Sykurlaus Chia Sulta

Sykurlaus Chia Sulta

Þú varst að koma heim með ilmandi nýbakað súrdeigsbrauð af því það er svo hollt og gott. Þig langar ekkert frekar en að rista það og smyrja með vænni slettu af jarðarberjasultu en nei… sultan er svo stútfull af sykri að þessi blessaða hollusta af sykur- og gerlausa brauðinu þínu núllast bara algjörlega út. Hvað gera bændur þá?? Jú, einmitt þeir búa til chia sultu. Já, ég sagði það, sulta úr chia fræum.. eða kannski ekki beint, hún inniheldur að sjálfsögðu ávexti að eign vali en chia fræin gefa henni þessa sultulegu áferð. Sætuna getur hver og einn lagað að sínum smekk og í boði er að nota hvaða sætuefni sem er en persónulega vel ég hunang eða sweet freedom sýróp.

Uppskrift:

  • 2 bollar frosnir ávextir að eigin vali
  • 2 msk vatn
  • 2 msk chia fræ
  • Hunang eftir smekk

Aðferð:

Setjið frosnu ávextina í pott og bætið við vatninu. Látið suðuna koma upp og eldið þar til allir ávextirnir eru orðnir mjúkir. Setjið svo í blandarann og blandið vel. Ef þið eruð ekki hrifin af kornum í sultunni ykkar þá er upplagt að skella chia fræunum með í blandarann á þessum tímapunkti en ef ykkur finnst ekkert athugavert að finna fyrir fræjunum þá er þeim hrært í síðast. Hellið blönduðum ávöxtunum í krukku og smakkið til með hunangi eða öðru sætuefni og munið að chia fræin bætast við á þessu stigi ef þau fóru ekki í blandarann.

Kælið í að minnsta kosti tvo tíma og ef þykktin er ekki að ykkar skapi á þeim tímapunkti þá má bæta við teskeið af chia fræum í viðbót.

Þessi sulta geymist í u.þ.b. tvær vikur í ísskáp í þéttlokuðum umbúðum.

Sultan hentar vel á brauð, út á hafragrautinn, í bakstur, og hvað annað sem ykkur dettur í hug að gera við hana.

Bon apetit!

Höfundur

Karlotta Ósk Jónsdóttir

Svefn á meðgöngu

Svefn á meðgöngu

Það er þekkt staðreynd að jafnvel þær sem eiga að jafnaði auðvelt með að sofa eiga erfiðara með svefn á meðgöngu. Það getur virst ómögulegt að koma sér vel fyrir, sérstaklega á þriðja hluta meðgöngunnar. Hér eru nokkrar ráðleggingar sem geta hjálpað til við að ná hinum langþráða nætursvefni.

Púðar

Þegar bumban stækkar getur verið erfitt að koma sér fyrir. Hvorki er hægt að liggja á maganum né bakinu svo það er bara í boði að liggja á hliðinni. Það getur verið mikið álag á mjóbak og mjaðmir að liggja þannig svo það að setja púða á milli fótanna getur gert gæfumuninn. Það stillir af líkamsstöðuna sem léttir á mjöðmunum og gerir svefninn mun þægilegri. Það er hægt að fá alls konar púða, langa púða, púða með C-lagi eða U-lagi og svo sérstaka púða sem styðja við magann. Svo er að sjálfsögðu alltaf hægt að prófa sig áfram með þá púða og kodda sem til eru á heimilinu. Ef þú þjáist af brjóstsviða má svo reyna að hækka undir höfðinu með púðum, jafnvel setja þá undir dýnuna svo hún halli.

Te

Alls konar jurtate virka slakandi og geta hjálpað til við slökun fyrir svefn. Kamillute er auðvitað þekkt fyrir róandi áhrif og mildur og sætur ilmurinn skemmir ekki fyrir. Blóðbergste og piparmintute eru róandi fyrir magann og geta dregið úr flökurleika sem sumar ófrískar konur þjást af á kvöldin ekki síður en á morgnana. Síðast en ekki síst má nefna rauðrunnate sem er virkilega gott og ferskt koffínlaust te sem er gott fyrir magann og er sérlega sniðugt fyrir svefninn.

Hugleiðsla (body scan)

Eitt af því sem getur hjálpað við svefn á meðgöngu er hugleiðsla sem hefur góð áhrif á hugann og dregur athyglina frá óþarfa vangaveltum fyrir svefninn. Ein tegund hugleiðslu sem getur hjálpað mjög mikið er svokallað “body scan” eða líkamsskanni þar sem lesinn er upp fyrir mann hver líkamspartur fyrir sig frá tám og upp í hvirfil svo slökun náist í öllum líkamanum. Hægt er að sækja svona hugleiðslur og fjölmargar aðrar á netinu ókeypis auk þess sem hægt er að ná í ókeypis hugleiðslusmáforrit fyrir snjallsíma. Það er ekki ólíklegt að þú sért sofnuð áður er lesturinn klárast.

Magnesíum

Á meðgöngu getur fótaóeirð truflað svefn mikið og þá getur magnesíum hjálpað. Magnesíumskortur getur valdið fótaóeirð og krömpum svo inntaka á því getur hjálpað til við að minnka einkennin. Til eru ýmsar tegundir af því, bæði magnesíumduft sem leysist upp í vatni og magnesíumtöflur og um að gera að finna það sem hentar þér best.

Ilmkjarnaolíur

Margar konur nota ilmkjarnaolíur á meðgöngu til að ná slökun, Ótal gerðir eru til en sú vinsælasta er líklega lavender sem er oft notuð í meðgöngujóga til slökunar og margar konur setja jafnvel nokkra dropa undir koddann sinn til að ná góðum nætursvefni. Það er að sjálfsögðu mjög mismunandi hvaða lyktir konur kjósa og þá sérstaklega á meðgöngu og því tilvalið að fara í næstu heilsubúð og spyrjast fyrir um úrvalið á róandi ilmkjarnaolíum.

Matur og drykkur

Hvað þú borðar og hvenær, getur skipt sköpum varðandi svefninn. Sterkur og kryddaður matur getur valdið óþægindum í maga og jafnvel brjóssviða svo það er líklega best að takmarka hann, allavega fyrir svefninn. Það sama á við um mjög feitan mat sem getur einnig valdið brjóstsviða og það að borða of stórar máltíðir seinnipart dags. Talið er að ef þú svitnar mikið á nóttunni, dreymir illa eða átt erfitt með svefn að öðru leyti geti ein ástæða þess verið lágur blóðsykur. Við þessu er gott ráð en það er að fá sér prótínríkan smábita fyrir svefninn, eins og til dæmis egg, hnetusmjör eða prótínríkan þeyting. Það að borða létta máltíð fyrir svefninn getur líka minnkað líkurnar á ógleði, sem aukast vegna hungurs.

Að drekka flóaða mjólk fyrir svefninn er margrómuð aðferð til að auðvelda svefn. Margir telja að amínósýran L- tryptophan (sem finnst í mjólk og öðrum matvælum) þyngi augnlokin með því að auka magn serotonins í heilanum. Aðrir segja að áhrif mjólkur á svefn séu algjörlega huglæg en það má alltaf prófa.

María Þórólfsdóttir

Ráð við ógleði á meðgöngu

Ráð við ógleði á meðgöngu

Morgun(eða kvöld- eða allan daginn-)ógleði getur verið leiðinlegur fylgifiskur þess kraftaverks sem meðgangan er. Talið er að 70 – 90 % kvenna þjáist af ógleði á meðgöngu. Ógleðin tengist auknu hormónamagni í líkamanum og jafnar sig yfirleitt eftir 14. viku meðgöngunnar þó það sé mjög mismunandi milli kvenna. En þar sem morgunógleði er svona algeng hjá verðandi mæðrum er ekki úr vegi að taka saman nokkra punkta sem eru taldir geta hjálpað til við að slá á mestu einkennin.

  1. Hvíldu þig

Það er mikilvægt að fá næga hvíld og stundum þarf hreinlega að leggja sig. Ekki gleyma því að þú ert með nýtt líf innan í þér og þú þarft að spara orkuna þína og ekki ofkeyra þig.

  1. Engifer

Engifer er mjög gott til að róa magann og er ein af þeim matartegundum sem iðulega er mælt með gegn morgunógleði. Hægt er að búa til te úr fersku engiferi, drekka kalt engiferöl, borða sykrað engifernammi, engifersultu, engiferkökur eða hvað sem þér dettur í hug.

  1. Þurrt saltað kex

Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi en það getur hjálpað að borða þurrt og saltað kex þegar erfitt er að koma nokkru öðru niður. Það eykur á ógleðina að vera með tóman maga og það er auðvelt að koma því niður. Auk þess sem salt bindur vökva í líkamanum. Með söltuðu kexi meinum við að sjálfsögðu líka saltstangir og þess háttar gúmmelaði.

  1. Drekktu nóg

Það er mjög mikilvægt að drekka nóg á meðgöngu þó það geti reynst sumum erfitt að koma vatninu niður. Það ýtir undir ógleði að drekka ekki nóg og því er tilvalið að reyna að finna leiðir til að koma í sig nægum vökva. Þó að vatn sé alltaf hollast þá má alveg reyna einhverja koffínlausa gosdrykki eða ávaxtasafa sem þú átt auðveldara með að koma niður. Svo er hægt að búa til íspinna úr hvaða drykk sem er, sem getur hjálpað mikið til, enda er oft auðveldara að koma köldum vökva niður.

  1. Hreyfðu þig

Það getur verið mjög erfitt að finna hvatann til að hreyfa sig þegar maður þjáist af morgunógleði en það hefur sýnt sig að hreyfing getur bætt líðan og slegið á ógleðina.

María Þórólfsdóttir

Himneskt spagettí með avocado og spínatsósu

Himneskt spagettí með avocado og spínatsósu

Hvað er auðveldara en að elda spagettí þegar mikið er að gera og lítill tími fyrir undirbúning á kvöldmatnum. Þessi réttur tekur án gríns jafnlangan tíma og það tekur fyrir spagettíið að sjóða og kemur virkilega skemmtilega á óvart þrátt fyrir einfaldleikann.

Ég nota lífrænt spagettí sem inniheldur kínóa sem er próteinrík súperfæða en að sjálfsögðu hentar hvaða spagettí sem er. Uppskriftin af sósunni dugar vel fyrir stóran fjölsylduskammt og það er hægt að frysta afganginn ef einhver verður og nota síðar.

Uppskriftin:

  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 avocado (vel þroskað)
  • 2 stórar lúkur ferskt spínat
  • ½ bolli Pecan hnetur
  • ¼ bolli ferskt basilikum
  • 1 tsk sítrónusafi
  • ¾ bolli pastavatn
  • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Kínóa spagettí

 

Aðferð:

  • Látið vatn í pott með smá ólífuolíu út í og bætið spagettíinu við þegar vatnið byrjar að sjóða. Sjóðið spagettíið eins lengi og umbúðirnar segja til um, ca 10 mín. Ég nota allan pakkann af spagettíinu enda er ég að elda fyrir sex manns.
  • Á meðan spagettíið sýður þá er avocadóinu, spínatinu, pecan hnetunum, basilíkuminu og sítrónusafanum blandað saman í blandara eða matvinnsluvél (ég nota blandara því ég á ekki matvinnsluvél).
  • Þegar spagettíið er tilbúið þá tekur maður ¾ bolla af pastavatninu og bætir því út í avocado blönduna og blandar þar til sósan er orðin vel rjómakennd. Smakkið til með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.
  • Sósunni er svo hellt yfir spagettíið og ef áhugi er fyrir hendi þá er meiriháttar að rífa yfir góðan slatta af ferskum parmesan.
  • Fyrir þá sem vilja bæta um betur og fá aðeins meira prótein í máltíðina þá er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við grillaðri kjúklingabringu en það lengir eldunartímann talsvert ef maður er óundirbúinn.
  • Ég er oft búin að grilla fimm til sex bringur fyrir vikuna sem ég á tilbúnar inni í ísskáp fyrir hina ýmsu rétti og í nesti og þá er minnsta mál að skella þeim í örbylgjuofninn eða í augnablik á pönnu til að hita upp og skella yfir spagettífjallið.

Bon apetit!

Höfundur:

Karlotta Ósk Jónsdóttir

Skiptir mestu máli að vera mamma

Skiptir mestu máli að vera mamma

Halla Tómasdóttir býður sig fram til embættis forseta í komandi forsetakosningum og er kosningabaráttan í fullum gangi. Halla gaf sér smá tíma til að ræða móðurhlutverkið, fjölskyldulífið, starfsframann og helstu áherslur sínar og hugmyndir í forsetaframboðinu.

„Að vera mamma skiptir mestu máli að mínu mati. Ekkert sem ég hef gert er merkilegra en að eignast þessi tvö börn og ekkert verður nokkurn tímann merkilegra. Ég er gríðarlega stolt af þeim, ég fæ ekkert alltaf mæðraverðlaunin en það er ótrúlegt hvað rætist vel úr þeim þrátt fyrir það,“ segir Halla en hún á tvö börn, Auði Ínu 12 ára og Tómas 14 ára.

En það tekur líka sinn toll að hasla sér völl í atvinnulífinu og þar hefur Halla ekki látið sitt eftir liggja. Hún hefur komið víða við og á fjölbreyttan starfsferil að baki. Hún lærði mannauðsstjórnun og lauk Rekstrarhagfræði prófi með áherslu á tungumál og alþjóðleg samskipti. Í nokkur ár starfaði hún sem mannauðsstjóri í Bandaríkjunum hjá M&M/Mars og Pepsi og svo síðar hér á landi hjá Stöð 2. Eftir það tók hún þátt í því að byggja upp Háskólann í Reykjavík, byggði upp Stjórnendaskóla og Símenntun HR (í dag Opni Háskólinn) og sinnti kennslu í stofnun og rekstri fyrirtækja, forystu og hegðun í fyrirtækjum.

Hún kom á laggirnar öflugu verkefni fyrir konur með viðskiptahugmyndir, Auður í krafti kvenna. Þar bjó hún til vettvang fyrir konur með viðskiptahugmyndir til að þróa þær áfram og koma upp sínu eigin fyrirtæki. Hún tók við sem fyrsta konan sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands árið 2006 og sagði upp eftir eitt ár í starfi þar. „Mér hugnuðust ekki þau gildi sem mér fannst ráða för á þeim tíma og ákvað að fylgja því innsæi sem ég hafði öðlast í Auði í krafti kvenna og stofnaði ásamt öðrum Auði Capital, fyrsta fjármálafyrirtæki stofnað af konum vorið 2007. Við lögðum upp með aðra nálgun og gildi eins og áhættumeðvitund og samfélagslega ábyrgð.“

Heilt þorp þurfi til að ala upp barn

Halla segir það hafa gengið misvel að sameina foreldrahlutverkið samhliða störfum sínum í gegnum árin. Lykillinn að góðum árangri sé að hafa gifst góðum manni en hann heitir Björn Skúlason og er stjórnunarsálfræðingur og heilsukokkur. „Við erum mjög samhent og höfum skipst á að vera frammí og aftur í á þessari vegferð að eiga tvö börn og hafa metnað fyrir störfum okkar. Annað lykilleyndarmál er að eiga góða mömmu, hún hefur verið svona aukamamma og t.d núna í framboðinu þá hefur hennar aðstoð verið ómetanleg, auk góðra vinkvenna og systra. Ég trúi á þetta gamla hugtak að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég hef búið með börnin mín í Bretlandi, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum og þegar maður er ekki með þorpið með sér þá er það miklu erfiðara. Hér heima getur maður verið með þorpið með sér og börnin njóta þess að vera alin upp af fleiri mæðrum,“ segir Halla.

„Að vera góð fyrirmynd barnanna minna finnst mér mikilvægasta hlutverk móður. Ég tel til dæmis að það skipti miklu máli að dóttir mín sjái að ég trúi á mig og að sonur minn sjái að á okkar heimili er jafn eðlilegt að ég hafi metnað eins og pabbi hans og að hann eldi matinn eins og ég, sem ég geri reyndar sjaldan. Ég held að það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar sé að sýna þeim að það þarf ekki að fórna eigin metnaði þótt maður verði foreldri. Það þarf engu að síður að forgangsraða rétt og þau verða að finna með skýrum hætti að þau skipta mestu máli. Vera fyrirmynd í því að vera með rétt gildismat í lífinu og rétta forgangsröðun.“

Vill fleiri konur í áhrifastöður

Halla seldi hlut sinn í Auði Capital árið 2013. Frá þeim tíma hefur hún verið fyrirlesari um allan heim og talað fyrir fyrir því að fleiri konur séu í áhrifastöðum. „Ég trúi að með því breytist gildismatið í viðskiptum, fjármálum og leiðtogastöðum á hvaða sviði sem er í samfélaginu. Ég hef verið að tala fyrir því að við leggjum upp með aðrar og sjálfbærari áherslur. Ég trúi ekki að fjármálakerfið eins og það er í dag gangi upp til lengri tíma litið og tel mikilvægt að stuðla að jafnari kynjahlutföllum til að ná fram umbreytingum. Ég hef verið að tala fyrir meiri samfélagslegri ábyrð, minni áhættusækni og meiri sjálfbærni þetta eru áherslurnar sem ég brenn fyrir.“

Halla segist hafa áhyggjur af því að ungir drengir á Íslandi flosni upp úr námi og að börn standi ekki jöfn. Það fái ekki allir tækifæri til að taka þátt í tómstundastarfi og þessir einstaklingar eigi það á hættu að lenda undir mjög snemma á lífsleiðinni sem geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í þannig umhverfi blómstri einelti. „Ég vil ekki búa í þannig samfélagi heldur skapa samfélag sem hefur það að leiðarljósi að allir hafi jöfn tækifæri,“ segir Halla.

En hvað er sterkur forseti í huga Höllu?

Sterkur forseti er auðmjúkur og veit að embættið er stærra en persóna viðkomandi. Sterkur forseti þorir að viðurkenna að hann eða hún veit ekki allt kann ekki allt, getur ekki allt. Hann þorir að standa með sjálfum sér við stórar ákvarðanir og standa með þjóðinni þegar á reynir. Það skiptir miklu máli að forseti hafi framtíðarsýn, hjálpi þjóðinni að hrinda í framkvæmd sinni framtíðasýn og hafi vit á því að virkja visku og kraft hennar,“ segir Halla og bætir við að hún vilji opna Bessastaði og bjóða börnin velkomin. „Ég vil að börnin átti sig á því að þarna er mikil og merkileg lýðræðissaga, þarna eru t.d. merkilegar fornminjar. Mig myndi langa til að hafa tónleika og menningaratburði á túninu og fjölskyldudaga og sjá fólkið koma nær Bessastöðum, eða kannski öfugt. Ég myndi vilja sjá forseta taka þátt í samfélaginu og leggja góðum málefnum lið. Ég myndi vilja sjá forseta leiða umræðu um framtíðina og Bessastaði standa fyrir því að við töluðum um hluti sem varða okkur öll til lengra tíma litið. Ég var ein af þeim sem kom að þjóðfundi 2009, þar sem slembiúrtak þjóðarinnar kom saman og ræddi um framtíðina og grunngildin í samfélaginu. Ég myndi gjarnan vilja sjá Bessastaði standa fyrir árlegum þjóðfundum um stór mál sem varða okkur öll og hugsa til lengri tíma.“

Samverustundir mega ekki breytast

Nái Halla kjöri segist hún engu að síður vilja halda sínu fjölskyldulífi sem mest óbreyttu þótt annir verði miklar á köflum. Hún og maðurinn hennar leggi mikla áherslu á að borða saman einu sinni á dag. „Ég myndi vilja geta sótt börnin á fimleikaæfingar og farið á fótboltaæfingar eins ég hef gert áður. Auðvitað yrðu annir, þannig að maður gæti kannski ekki gert það alltaf, en ég hef aldrei getað haft það þannig að allir dagar séu eins. Mikilvægast er að finna jafnvægi í óreiðunni, að það séu þessar reglulegu stundir teknar til þess að tala saman og ég vona að það breytist aldrei. Við t.d tókum eina ákvörðun núna í framboðinu og hún var sú að við settumst niður með reglulegum hætti og þau segðu mér hvernig þeim liði yfir því að við værum á þessari vegferð, því auðvitað vissi ég að margt myndi ganga á. Í gamla daga þegar þau voru lítil fórum við í leikinn, hvað gerðist gott í dag og hvað var ekki eins gott í dag. Við reynum að gera það með reglulega millibili í þessu framboði og ég vona að við höldum áfram að tala þannig saman,“ segir Halla að lokum.

Með þessum orðum kveðjum við Höllu og óskum henni alls hins besta í sinni baráttu, hvort sem það er til kjörs í embætti forseta, til jafnréttis í samfélaginu eða fyrir konur í viðskiptalífinu.

Viðtal

Auður Eva Auðunsdóttir

Pin It on Pinterest