by Mamman | 16.08.2016 | Uppskriftir
Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir, alltaf kölluð Heiða, starfar sem einkaþjálfari í World Class Laugum. Heiða er einnig með síðuna www.heidiola.is en þar er að finna skemmtilegan fróðleik og uppskriftir sem tengjast góðu og heilsusamlegu líferni. Við hjá mömmunni fengum Heiðu til að gefa okkur uppskrift af girnilegum og hollum haframúffum sem hægt er að skipta út fyrir hafragrautinn á morgnana og smyrja með íslensku smjöri eða jafnvel sykurlausu Nutella á tyllidögum.
“Þessar múffur eru mjög einfaldar og hægt er að nota í þær það sem manni dettur í hug. Grunnurinn er haframjöl, egg og bananar og svo er hægt að leika sér með hitt. Hér er ein af mörgum útfærslum,” segir Heiða
- 4 bollar haframjöl (hægt að nota glúteinlausa hafra frá Urtekram, fæst m.a. í Hagkaup, Krónunni, Nettó og Samkaup)
- 2 bananar (betra að þeir séu þroskaðir)
- 4 egg
- 1 kúfuð msk grísk jógúrt (má nota hreina jógúrt eða súrmjólk)
- 1 dl kókosmjöl (má sleppa)
- 5 dropar kókos stevia dropar (má sleppa)
- 1 msk sukrin sykur eða stevia sykur (má sleppa)
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- smá klípa af maldon salti mulið yfir
Öllu er hrært saman í eina skál með sleif. Setjið svo ca tvær matskeiðar í hvert muffinsform og bakið í 20 mín við 200°C.
“Ég var í bústað með fjölsyldunni um helgina og bakaði eftir þessari uppskrift nema ég bætti í hana döðlum og sykurlausu súkkulaði til að gera múffurnar aðeins meira spari. Hér kemur það sem ég bætti við:
- 1 dl skornar döðlur, ég klippti þær með eldhússkærum sem er mun fljótlegra.
- 1 plata Balace dökkt súkkulði með stevia.
- 1 banani sem ég skar niður og notaði sem skraut ofan á.
Auður Eva Auðunsdóttir
by Mamman | 16.07.2016 | Uppskriftir
Lax er ekki bara hollur heldur er fátt sem mér finnst betra en ferskur bakaður lax.
Hægt er að kaupa ferskan lax bæði í fiskverslunum og mörgum matvöruverslunum. Sumir kunna að meta frosinn lax en ég vel að kaupa hann ferskan því mér finnst hann bara miklu betri þannig. Þessi uppskrift miðar við að laxinn sé ekki marineraður á nokkurn hátt heldur sé hann bakaður í ofni en það er ekkert því til fyrirstöðu að skella honum á grillið í staðinn.
Sinnepsgljáður lax
Uppskrift:
- 1 kíló ferskur lax
- 2 msk gróft sinnep
- 1 hvítlauksgeiri
- safi úr ½ sítrónu
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Hitið ofninn í 200 gráður.
Leggið laxinn á bökunarplötu ofan á smjörpappír.
Kryddið laxinn með salti og pipar og látið bakast í 10 mín.
Á meðan laxinn er að bakast blandið þá saman sinnepinu, hvítlauknum og sítrónusafanum í skál og þegar hann hefur bakast í 10 mín penslið þá gljáann á (notið allan gljáann) og bakið áfram í 5 mín eða þar til laxinn er eldaður í gegn.
Blómkálsgratín
Uppskrift:
- 1 blómkálshaus
- 4 msk smjör
- 4 msk hveiti
- 2 tsk Sinneps duft
- 2 bollar mjólk
- 1 ¼ bolli og 2 msk Cheddar ostur
- salt og pipar eftir smekk en einnig er hægt að nota cayenne pipar
Aðferð:
Skerið blómkáls blómin af stilknum og sjóðið í 6-7 mínútur. (Líka hægt að setja í örbylgjuofninn í u.þ.b 8 mín.) Kreistið svo mesta vatnið úr blómkálinu með því að leggja það á þurrt viskustykki og vinda vatnið úr. Setjið blómkálið svo í eldfast mót.
Notið miðlungsstóran pott og bræðið smörið og bætið svo við hveitinu og búið til smjörbollu. Bætið þá við sinnepsduftinu og piparnum. Þynnið svo varlega út með mjólkinni og passið að ekki myndist kekkir. Saltið eftir smekk og látið svo malla þar til sósan er orðin nægilega þykk að ykkar mati. Bætið þá við 1 ¼ bolla af cheddar osti og leyfið honum að bráðna. Smakkið og bætið við salti og pipar eftir þörfum.
Hellið svo sósunni yfir blómkálið og setjið 2 msk af rifnum cheddar yfir og bakið í ofni í u.þ.b. 30-35 mín á 200 gráðum.
Þegar gratínið er tilbúið (osturinn orðinn gullinn) þá er gratínið stappað með gaffli þar til það er farið að líkjast mús. Einnig má skella þessu í blandarann.
Berið svo fram með laxinum og fersku salati.
Bon apetit!
Karlotta Ósk Jónsdóttir
by Mamman | 15.07.2016 | Barnið
Nú eru flestir leikskólar komnir í sumarfrí og tími fjölskyldunnar framundan. Margir horfa á þessa tíma með kvíða, börnin krefjast vinnu og foreldrarnir þreyttir, flestir eftir langa vinnutörn. Sumarfrí eru líka kostnaðarsöm og fjárhagur heimilanna ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.
Sumarið er tími samveru og gleði. Kröfurnar í þjóðfélaginu er miklar, hvað á að gera í fríinu? Sumir fara til útlanda, í sólina og alla skemmtigarðana, aðrir ferðast innanlands og enn aðrir kjósa að vera heima í fríinu. Margir horfa í kringum sig og spyrja sig hvað sé hægt að gera sem kostar ekki mikla vinnu eða peninga.
Róló
Ferð á róluvöll sem börnin hafa ekki komið á áður getur verið hin besta skemmtun. Á Klambratúni er mjög skemmtilegur leikvöllur, þar er stórt tún og mikið pláss inni í miðri borg og hægt er að eiga góðan dagspart þar. Leikskólarnir eru flestir með opna garða í sumarlokuninni, það getur verið gaman að prófa nýja leikskólalóð.
Fjöruferð
Fjöruferðir eru spennandi, fjaran úti við Gróttu er mjög skemmtileg og þar er hægt að fara í fótabað í lítilli laug. Fjaran sem er lengst úti á Álftanesi er líka stór og skemmtileg. Við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er veðursælt og skemmtilegt svæði, mikið af trjám og vatn sem gaman er að vaða pínulítið í. Nauthólsvík og baðströndin í Garðabæ eru skemmtilegir staðir þar sem gaman er að moka í sandinum og sulla í sjónum.
Strætóferð
Strætóferðir eru eitt það skemmtilegasta sem börnin gera. Þeim finnst flestum spennandi að fara í strætó og skoða umhverfið út um strætógluggann með þeim sem standa þeim næst.
Gefa öndunum brauð
Sumir fara oft niður að tjörn til þess að gefa öndunum brauð. Í Kópavogi er lítil tjörn þar sem má finna endur og gæsir. Tjörn er við íþróttasvæði Breiðabiks, þar er hægt að leggja bílnum og taka smá göngu í kringum hana. Eins er gaman að stoppa við lækinn í Hafnarfirði og gefa öndunum þar.
Göngur
Hellisgerði í Hafnarfirði, Guðmundarlundur í Kópavogi, Rútstún í Kópavogi, Grasagarðurinn í Laugardal og Heiðmörk eru fallegir og skemmtilegir staðir til að fara í göngutúra.
Túristaleikur
Eldri börnum þykir oft gaman að ganga niður Laugaveginn og fara í smá túristaleik. Skoða bókabúðir og túristabúðir og gefa svo öndunum brauð.
Allt eru þetta staðir sem eru opnir og almenningur getur nýtt sér til dægrastyttingar. Gaman er að útbúa nesti smyrja brauð, skera niður ávexti og taka með sér drykki og eiga góða samverustund.
Hafið það gott saman í fríinu og skapið minningar.
Hanna María Ásgrímsdóttir
by Mamman | 15.07.2016 | Brúðkaup, Foreldrar
Ég vil hafa hlutina frekar einfalda í kringum mig, það sést kannski best á því að ég kann best við mig í gallabuxum, svörtum “plane” bol eða peysu og jakka, alltaf! Ég á frekar erfitt með að klæða heimilið mitt í gallabuxur og bol en myndi eflaust gera það ef ég gæti og því myndi ég lýsa heimilinu mínu sem frekar látlausu á smartan hátt þó. Ég elska samt sem áður að skreyta heimilið með einföldum og fallegum hlutum í minimalískum stíl.
Þegar ég var að pæla í skreytingum í salinn fyrir brúðkaupið mitt var því enginn vafi á því að ég vildi hafa fáar og einfaldar skreytingar. Ekkert of áberandi og litaþemu valdi ég út frá brúðarvendinum mínum. Stelpurnar í Blómabúðinni 18 Rauðar rósir sáu um blómaskreytingarnar fyrir mig þannig að þegar við hittumst og fórum yfir málin komu þær með frábærar hugmyndir að blómaskreytingum. Ég var með þrjú stór hringborð og mig langaði að hafa fallega hringlaga blómaskreytingu í miðjunni á hverju borði. Þær áttu ofsalega fallega hringlaga vasa sem þær skreyttu með sömu blómum og voru í brúðarvendinum mínum og einu hvítu kerti. Ég heyrði það fyrir mörgum árum síðan að þegar dekkuð væru borð fyrir brúðkaup og aðrar veislur þyrfti að hafa í huga að ef blómaskreytingar væru á miðju borði þá mættu þær alls ekki vera það háar að þær takmörkuðu yfirsýn yfir borðið því þá ætti fólk erfitt með að halda augnsambandi í samræðum sín á milli. Þessar skreytingar voru því fullkomnar og hentuðu að öllu leyti á hringborðin.
Brúðartertan sem var frá Sætum syndum stóð sér á borði þannig að hún fengi að njóta sín sem best. Hún var ótrúlega vel heppnuð, einföld, hvít, og skreytt með nokkrum bleikum sykurrósum. Til að ná sama lit á rósirnar og voru í blómaskreytingunum sendi ég henni Evu Maríu hjá Sætum syndum mynd af rósunum í vendinum og þannig náði hún nákvæmlega sama lit. Kakan var á þremur hæðum og var ekki bara fullkomin í útliti heldur líka einstaklega bragðgóð. Hægt er að nálgast upplýsingar um pantanir og verð á Facebooksíðu Sætra synda. Kökuborðið og þrjú há hringborð skreytti ég með fallegu handmáluðu keramiki frá Dagnýju Gylfadóttur keramikhönnuði en hún hannar vörur sínar undir merkinu DayNew. Hönnun DayNew og þessa fallegu vasa og kertastjaka er hægt að kaupa í Stíg á Skólavörðustíg, Litlu hönnunar búðinni Strandgötu Hafnarfirði, í Kastalanum Selfossi, Listfléttunni á Akureyri og Húsi handanna á Egilsstöðum. Þessar skreytingar voru svo fallegar, í mildum og rómatískum litum og áttu svo sannarlega sinn þátt í því að gera daginn fullkominn í alla staði. Ég mæli eindregið með að fá aðstoð hjá fagfólki sem lifir og hrærist í skreytingum og getur fullkomnað þær hugmyndir sem þú þegar hefur fyrir stóra daginn.
Auður Eva Auðunsdóttir
by Mamman | 28.06.2016 | Uppskriftir
Á sumrin langar mann oft í eitthvað létt og frískandi og þessi réttur er það einmitt. Það er ekki venjulegt pasta í þessum rétti heldur svokallað kúrbítspasta sem er bara eintómur kúrbítur sem búið er að skera í ræmur með spíralskera. Spíralskerar fást í flestum verslunum sem selja áhöld til matargerðar en það er hægt að nota rifjárn í staðinn fyrir þá.
Eins og sést á fyrirsögninni er þetta svo einfalt að það tekur enga stund að skella í þennan holla og bragðgóða rétt. Hægt er að hafa „pastað“ eitt og sér eða bæta við það grilluðum kjúklingi, skinku eða öðru kjöti eftir smekk hvers og eins.
Uppskrift: (Þessi uppskrift miðast við 6 manns)
- 1 dós Philadelphia rjómaostur með hvítlauk og jurtum
- 1 dl mjólk
- 4 spíralaðir Kúrbítar
- Salt og pipar eftir smekk
- 4 kjúklingabringur bakaðar í ofni (ég nota cajun krydd á kjúklinginn)
- Ferskur parmesan ostur
Aðferð:
- Byrjið á að skella kjúklingnum í ofninn og steikið hann þar til hann er tibúinn.
- Á meðan kjúklingurinn er eldaður er upplagt að spírala kúrbítinn.
- Setjið rjómaostinn og mjólkina í pott og hrærið vel saman og hitið þar til osturinn er orðinn að sósu. Passið upp á hitann, það er betra að hafa stillt á miðlungshita svo osturinn brenni ekki við.
- Kúrbíturinn léttsteiktur á pönnu í 2-3 mínútur og svo er sósunni hellt yfir.
Berið þetta fram með kjúklingnum (eða öðru kjöti), saltið og piprið eftir smekk og rífið góðan slatta af ferskum parmesan yfir. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og/eða fersku salati. Yndislega léttur og góður réttur fyrir sumarið.
Bon apetit!
Karlotta Ósk Jónsdóttir