Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Fyrir “nokkrum” árum þótti ekki mikið tiltöku mál ef fólk var að eignast sín fyrstu börn um tvítugt. Móðir mín átti mig nokkrum dögum eftir 18 ára afmælisdaginn sinn og pabbi var nýorðinn tvítugur. Það þótti nú lítið merkilegt. En á síðasta áratug eða svo hefur mikið breyst, barneignaraldurinn hefur færst aftar. Margar kunningjakonur mínar eru t.d að eignast sitt fyrsta barn eftir 35 ára aldur. Ég sjálf var talin nokkuð ung móðir en ég eignast mitt fyrsta barn 21 árs og var svo tilbúin á þeim tíma til að takast á við þetta fallega hlutverk, að vera móðir.

Perla Steingrímsdóttir og Brynjar eru nýorðin tvítug og eignuðust nýverið sitt fyrsta barn, hana Maríu Erlu gullfalleg lítil stelpuskotta. Perla kláraði lokaár sitt í Verslunarskóla Íslands á síðasta þriðjung meðgöngunar og var gengin 30 vikur á útskriftinni sinni, Brynjar útskrifaðst á sama tíma úr Fjölbraut í Garðabæ. Mamman.is fékk Perlu til að svara nokkrum spurningum um ástina, meðgönguna og foreldrahlutverkið.

Hvernig kynnust þið?

Við vorum bæði í samkvæmisdansi og urðum danspar fyrir 5 árum. Eftir átta æfingar á viku hver í þrjá klukkutíma þá leið ekki langt þangað til að við urðum kærustupar. Sökum dansins fengum við það tækifæri að ferðast um heiminn og teljum við okkur svo heppin að hafa séð svo mikið af heiminum saman. Fyrir ári síðan trúlofuðum við okkur á gondola undir Bow bridge í Central Park. Það var yndislegt móment sem okkur þykir svo vænt um.

Nú eru kannski nokkrir sem velta því fyrir sér þegar ungt fólk eignast börn, hvort að barnið “sé planað” hafið þið oft fengið þá spurningu?

Það kom engum á óvart þegar ég varð ólétt því við höfðum ákveðið löngu áður að okkur langaði að eignast barn fljótlega eftir stúdentspróf. Þannig þetta barn kom planað í heiminn og því enginn laumufarþegi. Við fáum þessa spurningu eiginlega alltaf frá fólki í einhverri útgáfu, en svo eru aðrir sem búast við því að barnið hafi verið óplanað og eru því mjög hissa þegar annað kemur í ljós.  Við erum bæði mikið barnafólk og við vorum farin að skoða barnaföt í keppnisferðum erlendis nokkrum árum áður og töluðum oft um hvenær og hversu mörg börn okkur langar í.

Hvernig voru fyrstu viðbrögðin þegar þið komust að því að þið ættuð von á barni?

Við vorum ótrúlega glöð. Við vorum svo spennt að fá að vita hvort þetta hafi virkað hjá okkur. Vorum þannig séð búin að búa okkur undir það að verða ófrísk gæti tekið svolítin tíma en þetta gerðist allt svo fljótt, sem okkur fannst bara enn yndislegra. Þannig fyrstu viðbrögðin var mikil gleði en einnig alveg gífurlegur spenningur. Vorum eiginlega ekki að trúa því að eftir 9 mánuði myndum við verða foreldrar.

Hvernig tóku foreldrar og vinir þeim fréttum að þið ættuð von á barni?

Þetta kom foreldrum okkar nú eiginlega ekkert á óvart og þau í raun farin að bíða eftir barninu. Þau sýndu okkur rosalega mikinn stuðning og alveg ómetanlegt að eiga svona flott sett af ömmum og öfum. Vinir okkar urðu glöð, hissa, spennt og pínu hrædd. Sumir jafnaldrar okkar gátu ekki ímyndað sér að vera í okkar sporum en aðrir með mikið ,,baby-fever” ef mér leyfist að sletta. Þannig við höfum fengið liggur við allan skalann af móttökum. Ekkert slæmt samt.

Hvernig gekk meðgangan?

Ég var mjög heppin að upplifa góða meðgöngu. Það var smá morgunógleði í byrjun og það sem var að hrjá mig hvað mest var að ég gat alls ekki borðað kjöt á þessum tíma. En var samt sjúk í mjólk. Ég var dugleg að hreyfa mig og fór í bumbutíma í WorldClass sem voru mjög skemmtilegir. Ég var að klára Verzló þegar ég var ólétt og fannst mér það bara hjálpa mér að hafa smá heilaleikfimi.

Hvernig gengur foreldrahlutverkið, er eitthvað sem kemur ykkur á óvart?

Foreldrahlutverkið er yndislegt. Við bjuggumst hreinlega ekki við því að geta þótt svona ótrúlega vænt um einhvern eins og okkur þykir um Maríu Erlu. Væntumþyggja náði semsagt nýjum hæðum hjá okkur. Að sjálfsögðu er þetta ekki bara göngutúr í garði og það fylgja tímar þar sem þetta tekur á. En saman getum við þetta og erum góð í að styðja við hvort annað.

Það sem kemur okkur kannski mest á óvart við þetta nýja hlutverk, er allt dótið sem fylgir því.

Við erum kannski að fara í heimsókn og þá fyllum við skottið í bílnum af dóti sem allt er auðvitað nauðsynlegt…svona eins og ferðatösku af fötum og ca 50 bleiur… bara til að vera viss. Nýja starfið er mjög gefandi og erum við mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra.

 Finnst þér þú mæta einhverjum fordómum sökum ungs aldurs, þ.e.a.s að fólk efist um færni ykkar sem foreldrar vegna aldurs?

Við höfum ekki ennþá upplifað neina fordóma. Þeir hafa þá alveg farið framhjá okkur ef einhverjir voru. Enda er engin ástæða til að hlusta á eitthvað svoleiðis. Við vorum tilbúin í að eignast barn og fylgdum hjartanu. Allir hafa sýnt okkur mikinn stuðning og voru kennarar og starfsfólk í Verzló mjög hjálplegir og áhugasamir á meðgöngunni. Við vonum innilega að fordómar gegn ungum foreldrum muni deyja út. Ef einhver hefur áhyggjur af því hversu ungir foreldrarnir eru, er ekki betra bara að bjóða þeim hjálp í stað þess að vera með einhver hortugheit… nei ég segi bara svona.

Hver eru framtíðarplönin hjá litlu fjölskyldunni?

Við erum bæði í háskólanámi núna. Brynjar er að reyna við tannlækninn og ég var að byrja á hugbúnaðarverkfræði. Það voru margir sem héldu að við myndum hætta við háskólanám og myndum fara að vinna eftir að við komumst að því að við værum að verða foreldrar. En við ætlum að halda í okkar drauma og ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Litla dúllan okkar fær bara að taka þátt og gerir leiðina bara svo miklu betri.

Eitthvað sem ykkur langar að taka fram að lokum?

Að lokum langaði okkur nú bara að segja að maður verður bara að hlusta á sjálfan sig. Við vorum tilbúin að eignast barn og tilbúin í það hlutverk og þá ábyrgð sem því fylgir. Það eru allir mismunandi og því tilbúnir til barnseigna á mismunandi aldri. En það er akkurat svo fallegt.

Við þökkum Perlu kærlega fyrir að svara spurningum okkar og óskum fjölskyldunni velfarnaðar um ókomna framtíð. Til að halda áfram að fylgjast með litlu fjölskyldunni og þeirra lífi þá bendum við á Instagramreikning Perlu en hann er perlast97.

Auður Eva Ásberg

 

Uppbyggileg og styrkjandi námskeið fyrir verðandi- og nýbakaðar mæður

Uppbyggileg og styrkjandi námskeið fyrir verðandi- og nýbakaðar mæður

Halla Björg Ragnarsdóttir (29) og Steinunn Þórðardóttir (35) hafa haldið skemmtileg námskeið fyrir verðandi og nýbakaðar mæður í húsakynnum Mjölnis í Öskjuhlíð. Þessi námskeið hafa vinsældum fagnað og þær konur sem sótt hafa námskeiðin verið mjög ánægðar. Halla Björg eignaðist nýverið sitt fyrsta barn, lítinn fallegan dreng og allt gengur vel að hennar sögn. Halla er menntaður þroskaþjálfi, heilsunuddari og er þjálfari hjá Mjölni. Steinunn eignaðist sitt annað barn fyrir nokkrum mánuðum síðan, er komin á fullt í Háskóla Íslands að læra sjúkraþjálfun, starfar sem sminka í kvikmyndum, er Hatha yoga kennari og kennir einnig Mjölnisyoga.

 Nú í byrjun október hefst nýtt námskeið í Freyjuafli sem er eins og fyrr segir fyrir verðandi- og nýbakaðar mæður. Ég hitti stelpurnar og forvitnaðist aðeins um þær og hugmyndina á bak við Freyjuaflið. Að lokum bað ég Höllu og Steinunni að mæla með nokkrum góðum styrktar- og liðleikaæfingum til að gera heima.

Viljið þið segja okkur frá Freyjuafli og hvernig hugmyndin að tímunum kviknaði?

“Hugmyndin um þrek fyrir verðandi og nýbakaðar mæður hefur lengi verið í umræðunni í Mjölni. Það vantaði að einhver tæki af skarið og ég ákvað að gera það þegar ég varð ólétt í undir lok síðasta árs” segir Halla Björg. “Við fórum að ræða hvernig best væri að útfæra þetta og úr varð Freyjuafl. Við sáum strax að þetta þyrfti að vera tvennskonar námskeið þar sem er mismunandi áhersla fyrir verðandi eða nýbakaðar mæður” segja Halla og Steinunn.

 

Fyrir hverja er Freyjuafl og hvaða áherslur leggið þið á í tímunum? Hver er munurinn á tímunum fyrir konur á meðgöngu og nýbakaðar mæður?

Freyjuafl er fyrir verðandi og nýbakaðar mæður og engu máli skiptir hvort þær hafi æft áður, séu ekki með neina reynslu eða séu komnar stutt eða langt inn í meðgönguna. Það eru allar velkomnar. Börnin eru auðvitað hjartanlega velkomin með í mömmutímana. Þetta er tvennskonar lokuð námskeið þar sem æft er 3x í viku í 4 vikur, 2 tímar í viku eru styrktar- og þoltímar og svo endum við vikuna á yoga. Það verður breyting á yogatímanum fyrir nýbakaðar mæður þar sem við viljum bjóða hitt foreldrið með í tímann. Áherslurnar í tímunum eru mismunandi en meðgönguhópurinn er hugsaður fyrir konur sem vilja styrkja eða viðhalda styrk á meðgöngu, ásamt því að byggja upp andlegt og líkamlegt jafnvægi fyrir það sem koma skal. Áherslan í mömmutímunum er að styrkja miðju, bak og grindarbotn ásamt því að auka styrk og þol eftir meðgöngu og fæðingu.

Hvenær hefst næsta námskeið og hvað stendur það yfir lengi?

Námskeiðin fyrir verðandi – og nýbakaðar mæður eru sitthvorn daginn en þau hefjast 2. og 3. október. Þau standa síðan yfir í 4 vikur eins og áður hefur komið fram.

Viljið þið gefa okkur 3 góðar styrktar- og liðleikaæfingar sem hægt er að gera heima.

  • Pelvic tilt mjaðmalosun – Þessa æfingu er bæði hægt að gera standandi eða liggjandi á bakinu. Byrjaðu á að gera hana liggjandi. Hælar eru settir í gólf og færðir nálægt rassi. Núna þarftu að hugsa eins og lífbein sé dregið upp frá gólfi og í átt að nafla. Við það snertir mjóbak gólf og neðsti hluti rass lyftist lítillega frá gólfi. Næst getur þú gert æfinguna standandi. Þá framkvæmir þú alveg eins en gott er að ímynda sér að mjaðmir séu dregnar undir líkamann. Þetta er síðan gert 15-20 sinnum.

 

  • Mjaðmaréttur – Þegar þessi æfing er framkvæmd leggst þú á bakið, setur æla í gólf nálægt rassi. Gott er að láta lófa snúa niður og meðfram síðu til að ná jafnvægi í efstu stöðu. Dragðu undir þig mjaðmirnar líkt og nefnt er í æfingunni hér á undan. Þá lyftiru mjöðmum upp frá gólfi svo bein lína verði frá hnjám og upp í efst hluta hryggjar. Það skiptir ekki mestu máli að lyfta mjöðmum sem hæðst, heldur að spenna rassinn. Þessa æfingu er gott að endurtaka 15-20 sinnum.

 

  • Yogamudra axlaropnun – Þessi æfing er frábær við vöðvabólgu. Stattu með gott bil á milli fóta og spenntu greipar fyrir aftan bak. Ef axlir eru mjög stífar getur verið erfitt að ná lófum saman. Þá er annað hvort hægt að beygja olnboga vel eða nota lítið handklæði sem framlengingu milli lófa. Slakaðu vel á í öxlum, andaðu djúpt inn og á fráöndun hallaru þér fram frá mjöðmum og leyfir lófum að sökkva í átt að gólfi. Haltu þessari stöðu í 5-10 djúpa andadrætti.

 

Við þökkum Höllu og Steinunni kærlega fyrir spjallið og mælum svo sannarlega með að kíkja á heimasíðu Mölnis www.mjolnir.is til að nálgast nánari upplýsingar um Freyjuafl.

Mamman.is í samstarfi við Mjölni ætlar að vera með skemmtilegan leik, við ætlum að gefa fjórum heppnum vinkonum pláss á Freyjuaflsnámskeið. Tvær vinkonur fá gefins pláss á námskeiðið “Freyjuafl fyrir verðandi mæður” og tvær vinkonur á “Freyjuafl fyrir nýbakaðar mæður”. Svo sannarlega til mikils að vinna!

Til að eiga möguleika er best að:

*Vera vinur Mamman.is og Mjölnir MMA á Facebook.

*Tagga vinkonu þína sem að þig langar að bjóða með þér á námskeið við færsluna inná Facebooksíðu mamman.is!

*Og ekki gleyma að segja hinum frá þessum frábæra leik!

*Við drögum svo út 4 heppnar vinkonur sunnudaginn 1.október!

 

Kann hreinlega ekki að gera ekki neitt!

Kann hreinlega ekki að gera ekki neitt!

Í kringum Berglindi Hreiðarsdóttir ríkir sjaldan lognmolla. Þessi ofurkona er gift Hermanni Hermannsyni verkfræðing og saman eiga þau þrjár dætur. Berglind stundar mastersnám í verkefnastjórnun í HR af fullum krafti auk þess að vera heima í fæðingarorlofi með yngstu dóttur þeirra hjóna þessa mánuðina. Hún starfar í mannauðsdeild Vodafone og í hjáverkum rekur hún fyrirtækið Gotterí og gersemar sem heldur úti uppskriftarsíðunni www.gotteri.is. Á þeirri síðu er að finna alls kyns uppskriftir og fróðleik sem snýr að bakstri og kökuskreytingum.

Berglind er einnig þekkt fyrir sínar guðdómlegu veislur og ég held að það sé með sanni hægt að segja að hinn íslenski arftaki Martha Stewart sé hér með fundinn! Það er nú kannski ekki skrítið að veislurnar hennar séu hver annarri fallegri enda eru veislur, bakstur, kökur og kökuskreytingar hennar ást og yndi. Berglind heldur námskeið í kökuskreytingum fyrir þá sem hafa áhuga á því að heilla gesti sína uppúr skónum með fallegum og vel skreyttum kökum í veislum! Aðsóknin hefur verið mjög góð á námskeiðin að sögn Berglindar. 

Berglind á þrjár dætur á aldursbilinu 5 mánaða til 14 ára. Þessar tvær eldri eru duglegar í tómstundum, auk þess sem hún stundar mastersnám í verkefnastjórnun, rekur sitt eigið fyrirtæki og er í fæðingarorlofi. Hvernig gengur að sameina þetta allt saman…eru ekki örugglega bara 24 tímar í þínum sólarhring?!

“Eigum við ekki bara að segja að það sé ekki að ástæðulausu að mastersnám í verkefnastjórnun heillaði mig, hahaha! Ég hef alla tíð verið mjög skipulögð, eiginlega einum of og kann hreinlega ekki að gera ekki neitt. Eftir því sem ég eldist og þroskast þá átta ég mig samt betur og betur á því að ætla mér ekki um of þó svo ég sé enn að læra það.”

Eins og margar konur nú til dags þá ertu að eignast þriðja barnið þitt að nálgast fertugt. Finnst þér öðruvísi að koma með barn á fertugsaldri en þrítugsaldri, ef já hvað finnst þér öðruvísi?

“Það er bara einhvern vegin miklu afslappaðra, við Hulda Sif erum bara að knúsast og njóta, fara út í göngutúra og ekkert að stressa okkur á hlutunum. Ég er ekkert að spá í þyngd, tanntöku, nýjustu barnatískunni, mömmuklúbbum og öllu þessu. Horfi bara á hana og sé henni líður vel og það er eina sem skiptir máli. Ég veit hún mun fá tennur, fara að ganga og allt þetta. Hún er síðan bara svo yndisleg og afskaplega tillitssöm við „aldraða“ móður sína. Hún sefur vel og brosir allan daginn þess á milli svo mamman lærir á meðan prinsessan sefur og leikur við hana öðrum stundum.”

Hvernig hugar þú að heilsunni?

“Ég elska að ganga á fjöll, fara í göngutúra, út að skokka og undanfarin ár hef ég verið meira fyrir jóga, pilates og þess háttar umfram aðra líkamsrækt innandyra. Ég verð samt að viðurkenna að ég mætti samt alveg vera duglegri að hugsa um sjálfa mig, það er þó klárlega eitt af núverandi markmiðum mínum og er ég meira að segja að byrja á pilates námskeiði í lok september.”

Hvenær byrjaðir þú að hafa ástríðu fyrir matargerð og bakstri?

“Síðan ég man eftir mér og þetta hefur bara ágerst með árunum og hausinn á mér ætíð uppfullur af hugmyndum svo to-do listinn í eldhúsinu klárast aldrei!”

Viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin kviknaði af www.gotteri.is?

“Við fjölskyldan bjuggum í Bandaríkjunum í nokkur ár og fór ég þar á fjölmörg kökuskreytingarnámskeið. Vinkonur mínar byrjuðu að grínast í mér að ég ætti að fara að hafa námskeið í þessu og einhvern vegin gerðist þetta alveg óvart og áður en ég vissi sátum við Heiða mágkona mín og útbjuggum heimasíðu og þá var ekki aftur snúið.”

Hvað er framundan hjá Gotterí og gersemum?

“Það sem er framundan eru haustnámskeið fram í nóvember. Það er nýtt námskeið á dagskrá sem kallast „Nútímalegar kökuskreytingar“ og hlakka ég mikið til að hafa fyrsta slíka námskeiðið nú í lok september. Gotterí var einnig að hefja samstarf við Gott í matinn og síðan er fleira skemmtilegt á prjónunum á  næstunni.”

Hvað er gott að hafa í huga þegar skipuleggja á veislu, varðandi fjölda gesta og magn af veitingum. Getur þú gefið okkur góð ráð varðandi skipulagningu þegar góða veislu gjöra skal, hvort sem um ræðir afmæli, fermingu, brúðkaup eða nafnaveislu?

“Það hefur reynst mér vel að skipuleggja veislu í tíma, átta mig á fjölda gesta, hvað á að bjóða upp á og þess háttar. Síðan skrifa þetta niður og stilla upp nokkurs konar verkáætlun. Hvað er hægt að gera í tíma, t.d kaupa skraut, baka í frystinn o.þ.h á móti því sem þarf að gerast kortér í veislu. Ég fermdi einmitt í vor og þá gerði ég góðan tékklista fyrir smáréttaveislu svo það er hægt að kíkja þangað til að átta sig á magni fyrir slíkt.”

 

Viltu gefa okkur uppskrift af þínum uppáhalds rétt eða þinni uppáhalds köku?

“Ohhh það er svo erfitt að velja, á ekki neitt eitt uppáhalds! Þrátt fyrir að mér finnist gaman að útbúa flóknar kökur og dúlla mér við kökuskreytingar klukkutímum saman þá er það oft einfaldleikinn sem kallar. Ef ég á að mæla með einhverju þá er það líklega Oreo ostakakan góða sem sló heldur betur í gegn á blogginu á sínum tíma.”

Oreo ostakaka

Botn

  • 1 ½ pakki súkkulaði Oreo kex

Ostakaka

  • 200gr suðusúkkulaði
  • 50ml rjómi
  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 300gr Philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
  • 1,5 dl flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar
  • ½-1 pk Oreokex – gróft mulið (með kökukefli)

Skraut

  • 300ml þeyttur rjómi
  • Oreokex (heil til að stinga í)

Aðferð

  1. Myljið kexið sem fer í botninn fínt niður í matvinnsluvél/blandara og geymið.
  2. Bræðið saman suðusúkkulaði og rjóma og kælið á meðan þið útbúið ostakökuna sjálfa.
  3. Þeytið 500ml af rjóma og setjið til hliðar á meðan þið þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa.
  4. Vefjið því næst um 1/3 af rjómanum við ostablönduna varlega með sleif og svo allri restinni.
  5. Skiptið ostablöndunni niður í 3 skálar, um helmingur fer í eina og svo c.a ¼ og ¼ í næstu tvær (ef þið viljið sleppa hvíta laginu og gera bara hvítt með Oreomylsnu og svo brúnt lag þá má skipta 3/4 og 1/4).
  6. Hrærið gróft mulda Oreo kexinu saman við helminginn af blöndunni (3/4 ef þið sleppið hvíta laginu).
  7. Geymið ¼ (til að hafa hvítt lag) – (eða sleppa og hafa meira af hinu með Oreobitunum).
  8. Hellið kældu súkkulaðiblöndunni saman við ¼ og vefjið vel saman – kælið áfram.

Samsetning

  1. Setjið um 2 kúfaðar teskeiðar af Oreo mylsnu í botninn á hverju glasi (fer í 10-12 glös eftir stærð).
  2. Setjið ¼ hvíta hlutann í sprautupoka/zip-lock og skiptið jafnt á milli glasanna. Þetta er frekar þunnt lag og gott að ýta því að köntum glassins þegar búið er að skipta á milli á sem snyrtilegastan hátt (eða bara hinu beint ef þið skiptuð 3/4).
  3. Sprautið því næst blöndunni með gróft mulda Oreo kexinu á milli glasanna og sléttið úr líkt og með hvíta svo það fylli vel út í hliðar glassins (þetta laga amk helmingi þykkara en það  hvíta).
  4. Hellið súkkulaði-ostablöndunni yfir síðasta lag og er hún svipað þykk og hvíta lagið (súkkulaðiblandan er þó töluvert meira fljótandi en hinar tvær).
  5. Kælið þar til súkkulaðiblandan tekur sig (2-3 klst eða yfir nótt)
  6. Þeytið 300ml af rjóma og setjið í sprautupoka/zip-lock, sprautið í spíral sem skraut á hverja ostaköku og stingið Oreo kexi í hliðina.

Innskot Mamman.is. Þessi fallegu nafnaskilti sem eru á kökunum hjá Berglindi fást á www.hlutprent.is, þau er einnig að finna á Facebook HÉR.

Við þökkum Berglindi kærlega fyrir spjallið og óskum henni alls hins besta!

Auður Eva Ásberg 

 

Mér finnst dóttir mín eiga það skilið að alast upp hjá foreldrum sem hún getur tekið til fyrirmyndar

Mér finnst dóttir mín eiga það skilið að alast upp hjá foreldrum sem hún getur tekið til fyrirmyndar

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch 28 ára er framkvæmdastjóri Platome Líftækni og aðjúnkt í lífeindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur síðustu ár þróað, ásamt Dr. Ólafi E. Sigurjónssyni, nýjar leiðir til að rækta frumur á rannsóknarstofum með því að nýta útrunnar blóðflögur frá Blóðbankanum. Sandra er gift Þór Friðriksson, læknir og M.Sc. í heilbrigðisverkfræði og saman eiga þau dótturina Birtu 2ja ára. Sandra varð fyrst íslenskra kvenna til að hljóta aðalverðlaun á alþjóðlegri hátíð kvenna í nýsköpun, EIWIIN/GWIIN (Global women inventors and innovators network), sem Kvenfrumkvöðull ársins 2017. Hátíðin fór fram á Ítalíu í lok júní. Fyrr á árinu var Sandra einnig valin sem Ungur og efnilegur vísindamaður ársins á sviði lífvísinda auk þess að vera tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur af JCI Ísland síðasta haust. Fyrirtækið hennar, Platome Líftækni, hefur einnig hlotið fjölmörg verðlaun en fyrirtækið var valið Sprotafyrirtæki ársins af Viðskiptablaðinu og var á lista Frjálsrar Verslunar yfir áhugaverðustu sprotanna í fyrra.  Þá hefur fyrirtækið hlotið styrki úr tækniþróunnarsjóði.  Rannsóknir sem Sandra hefur unnið að ásamt samstarfsfólki sínu koma til með að stuðla að framförum í læknisfræði, og þá sérstaklega á sviði stofnfrumulækninga. Hópurinn hefur unnið að þróun á tækni og aðferðum sem gera vísindamönnum kleift að rannsaka og rækta stofnfrumur án þess að nota dýrafurðir. Markmiðið er að bæta núverandi aðferðir og flýta fyrir þróun á stofnfrumumeðferðum sem geta gagnast sjúklingum. Í starfi sínu sem aðjúnkt við Háskóla Íslands kennir Sandra erfðafræði og vísinda- og teymisvinnu auk þess að sitja í námsbrautarstjórn í Lífeindafræði. Sandra á einnig sæti í stjórn hvatningarsjóðs Félags lífeindafræðinga. Hún er eftirsóttur fyrirlesari og talar fyrir vísindum, nýsköpun og frama ungs fólks bæði innanlands og erlendis. Hennar næsta verkefni er að verja doktorsrannsókn sína en vörnin mun fara fram við Háskóla Íslands í þessari viku.

Viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin að fyrirtækinu þínu Platome Líftækni kviknaði og frá þeirri starfsemi sem þú stýrir?

Fyrirtækið byggir á margra ára rannsóknarvinnu sem að hófst í kringum 2010. Óli, sem er meðstofnandi, var þá nýlega kominn aftur heim til  Íslands eftir að hafa lokið doktorsprófi í stofnfrumu- og ónæmisfræði í Osló og var að vinna í Blóðbankanum. Hann fór að kanna möguleikann á því að nýta blóðhluta, sem blóðbankinn getur ekki notað og fékk mig til liðs við sig. Ég kom því inn í verkefnið strax að lokinni B.Sc. gráðu í lífeindafræði og stækkaði verkefnið seinna í doktorsverkefni. Samstarf okkar hefur verið mjög farsælt og við vorum meðal annars fyrst til að sýna fram á að hægt er að nýta útrunnar blóðflögur frá blóðbönkum til að rækta stofnfrumur. Við áttuðum okkur stuttu síðar á verðmæti þessarar hugmyndar og í kjölfarið ákváðum við að stofna fyrirtæki, Platome Líftækni. Ég tók strax við sem framkvæmdastjóri og hefur fyrirtækið gengið vonum framar. Við erum orðin sjö talsins og fluttum nýlega í nýtt skrifstofuhúsnæði. Þá erum við bæði með innlenda og erlenda viðskiptavini. Það hefur verið virkilega gaman og krefjandi að fara í gegnum þetta ferli, að stofna eigið fyrirtæki, en ég hef á skömmum tíma þurft að læra mikið af nýrri þekkingu enda liggur minn bakgrunnur ekki í viðskiptum heldur vísindum.

Nú ertu mikil framakona, og ert að verja doktorsritgerðina þína samhliða því að reka fyrirtæki og heimili. Mikil umræða hefur verið upp á síðkastið þar sem rætt er um að starfsframi foreldra sé oft á kostnað barnanna og þeirra tengslamyndunar sem börn eiga við foreldra sína. Upplifir þú fordóma í þinn garð vegna þíns frama og finnst þér fólk efast um færni þína sem móðir?

Það þarf ekki að vera samansem merki á milli þess að rækta eigin starfsframa og sinna ekki fjölskyldulífi. Það að vilja ná langt í lífinu þýðir ekki endilega að maður gefi sér ekki tíma fyrir börnin. Það hefur komið mér á óvart hvað fólk er tilbúið að segja við mig og lætur stundum út úr sér hluti sem virðast til þess eins fallnir að vekja hjá mér sektarkennd. Ég hef meðal annars verið spurð að því hvort að dóttir mín kalli mig ennþá mömmu, hvort að hún þekki mig ennþá og svo er mjög vinsælt að spyrja: Og hvar er barnið þitt? Maðurinn minn fær ekki þessar sömu spurningar, hann er engu að síður mjög metnaðarfullur og í góðu starfi. Ég sinni mörgum verkefnum og það er aldrei nægur tími í sólarhringnum til að komast yfir allt. Þess vegna geri ég mér vel grein fyrir því hve dýrmætur tíminn er og ég reyni að nýta hverja stund sem best. Það á sérstaklega við um þann tíma sem ég á með dóttur minni. Frá því að hún byrjaði á leikskóla hefur aldrei neinn annar en foreldrar hennar sótt hana. Fjölskyldur okkar beggja búa úti á landi og því þurfa allir í litlu fjölskyldunni minni að standa saman. Alltaf. Þegar ég fer að sækja dóttur mína þá slekk ég á netinu í símanum til að geta verið með henni og notið þess. Við gerum alltaf eitthvað saman eftir leikskóla, förum á bókasafnið, í göngutúr eða erum heima að knúsast. Á föstudögum er alltaf kósíkvöld, það er heilagt. Þá tökum við eitthvað skemmtilegt á leigu á bókasafninu og horfum öll saman í sófanum. Þetta eru stundir sem dóttir mín hlakkar til alla vikuna, og ég líka. Þegar dóttir mín er komin í háttinn á kvöldin, þá get kveikt aftur á netinu og haldið áfram að vinna. Auðvitað er álagið misjafnt, ég hef til dæmis þurft að ferðast mikið þetta ár og því fylgir töluverð streita. Maðurinn minn vinnur líka mikið en gefur sér alltaf tíma til að sinna fjölskyldunni og er verkaskiptingin á okkar heimili mjög jöfn. Það ganga allir í öll verk. Annars myndi þetta ekki ganga upp, við þurfum að hjálpast að. Enda er það eðlilegt. Það tekur tíma, áræðni og dugnað að byggja upp frama og sækja sér menntun. Maður þarf að fórna ýmsu. Það að vera ungt foreldri að byggja upp frama þýðir samt ekki endilega að maður velji að fórna tímanum með fjölskyldunni. Kannski velur maður bara að fórna einhverju öðru. Mér finnst því alveg ótrúlegt þegar ég sé aðra alhæfa um að fólk sem að ætlar sér að ná langt í lífinu gleymi að rækta tengslin við börnin sín, líkt og það gangi yfir alla. Ég hreinlega get ekki verið sammála og mér finnst að unga fólkið okkar eigi betra skilið en að vera ásökuð um að vera slæmir foreldrar. Mér finnst það skjóta skökku við að í samfélagi þar sem við metum jafnrétti og jöfn tækifæri séum við að hnýta í þá sem kjósa að lifa eftir gildum þess og sækja sér bæði menntun og frama. Það hefur lengi verið krafa að auka hlut kvenna í ýmsum öngum okkar samfélags. En ef við viljum raunverulega breyta hlutunum þá þurfum við að vera þær fyrirmyndir sem við hefðum viljað sjá þegar við vorum yngri. Þetta á að sjálfsögðu ekki bara við um konur, þetta á við um alla. Mér finnst dóttir mín eiga það skilið að alast upp hjá foreldrum sem hún getur tekið til fyrirmyndar og ég reyni því að vera eins sterk og góð fyrirmynd og ég get. Fyrir hana. Ef það þýðir að ég þurfi að sýna kjark og synda á móti straumnum, þá geri ég það. Ég er ekki verri móðir fyrir vikið.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Hjá mér er enginn dagur dæmigerður. Einn daginn er ég að kenna í háskólanum, þann næsta er ég að einangra erfðaefni á rannsóknarstofunni og þann þriðja er ég flogin á viðskiptafundi í Bandaríkjunum. Ég þarf að vera mjög sveigjanleg því hlutirnir og plönin breytast hratt og þá þarf ég að geta brugðist við. En svona að jafnaði þá fer ég á fætur 6:30 og græja mig fyrir vinnu, klæði og sinni dóttur minni ef hún er vöknuð en annars sér faðir hennar um það. Ég reyni að komast út um 7:15 til að ná að vera á undan umferðinni og vera komin til vinnu fyrir kl. 8:00. Ég er klárlega morgunmanneskja og ég elska að vera mætt fyrst í vinnuna, fá mér gott kaffi og ná að vinna í þögninni áður en aðrir mæta. Síðan sinni ég þeim verkefnum sem liggja fyrir hvort sem það er fyrir framan tölvuna, þeysast á milli funda eða rannsóknarvinna. Ég legg af stað heim kl 15:30 til að geta náð í dóttur mína á leikskólann. Þá tekur við samvera með henni, elda mat og sinna húsverkum. Þegar dóttir mín er farin í háttinn eru húsverkin kláruð, hellt uppá kaffi og komið sér fyrir í  sófanum með tölvuna. Ég miða við að vinna helst ekki lengur en til kl 11 og horfa svo kannski á einn þátt með manninum mínum áður en við förum að sofa. Síðan er bara repeat. Þetta er dagskrá sem að hentar mér vel og mér finnst ekki erfitt að vinna á kvöldin því ég elska það sem ég geri. Ég gæti þess þó að vinna ekki öll kvöld því þá brennur maður út. Fríkvöldunum eyði ég með manninum mínum og/eða vinum. Ég fer líka stundum út að hlaupa, spila á píanóið eða les góða bók til að ná mér niður eftir daginn og fylla á orkuna.

Hugar þú vel að heilsunni, stundar þú einhverja hreyfingu?

Ég tel mig hugsa vel um heilsuna en það eru margir þættir sem stuðla að góðri heilsu fyrir utan hreyfingu. Í gegnum tíðina hef ég verið mikið í íþróttum og er meðal annars með svarta beltið í Taekwondo. Núna reyni ég að fara út að hlaupa eins oft og ég get, kannski 2-3 í viku. Þess á milli er ég með app í símanum sem heitir Fitstar og tengist við Fitbit úrið mitt. Í því eru 30 mín blandaðar æfingar sem ég set í gang og get gert heima áður en ég fer að sofa. Fyrir mér er svefn lykillinn að góðri heilsu. Það fann ég sérstaklega þegar dóttir mín var yngri en hún var mjög krefjandi ungabarn. Ég sef aldrei minna en sex tíma og stilli oft klukku til að segja mér að fara að sofa. Svo erum við hjónin mikið áhugafólk um mat og elskum að elda góðan mat. Góður matur úr ferskum hráefnum getur ekki annað en gert mann hamingjusaman, og hamingja hlýtur að vera mjög góð fyrir heilsuna.

Nú hefur þú sérstaka ástríðu að hvetja og efla ungt fólk til dáða, viltu gefa ungum framakonum gott ráð hvernig best er að sameina frama og fjölskyldulíf?

Árangur gerist ekki bara, það þarf að vinna fyrir honum. Maður þarf oft að vera tilbúinn að leggja gríðarlega mikið á sig til að ná að skara framúr og uppskera eftir því. Það er því ágætt að vita áður en lagt er af stað á framabrautina hvar mörkin manns liggja og hvert maður stefnir. Að sameina frama og fjölskyldulíf er erfitt. Það krefst mikils skipulags, góðrar tímastjórnunnar og samvinnu allra á heimilinu. Maður þarf að finna sitt tempó sem að virkar og fylgja því. Ef maður ætlar að troða sér í einhvern ómögulegan farveg og líða illa mun það koma niður á öllu, vinnunni og fjölskyldunni. Maður þarf að vera tilbúinn að forgangsraða og sleppa því sem að skiptir minna máli og hafa sjálfstraust til að standast pressuna. Ég myndi segja að góð tímastjórnun væri líklega það mikilvægasta. Einbeita sér að vinnunni þegar maður er að vinna og ekki eyða tímanum í rugl. Vera svo með fjölskyldunni eftir vinnu og vera þá með virka nærveru en ekki nefið í símanum. Þá getur maður sleppt því að vera með samviskubit gagnvart fjölskyldunni þegar maður er að vinna, eða samviskubit gagnvart vinnunni þegar maður er heima.  Stundum ætlar maður sér um of, þess vegna er líka mikilvægt að læra að þekkja sín mörk og hika ekki við að biðja um hjálp þegar þarf.

Hvað finnst þér skemmtilegast við móðurhlutverkið?

Þegar ég varð móðir fannst mér skemmtilegast að fá að kynnast ást uppá nýtt. Það getur verið svo ljúfsárt að elska. Upplifa ást sem virðist breiða úr sér líkt og alheimurinn eftir miklahvell en á sama tíma vera svo hrædd um að missa. Þetta er eiginlega alveg einstök tilfinning. Mér finnst líka skemmtilegt að fá að upplifa heiminn uppá nýtt í gegnum dóttur mína. Hlutir sem eru fyrir löngu orðnir sjálfsagðir fyrir mér eru hún að sjá í fyrsta skipti og ef maður leyfir sér að staldra aðeins við getur maður fengið að taka þátt í þeirri upplifun. Það hefur veitt mér nýja sýn á lífið og umhverfið. Þá elska ég að fylgjast með dóttur minni læra nýja hluti, mynda sér skoðanir og leyfa mér smátt og smátt að sjá hver hún er. Ég er viss um að hún verður sjálfstæð og ákveðin ung kona eftir nokkur ár sem fer sínar eigin leiðir. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með Söndru á samfélagsmiðlum, þá er hún með Instagramsíðuna sandriculous.

Auður Eva Ásberg

 

Góður og slitsterkur útivistarfatnaður fyrir börn!

Góður og slitsterkur útivistarfatnaður fyrir börn!

Hvað er yndislegra en útivist á sólbjörtum degi? Við íslendingar getum svo sannarlega fagnað því að eiga falleg fjöll og skemmtilegar gönguleiðir um allt land. Sama hvar á landinu maður er staðsettur þá er yfirleitt mjög stutt í næsta fjall eða ævintýralegar gönguleiðir. Ég og Eric Ásberg litli kúturinn minn skelltum okkur í góða sunnudagsgöngu við rætur Úlfarsfells í vikunni. Eric Ásberg er algjör orkubolti sem hefur hlaupið út um allt síðan að hann byrjaði að ganga og þrífst illa nema í þæginlegum fatnaði sem gerir honum kleift að hlaupa, klifra og hoppa út um allt. Þó svo að nátturan sé falleg og útsýnið enn betra þá byrjar oft kólna þegar ofar dregur. Köld norðanáttin getur oft leynt á sér þó að sólin skíni, það er því nauðsynlegt að klæða sig eftir veðri og vindum. Að þessu sinni klæddi ég Eric Ásberg í þunna langermapeysu með hettu frá ZO-ON sem ber nafnið “Katrín”, hún er tilvalin sem síðsumar- og haustpeysa eins innan undir úlpu eða kuldagalla í vetur. Auðvitað þurfti mamman að hafa sig alla við til að halda í við orkuboltann og þá er nú gott að eiga smá “gotterí” í vasanum til að múta drengum til að sitja kyrr í smá stund. Hér má sjá fallegar myndir frá sunnudagsgöngunni okkar, húfan hans Erics er einnig frá ZO-ON.

Útivistar fatnaðurinn frá ZO-ON er og hefur verið í þónokkurt skeið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Í hitti fyrra fékk miðstrákurinn minn vetrarúlpu frá ZO-ON í jólagjöf og notaði hann úlpuna með góðu móti tvo vetur en það var eins og úlpan hreinlega stækkaði með barninu enda er hægt að lengja ermarnar að innan, algjör snilld! Eins prófaði ég í sumar fyrir yngsta og miðstrákinn minn regn- og vindfatnað frá ZO-ON, svokalla skel eða þriðja lag sem heldur frá bleytu og vindi enda heitir jakkinn BLEYTA sem hefur staðið fyrir sínu í rigningunni á suðvesturhorninu í sumar.

ZO-ON vörurnar eru á góðu verði og mikið er lagt upp með gæði vörurnar. Nú þegar hausta tekur er svo bráðnauðsynlegt að eiga góða flíspeysu til að skella krökkunum í þegar það fer að kólna. Einnig verð ég að mæla með ullarnærfatnaðinum frá ZO-ON sem er svo góður undir kuldagallann í vetur hvort sem það er í leikskólann eða skólann en hann verður einmitt á tilboði á svokölluðum Krakkadögum í ZO-ON!

En dagana 17.-21. ágúst verða einmitt “Krakkadagar” í ZO-ON á Nýbýlavegi 6 og í Kringlunni. Þá verður hægt að gera góð kaup á vönduðum útivistar- og kuldafatnaði fyrir börn. Endilega kíkjið við í ZO-ON!

 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við ZO-ON.

Auður Eva Ásberg

Pin It on Pinterest