Súpudagar

Súpudagar

Það er alveg nóg að gera hjá fólki allan ársins hring. Við þurfum ekkert endilega að vera að flækja hlutina og elda eitthvað flókið og gourmet á hverjum einasta degi. Því er upplagt að elda súpur við og við. Ég fékk þessa hugmynd frá Dagnýju vinkonu minni í Danmörku en hún er alltaf með súpu í matinn einu sinni í viku sem hún kallar súpu-miðvikudaga. Sumum finnst kannski ekki súpur vera matur en, suss segi ég, þær eru bara víst matur ekki síst ef þær eru gerðar frá grunni. Súpur geta verið mjög matarmikilar og stútfullar af hollustu. Súpugerð þarf ekki að vera flókin og ein af mínum uppáhaldssúpum er einmitt mjög einföld og smakkast sjúklega vel.

Uppskrift

  • 1 stór púrrulaukur (ljósi hlutinn)
  • 25 g smjörlíki
  • 1,5 l vatn
  • 2-3 súputeningar (ég nota tvo kjúklinga- og einn grænmetis-)
  • 1 dós Philadelphia rjómaostur

Byrjið á að hreinsa púrrulaukinn vel. Skerið hann svo í þunnar sneiðar og steikið í potti þar til laukurinn er orðinn mjúkur og heimilið farið að ilma yndislega (án djóks lyktin er guðdómleg). Bætið þá vatninu og súputeningunum út í og látið suðuna koma upp og endið á að setja rjómaostinn út í og látið svo malla í ca 15 mín.

Berið fram með góðu nýbökuðu brauði og eggjum. Klikkar ekki!

Þessi uppskrift dugar í tvær máltíðir fyrir mína fjölskyldu (6 manns) en afganginum helli ég í rennilásapoka og frysti og nota seinna. Það er svo gott að eiga góða súpu í frystinum til þess að hita upp ef maður hefur lítinn tíma.

Bon apetit!

Karlotta Jónsdóttir

Mögnuð Hvalaskoðun á Húsavík

Mögnuð Hvalaskoðun á Húsavík

Eins og fyrr hefur komið fram bauð ég mínum heittelskaða eiginmanni í óvissuferð um norðurlandið nú á dögunum. Eitt af því skemmtilegasta sem við gerðum í þessari ferð var að fara í hvalaskoðun með North sailing eða Norðursiglingu á Húsavík. Við mættum þangað í blíðskaparverðri á laugardeginum og þar sem ég er alin upp í litlu sjávarþorpi til níu ára aldurs er ég ekki óvön því að það syndi af og til hvalir inn í fjörðinn. Því var þessi ferð svona meira hugsuð fyrir manninn minn til að sjá og njóta en sú varð síðan alls ekki raunin. Ég naut hennar engu  síður en hann en hér kemur ferðasagan okkar.

Við áttum bókaða ferð með Norðursiglingu eins og fyrr segir og lögðum af stað frá bryggju kl 13:30, ferðin tók í allt þrjá klukkutíma. Um borð var boðið uppá hlýja kraftgalla svo enginn þurfti að kvarta undan kulda en hitastigið út á sjó er alveg töluvert lægra en í landi. Við vorum ekki búin að sigla lengi þegar við rákumst á hóp höfrunga sem syntu í kringum bátinn hjá okkur líkt og þeir væru hoppandi glaðir því mikill asi var á þeim. Svo var ferðinni haldið áfram lengra út á haf því sést hafði til hnúfubaks.

Þegar nær dró, slökkti skipstjórinn á vélinni á bátnum og dauðaþögn ríkti um borð. Ég er alveg viss um að það mátti heyra saumnál detta svo mikil var þögnin. Hópur af fólki stóð sem styttur í bátnum og starði á hafið bíðandi eftir að hvalurinn kæmi upp til að anda. Svo allt í einu birtist þessi stóra tignarlega skepna og var svo nálægt að manni leið næstum eins og hægt væri að snerta hana.

auhvalMaður heyrði klárlega andrardrátt hans og svo synti hvalurinn undir bátinn. Svona gekk þetta nokkrum sinnum, hann kom upp dró andann og hvarf síðan ofan í hafdjúpið. Ef ég ætti að lýsa mómentinu betur þá leið mér næstum því eins og ég væri á magnþrunginni spennumynd í bíó svo mikil var eftirvæntingin eftir að hann kæmi upp aftur. Aftur var haldið af stað og nú sást til hrefnu lengra frá og það var sama sagan, skipstjórinn drap á vélinni, og eftirvæntingin var sú sama þegar hann lét sjá sig. Magnaðar skepnur alveg hreint, stórar tignarlegar og gaman að sjá með berum augum. Um borð voru nokkrir starfsmenn Norðursiglingar, auk skipstjórans, sem klifruðu upp í möstrin með kíki til að finna hvalina á miðunum í kring. Einn þessara starfsmanna var fararstjóri sem fór yfir öryggisatriðin í bátnum og fræddi farþegana um hvalategundirnar sem við gætum séð og umhverfi Húsavíkur sem var mjög áhugavert. Hann tók einnig skýrt fram að við værum ekki komin í dýragarð, hvalirnir kæmu ekki eftir pöntun en í flestum tilfellum sjást hvalir í þessum ferðum, enda hafa þeir unnið við hvalaskoðanir í fjölda mörg ár og vita hvar á að leita.

Mér fannst sjóferðin sem slík mjög skemmtileg, yndislegt veður, sólin skein og það var léttur andvari þó svo að komið sé fram í miðjan október. Hreina íslenska loftið fyllti lungun af súrefni. Útsýnið út á hafið og til nærliggjandi eyja var ofsalega fallegt. Við vorum svo sannarlega í okkar eigin heimi og oft leið mér eins og við værum bara tvö á þessum báti því maður gleymdi sér svo auðveldlega í þessum fallegu aðstæðum.

hvalurhusavik

Á heimleiðinni var boðið uppá heitt súkkulaði og kanilsnúð sem var svo sannarlega kærkomið eftir alla útiveruna. Ég mæli sannarlega með því að fara í hvalaskoðun með Norðursiglingu á Húsavík. Það tekur ekki nema klukkutíma að keyra til Húsavíkur frá Akureyri og hægt er að fá gistingu, á Húsavík eða við Mývatn, bæði á hótelum og bændagistingu fyrir þá sem vilja kannski staldra við og skoða meira. Svo er skemmtilegt hvalasafn á Húsavík sem við reyndar kíktum ekki á í þetta sinn. Stutt er að keyra á Mývatn frá Húsavík þannig að hægt er að slá tvær flugur í einu höggi og enda hvalaskoðunarferð á heimsókn í Jarðböðin á Mývatni eins og við gerðum. Það tekur ekki nema um 40 mínútur að keyra frá Húsavík yfir á Mývatn, 58 kílómetrar. Jarðböðunum svipar til Bláa lónsins en í þeim er heitt kísilvatn sem kemur úr jörðinni. Baðaðstaðan er til fyrirmyndar og útsýnið úr lóninu er yfir Mývatnið. Við vorum þarna snemma kvölds og horfðum á sólina setjast við vatnið og nutum þess síðan að horfa á stjörnubjartan himininn. Það er svo margt skemmtilegt hægt er að sjá og upplifa sem landið okkar hefur uppá að bjóða og ég hlakka til að upplifa meira af því í hlutverki ferðamanns. Ég vona svo sannarlega að ég geti miðlað sem flestu til ykkar.

Kaffi kú öðruvísi kaffihús í Eyjafjarðarsveit

Kaffi kú öðruvísi kaffihús í Eyjafjarðarsveit

Í Eyjarfjarðarsveit, ca 10 kílómetra frá Akureyri, er að finna skemmtilegt fjölskyldurekið kaffihús. Einar Örn bóndi á Garði rekur, ásamt fjölskyldu sinni, einkar vel skipulagt mjólkurbú og á efri hæð fjóssins er skemmtilegt kaffihús, Kaffi kú, með útsýni yfir búið. Á Kaffi kú er flott leikaðstaða fyrir börnin og stórkostleg upplifun fyrir þau að fylgjast með starfsemi mjólkurbúsins með góðri yfirsýn yfir það sem þar fer fram en ég get alveg sagt ykkur að upplifun okkar fullorðna fólkisins var ekki síður skemmtileg og lærdómsrík.

Á matseðlinum hjá þeim er ýmislegt girnilegt að finna, maðurinn minn fékk sér nautaborgara, beint frá býlinu sjálfu, og þess má geta að hamborgarabrauðið hjá þeim er sykurlaust. Ég fékk mér ristað súrdeigsbrauð með birkireyktum silungi sem veiddur var og reyktur á Ólafsfirði. Í eftirrétt deildum við unaðslegri sykurlausri hráfæðisköku með örugglega besta rjóma sem ég hef smakkað!

Fjósið er opið fyrir gesti og gangandi og hægt er að fara niður og klappa kúm og kálfum.

kaffikukako

Þau eru nú einstaklega fyrirhyggjusöm eigendur Kaffi kú og borgarstelpunni í hvítu Nike strigaskónum voru afhentar skóhlífar áður en haldið var af stað inn í fjósið. Ég hvet alla sem eiga leið norður að gera sér ferð á Kaffi kú. Þar er nú opið allt árið um kring, alla daga. Skemmtileg upplifun í Eyjafjarðardal en hér má finna meira um, www.kaffiku.is

kaffikubord

 

 

Yndislegar handprjónaðar peysur frá NóNa

Yndislegar handprjónaðar peysur frá NóNa

Yndislegar handprjónaðar peysur frá NóNa

NóNa er fallegt íslenskt hönnunarmerki sem er í eigu Sifjar Vilhjálmsdóttur en hún á heiðurinn af allri hönnun og handverki undir merki NóNa. Sif stundar fullt nám í Háskóla Íslands og bíður þar að auki eftir komu fyrsta erfingjans. Á milli verkefna og prófa grípur hún í prjónana til að anna pöntunum og til að eiga lager því peysurnar hennar og fylgihlutir hafa svo sannarlega átt velgegni að fagna.

Ég var búin að dást af peysum Sifjar í dágóðan tíma áður en ég, eða réttara sagt Eric litli 2ja ára snúllinn minn, eignaðist slíka og maður minn hvað við erum ánægð með peysuna! Peysurnar og fylgihlutirnir hjá Sif er allt handprjónað úr Merino ull sem er bæði mjúk og hlý og umfram allt þá stingur hún ekki sem mér finnst vera lykilatriði. Peysurnar koma í nokkrum stærðum og litum og hægt er að panta trefla og húfur í stíl.

Ég spurði Sif aðeins út í hvað varð til þess að hún fór að hanna og prjóna peysur og fylgihluti svona samhliða fullu námi og hvaðan nafnið NóNa er komið?

“Ég hef alltaf verið mikil prjónakona og langaði að hanna mína eigin línu svo ég ákvað að slá til. Það var hellings vinna í kringum þetta, spá í garni, stærðum, merkingum og fleira en alveg þess virði. Nafnið NóNa kemur frá ömmu minni, Jóneu, sem var alltaf kölluð Nóna og var mikil prjónakona svo mér fannst nafnið alveg tilvalið. Þar sem allt er handprjónað er þetta svolítið púsluspil með skólanum en ég gríp alltaf í prjónana þegar ég hef lausan tíma. Væri voða gott að vera með aukahendur stundum”, segir Sif kímin.

Núna í Október rennur 10% af söluandvirði af bleikum flíkum beint til Ljóssins. Allar upplýsingar er hægt að nálgast  á Facebook síðu NóNa.

Auður Eva

Bleika Línan kynnt í verslunum Lindex

Bleika Línan kynnt í verslunum Lindex

Þann 6. október hóf Lindex sölu á Bleiku línunni þar sem 10 % af sölu hennar rennur til styrktar baráttunni við brjóstakrabbamein.

Á síðustu árum hefur Lindex unnið með alþjóðlegum hönnuðum s.s. Missoni, Matthew Williamsson og Jean Paul Gaultier, en nú í ár er það hönnunarteymi Lindex sem er ábyrgt fyrir línunni sem hefur fengið heitið Bleika línan.

“Við báðum hönnuði okkar að hanna línuna í ár og útkoman var Bleika línan – nútímaleg, kvenleg og frumleg lína með vandlega völdum flíkum og fylgihlutum í spennandi litapallettu. Það er frábær tilfinning að leggja sitt af mörkum við baráttuna við brjóstakrabbamein með okkar eigin hönnuðum þetta árið”, segir Annika Hedin, yfirhönnuður Lindex. 

Nú þegar hafa safnast um 5 milljónir til baráttunnar en 10% af andvirði sölu línunnar gengur beint til baráttu Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini.

Bleika línan samanstendur af 19 mjúkum, prjónuðum og ofnum flíkum og fylgihlutum í litapallettu haustsins, allt frá djúpum burgundy lit í fölbleikan. Bleika armbandið mun einnig vera hluti af línunni en allur ágóði af sölu þess rennur til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Armbandið sem er framleitt úr leðri og málmi er framleitt í Svíþjóð með umhverfisvænum hætti.

Nú þegar hefur Lindex á Íslandi, í krafti viðskiptavina sinna, safnað um fimm milljónum króna til styrktar baráttunni og er þetta nú fimmta árið í röð sem félagið veitir baráttunni lið. Styrkurinn mun í heild sinni renna til Krabbameinsfélags Íslands en auk þess að selja Bleiku línuna mun Lindex á Íslandi einnig selja Bleiku slaufuna í öllum sínum verslunum.

Buxur: 9995,- Húfa: 2795,- Leðurhanskar: 8995,- Sokkar: 893,- Kjóll: 9995,- Bleika armbandið: 1915,- Hálsmen: 2995,- Armband: 1095;- Taska: 6995,-

 

Pin It on Pinterest