Súpudagar
Það er alveg nóg að gera hjá fólki allan ársins hring. Við þurfum ekkert endilega að vera að flækja hlutina og elda eitthvað flókið og gourmet á hverjum einasta degi. Því er upplagt að elda súpur við og við. Ég fékk þessa hugmynd frá Dagnýju vinkonu minni í Danmörku en hún er alltaf með súpu í matinn einu sinni í viku sem hún kallar súpu-miðvikudaga. Sumum finnst kannski ekki súpur vera matur en, suss segi ég, þær eru bara víst matur ekki síst ef þær eru gerðar frá grunni. Súpur geta verið mjög matarmikilar og stútfullar af hollustu. Súpugerð þarf ekki að vera flókin og ein af mínum uppáhaldssúpum er einmitt mjög einföld og smakkast sjúklega vel.
Uppskrift
- 1 stór púrrulaukur (ljósi hlutinn)
- 25 g smjörlíki
- 1,5 l vatn
- 2-3 súputeningar (ég nota tvo kjúklinga- og einn grænmetis-)
- 1 dós Philadelphia rjómaostur
Byrjið á að hreinsa púrrulaukinn vel. Skerið hann svo í þunnar sneiðar og steikið í potti þar til laukurinn er orðinn mjúkur og heimilið farið að ilma yndislega (án djóks lyktin er guðdómleg). Bætið þá vatninu og súputeningunum út í og látið suðuna koma upp og endið á að setja rjómaostinn út í og látið svo malla í ca 15 mín.
Berið fram með góðu nýbökuðu brauði og eggjum. Klikkar ekki!
Þessi uppskrift dugar í tvær máltíðir fyrir mína fjölskyldu (6 manns) en afganginum helli ég í rennilásapoka og frysti og nota seinna. Það er svo gott að eiga góða súpu í frystinum til þess að hita upp ef maður hefur lítinn tíma.
Bon apetit!
Karlotta Jónsdóttir