Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára: Að skapa sem besta umgjörð um börn á tveimur heimilum

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir rekur fyrirtækið Tvö heimili sem er ráðgjafarþjónusta og sáttamiðlun fyrir foreldra og  börn sem búa á tveimur heimilum. Snýr ráðgjöfin að öllu því sem viðkemur fjölskyldum sem eru að skilja, hafa skilið eða vilja hafa samkomulagið sem best þegar kemur að því að ala upp börn á tveimur heimilum.

Frá því að Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir var lítil stelpa langaði hana að starfa sem félagsráðgjafi eða sálfræðingur: „Mér fannst það ótrúlega heillandi framtíðarsýn að vinna við að hjálpa börnum. Ég hef alltaf verið upptekin af rétti barna til að hafa áhrif á eigin aðstæður og líf, hafa rödd og hvaða leiðir við fullorðnu getum farið til að haga hlutum út frá sjónarhorni barna.”

Aðspurð um námsferilinn segir Ragnheiður: „Eftir að grunnskóla lauk fór ég í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þar námi af félagsfræðibraut. Fór svo í BA nám í félagsráðgjöf og í framhaldinu af því í meistaranám í félagsráðgjöf til starfsréttinda og lauk því námi árið 2013. Meðfram námi starfaði ég á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá barnavernd Reykjavíkur. Eftir útskrift hóf ég starf í búsetuúrræði fyrir unga menn með félags – og fíkniefnavanda. Vann að undirbúningi og opnun á frístundarheimili í Laugardal og starfaði svo sem félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu. Fékk starf sem sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016 og starfa þar enn í hlutastarfi meðfram störfum á stofunni minni Tvö heimili sem opnaði í febrúar 2020.”

Í starfi Ragnheiðar nýtir hún ýmiskonar hugmyndafræði og nýtir það sem við á s.s. jákvæða sálfræði, tengslaeflandi nálgun, áfallamiðaða nálgun og lausnamiðaða nálgun: „Ég er almennt lífsglöð og nálgast fólk af virðingu og auðmýkt og hef ánægju af starfinu mínu. Hugsa að það viðhorf smiti út frá sér til skjólstæðinga. Ég vona það allavega.”

Ragnheiður heldur áfram: „Ég legg mikið upp úr því að skapa notalegt andrúmsloft á stofunni minni og vil að þeim sem til mín leita líði eins vel og hægt er þegar það er að takast á við, oft á tíðum, sína mestu erfiðleika í lífinu. Undirbúningur fyrir viðtöl skiptir miklu máli, bæði hvað varðar aðstæðurnar sem viðtalið fer fram í en einnig varðandi mig sjálfa sem er verkfærið sjálft. Þess vegna huga ég vel að svefni, næringu og andlegri líðan til að vera vel í stakk búin að mæta fólki í erfiðri stöðu og mæta þörfum þeirra um samhyggð, hlustun og ráðgjöf.”

Hverjir leita helst til þín og á hvaða forsendum?

Til mín leita fyrst og fremst foreldrar sem búa ekki saman og þurfa aðstoð og ráðgjöf við að bæta foreldrasamstarf sitt. Ég veiti einnig sáttameðferð skv. 33. gr. barnalaga nr. 76/2003 og fara slík mál í ferli skv. reglum um sáttameðferð.

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Til mín leita foreldrar vegna ýmissa ástæða er varðar aðstæður þeirra og barna eftir skilnað/sambandsslit. Sem dæmi foreldrar og/eða stjúpforeldrar sem leita einstaklingsráðgjafar vegna samskipta við barnsforeldri, foreldrar sem koma saman til að bæta samskipti sín á milli og verklag, foreldrar sem eru að slíta sambandi sínu og vilja gera sitt besta til að hlífa barni sínu við breyttum aðstæðum. Þá koma foreldrar með börn sín í viðtal sem þau upplifa að líði ekki nægjanlega vel í aðstæðum sínum.

Íslenskar fjölskyldur: Hafa þær breyst á undanförnum áratugum? Hversu algengar eru fjölskyldur sem búa ekki saman/foreldrar hafa skilið?

Fjölskyldur hafa breyst að því leytinu til að það er samfélagslega viðurkenndara í dag að skilja eða slíta sambandi þegar börn eru í spilinu en þótti hér áður fyrr. Áður var lögð ríkari áhersla á að hjónabandið héldi og var það talið gæfuríkara fyrir börn. Því var lögð áhersla á forvarnarvinnu til að koma í veg fyrir að skilnað hjá foreldrum. Þegar farið var að framkvæma rannsóknir á þessum málefnum kom í ljós að börnum vegnaði betur eftir skilnað foreldra þegar samskipti voru góð heldur en börnum sem ólust upp í hjá foreldrum sem voru óhamingjusamir og/eða í stormasömu sambandi.

Þátttaka ferða hefur einnig aukist með auknu jafnrétti kynjana. Hér áður fyrr var það venjan við skilnað foreldra að börnin byggju áfram hjá mæðrum sínum en fóru í heimsóknir til föður síns eða dvöldu aðra hverja helgi. Rannsóknir sýndu fram á mikilvægi tengsla barns við báða foreldra sína og því hafa verið stigin skref í átt að jafnari stöðu kynjana hvað þetta varðar. Sem betur fer. Mikilvægt er fyrir börn að eiga ríkuleg tengsl við báða foreldra sína og að þeir báðir taki virkan þátt í hversdagslegri umönnun þeirra.

Talið að um 40% hjónabanda endi með skilnað en svo eru auðvitað fjöldi barna sem eiga foreldra sem aldrei voru í sambandi. Það er gífurlega mikilvægt að foreldrar fái viðeigandi ráðgjöf og þjónustu við skilnað eða þegar barn er að koma í heiminn og foreldrar eru ekki saman. Rannsóknir sýna að börnum sem alast upp við jákvæða foreldrasamvinnu vegnar nánast jafn vel í lífinu og börnum sem alast upp í hamingjusamri sambúð foreldra. Slík samvinna virðist hafa svo mikil áhrif á á framtíð barna að mögulega ættum við sem samfélag að taka málefni barna sem búa á tveimur heimilum fyrir sem lýðheilsumál.

Hvað er foreldrasamvinna? Hvernig er best að fá foreldra til að vinna saman? Hvaða þættir er það einna helst sem foreldrar þurfa aðstoð við?

Með foreldrasamvinnu er átt við samstarf foreldra er varðar uppeldi og umönnun barns á tveimur heimilum. Mikilvægt er að foreldrar ræði strax í upphafi hvernig þeir sjái samstarfið fyrir sér og hvert markmiðið með því sé. Marmiðið hlýtur þá að snúa að því að skapa sem bestu umgjörð um líf barns á tveimur heimilum til að lágmarka skaðlegar afleiðingar þess að eiga foreldra sem hafa farið í sundur. Verkaskipting, skipting ábyrgðar og samskiptaleiðir þarf að ræða og ákveða hvernig skal haga því í samstarfinu. Þá er einnig gott að tileinka sér jákvætt hugarfar gagnvart hinu foreldrinu og aðstæðum. Vera auðmjúkur, þakklátur og einlægur í breyttum aðstæðum.

Hvernig virkar sáttamiðlun?

Sáttamiðlun fer fram skv. 33.gr. a barnalaga nr. 76/2003 og þeim reglum sem fjalla um sáttamiðlun skv. fyrrgreindum lögum. Hugmyndafræði sáttamiðlunar er sú að aðilar verði að taka sjálfviljugir þátt. Með aðstoð óháðs og hlutlauss sáttamiðlara er markmiðið að aðilar komist sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins sem þeir meta viðunandi fyrir alla aðila, í gegnum skipulagt og mótað ferli.

Á Tveimur heimilum er unnið út frá aðferð sem kallast barnamiðuð sáttamiðlun (e. child focused og child inclusive mediation). Þá miðast sáttameðferðin út frá sjónarmiðum barnins sem ekki er á svæðinu og hvað kann að vera best fyrir það. Barninu er boðið að tjá afstöðu sína við sáttamiðlara sem í framhaldinu nýtur afstöðuna sem vegvísi í áframhaldandi sáttaferli.

Hversu mikið vægi hafa óskir barnsins í ferlinu, er barnið þátttakandi í öllu?

Út frá faglegu sjónarmiði sem og réttindum barns er mikilvægt að það sé hluti af ferli þegar verið er að taka ákvarðanir um líf þess. Í sumum tilvikum hefst ferli á að rætt er við barnið og líðan þess og upplifun af aðstæðum þess á tveimur heimilum könnuð. Viðtalið er svo notað í áframhaldandi ráðgjöf foreldranna sem snýr þá að því að bæta aðstæður barnsins með því t.d. að breyta umgengni, aðstæðum á heimilum, samskiptum foreldra. Stundum er unnið barnið og foreldri saman eftir aðstæðum, aldri og þroska barnsins.

Smellið á samfélagsmiðlahnappana að neðan til að fara inn á síður Tveggja heimila! 

 

 

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk rithöfundur skrifar skilaboð til barna um það mikilvægasta í lífinu

Katrín Ósk Jóhannsdóttir er þrítug, gift, þriggja barna móðir og uppalið borgarbarn sem segist vera í smábæjarþjálfun í Grindavík. Katrín segist einnig vera algjört meðalljón þegar kemur að húsfreyjustöfum og að ritstörfin eigi mun betur við hana.
Ég hitti hana í Elliðadal ásamt börnunum hennar þremur og smellti nokkrum myndum af þeim saman enda eiga, að hennar eigin sögn, börnin stóran þátt í skrifum hennar. Katrín ber það augljóslega með sér að vera glaðlind og hvatvís. En í spjalli okkar um daginn og veginn sagðist hún vera mjög hvatvís manneskja að eðlisfari en taldi hún það jafnframt vera einn af sínum bestu kostum og eflaust væri hún ekki þar sem hún er stödd í dag ef það væri ekki fyrir þessa skemmtulegu hvatvísi.

Katrín segist hafa skrifað mikið sem barn, bæði sögur og ljóð og að það hefði verið hennar fyrsti og stærsti draumur að verða rithöfundur. En það var samt ekki fyrr en nýverið að hún áttaði sig á því að hún lifir í rauninni þeim draumi.

“Ég hef alltaf vitað að ég vildi reka mitt eigið fyrirtæki og stofnaði ég þó nokkur sem barn ásamt vinkonum mínum sem létu alls konar hugmyndir eftir mér, má þar nefna glasaskreytingaþjónustu fyrir matarboð nágrannanna, video-leigu í tjaldi, en aðeins bróðir minn verslaði við okkur og á enn eftir að greiða reikningin og hundagöngu” segir Katrín og hlær. “Það gleður mig því mjög að eiga Óskar-Brunn útgáfu en það er vettvangur fyrir mínar bækur, vörur sem eru tengdar þeim og allt annað sem mér dettur í hug að skapa! Þetta haust var besti tíminn til þess að stökkva út í þessa laug en ég hafði nægan tíma eftir að hafa misst vinnuna vegna fröken kórónu” segir Katrín.

Skrifaði bók ætlaða börnum með skilaboðum hvað er mikilvægast í lífinu
“Mömmugull bókin er algjörlega “platínan” mín, þó að Karólína könguló sé auðvitað ofboðslega krúttleg, litrík og skemmtileg. Ég er svo stolt af Mömmugull bókinni og hún á svo sérstakan stað í hjarta mínu en persónan er teiknuð upp eftir lýsingu á dóttur minni og svo hef ég ætíð kallað börnin mín Mömmugull.” Katrín segist hafa skrifað bókina því hana langaði að koma þeim skilaboðum á framfæri til barna að það skiptir ekki máli þó að þau eigi ekki það nýjasta, stærsta, dýrasta og besta af öllu.

“Það sem skiptir mestu máli er að eiga góða fjölskyldu og góða vini. Það er lífsins dýrmætasti fjársjóður og gefur okkur mesta ríkidæmið.”

Við búum í hröðum heimi sem staldrar sjaldan við, það þýðir að það er stöðugt streymi af nýjum vörum sem allar eiga að vera betri en sú síðasta. Okkar samfélag hér á Íslandi hefur svo í gegnum tíðina verið uppfullt af samkeppni og fólk stöðugt í samanburði en það er svo mikill streituvaldur. Mér þykir alltaf svo leitt að heyra af atvikum þar sem börn hafa t.d. lent í stríðni fyrir það eitt að eiga ekki nýjasta Iphone símann eða klæðast ekki merkjavörum. Ég vona að gildi Mömmugulls muni hafa áhrif á hugarfar lesenda og festa sig í minni barnanna sem taka það með sér inn í framtíðina” segir Katrín.

“Bókin mun svo fá tækifæri til þess að gera það sama úti í Ameríku, en ensk útgáfa af Mömmugulli kemur út þar á þessu ári undir heitinu “Mommy’s treasure”. Það var stór sigur fyrir mig að fá þann samning og sannaði enn betur fyrir mér hversu dásamleg bókin er, þó ég segji sjálf frá” segir Katrín frá.

Næst á dagskrá hjá Katrínu er að kynna fyrir þjóðinni nýju bókina sína “Ef ég væri ofurhetja” sem er einlæg bók sem beinir sjónum skólabarna að þeim skólasystkinum sem eiga erfitt. Ekki vegna eineltis eða stríðni, heldur vegna skorts á sjálfsöryggi sem veldur því að þau ná ekki tengingu við önnur börn.

“Ég skrifaði þá sögu því þetta er svo algengt, en oft mjög ósýnilegt. Einelti fær iðulega stærra sviðsljós og það er mikilvægt að sú vinna sem unnin er gegn einelti haldi áfram, en önnur félagsleg vandamál mega ekki týnast alveg bak við þykku sviðstjöldin” segir Katrín. “Það má segja að ég fái innblástur frá börnunum mínum, en ekki endilega því sem þau segja og gera. Ég hugsa um hvernig heim, umhverfi, samfélagi og menningu ég sjálf vil að þau alist upp í og upplifi. Hvernig hugsunarhátt vil ég að þau hafi og fái frá öðrum” segir Katrín með sannfæringu.

“Ef ég væri ofurhetja beinir ljósi á félagslegt vandamál sem fáir átta sig á að sé til, sérstaklega börn. Einelti fær yfirleitt meira sviðsljós, enda stórt vandamál, en svona félagsleg forðun og einangrun virðist stundum gleymast og kannski ekki talið vera raunverulegt vandamál af því að það er ekki sýnileg stríðni og enginn að gera á hlut þessarra barna” segir Katrín alvarleg.

“Ég trúi á mikilvægi sögunnar, sem ég lofa að er líka skemmtileg og framkallar bros! 
Ég vona að lesendur taki henni opnum örmum og að með hverju barni sem les bókina, fæðist ofurhetja. Það læddist að vísu mjög spennandi leyniverkefni með í þessarri sendingu sem ég hef stór áform fyrir og er yfir mig spennt fyrir. En það er svo ótrúlega mikilvægt og áhrifamikið verkefni að það á skilið sína eigin umfjöllun, svo þið verðið bara að splæsa í annað samtal við mig! Segir Katrín að lokum og hlær.

Það er virkilega gaman að fylgjast með hvað þessi unga kona er skapandi & mikill frumkvöðull og bíðum við spennt eftir því sem framundan er hjá Katrínu Ósk.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um bækur Katrínar inn á vefsíðu hennar www.oskarbrunnur.is einnig er hægt að versla bækur hennar í verslunum Pennans.

Hinar ómögulegu kröfur sem lagðar eru á mæður

Hinar ómögulegu kröfur sem lagðar eru á mæður

Hinar ómögulegu kröfur sem lagðar eru á mæður

Konur og sérstaklega mæður eru undir miklu álagi að standa sig, hvar sem er, hvenær sem er. Alla daga krefst samfélagið þess að við lítum vel út og hegðun okkar er dæmd (hvort sem við viðurkennum það eður ei).

Dr. Caitlin Zietz skrifaði frábæran pistil um móðurhlutverkið, sem kannski margir hafa lesið, en fellur alls ekki úr gildi. Hún útskýrir hið ómögulega verkefni hvernig það væri að reyna að þóknast öllum hvernig ala eigi upp börnin og vera móðir.

Vertu ólétt. Eignastu börn. En ekki of snemma. Og ekki of seint. Einhversstaðar milli 27-35 ára er fínt. 25 er svo ungt að eignast börn. Yfir 35 er bara öldrunarmeðganga. Eignastu barnið á eðlilegan hátt. Það ætti að verða auðvelt. Allir verða óléttir einhverntíma.

Misstirðu barn? Ekki hafa áhyggjur, það gerist. Þessu var ekki ætlað að gerast. Þetta er eðlilegt. Þú eignast annað og gleymir þessu öllu. Ekki fara í uppnám. Ekki vera reið. Næst skaltu ekki láta neinn vita fyrr en 12 vikur eru liðnar. Njóttu næstu meðgöngu. Ekki vera kvíðin. Allt verður í lagi.

Betra er að vera í formi þegar þú ert ólétt. Ekki samt í of góðu formi, þú gætir meitt barnið. Borðaðu grænmeti. Borðaðu kjöt. Taktu vítamín. Ekki þessi, heldur þessi. Bættu á þig. Ekki samt of mikið, þú átt svo erfitt með að grennast eftir að þú ert búin að eiga. Ekki drekka kaffi. Drekktu meira vatn. Ekki stressa þig, það meiðir barnið. Ertu ekki stressuð? Fæðing er ógnvekjandi.

Veistu kynið? Ég trúi ekki að þú „verðir ekki að vita það“. Eruð þið búin að velja nöfn? Ekki velja nafn fyrr en þú hittir barnið. Ertu með fyrsta flokks vöggu, bílstól, rassakrem, bleyjupoka? Af hverju eyddirðu svona miklu? Minna er meira.

Fæddu á eðlilegan hátt. Pottþétt fáðu þér mænudeyfingu. Fórstu í keisara? Voru ekki aðrar leiðir? Gefðu barnið brjóst, það er best. Barnið þitt er of stórt. Barnið þitt er of lítið, þú þarft að gefa því þurrmjólk, það nærist ekki nóg. Barnið þitt grætur mikið. Notaðu snuddu. Ekki nota snuddu, það truflar brjóstagjöfina. Barnið þitt ætti að sofa meira. Þú ættir að sofa meira. Sofið saman. Bíddu, ekki gera það. Láttu barnið gráta þar til það sofnar. Ekki láta barnið gráta þar til það sofnar, það er hættulegt.

Ekki hlusta á innsæið. Þú ert of þreytt. Sofðu þegar barnið sefur. En náðu að gera þetta allt í dag. Það eru sex vikur síðan þú áttir. Þú ættir að „ná í líkamann þinn aftur.“ Farðu í ræktina. Ekki í þessa rækt, það er hættulegt. Elskaðu líkamann þinn. Slitnaðirðu?

Þú ættir að vera glöð. Af hverju ertu leið? Þú ert svo heppin að eiga barn. Af hverju ættirðu að vera kvíðin? Ekki öskra. Vertu róleg. Þú ert of róleg. Agaðu barnið þitt. Hlustaðu á barnið þitt.

Byrjaðu að gefa mat snemma. En bíddu þar til eftir sex mánaða. Maukaðu matinn. Það er betra fyrir þroskann og reynsluna. Barnið þitt gæti kafnað. Byrjaðu á banana. Banani er of sætur. Byrjaðu á einhverju sem er minna sætt. Ekki nota salt. Ekki nota krydd. Barnið þitt vill ekki borða því það er ekkert bragð af matnum.

Hafðu börnin heima. Þau eru lítil í svo stuttan tíma. Þú ættir að vera að vinna. Hvernig komist þið af þegar þú ert ekki að vinna? Pabbinn er heima? Það er nýtt.

Gefðu brjóst í tvö ár. Notaðu pumpu. Hvernig hefurðu tíma til að nota pumpu? Hefurðu ekkert að gera.

Þú virðist hafa þetta allt á hreinu! Þú lítur út fyrir að þurfa hjálp. Það er ekkert mál að vera mamma. Hlustaðu á innsæið.

Þetta er andlegt áreiti sem lagt er á mæður í nútímasamfélagi sem veit gersamlega „allt.“

Heimild: Mother.ly

 

 

Myndir af börnum á samfélagsmiðlum: Hvað skal forðast og hvað skal gera

Myndir af börnum á samfélagsmiðlum: Hvað skal forðast og hvað skal gera

Myndir af börnum á samfélagsmiðlum: Hvað skal forðast og hvað skal gera

Foreldrar í dag lifa í allt öðrum heimi en þeirra foreldrar gerðu og rafræn nálægð er nú æ vinsælli. Það er augljóst hvers vegna – fjölskyldur búa sitthvoru megin á hnettinum eða landinu og vilja vera í samskiptum og deila myndum og minningum með fjölskyldumeðlimum. Mömmur setja myndir af fyrstu hjólaferðinni, nýja barninu og unglingnum að útskrifast og um leið sjá allir vinir og fjölskylda myndirnar.

Það eru hinsvegar hættur í þessu öllu saman.

Að deila myndum, myndböndum og upplýsingum um börnin okkar hefur verið í gangi í um áratug. Það sér ekki fyrir endann á því og ef eitthvað, eru foreldrar orðnir sáttari við að deila myndum af börnunum sínum á samfélagsmiðlum.

Samkvæmt Security, varWall Street Journal fyrst til að nota orðið „sharenting“ (engin góð íslensk þýðing tiltæk!) árið 2012. Foreldrar eru nú orðnir svo vanir þessu að þeir hugsa sig ekki tvisvar um lengur.

Könnun var gerð af Security varðandi venjur foreldra á netinu og um 80% foreldra notuðu full og raunveruleg nöfn barna sinna. Hví ekki, myndir maður spyrja? Foreldrar telja að síðurnar þeirra séu aðeins skoðaðar af vinum og ættingjum, en staðreyndin var einnig sú að átta af hverjum 10 foreldrum voru með fólk á vinalistanum sínum sem það hafði aldrei hitt.

Friðhelgisstillingar

Það er mikilvægt að ræða friðhelgisstillingar (e. privacy settings) á samfélagsmiðlum því þær veita öryggistilfinningu þegar myndum af börnum er dreift á netinu. Þó er aldrei 100% öruggt að myndum af barninu þínu kunni að vera deilt með ókunnugum. Samt sem áður er mikilvægt að þú skoðir þessi mál reglulega, því oft er efni stillt á „public“ af sjálfu sér. Það er alltaf möguleiki á að einhver hafi vistað myndina sem þú deildir og getur svo deilt henni áfram. Góð þumalputtaregla er að hafa í huga að allt sem þú deilir á netinu getur gengið þér úr greipum og verið deilt opinberlega án þinnar vitundar eða stjórnar.

 

Athugaðu smáatriðin

Ef þú vilt deila myndum og upplýsingum af börnunum þínum á netinu, haltu smáatriðunum utan deilingarinnar. Samkvæmt NBCer einnig möguleiki á að einhver gæti stolið auðkenni barnsins þíns og þetta er hægt að gera með því að skoða hvenær barnið er fætt. Annað sem ber að hafa í huga er þegar barnið fer (aftur) í skólann. Foreldrar elska að deila þeim myndum af börnunum en oft fylgir með í hvaða skóla barnið gengur. Þetta geta verið upplýsingar sem þú vilt ekki að hver sem er hafi.

Þessar myndir eru skemmtilegar, en þurfa þær að vera á samfélagsmiðlum?

Þrennt sem þú vilt forðast að deila um barnið þitt á samfélagsmiðlum:

  • Fullt nafn barnsins
  • Fæðingardagur
  • Nafn skólans

 

Allt þetta getur sett barnið í hættu.

Íhugaðu sérstakan aðgang

Þegar foreldrar vilja deila einhverju um barnið á netinu er skynsamlegt að takmarka aðgang að efninu. Það eru stillingar, líkt og á Facebok, sem leyfa þér að velja með hverjum þú vilt deila efninu. Það gæti t.d. verið nánasta fjölskylda. Þetta getur þó tekið tíma og ekki nenna allir foreldrar þessu, eða muna eftir því í hvert skipti. Það gæti verið sniðugt að búa til sér aðgang fyrir barnið. Þú getur sett fullt af efni þar inn, sem barnið hefur gaman af að skoða þegar það verður eldra. Þannig getur þú verið viss um að enginn ókunnugur hafi aðgang að upplýsingum og myndum.

Biddu um leyfi

Að fá samþykki er mjög mikilvægt og foreldrar kenna börnum sínum það. Það þarf samt að minna foreldrana á að stunda það sjálfir! Þegar kemur að því að pósta um eldri börn og unglinga ættu foreldrar að hafa það fyrir reglu að spyrja þau hvort megi deila myndinni á samfélagsmiðla. Að spyrja barnið hvað þú mátt og hvað ekki lætur því finnast að þú virðir það og það hjálpar því að hafa eitthvað um það að segja.

Heimild: Moms.com

11 gildi sem allir foreldrar ættu að kenna börnum sínum: Myndband

11 gildi sem allir foreldrar ættu að kenna börnum sínum: Myndband

11 gildi sem allir foreldrar ættu að kenna börnum sínum: Myndband

Foreldrar eru ábyrgir fyrir að gefa börnum sínum góð ráð, og hefjast þarf handa snemma. Svo er ekki nóg að gefa ráð, foreldrar þurfa sjálfir að fara eftir þeim! Hvort sem það snýst um að koma fram við aðra af virðingu eða sýna sjálfsaga, þá eru foreldrar fordæmið sem barnið sér. 

Hér er alveg frábært myndband frá Practical Wisdom:

 

Frábær ráð til sjálfsræktar fyrir uppteknar mömmur!

Frábær ráð til sjálfsræktar fyrir uppteknar mömmur!

Frábær ráð til sjálfsræktar fyrir uppteknar mömmur!

Að setja sig sjálfa í fyrsta sæti þarfnast stundum ákvörðunar (sérstaklega fyrir þær mömmur sem hafa lítinn tíma) jafnvel þó það þýði að þú þurfir að stíga út fyrir þægindarammann. Þrátt fyrir að þú lifir uppteknu lífi getur þú samt verið heilbrigð, hugað að andlegri og líkamlegri heilsu, átt yndislegt líf og litið vel út, allt á meðan þú átt fjölskyldu og frama.

Hver er lykillinn?

Jú, að hanna líf sem er í jafnvægi, með ákvörðunum teknum sem sinna líkama, huga og sálu. Það er samt auðveldara að segja það en framkvæma…eða hvað?

Julie Burton, höfundur bókarinnar The Self-Care Solution: A Modern Mother’s Must-Have Guide to Health and Well-Being,  þekkir þessa baráttu allt of vel: „Flestar mömmur finna þennan þrýsting – að vinna eða vera heima og næstum allar mömmur, sama hver staða þeirra er, finna fyrir sektarkennd þegar þær taka tíma frá börnunum til að sinna sjálfum sér,“ segir hún, en hún á fjögur börn á aldrinum 12-22 ára. „Mömmur hafa kílómetralangan lista með öllu því sem þarf að gera og ósjálfrátt fara þær sjálfar alltaf í neðsta sæti.“

Julie átti sjálf í baráttu með þetta jafnvægi, ánægjuna og móðurhlutverkið þannig hún rannsakaði meira en 400 mömmur og spurði þær ráða varðandi jafnvægi og sjálfsást á meðan þær ólu upp börn. Velgengni þeirra sem og hraðahindranir rötuðu því í bókina.

Algengasti samnefnarinn var þó sá að ekki er hægt að neita sér um sjálfsrækt af einhverju tagi: „Um leið og þú verður mamma og skuldbindur þig til að hugsa um barnið skaltu innprenta hjá þér: Ég mun heiðra og virða sjálfa mig með því að hugsa um þarfir mínar reglulega. Þetta gerir mig ánægðari og færari að sjá um fjölskylduna.“

Julie heldur áfram: „Sem mömmur höfum við frábært tækifæri að vera fyrirmyndir fyrir börnin okkar með því að hugsa um okkur og vera góðar við okkur, og í staðinn, hvernig á að vera góður við aðra. Eins og sagt er, við getum ekki hellt úr tómum bolla.“

En hvernig á að byrja ef þú hefur lengi verið á botninum á listanum, svo að segja?

„Settu þig aftur á listann,“ segir Julie. „Byrjaðu á 10 mínútum á dag, bara fyrir þig. Vertu þolinmóð, haltu draumunum lifandi og komdu fram við sjálfa þig af sömu ástúð og samkennd og þú kemur fram við aðra.“

Einbeittu þér að einhverju eftirfarandi:

Hreyfðu þig

Hvort sem þú þarft að hreyfa þig oftar eða vilt hrista upp í rútínunni þinni, kjóstu eitthvað sem hvetur þig til að hreyfa þig áfram. Æfðu fyrir Reykjavíkurmaraþonið, prófaðu nýjan jógatíma, Tai Chi, Pilates. Julie ráðleggur líka skemmtun t.d. að fara á skauta eða settu tónlist á í stofunni svo þið getið öll dansað.

Nærðu þig

Góður matur gefur líkamanum orku, þannig ekki borða „drasl“ heldur veldu vandlega næringuna: „Það er eðlilegt að hugsa frekar um börnin en þig. Þú verður samt að nærast á heilbrigðan hátt, það er gott fyrir börnin að sjá þig hugsa vel um líkama þinn.“ Hugmyndir að heilsusamlegum reglum: Hafið kjötlausan dag einu sinni í viku, borðið lífrænan mat, eldið oftar frá grunni, drekktu vatn í stað goss, skipulagðu innkaupin.

Hafðu samband

Passaðu upp á að heimilislífið láti þig ekki detta úr sambandi við fjölskyldu og vini. Ef þú getur ekki hitt þau einu sinni í viku, reyndu að skipuleggja einhvern tíma í mánuði. Fyrsti föstudagur í mánuði ferðu og hittir vinkonurnar, til dæmis, eða á sunnudagsmorgnum farið þið í bröns til mömmu.

Passaðu upp á heilsuna

Þú myndir aldrei láta undir höfuð leggjast að fara með börnin í reglubundna læknisskoðun, þannig þú átt ekki gera það við þig heldur. Julie segir að allt of margar vinkonur hennar hafi trassað að leita læknis og hafi endað með alvarlega heilsufarskvila. Skipulagðu reglulegar heimsóknir til kvensjúkdómalæknis, krabbameinsskoðanir og þessháttar. Ekki gleyma tannlækninum!

Settu svefninn í forgang

Mömmur festast oft í hugarfarinu „að gera hluti þegar börnin eru farin að sofa/áður en þau vakna.“ Mömmur ættu samt ekki að gefa afslátt af svefninum: „Ónógur svefn getur haft alvarleg áhrif: Fólk sem sefur minna en sex klukkustundir á nóttu hafa aukna matarlyst sem getur orsakað þyngdaraukningu og þunglyndi, hjartavanda og sykursýki 2,“ segir Alon Y. Avidan hjá UCLA Sleep Disorders Center.

Hann ráðleggur einnig fyrir svefn að forðast eigi áfengi, mat, nikótín, erfiðar samræður og koffíndrykki. Hann segir einnig að reglulegur svefntími sem fari fram í rólegheitum sé nauðsynlegur og svefnherbergið sé eingöngu fyrir svefn, kynlíf og veikindi.

Tengstu sjálfri þér

Sem mamma er auðvelt að gleyma sér í daglegri rútínu, að skutla og sækja, þvo þvott, elda, borga reikninga, þrífa og þessháttar. Áður en þú veist af eru 10 ár liðin og þú ert bara skelin af sjálfri þér. Ráðleggingar? Finndu þér áhugamál eða ræktaðu þau. Haltu dagbók. Hugleiddu. Hvaðeina sem færir þér gleði: „Við erum að þróast í gegnum allt lífið og að vera í sambandi við okkar innra sjálf og það sem hvetur okkur áfram er það sem heldur okkur lifandi og glöðum,“ segir Julie að lokum.

Heimild: Lisa Bench/Parents.com

Pin It on Pinterest