðar. Mæður bera ábyrgð á of mörgu.

Feður geta gert mikið til að dreifa álaginu, og til þess þarf að spyrja mæðurnar. Það þarf að deila þessari ábyrgð, hún er allt of oft talin „sjálfsögð“ af mæðrum.

Það er mjög sniðugt að gera einhverskonar áætlun, hvað þarf að gera á hverjum degi, vikulega, mánaðarlega. Finnið jafnvægi sem virkar fyrir ykkur bæði, ekki bara vegna faraldursins, heldur í framtíðinni líka. Þetta er mikilvægt.

Það er kominn tími til að karlmenn auki við tilfinningagreindina, þannig þeir geti líka tekið á sig þessa tilfinningavinnu sem á sér stað á heimilinu. Til að kenna þeim það þurfa þeir að geta talað og borið kennsl á tilfinningar sínar. Allir þurfa að hlusta betur, með víðsýnni huga.

Við þurfum líka að bera kennsl á tilfinningalegt álag sem við kunnum að leggja á börn og maka.

Konur og kulnun

Allt of oft gleyma konur að sinna sér sjálfum þegar mikið er um að vera á heimilinu. Vinnan endar aldrei, hvorki heimilisverkin né tilfinningavinnan. Konur þurfa að vera skýrar – hvað þær þurfa og þær þurfa að fá tíma fyrir sig á hverjum degi, hvernig sem því er háttað. Þær þurfa að leyfa börnunum að fara og vera með föður sínum eða öðrum fjölskyldumeðlimum á meðan þær hlaða batteríin. Þær ættu að setja tíma daglega til að næra andann, hugann og líkamann. Það þarf að setja það í forgang, því það er eins og með súrefnisgrímuna, fyrst á þig, svo á barnið.

Það þarf kannski einhvern aðlögunartíma, en mæður ættu ekki að gefa neinn afslátt af þessum tíma fyrir sig á degi hverjum. Hinir verða að aðlagast þeim.

Mæður eru alltaf hjartað í fjölskyldunni og ólíklegt er að það breytist á næstunni. Þessvegna er það enn mikilvægara að þær fái tíma til að rækta sig sjálfar til að þær geti hreinlega verið til staðar í öll þessi ár til viðbótar.

Heimild: CNN/John Duffy

 

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Svona færðu börnin til að hreyfa sig meira

Vissir þú að börn þurfa að hreyfa sig af mikilli ákefð í klukkustund á dag? Þú þarft samt ekki að beita neinu harðræði til að fá þau til að hreyfa sig, þú þarft bara að vera sniðug/ur!

Hér eru nokkur frábær ráð:

Gerið það saman

Kvöldmaturinn er búinn. Í stað þess að fara inn í sjónvarpsherbergi, farðu beint að útidyrahurðinni. Farið út að labba eða hjóla. Finnið körfuboltavöll, farið í eltingaleik eða dansið. Hafið umræðuefnið létt, ekki rétti tíminn til að skammast út af einkunnum eða hegðun. Ef það er gaman hjá öllum vilja allir fara út að leika aftur.

Reynið að finna klukkutíma á dag

Börn þurfa að hreyfa sig í 60 mínútur á dag. Hreyfingin ætti að samanstanda af æfingum sem reyna á hjartað (labba hratt eða hlaupa), æfa vöðvana (armbeygjur) og styrkja beinin (sippa o.þ.h.).

Þessi klukkutími þarf samt ekki að vera tekinn allur í einu. Hægt er að skipta þessu upp í nokkrar lotur. Til dæmis, ef barnið hefur farið í 40 mínútna íþróttatíma í skólanum, gerið eitthvað sniðugt í 20 mínútur um kvöldið, út að labba með hundinn eða í sund.

Að nota skrefateljara

Krakkar elska tæknidót. Að gefa barninu úr með skrefateljara getur virkilega haft góð áhrif á að það hreyfi sig meira. Enn betra er að ef allir í fjölskyldunni hafi slíkt tæki. Þá er hægt að koma með litlar áskoranir af og til eða keppni milli fjölskyldumeðlima. Hversu mörg skref eru út í búð? Hvað ertu fljót/ur að taka 80 skref? Krakkar elska að taka þátt í svona leikjum og það er ekkert nema hollt.

Að eiga rétta búnaðinn

Þú þarft ekki að eyða fúlgu fjár í búnað, þó það sé líka gaman. Hægt er að kaupa sippuband eða uppblásinn bolta sem gerir það sama. Eigðu kannski varasjóð með nýju dóti sem hægt er að leika með úti. Svo getur þú verið hetjan þegar börnunum leiðist!

Veldu umhverfið

Hljómar einfalt, en stundum þarftu að kjósa rétta staðsetningu. Farðu með börnin á róló, fótboltavöllinn eða í garðinn. Takið með ykkur nesti og vini þeirra. Þú þarft ekki að hafa mikið fyrir því, hreyfingin kemur að sjálfu sér.

Fjárfestu í íþróttatímum

Hvað sem það er, karate, tennis, jóga eða dans – getur verið frábær leið til að leyfa börnunum að verða heilluð af íþrótt. Farið í heimsókn í tíma áður en þið ákveðið ykkur og leyfið barninu að velja uppáhaldið sitt. Þannig veistu að peningunum er vel varið.

Spila tölvuleiki? Já!

Hreyfingin þarf ekki að vera óvinurinn. Ef þið eigið eða hafið aðgang að tölvu á borð við Kinect eða Wii eru þar margir leikir sem innihalda líkamsrækt, jóga, íþróttir, dans og fleira. Krakkar sem hreyfa sig í leik brenna um 200% meira en þeir sem sitja við leikinn.

Hafðu gaman

Taktu í hönd barnsins þíns og hoppaðu í lauf- eða snjóhrúgu. Þú þarft ekkert að minnast á „hreyfingu“ – hún gerist að sjálfu sér. Plantið blómum. Labbið í bókasafnið. Búið til snjókall. Hafðu skemmtunina fumlausa á hverjum degi, ekki eitthvað sem „þarf að gera.“

Vertu hvetjandi

Ef barnið þitt hefur ekki áhuga á hreyfingu um leið, ekki gefast upp. Hrósaðu því fyrir það sem það gerir. Ef barnið hefur ekki gaman af keppni, reyndu eitthvað annað, s.s. fjallgöngu eða kayak. Lykilinn er að finna það sem þeim finnst gaman. Haltu áfram að prófa mismunandi íþróttir eða athafnir. Hjálpaðu þeim að sjá að hreyfing er fyrir alla.

Finndu það sem þú brennur fyrir

Ef þú vilt sjá börnin þín hreyfa sig hjálpar það til ef þú gerir það líka. Ef þau sjá þig stunda hreyfingu sjá þau að hún er hluti af lífinu og hún er skemmtileg. Svo, hvað finnst þér gaman? Finndu það sem þú elskar og deildu því svo með börnunum. Það er allt í lagi þó þið hafið ekki verið að hreyfa ykkur mikið saman. Þið getið byrjað á því saman.

Laumaðu því inn

Til dæmis, ef þú ert að fara í verslun skaltu leggja langt frá innganginum. Sleppið lyftunni og notið stigann. Búðu til smá keppnir, hver getur tekið til fljótast eða búið til stærsta snjóskaflinn? Gríptu hvert tækifæri til að ganga, hlaupa, hoppa og leika til að gera hreyfinguna órjúfanlega hluta lífsins.

Heimild: WebMd

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

10 ástæður þess afar og ömmur eru mikilvægasta fólk í heimi!

Að eyða tíma með ömmu og afa getur haft afar góð áhrif á börn, bæði á tilfinningagreind þeirra sem og innsæi og taugaþroska. Kostir þess að eiga gott samband við afa og ömmu eru svo sannarlega óendanlega margir. Hér eru nokkrir örfáir nefndir:

  1. Eykur tilfinningagreind

Afar og ömmur vita hvernig á að fylla upp í það skarð þegar foreldrar eru einstæðir eða haldnir ofur-álagi. Rannsókn sem framkvæmd var í Bretlandi sýndi að börn sem vörðu miklum tíma með afa og ömmu voru í minni hættu á að hafa tilfinninga- og hegðunartengd vandkvæði og höfðu betri tilfinningagreind en þau börn sem ekki voru svo heppin að hafa afa og ömmu í lífi sínu. Ef þú vilt að börnin þín séu hamingjusöm og kunni á tilfinningar sínar, bjóddu afa í mat!

2. Nærir hamingjutilfinningar

Ömmur og afar hafa næstum yfirnáttúrulegan kraft til að láta barnabörnin brosa. Foreldrar, sérstaklega þeir sem eiga mjög ung börn, eru stundum „búnir með bensínið“ og þrá bara smá hvíld eða þögn í nokkrar mínútur. Ef afi og amma búa ekki nálægt getur verið mjög dýrmætt fyrir alla aðila að viðhalda sambandi. Afarnir og ömmurnar kunna að vera farin á eftirlaun og hafa meiri tíma, orku og þolinmæði að leika við krakkana, plús að foreldrarnir fá smá pásu. Allir vinna!

3. Eykur félagslega hæfni

Stuðningur ömmu og afa geta aukið félagshæfni barnabarnanna og bætt frammistöðu þeirra í skóla. Rannsókn er sneri að 10-14 ára börnum einstæðra foreldra sem og í sambúð sýndi að þetta var raunin. Stuðningur og samvera með ömmu og afa sýndi að barnið jók með sér hluttekningu með öðrum.

4. Dregur úr depurð

Máttur afa og ömmu er mikill, hann dregur jafnvel úr depurðartilfinningum. Náið samband milli afa, ömmu og barnabarnanna hefur verið tengt við gleði og talið geta dregið úr þunglyndiseinkennum samkvæmt rannsókn sem var gerð. Öfum og ömmum fannst í þessari rannsókn að þau gætu stutt barnabörnin, sérstaklega þegar þau skildi hvað börnin voru að ganga í gegnum.

5. Eykur skilning á fjölskyldunni 

Ömmur og afar hafa oft mikinn áhuga á og njóta þess að deila fjölskyldusögum. Að kenna börnunum hvaðan þau koma ásamt sögum af sorgum og sigrum fjölskyldunnar hjálpa börnunum að skilja sögu fjölskyldunnar. Afar og ömmur kunna að hafa ættargripi, myndaalbúm, jafnvel uppskriftir og aðra fjársjóði til að deila og halda minningum á lofti sem hlýtur að teljast afar dýrmætt.

Mynd: Philip Goldsberry

6. Ótal tækifæri til að knúsast

Það er ekkert eins og gott faðmlag frá afa eða ömmu. Knús framleiða oxýtósín fyrir báða aðila þegar þeir faðmast. Það þýðir að þegar amma knúsar barnið losa báðir heilar þeirra hormón sem eykur ást, tengingu og öryggi.

7. Annað sjónarhorn á foreldra

Afar og ömmur kunna líka sögur af foreldrunum sem börnin hafa áhuga á að heyra. Oft eru börn forvitin um æsku og uppeldisaðstæður foreldra sinna sem afar og ömmur kunna og fá þau þannig annað sjónarhorn á þau. Þau geta munað eftir fyndnum atriðum eða sniðugum sem foreldrarnir eru kannski búnir að gleyma. Þetta hjálpar til við tengingu innan fjölskyldunnar.

8. Býr til tækifæri á nýjum hæfileikum

Ömmur og afar voru uppi á allt öðrum tíma en börnin eins og gefur að skilja! Þau hafa kannski notað aðferðir við ýmislegt sem þekkist ekki í dag. Kannski kunna þau að sauma, elda, skera út í við eða prjóna sem foreldrarnir kunna ekki. Þetta býður upp á endalaus tækifæri.

9. Styrkir fjölskyldubönd

Að verja tíma með afa og ömmu styrkir fjölskyldubörnin. Þetta kennir barnabörnunum að þróa og viðhalda samböndum við fólk sem er á allt öðrum aldri en þau. Að viðhalda slíku sambandi er lærdómsríkt fyrir alla aðila.

10. Skilyrðislaus ást

Ömmur og afar geta boðið barnabörnunum sínum skilyrðislausa ást og það þýðir fullt af gjöfum og ánægjulegum stundum. Þar sem þau eru ekki í hlutverki foreldra hafa þau meiri tíma og orku að gefa, ásamt endalausri athygli, hjálplegum ráðum og tilfinningalegum stuðningi, en slíkt verður ekki metið til fjár.

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Foreldrakulnun er staðreynd sem getur haft skaðleg áhrif

Yrja Kristinsdóttir er 36 ára þriggja barna mamma og eigandi fyrirtækisins Dafna, sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf fyrir foreldra og börn. Einnig rekur Yrja Vellíðunarsetrið sem staðsett er í Urriðaholti í Garðabæ. Blaðakona Mamman.is hitti Yrju yfir kaffibolla í Vigdísarhúsi sem var einkar vel við hæfi enda Yrja hæfileikarík kona og augljós leiðtogi í sér, líkt og Vigdís. Þegar blaðakona rakst á Instagramreikning Döfnu vakti upp forvitni hver stæði á bak við síðuna. Þar var mikið fjallað um foreldrakulnun og að það sé eðlilegt sem foreldri að upplifa allskonar tillfinningar, ekki bara eintóma gleði. Við byrjuðum því eðlilega á því að spyrja, hver er konan á bak við Dafna?  

„Ég heiti Yrja Kristinsdóttir og er eigandi Dafna sem býður upp á markþjálfun og ráðgjöf og rek einnig Vellíðanarsetrið sem er staðsett í Urriðaholti, Garðabæ. Dafna sérhæfir sig í börnum, unglingum og fullorðnum sem vilja auka vellíðan sína og ná betra jafnvægi. Ég vinn út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar. Þar er lögð áhersla á þætti á borð við jákvæðar tilfinningar, styrkleika og hugarfar sem eiga þátt í því að einstaklingurinn blómstrar, vex og dafnar. Auk þessa er ég að vinna að verkefni ásamt Marit Davíðsdóttur, sem ber nafnið Gleðiskruddan. Gleðiskruddan er dagbók fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og er tilgangur hennar að auka sjálfsþekkingu, trú á eigin getu, bjartsýni og vellíðan,” segir Yrja og bætir við: „Gleðiskruddan er bæði á Instagram og á Facebook og þar er að finna bæði fræðslu og fróðleik sem nýtist fólki á öllum aldri. Einnig höfum við opnað vefsíðuna Glediskruddan.is en þar má finna upplýsingar um dagbókina, námskeið og fyrirlestra sem eru í boði,” segir Yrja. 

Hefur mikla ástríðu að aðstoða einstaklinga við að efla vellíðan

„Ég hef fjölbreytilega menntun en þar má nefna: BA. í félagsráðgjöf, MA. í uppeldis-og menntunarfræði með áherslu á lífsleikni, sjálfsmynd og farsæld, diplóma í djáknafræðum, diplóma í jákvæðri sálfræði á meistarastigi, dáleiðslutækni og markþjálfun. Ég er einnig að klára framhaldsnám í markþjálfun í maí og verð þar að auki vottaður NBI þjálfi,” segir Yrja. „Ég hef mikla ástríðu fyrir að aðstoða einstaklinga við að efla andlega heilsu, vellíðan og auka hamingju. Ég vinn mikið með foreldrum, þá sérstaklega mæðrum sem eru að koma úr fæðingarorlofi og/eða eru að finna jafnvægið á milli móðurhlutverksins, vinnu og þess að vera þær sjálfar. Ég legg mikla áherslu í mínu starfi á að þær fái aðstoð við að aðlaga móðurhlutverkið að sér, í stað þess að aðlaga sjálfa sig að móðurhlutverkinu,” segir Yrja sannfærandi. 

En hvað er foreldrakulnun? 

„Foreldrahlutverkið er margslungið, það er krefjandi, skemmtilegt, erfitt, yndislegt, gefandi og fjölbreytilegt. Foreldrar eru orðnir hreinskilnari og opnari í umræðunni um upplifun á streitu, kvíða og ójafnvægi í foreldrahlutverkinu. Það er jákvæð þróun því að foreldrakulnun (e. parental burnout) er staðreynd og er afleiðing af langvarandi þreytu og streitu í krefjandi aðstæðum,” segir Yrja. 

“Foreldrakulnun lýsir sér þannig að foreldrahlutverkið verður einstaklingnum bæði líkamlega og tilfinningalega ofviða og getur valdið efasemdum um getu til að vera gott foreldri og/ eða tilfinningalegri fjarveru.” 

Einkenni foreldrakulnunar eru meðal annars: Foreldrar upplifa kvíða og áhyggjur. Mikil þreyta. Foreldrar eiga erfitt með að vera meðvitað til staðar og njóta þess að eiga tíma með fjölskyldunni. Foreldrar geta upplifað efasemdir um að að vera gott foreldri og því fylgir sektarkennd. 

Er þetta eðlilegt ástand? 

„Það er eðlilegt að upplifa streitu, þreytu, ójafnvægi og allskonar tilfinningar þegar maður er foreldri, en að lenda í kulnun getur haft skaðleg áhrif. Það er því mjög mikilvægt að vera meðvitaður um öll þau einkenni sem eru til staðar til að geta leitað sér aðstoðar áður en foreldri upplifir foreldrakulnun,” segir Yrja. 

Hvaða hópur foreldra er líklegastur til að upplifa foreldrakulnun? 

„Samkvæmt rannsóknum á foreldrakulnun eru ákveðnir hópar foreldra í áhættuhóp en það eru þeir sem a) eiga erfitt með tilfinningastjórn og streitu, b) skortir stuðning frá maka og/eða hinu foreldri, c) skortir uppeldisfærni, d) eiga börn með sérþarfir og e) vinna hlutavinnu eða eru heimavinnandi.“. 

Hvert er hægt að leita sér eftir aðstoð? 

„Allir foreldrar geta upplifað einhver af þessum einkennum og þess má geta að það er fullkomlega eðlilegt að upplifa einhver af þeim án þess að lenda í kulnun. Ef að einkennin verða langvarandi er ráðlagt að leita sér aðstoðar. Það er án efa hægt að leita til margvíslegra meðferðaraðila sem geta aðstoðað foreldra sem eru að upplifa þessi einkenni en markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er ein þeirra leiða,” segir Yrja og bætir við: „Aðferðir jákvæðrar sálfræði bjóða uppá möguleika til að koma á jafnvægi, draga úr álagi og auka vellíðan á þessu sviði en meðal rannsóknarefna innan greinarinnar eru vellíðan, jákvæðar tilfinningar, hamingja, þrautseigja, sambönd, hugarfar, tilgangur og hvað fær fólk til að vaxa og dafna í lífinu. Í jákvæðri sálfræði eru rannsakaðir þeir þættir sem hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fá þá til að blómstra. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jákvætt viðhorf er verndandi þáttur fyrir sálræna og líkamlega heilsu. Það hafa jafnframt verið rannsakaðar aðferðir og æfingar sem rækta með okkur jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir og kallast þær jákvæð inngrip,” segir Yrja og bætir við að lokum: „Markþjálfun í anda jákvæðrar sálfræði er því tilvalin fyrir skipulag, sjálfsþekkingu, markmiðasetningu, aukið jafnvægi og ná að vera í núinu og njóta eða vera til staðar með vakandi athygli. Semsagt aukin vellíðan, jafnvægi og hamingja. Eins og oft er talað um þá þurfum við að setja á okkur súrefnisgrímuna áður en við getum aðstoðað aðra.” 

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast inn á vefsíðu dafna.is einnig er hægt að senda Yrju tölvupóst á dafna@dafna.is Við hvetjum alla þá sem tengja við einkenni kulnunar að leita sér aðstoðar.

 

Pin It on Pinterest