Hvernig kenna skal börnum samkennd

Hvernig kenna skal börnum samkennd

Hvernig kenna skal börnum samkennd

Mannfólkið er í grunninn samúðarfullt og finnur fyrir hluttekningu, þ.e. það skynjar hvað aðrir ganga í gegnum. Samt sem áður eru börn þarna undantekning, enda ekkert skrýtið við það! Þau þurfa að læra það hjá foreldrunum.

Ef barnið þitt lemur systur sína er hægt að segja: „Það meiðir þegar þú slærð frá þér. Svona á að snerta á góðan hátt. Finnurðu hvernig þér líður vel?“ Þetta tekur tíma að ná í gegn, en er þess virði.

Hvað hægt er að gera til að kenna samkennd?

Nefndu tilfinninguna

Með því að nefna hlutina réttum nöfnum, s.s. hegðun barnsins ertu að kenna því að bera kennsl á tilfinningar sínar. Segðu: „Alex, þú ert svo góður,“ ef hann kyssir á „bágtið“ þitt. Hann lærir frá viðbrögðum þínum að gæska hans er vel metin og eftir góðri hegðun er tekið.

Það þarf einnig að kenna börnum neikvæðar tilfinningar þannig ekki hika við að benda rólega á þegar þau sýna ekki góðvild. Reyndu að segja eitthvað á borð við: „Bróðir þinn varð mjög leiður þegar þú tókst bílinn hans af honum. Hvað gætir þú gert til að láta honum líða betur?“

Fagnaðu góðri hegðun

Þegar barnið þitt hegðar sér vel og sýnir góðvild, segðu því hvað það gerði rétt. Reyndu að vera eins nákvæm/ur og hægt er: „Þú varst mjög góð/ur að deila bangsanum þínum með litlu systur þinni. Það gerði hana mjög glaða. Sérðu brosið hennar?“

Hvettu barnið til að tala um tilfinningar sínar – og þínar

Láttu barnið vita að þú hlustir á það þegar það talar um tilfinningar sínar. Horfðu í augu þess þegar það talar og umorðaðu það sem það segir. Ef barnið hrópar: „Húrra!“ til dæmis, skaltu segja: „Ó, þú ert glöð í dag!“ Þó það svari ekki eða viti ekki hvernig á að bregðast við mun það ekki eiga í erfiðleikum með að ræða um að því líður vel.

Þú skalt líka deila þínum tilfinningum með barninu: „Ég er leið því þú slóst mig. Við skulum finna aðra leið til að þú getir sagt mér frá því að þú viljir ekki vera í þessum skóm.“ Barnið lærir þá að athafnir þess hafa áhrif á aðra, sem er dálítið stór hlutur fyrir barn að átta sig á.

Bentu á hegðun annarra

Kenndu barninu þínu að taka eftir þegar aðrir sýna góðmennsku. Segðu t.a.m. „Manstu eftir konunni í búðinni sem hjálpaði okkur að taka upp matinn þegar ég missti pokann minn? Hún var mjög góð við okkur og hún lét mér líða betur þegar mér leið illa.“

Með því að benda barninu á slíkt, ýtir þú undir skilning barnsins á hvernig gjörðir annarra hafa áhrif á okkur tilfinningalega. Bækur eru líka góðir kennarar, ef einhver týnir hundinum sínum í sögunni getið þið rætt hvernig honum eða henni kunni að líða, og þú getur spurt barnið hvernig því myndi líða lenti það í svipuðum aðstæðum.

Svona samtöl munu hjálpa barninu að læra um annara manna tilfinningar og samsama sig með þeim.

Kenndu barninu kurteisi

Góðir siðir eru sígild leið til að sýna umhyggju gagnvart öðrum. Um leið og barnið getur tjáð sig á mæltu máli er sjálfsagt að kenna því „má ég“ og „takk fyrir“. Útskýrðu að þú viljir frekar hjálpa því þegar það er kurteist og þér finnist vont þegar barnið skipar þér fyrir. Og að sjálfsögðu setur þú fordæmið sem foreldri með því að þakka fyrir þig og sýna almenna kurteisi!

Þannig lærir barnið að slík hegðun er hluti mannlegra samskipta, bæði heima sem og annars staðar.

Ekki nota reiði sem stjórnunartæki

Þrátt fyrir að erfitt sé að hemja reiðina þegar barnið þitt gerir eitthvað mikið af sér er það mjög nauðsynlegt. Þú verður að kenna með fordæmi og leiðbeiningum, það er mun öflugra tæki. Ef þú segir við barnið: „Ég er mjög reið/ur út í þig“ getur barnið bakkað og lokað á þig. Þess í stað skaltu sýna barninu samkennd. Róaðu þig niður og segðu ákvðið: „Ég veit þú varst reið, en þú ættir ekki að slá bróður þinn. Það meiddi hann og ég er leið. Vinsamlega biddu hann afsökunar.“

Gefðu barninu lítil verkefni

Rannsóknir sýna að börn sem læra að taka ábyrgð læra einnig að bera umhyggju fyrir öðrum og ósérplægni. Litlar manneskjur elska að leysa af hendi lítil verkefni, s.s. að gefa gæludýrinu að borða. Svo elska þau líka að fá hrósið! „Sjáðu hvað Krummi er glaður að fá að borða! Hann dillar skottinu! Þú ert svo góð/ur við hann. Hann er mjög glaður að þú sért að gefa honum að borða.“

Vertu góð fyrirmynd

Að sýna góðvild, kærleika og umburðarlyndi er besta leiðin til að kenna barni samkennd. Taktu barnið með þegar þú ert að færa veikum vini eða ættingja mat eða einhver í kringum þig eignast barn. Leyfðu barninu að hjálpa þér að pakka niður dóti sem þú ætlar að gefa í nytjamarkað. Þú getur útskýrt í leiðinni að stundum sé fólk veikt eða hafi ekki nóg af mat eða fötum þannig þú leggir þitt af mörkum til að hjálpa náunganum.

Heimild: BabyCenter Australia

Tveggja ára börn sem eru hrædd við mat

Tveggja ára börn sem eru hrædd við mat

Tveggja ára börn sem eru hrædd við mat

Það er kannski ekki þér að kenna að barnið þitt er matvant! Í þessari grein muntu læra um „nýjafælni“ sem skilgreinist í íslenskri orðabók sem: „Ótti við það sem nýtt er og óþekkt.“

Tveggja ára börn eiga til að vera skelfilega matvönd, en hvað er hægt að gera í því?

Foreldrar geta hætt að vera sakbitnir, því það er til lausn við þessu.

Ég man þegar ég gaf litla mínum aspas í fyrsta sinn. Hann sat í matarstólnum sínum og horfði á hann fullur grunsemda. Svo bara sló hann matinn aftur og aftur. Kannski hélt hann að aspasinn væri lifandi og væri ógnandi? Hann var allavega greinilega að reyna að sigra hann. Trúðu mér, hann ætlaði ekki að taka bita af þessu skrýtna, græna sem var að troðast inn á hans yfirráðasvæði. Hvers vegna?

Nýjafælni gagnvart mat.

Bíddu, ekki hætta að lesa! Ég skal segja þér hvað það þýðir…

Nýjafælni (e. neophobia) þýðir einfaldlega = Neo: „Nýtt.“ Phobia: „Fælni.“

Þannig barnið er hrætt við nýjan mat eða mat sem það þekkir ekki eða hefur gleymt að það hafi smakkað það áður. Flest börn sýna þetta einhverntíma, en tveggja ára börn eru sérlega erfið hvað þetta varðar.

Það er í kringum tveggja ára aldurinn sem þetta verður oft áberandi. Kannski borðaði barnið ferskjur í fyrra en í ár? Ekki séns! Mörg börn ganga í gegnum nýjafælni varðandi mat. Smábarnið þitt gæti sýnt eitt eða fleiri af eftirfarandi:

  • Hrætt við nýjan mat
  • Fær bræðiskast eða grætur þegar nýr matur er nálægt
  • Neitar að fá mat á diskinn sinn
  • Neitar að bragða nýjan mat
  • Vill ekki snerta matinn

Þegar barn sem haldið er fælninni lagast ekki verður þetta stundum að stærra vandamáli. Góðu fréttirnar hvað þetta varðar er að þetta er bara eitthvað sem gerist. Það er fullt af börnum sem er eins, bara eins og aðskilnaðarkvíði. Það er ekkert óeðslilegt þetta.

Svo gæti þetta bara verið ágætt líka. Við viljum hvort sem er ekki að börn smakki hvað sem er, s.s. steina, lauf eða sveppi sem vaxa í garðinum. Við viljum að þau borði við matarborðið það sem við gefum þeim.

Annað varðandi þessa fælni er að það getur vel hugsast að annar eða báðir foreldrar hafi haft sömu fælni. Spurðu bara foreldra þína eða makans. Þetta erfist nefnilega og þú hefur hreinlega enga stjórn á því hvort barnið þitt muni hegða sér svona eður ei.

Þetta er í þeim um leið og þau fæðast.

Að vera matvandur og haldinn nýjafælni er ekki sami hluturinn, en þetta er tengt. Nýjafælni tengd mat er aðallega um það – hræðsla við nýjan mat. Barnið mun hræðast nýjar fæðutegundir og gerir allt til að forðast hann og verður órólegt.

Matvendni er annað og meira sérhæft. Matvant barn mun vera mjög ákveðið hvað það vill borða og hvað ekki. Þau velja hvað þau vilja, en eru ekki hrædd við matinn, þau borða hann ekki af öðrum ástæðum.

Fælni gagnvart mat getur samt orðið til þess að barnið verði matvant. Það skiptir miklu hvernig foreldrarnir bregðast við, börnin geta orðið matvandari eða ekki í framhaldinu.

Það er ýmislegt sem þú þarft að sætta þig við að þú ræður ekki við. Annaðhvort hefur barnið nýjafælni gagnvart mat eða ekki. Þú getur samt gert ýmislegt til að hjálpa barninu.

„Andri er tveggja ára „matvandur“ strákur sem allt í einu er orðinn hræddur við nýjan mat. Í hvert skipti sem matur er framreiddur á annan hátt en hann er vanur eða nýr matur er settur á borðið verður hann alveg brjálaður. Hann grætur og hendir matnum. Hann er virkilega skelkaður. Hann snertir aldrei þann mat sem hann er hræddur við. Plús, þó matur sem hann hefur borðað áður sé ekki borinn fram í nokkrar vikur virðist hann gleyma og heldur að hann sé nýr þannig hann mun ekki borða hann. Í hvert skipti sem Andri er hræddur við nýjan mat og vill ekki borða hann koma foreldrar hans með eitthvað annað á borðið.

Hann fór að neita mat eins og grænmeti. Hann var ekki endilega hræddur við það, en hann skildi matinn alltaf eftir á disknum. Foreldrarnir héldu bara að honum líkaði ekki við grænmeti. Þau fóru að elda sérstaklega ofan í hann. Þau gefa honum mat hvenær sem hann vill, bara til að vera viss um að allavega borði hann eitthvað.

Núna borðar hann bara „krakkamat“ eins og spagettí og tómatsósu, kjúklinganagga og jógúrt með sykri. Foreldrarnir gefa honum ekki mat sem þau vita að hann hræðist. Þau vilja ekki henda mat. Í raun sér hann voða takmarkað af mat í dag. Hann sér bara mat sem honum líður vel í kringum.“

Það kannski byrjaði sem nýjafælni gagnvart mat, en er nú orðin matvendni. Foreldrar hans studdu hann með því að bera aldrei fram mat sem hann vildi ekki eða væri hræddur við.

Ef börn sjá ekki mat reglulega verður maturinn alltaf „nýr.“

Settu matinn á borðið sem þú vilt að barnið borði í framtíðinni.

Mundu aftur að þetta er ættgengt. Það þýðir að þú veist ekkert hvenær barnið mun hætta þessari fælni. Kannski gerist það aldrei. Þú getur samt haft stjórn á umhverfinu og stutt við að þetta verði ekki verra en það þarf að vera.

Ístað þess að ákveða fyrir barnið, eins og fyrir Andra í dæminu hér að ofan, eiga foreldrar ekki að gera ráð fyrir að barnið vilji ekki grænmeti. Þau eiga að halda áfram að bera fram sömu fjölskyldumáltíðirnar og alltaf. Bara passa upp á að hafa eitt með í máltíðinni sem Andri borðar. Hann fær alltaf hádegismat og snarl, og þau reyna að hafa ekki of miklar áhyggjur þó hann borði ekki mikið í kvöldmatnum.

„Núna heldur hann áfram að borða það sama og fjölskyldan. Hann hélt áfram að sjá sama matinn alltaf á borðinu, þannig hann fór að borða mat sem hann hafði áður verið hræddur við. Hann er enn hræddur við sumar nýjar fæðutegundir en foreldrar hans þrýsta ekki á hann að borða og hann hefur lært að halda ró sinni við matarborðið.“

Með þessari aðferð er kannski ekki hægt að útrýma nýjafælninni og barnið kann að halda áfram að vera matvant, en meiri líkur eru á að það vaxi upp úr því með tímanum.

Ef þetta er vandamál á þínu heimili eru hér punktar sem þú getur farið eftir:

  • Gott er að búa til matarplan sem endurtekur sig viku eftir viku þannig barnið sjái alltaf sama matinn og hann er ekki „nýr“
  • Hafðu alltaf mat með máltíðinni sem barnið borðar örugglega og leyfðu því að borða eins mikið og það vilt
  • Gefðu barninu litla skammta til að sóa ekki mat

Það getur verið krefjandi að eiga barn sem hegðar sér á þennan hátt, en það er um að gera að gefast ekki upp og halda alltaf áfram. Barnið reiðir sig á þig til að fá næringuna sem það þarf. Þú getur hjálpað því að nærast og þrífast.

Þú ert að standa þig vel!

Þýtt og endursagt af Kids Eat in Color

Hvers vegna grætur barnið mitt? 12 ástæður þess að börn gráta og hvernig á að hugga þau

Hvers vegna grætur barnið mitt? 12 ástæður þess að börn gráta og hvernig á að hugga þau

Hvers vegna grætur barnið mitt? 12 ástæður þess að börn gráta og hvernig á að hugga þau

Það er engin leið að koma í veg fyrir að börn gráti. Þannig tjá þau svengd, sársauka, hræðslu, þreytu og fleira. Hvernig á maður samt að vita nákvæmlega hvað barnið er að reyna að segja manni? Það getur verið snúið að túlka grát barnsins, sérstaklega í fyrstu.

Svengd

 Þetta er sennilega það fyrsta sem þú hugsar um þegar barnið þitt grætur. Að þekkja merki um svengd hjálpar þér að gefa barninu að borða áður en það fer að gráta. Sum merki geta komið þér í skilning um að barnið sé svangt áður en það fer að gráta eru órói, smellir í munni, hendur að munni eða barnið snýr höfðinu að hönd þinni ef þú strýkur vanga þess.

Uppþemba

Magavandi sem tengist uppþembu eða lofti geta valdið miklum gráti. Hin dularfulla magakveisa er skilgreind sem óstöðvandi og óhuggandi grátur í a.m.k. þrjár stundir á dag, allavega í þrjár vikur í röð.

Ef barnið þitt er óvært og grætur rétt eftir að hafa fengið að borða getur verið að því sé illt í maganum. Sumir foreldrar hafa leitað á náðir apóteksins og keypt lyf sem minnka loftmyndun, en þau er hægt að fá án lyfseðils. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á lækningamátt þeirra lyfja. Leitið alltaf ráða hjá lækni áður en slík lyf eru notuð.

Þrátt fyrir að barnið hafi ekki látið ófriðlega eftir máltíð, geta vindverkir valdið því sársauka þar til það líður hjá. Ef þig grunar að barnið hafi slíka verki er hægt að láta barnið á bakið, taka í fæturna og láta það „hjóla“ rólega.

„Einu sinni þegar dóttir mín var níu mánaða grét hún óstjórnlega í tvær klukkustundur. Hún hafði aldrei gert það áður og vildi ekki einu sinni drekka. Læknirinn sagði mér að taka hana á næstu heilsugæslustöð. Á meðan við biðum eftir lækninum á biðstofunni prumpaði hún hátt, og eftir það var allt í lagi. Þetta voru bara vindverkir.“

-Kata

„Þegar dóttir mín var lítil fékk hún oft loft í magann og grét og öskraði af sársauka. Ég gaf henni dropa, lagði hana á rúmið mitt á bakið og ýtti hnjánum hennar rólega upp að maganum og söng lítið lag. Eftir smá stund leysti hún smá vind og varð strax miklu betri.“

-Tveggja barna móðir

„Ef barnið þitt er í einhverskonar buxum, sérstaklega einhverjum sem eru með teygju í mittinu, prófaðu að leysa aðeins um magann, sjá hvort það hjálpar. Stundum er þessi litli þrýstingur valdur að óþægindum hjá þeim.“

-Selma

„Ég uppgötvaði nýlega hvers vegna barnið mitt hefur verið að gráta í  einn og hálfan sólarhring – hann var stíflaður! Hann loksins losaði kúk sem var sex sentimetra langur og mjög, mjög harður. Endaþarmsstílar gera kraftaverk.“

-Tori

Þarf að ropa

Það er ekki skylda að ropa eftir mat, en ef barnið grætur eftir að hafa fengið að borða þarf það kannski að ropa. Börn gleypa loft þegar þau sjúga brjóstið eða pela og það kann að valda óþægindum ef loftið kemst ekki út. Sum börn finna mikið fyrir því ef loft er fast en önnur virðast ekki hafa þörf fyrir það.

„Litli minn grætur oft því hann á erfitt með að ropa eftir mat, jafnvel þó ég nuddi og klappi á honum bakið. Ég áttaði mig á að það hjálpar gríðarlega að hafa hann á maganum. Hann ropaði oft hátt eftir að hafa verið nokkrar mínútur á maganum.“

-Mamma 

Skítug bleyja

Sum börn láta vita um leið og þarf að skipta á þeim. Önnur þola skítuga bleyju í lengri tíma.

Svefnvana

Maður skyldi ætla að börn gætu farið að sofa hvar sem er, hvenær sem er. En það er erfiðara en það hljómar. Í stað þess að blunda vært, eru sum börn óróleg og gráta – sérstaklega þegar þau eru ofurþreytt.

„Ég hef tekið eftir að ef dóttir mín fer að gráta þegar leikið er við hana, skipt á henni eða þegar hún borðar og hún hefur verið vakandi í einhvern tíma, þá er hún bara ofurþreytt! Ég bara held henni nálægt mér, tala rólega við hana og leyfi henni að gráta. Hún grætur ekki sárt þegar ég held á henni þannig. Hún gefur frá sér pirrandi, fyndin hljóð svo með augun lokuð. Eftir smástund er hún steinsofnuð.“

-Stephanie

„Stórt „usssssss“ virkar ótrúlega vel. Ég þurfti að búa til upptöku þar sem ég var orðinn ringlaður að gera það lengi fyrir dóttur mína. Upptakan er 48 mínútur og hún virkar í hvert einasta skipti!“

-Rob

Vill láta halda á sér

Börn þurfa stöðuga athygli og knús. Þau vilja sjá andlit foreldra sinna, heyra raddir þeirra og hlusta á hjartslátt þeirra. Þau þekkja jafnvel lyktina af þeim. Grátur getur verið merki um að þau þurfi á foreldrunum að halda. Það er ekki hægt að spilla barni með því að halda of mikið á því fyrstu mánuðina. Þú getur fengið þér burðartösku eða álíka til að hvíla handleggina.

„Sonur minn elskar að heyra röddina mína, þannig þegar hann grætur mikið held ég honum upp að bringunni og segi honum að mamma sé hér og muni passa hann. Innan fáeinna mínútna er hann steinsofnaður í fanginu mínu!“
-Jey

Of heitt eða of kalt

Ef barninu þínu verður kalt þegar þú skiptir um bleyju eða föt getur það grátið til að mótmæla. Nýfædd börn elska að vera reifuð og í hlýju umhverfi, en þó ekki of heitu. Þumalputtareglan er sú að þau þurfa að vera í einni flík fleiri en þú til að líða vel. Börn kvarta síður yfir að vera of heitt heldur en kalt og munu þá ekki gráta jafn sárt.

Óútskýrður sársauki

Það getur truflað börn heilmikið eitthvað sem okkur finnst ekkert mál, t.d. hár sem er fast á litlaputta eða tá og hindrar blóðflæði á einhvern hátt. Sum börn þola illa ullarpeysur eða eitthvað sem þau klæjar undan. Þau geta einnig verið mjög kröfuhörð varðandi stellingu sem þau eru í, t.d. þegar haldið er á þeim.

„Það hjálpar mér að hugsa: „Hvað væri að pirra mig og láta mér líða óþægilega ef ég væri hún?“ Möguleikarnir eru margir: Er fingur eða fótur fastur í einhverju? Þarf ég að sitja eða liggja öðruvísi? Er snuddan orðin ógeðsleg og þarf að þvo hana? Kannski er ljósið of skært eða sjónvarpið of hátt stillt. Það getur verið svo margt.“

-Marie

Tanntaka

Það getur verið virkilega sárt að fá tennur í fyrsta sinn! Ný tönn finnur sér leið í gegnum gómana og sum börn þjást meira en önnur. Flest eru þó líklegt til að gráta mikið á einhverjum tímapunkti. Ef þú sérð að barnið þitt finnur til sársauka prófaðu að nudda gómana með fingrinum. Það er svolítið skrýtið að finna það, en fyrsta tönnin getur komið á aldrinum 4-7 mánaða, stundum fyrr.

Minna áreiti

Börn læra af áreitinu í kringum þau, en stundum eiga þau erfitt með að innbyrða allt þetta nýja – ljósin, hávaðinn, að allskonar fólk sé að halda á þeim. Grátur getur verið leið barnsins til að segja: „Ég er búin/n að fá nóg!“

Sum börn elska að vera reifuð. Það gefur þeim öryggiskennd þegar heimurinn verður þeim ofviða. Ef barnið þitt er of gamalt fyrir að vera reifað eða einfaldlega líkar það ekki, er hægt að fara með barnið á rólegan stað og láta það ná sér þar.

„Reifun er mikil hjálp, sérstaklega fyrir ungabörn. Að vera reifuð þétt minnir dóttur mína sennilega á veruna í leginu og hún elskar það.“

-Tiffany

Vill meiri örvun

„Krefjandi“ barn kann að vera opið og spennt að sjá heiminn. Oft er eina leiðin til að kæfa niður grát og pirring að fara með það á flakk. Þetta getur auðvitað verið þreytandi fyrir foreldrana!

Hægt er að hafa barnið í burðarpoka framan á sér og barnið snýr fram til það missi ekki af neinu. Ákveðið daginn. Hittið börn og aðra foreldra. Farið á barnvæna staði.

„Sonur minn, sjö mánaða, vill alltaf hafa allt á fullu í kringum sig. Ef ég set hann á gólfið meðan ég er í tölvunni verður hann pirraður. Hann er glaðastur þegar ég set hann í kerruna á meðan ég geri heimilisstörfin. Hann er líka ótrúlega rólegur og góður í búðum og á mannmörgum stöðum því hann er bara svo forvitinn um heiminn.“

-Joe

Vanlíðan

Ef þú hefur mætt öllum þörfum barnsins þíns og huggað það og það grætur enn gæti það hreinlega verið að veikjast. Athugaðu hitann og önnur einkenni. Barnið gæti grátið öðruvísi þegar það er veikt. Ef þér finnst gráturinn hljóma einkennilega ættirðu að treysta innsæinu og fara á læknavaktina.

Hvað á að gera ef barnið grætur enn?

Fullur magi? Hrein bleyja? Enginn hiti?

Hvers vegna grætur þá barnið enn?

Börn hafa sínar eigin góðu ástæður. Þau hafa engin orð til að segja okkur hvað er að og meira að segja klárustu foreldrar geta ekki lesið hugsanir barnsins síns. Samt sem áður geta foreldrar alltaf huggað börnin sín, þó þau viti ekki hvað sé að hrjá þau.

Þýtt og endursagt af Babycenter.com

 

Eignaðist tvíbura eftir að hafa verið skilgreind ófrjó

Eignaðist tvíbura eftir að hafa verið skilgreind ófrjó

Eignaðist tvíbura eftir að hafa verið skilgreind ófrjó

„Við fórum í frjósemispróf, tókum allskonar lyf og vítamín og ég fékk hormónasprautur, allt til þess að geta eignast barn,“ segir Jennifer Bonicelli í viðtali við Babycenter.

„Niðurstöðurnar voru þær að læknirinn okkar sagði það 1-2% líkur á að eignast barn á eðlilegan hátt, og 35% líkur á að verða ólétt með tæknifrjóvgun,“ segir hún.

Jennifer heldur áfram:

Ofan á þetta allt var ég greind með minnkandi virkni eggjastokkanna, semsagt ekki of mikið af eggjum. Það virtist sem líkurnar væru algerlega á móti okkur..

Svo, einu og hálfu ári seinna voru þeir tveir: Tveir sterkir hjartslættir í sónarnum, sem staðfesti að við ættum von á tvíburum. Þið gætuð kannski haldið að við værum róleg. En ég var að deyja úr áhyggjum.

Milli læknisheimsóknanna, sem staðfestu allar að meðgangan væri að ganga eðlilega fyrir sig var ég að „gúgla“ hvern einasta möguleika á að allt færi til fjandans. Ég var búin að undirbúa mig fyrir allt það versta, fá verstu niðurstöður sem hægt væri. Allar óléttar mæður óttast að eitthvað fari úrskeiðis, en að vera ólétt og greind nær ófrjó jók á áhyggjur mínar – að minnsta kosti þar til tvíburarnir voru fæddir.

Sem betur fer var þetta mjög einföld fæðing. Að fæða strákana mína veitti mér ró og ég var fegin, allur þessi tími sem hafði farið í að hafa áhyggjur af því að geta aldrei eignast börn, áhyggjurnar af heilsu þeirra og lífi á meðgöngu, það varð ákveðinn viðsnúningur við fæðinguna. Um leið og ég heyrði heilbrigðan grát barnanna minna var ég viss um að ég gæti höndlað allt. Um það snýst foreldrahlutverkið. Og það er það sem ég hef verið að berjast fyrir. Ófrjósemin hefur haft mikil áhrif á mig og að fæða eftir það er bara 100% kraftaverk!

Það er raunsætt að segja að ófrjósemin gerði mig viðkvæmari fyrir hlutum sem gætu farið úrskeiðis á þessu ferðalagi. Ófrjósemin ákvað örlög okkar sem foreldra og gaf okkur skert tækifæri á að stækka fjölskylduna okkar. Nú þar sem við erum orðin fjögurra manna fjölskylda, og nær sjö ár síðan ég var greind ófrjó, á ég erfitt með að sætta mig við að börnin okkar eru þau fyrstu og síðustu.

Sem móðir tvíbura sem mun ekki eignast fleiri börn eru öll tímamót á nokkurn veginn sama tíma – fyrstu skrefin, fyrsti skóladagurinn og fyrsta tönninn sem fer – allt á sama tíma og einnig þau síðustu. Það er mér erfitt. Ég finn fyrir þörf að njóta hvers einasta augnabliks og ég set þrýsting á sjálfa mig og þar af leiðandi finn ég fyrir skömm og sektarkennd þegar ég er ekki „fullkomið foreldri.“ Sem ég er alls ekki alltaf.

Þetta eru einu börnin mín; ég mun aldrei gera betur næst. Eftir að hafa barist svo hetjulega finnst mér oft eins og ég eigi að vera gersamlega ástfangin af því að vera mamma, af móðurhlutverkinu. En fyrstu sex, átta vikurnar var ég alls ekki þannig. Ef ég á að vera hreinskilin, í eitt skipti áður en við fórum af spítalanum spurði ég hjúkrunarfræðinginn hvort ég mætti skila þessum börnum.

Hér var ég – ný móðir sem hafði barist við ófrjósemi og ég var ekki einu sinni viss um ég gæti valdið hlutverkinu. Mér fannst ég vanþakklát og ég finn fyrir skömm þegar ég hugsa um þetta.

Ég á erfitt með að vera hreinskilin varðandi þennan viðkvæma tíma. En ég skil það núna að ég er ekki ein eða skrýtin að líða svona. Ég átti erfitt. Og ég bað um hjálp við að aðlagast nýja hlutverkinu. Það sem ég hef lært á þessum tíma, þar sem ég sigraði ófrjósemina, er að ég bý yfir seiglu. Ég hef ótrúlegan kraft, ákveðni og þolgæði, það er ekkert sem ég get ekki sigrast á.

Ég mun alltaf berjast fyrir börnin mín, ég mun takast á við allt fyrir þau.

Að ég hafi sigrast á ófrjósemi mun alltaf verða hluti sögu minnar. Þó ég hafi komist yfir það mun ég aldrei gleyma því. Styrkinn sem ég fékk í gegnum baráttuna gerir mig að ótrúlega frábæru foreldri.

 

Jennifer Bonicelli býr í Denver, Coloradoríki í Bandaríkjunum með eiginmanni sínum og tvíburadrengjunum.

 

Að vera mamma jafngildir því að vera í 2,5 starfi

Að vera mamma jafngildir því að vera í 2,5 starfi

Að vera mamma jafngildir því að vera í 2,5 starfi

Við vitum öll að það eru engir frídagar þegar kemur að foreldrahlutverkinu – og nýleg rannsókn sýnir einmitt það, hversu duglegar mömmur eru. 2000 mæður voru rannsakaðar af Welchs sem áttu börn á aldrinum fimm – 12 ára og uppgötvuðu að meðalvinnuvika móður er 98 klukkustundir. Já, það er eins og þú sért að vinna tvær og hálfa fulla vinnu!

Samkvæmt Welch‘s fer meðalmamman á fætur klukkan 06:23 og hættir ekki fyrr en 20:31 (fyrir sumar okkar hljómar það bara eins og léttur dagur).

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á hversu krefjandi móðurhlutverkið er og þau endalausu verkefni sem hún þarf að leysa af hendi.

Samkvæmt rannsókninni telst sú móðir heppin sem fær klukkutíma og sjö mínútur fyrir sig sjálfa á hverjum degi. Fjórar af hverjum 10 mömmum sögðu að þeim finnist líf sitt vera eins og verkefnavinna sem aldrei tekur enda, allar vikur.

Þrátt fyrir kröfurnar sögðu þessar sömu mömmur að þær hafi ýmislegt til að léttas sér lífið. Þær töldu upp blautklúta, iPada, barnaefni í sjónvarpinu, kaffi, lúgusjoppur, Netflix og hjálp frá öfum og ömmum og barnfóstrum.

Sýnir þetta glögglega að mæður hafa mikið að gera og kröfurnar að fæða og klæða fjölskyldumeðlimi mánuðina á enda.

72% mæðra segist eiga í vandræðum með að gefa börnum sínum holla rétti og snarl. Það sýnir einnig að finna mat sem er góður fyrir fjölskylduna án þess að auka á vinnuálagið er það sem flestir foreldrar tengja við – þannig við þurfum að vera góðar við okkur og ekki berja okkur niður fyrir að fara í stundum í lúgusjoppuna.

Það kann að vera dálítið niðurdrepandi að hugsa til þess að meðalmóðir vinnur 14 tíma á dag – en fyrir margar mæður er foreldrahlutverkið þess virði.

Mæður sem lesa þetta eru ekkert hissa. Það sem er samt dýrmætt að vita er eitthvað sem samfélagið gæti hagnast á – mæður þurfa stuðning, hvort sem það er í skólanum, á vinnustaðnum, heimilinu eða samfélaginu öllu.

Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

Þegar systkini slást

„Hún fær alltaf að fara í bíó með vinum sínum! Af hverju fæ ég að fara svona sjaldan?“

„Þú elskar hann meira en mig!“

„Ég vildi að ég ætti engin systkini!“

Foreldrar sem eiga fleira en eitt barn hafa allir heyrt eitthvað svipað. Þrátt fyrir að systkini geti verið nánir vinir er ólíklegt að allt gangi fullkomlega friðsamlega fyrir sig öllum stundum.

Bræður og systur rífast og slást, það er bara eins og fjölskyldur eru. Ólíkir persónuleikar og aldursmunur spilar stóran þátt en systkini sjá líka hvort annað sem keppinaut sem keppast um hluta af takmörkuðum auðlindum fjölskyldunnar s.s. baðherberginu, símanum eða síðustu kökusneiðinni, sem og athygli foreldranna.

Það er eðlilegt að systkini eigi í ágreiningi en það getur gert foreldrana brjálaða. Lykillinn að færri árekstrum?

Að vita hvenær börnin geta leyst málin sjálf og hvenær þú átt að skipta þér af.

Ástæður ágreinings

Börn eru ekki alltaf raunsæ, sérstaklega þau yngri. Stundum getur eitthvert smáatriði snúist upp í risastórt mál og það virðist sem þakið ætli að fjúka af húsinu í kjölfarið.

Athugið að börn eru afskaplega oft að reyna að ná athygli þinni. Því uppteknari sem foreldrarnir eru, því meiri áhersla er hjá börnunum að ná þessari athygli því það þýðir að foreldrið hefur minni tíma fyrir hvert barn fyrir sig.

Þegar nýtt barn bætist í fjölskylduna verður erfitt fyrir yngsta barnið að missa sæti sitt sem miðpunktur athyglinnar. Stundum eru foreldrarnir uppteknir af barninu sem hefur sérstakar þarfir eða er veikt. Börn munu alltaf vera með læti eða vera óþekk til að ná athygli finnist þeim þau ekki fá hana.

Flest heimili hafa ekki ótakmarkaðar auðlindir

Það þýðir að systkini þurfa að deila einhverjum hlutum. Að þurfa að gefa eftir er stundum afskaplega erfitt, sérstaklega yngri börnum.

Einstakir persónuleikar

Elsta barnið kann að vera þrjóskt á meðan það yngsta er þögult og innhverft. Mismunandi skaplyndi getur valdið árekstrum. Aldur og kyn geta einnig leitt til rifrildis.

Réttlætismál

Börn eru eins og litlir lögfræðingar, alltaf að krefjast réttlætis og sanngirni og þau berjast fyrir rétti sínum. Yngra systkini kann að kvarta yfir því að eldra systkini má fara á tónleika á meðan það þarf að vera heima, á meðan eldra systkini kann að kvarta yfir að þurfa að passa yngra systkini í stað þess að fara út með vinunum. Tilfinningar vegna óréttlátrar meðferðar og afbrýðisemi meðal systkina getur leitt til ósættis.

Að finna fjölskyldujafnvægi

Öskur og rifrildi geta gert foreldra brjálaða, en forðist að lenda í hringiðu rifrildanna nema að barn sé í hættu að verða meitt. Reyndu að láta krakkana finna út úr hlutunum sjálfir. Að blanda þér í málin kennir ekki krökkunum að leysa málin og þá er auðvelt að benda á þig sem sökudólg, „þú stendur alltaf með honum/henni!“

Sum ágreiningsmál eru auðveldari en önnur fyrir börnin sjálf að leysa. Hér eru nokkur ráð til að enda rifrildi ef þú þarft að skipta þér af:

Aðskildu þau. Taktu börnin úr aðstæðum og láttu þau í sitthvort herbergið. Stundum þurfa þau bara fjarlægð frá hvort öðru.

Kenndu samningaviðræður og hliðranir

Sýndu börnunum hvernig leysa á ágreiningsmál til að báðir aðilar séu sáttir. Biddu þau um að hætta að öskra og fara að tala frekar. Gefðu hvoru barni fyrir sig tækifæri á að tjá sína hlið. Hlustaðu á báðar og passaðu að dæma ekki. Reyndu að orða vandamálið: „Það hljómar eins og þú sért reið út í Jóa fyrir að taka uppáhalds tölvuleikinn þinn.“

Biddu þau svo að koma upp með lausn sem gæti hentað öllum. Ef ekki, getur þú komið með uppástungu. Til dæmis, ef börnin eru að slást um nýjan tölvuleik, gætir þú sett tímatöflu sem gefur hvoru barni fyrir sig tíma til að spila leikinn.

Settu reglur

Vertu viss um að börnin séu að fylgja sömu reglum. Þær ættu að snúast um að enginn meiði hvorn annan, ekki sé uppnefnt eða eyðilagt eitthvað fyrir hinum. Láttu börnin búa til reglurnar með þér. Ef ekki er farið að reglum er refsað, t.d. að barnið fái ekki að horfa á sjónvarpið í eitt kvöld. Með því að börnin semji reglurnar saman gefur það þeim tilfinningu að þau hafi einhverja stjórn. Þegar börnin fara eftir reglunum skaltu hrósa þeim. Reglurnar kunna að vera breytilegar eftir aldri barnanna, en einnig afleiðingarnar.

Ekki velja þér hlið

Ef eitt af börnunum þínum er stöðugt að lenda í vandræðum, en hin ekki, passaðu þig að fara ekki í samanburð. T.d. „Af hverju getur þú ekki verið meira eins og systir þín?“

Það elur enn meira á ósætti milli systkinanna. Að gefa einu barni sérmeðferð getur eyðilagt sambandið milli þín og barnanna.

Ekki gera allt jafnt

Það er ekkert sem heitir fullkomið jafnvægi í fjölskyldu. Eldra barn mun óhjákvæmilega fá eitthvað umfram hið yngra þannig það er ómögulegt að gera öllum til hæfis. Þess í stað skaltu koma fram við hvert barn á sinn einstaka hátt og láta það finna fyrir mikilvægi sínu.

Gefðu börnunum réttindi yfir sínum eigin eigum. Að deila er mikilvægt, en börn ætti ekki að þvinga til að deila öllu. Börnin þín ættu öll að eiga eitthvað sérstakt sem er aðeins þeirra.

Haldið fjölskyldufundi

Einu sinni í viku er ágætt að kalla til fjölskyldufund til að ræða málin. Gefðu hverjum og einum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og allir ættu að finna lausn á málunum saman.

Gefðu hverju barni fyrir sig sérstaka athygli

Það getur verið erfitt að eiga gæðastund með hverju barni fyrir sig, sérstaklega ef þú átt stóra fjölskyldu. Ein af ástæðum systkinaágreinings er m.a. athyglin sem þú sýnir hinum systkinunum. Láttu börnin þín vita að þú elskir og virðir hvert og eitt og eigðu stund með hverju og einu.

Búðu til sérstaka daga þar sem þú ferð með syni þínum í bíó eða dótturinni í búðir, bara þið tvö. 10-15 mínútur af gæðastund með hverju og einu á hverjum degi leyfir barninu að finna til mikilvægi síns.

Þegar ágreiningur fer úr böndunum

Það er að sjálfsögðu eðlilegt fyrir systkini að rífast öðru hvoru. Þegar slagsmál fara hinsvegar úr böndunum og átökin verða líkamleg eða meiða verða þau að stoppa.

Ef um endurtekin slagsmál er að ræða, ef annaðhvort bítur eða „kvelur“ hitt (s.s. kitlar, stríðir eða gerir lítið úr hinu) er um ofbeldi að ræða og þú þarft að skipta þér af því.

Ef þú getur ekki stöðvað hegðunina verður þú að leita aðstoðar, t.d. hjá heilbrigðisstarfsmanni eða sálfræðingi.

Heimild: Daily Mail 

Pin It on Pinterest