„Að vera mamma skiptir mestu máli að mínu mati. Ekkert sem ég hef gert er merkilegra en að eignast þessi tvö börn og ekkert verður nokkurn tímann merkilegra. Ég er gríðarlega stolt af þeim, ég fæ ekkert alltaf mæðraverðlaunin en það er ótrúlegt hvað rætist vel úr þeim þrátt fyrir það,“ segir Halla en hún á tvö börn, Auði Ínu 12 ára og Tómas 14 ára.
En það tekur líka sinn toll að hasla sér völl í atvinnulífinu og þar hefur Halla ekki látið sitt eftir liggja. Hún hefur komið víða við og á fjölbreyttan starfsferil að baki. Hún lærði mannauðsstjórnun og lauk Rekstrarhagfræði prófi með áherslu á tungumál og alþjóðleg samskipti. Í nokkur ár starfaði hún sem mannauðsstjóri í Bandaríkjunum hjá M&M/Mars og Pepsi og svo síðar hér á landi hjá Stöð 2. Eftir það tók hún þátt í því að byggja upp Háskólann í Reykjavík, byggði upp Stjórnendaskóla og Símenntun HR (í dag Opni Háskólinn) og sinnti kennslu í stofnun og rekstri fyrirtækja, forystu og hegðun í fyrirtækjum.
Hún kom á laggirnar öflugu verkefni fyrir konur með viðskiptahugmyndir, Auður í krafti kvenna. Þar bjó hún til vettvang fyrir konur með viðskiptahugmyndir til að þróa þær áfram og koma upp sínu eigin fyrirtæki. Hún tók við sem fyrsta konan sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands árið 2006 og sagði upp eftir eitt ár í starfi þar. „Mér hugnuðust ekki þau gildi sem mér fannst ráða för á þeim tíma og ákvað að fylgja því innsæi sem ég hafði öðlast í Auði í krafti kvenna og stofnaði ásamt öðrum Auði Capital, fyrsta fjármálafyrirtæki stofnað af konum vorið 2007. Við lögðum upp með aðra nálgun og gildi eins og áhættumeðvitund og samfélagslega ábyrgð.“
Heilt þorp þurfi til að ala upp barn
Halla segir það hafa gengið misvel að sameina foreldrahlutverkið samhliða störfum sínum í gegnum árin. Lykillinn að góðum árangri sé að hafa gifst góðum manni en hann heitir Björn Skúlason og er stjórnunarsálfræðingur og heilsukokkur. „Við erum mjög samhent og höfum skipst á að vera frammí og aftur í á þessari vegferð að eiga tvö börn og hafa metnað fyrir störfum okkar. Annað lykilleyndarmál er að eiga góða mömmu, hún hefur verið svona aukamamma og t.d núna í framboðinu þá hefur hennar aðstoð verið ómetanleg, auk góðra vinkvenna og systra. Ég trúi á þetta gamla hugtak að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég hef búið með börnin mín í Bretlandi, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum og þegar maður er ekki með þorpið með sér þá er það miklu erfiðara. Hér heima getur maður verið með þorpið með sér og börnin njóta þess að vera alin upp af fleiri mæðrum,“ segir Halla.
„Að vera góð fyrirmynd barnanna minna finnst mér mikilvægasta hlutverk móður. Ég tel til dæmis að það skipti miklu máli að dóttir mín sjái að ég trúi á mig og að sonur minn sjái að á okkar heimili er jafn eðlilegt að ég hafi metnað eins og pabbi hans og að hann eldi matinn eins og ég, sem ég geri reyndar sjaldan. Ég held að það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar sé að sýna þeim að það þarf ekki að fórna eigin metnaði þótt maður verði foreldri. Það þarf engu að síður að forgangsraða rétt og þau verða að finna með skýrum hætti að þau skipta mestu máli. Vera fyrirmynd í því að vera með rétt gildismat í lífinu og rétta forgangsröðun.“
Vill fleiri konur í áhrifastöður
Halla seldi hlut sinn í Auði Capital árið 2013. Frá þeim tíma hefur hún verið fyrirlesari um allan heim og talað fyrir fyrir því að fleiri konur séu í áhrifastöðum. „Ég trúi að með því breytist gildismatið í viðskiptum, fjármálum og leiðtogastöðum á hvaða sviði sem er í samfélaginu. Ég hef verið að tala fyrir því að við leggjum upp með aðrar og sjálfbærari áherslur. Ég trúi ekki að fjármálakerfið eins og það er í dag gangi upp til lengri tíma litið og tel mikilvægt að stuðla að jafnari kynjahlutföllum til að ná fram umbreytingum. Ég hef verið að tala fyrir meiri samfélagslegri ábyrð, minni áhættusækni og meiri sjálfbærni þetta eru áherslurnar sem ég brenn fyrir.“
Halla segist hafa áhyggjur af því að ungir drengir á Íslandi flosni upp úr námi og að börn standi ekki jöfn. Það fái ekki allir tækifæri til að taka þátt í tómstundastarfi og þessir einstaklingar eigi það á hættu að lenda undir mjög snemma á lífsleiðinni sem geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í þannig umhverfi blómstri einelti. „Ég vil ekki búa í þannig samfélagi heldur skapa samfélag sem hefur það að leiðarljósi að allir hafi jöfn tækifæri,“ segir Halla.
En hvað er sterkur forseti í huga Höllu?
„Sterkur forseti er auðmjúkur og veit að embættið er stærra en persóna viðkomandi. Sterkur forseti þorir að viðurkenna að hann eða hún veit ekki allt kann ekki allt, getur ekki allt. Hann þorir að standa með sjálfum sér við stórar ákvarðanir og standa með þjóðinni þegar á reynir. Það skiptir miklu máli að forseti hafi framtíðarsýn, hjálpi þjóðinni að hrinda í framkvæmd sinni framtíðasýn og hafi vit á því að virkja visku og kraft hennar,“ segir Halla og bætir við að hún vilji opna Bessastaði og bjóða börnin velkomin. „Ég vil að börnin átti sig á því að þarna er mikil og merkileg lýðræðissaga, þarna eru t.d. merkilegar fornminjar. Mig myndi langa til að hafa tónleika og menningaratburði á túninu og fjölskyldudaga og sjá fólkið koma nær Bessastöðum, eða kannski öfugt. Ég myndi vilja sjá forseta taka þátt í samfélaginu og leggja góðum málefnum lið. Ég myndi vilja sjá forseta leiða umræðu um framtíðina og Bessastaði standa fyrir því að við töluðum um hluti sem varða okkur öll til lengra tíma litið. Ég var ein af þeim sem kom að þjóðfundi 2009, þar sem slembiúrtak þjóðarinnar kom saman og ræddi um framtíðina og grunngildin í samfélaginu. Ég myndi gjarnan vilja sjá Bessastaði standa fyrir árlegum þjóðfundum um stór mál sem varða okkur öll og hugsa til lengri tíma.“
Samverustundir mega ekki breytast
Nái Halla kjöri segist hún engu að síður vilja halda sínu fjölskyldulífi sem mest óbreyttu þótt annir verði miklar á köflum. Hún og maðurinn hennar leggi mikla áherslu á að borða saman einu sinni á dag. „Ég myndi vilja geta sótt börnin á fimleikaæfingar og farið á fótboltaæfingar eins ég hef gert áður. Auðvitað yrðu annir, þannig að maður gæti kannski ekki gert það alltaf, en ég hef aldrei getað haft það þannig að allir dagar séu eins. Mikilvægast er að finna jafnvægi í óreiðunni, að það séu þessar reglulegu stundir teknar til þess að tala saman og ég vona að það breytist aldrei. Við t.d tókum eina ákvörðun núna í framboðinu og hún var sú að við settumst niður með reglulegum hætti og þau segðu mér hvernig þeim liði yfir því að við værum á þessari vegferð, því auðvitað vissi ég að margt myndi ganga á. Í gamla daga þegar þau voru lítil fórum við í leikinn, hvað gerðist gott í dag og hvað var ekki eins gott í dag. Við reynum að gera það með reglulega millibili í þessu framboði og ég vona að við höldum áfram að tala þannig saman,“ segir Halla að lokum.
Með þessum orðum kveðjum við Höllu og óskum henni alls hins besta í sinni baráttu, hvort sem það er til kjörs í embætti forseta, til jafnréttis í samfélaginu eða fyrir konur í viðskiptalífinu.
Viðtal
Auður Eva Auðunsdóttir