Erum flest bara venjulegt fólk sem fengum þetta hlutskipti í lífið

Erum flest bara venjulegt fólk sem fengum þetta hlutskipti í lífið

Erum flest bara venjulegt fólk sem fengum þetta hlutskipti í lífið

Kristín Ýr Gunnarsdóttir er verkefnastjóri upplýsinga og kynningarmála hjá Alþýðusambandi Íslands. Hún er með diploma í leikstjórn og handritagerð og stundar nám við Háskólann á Bifröst í almennatengslum og miðlun. Kristín byrjaði ung að vinna sem blaðakona og í kvikmyndagerð en færni hennar og hæfni hefur í raun þróast og lærst með því að fá tækifæri á vinnumarkaði auk þess sem hún hefur sótt fjöldan allan af námskeiðum í sínu fagi. Kristín Ýr á þrjár stelpur Ágústu Borg 16 ára, Unu Borg 11 ára og hana Freydísi Borg 3ja ára. Yngsta dóttir hennar Freydís greindist rúmlega eins árs með Williams heilkenni sem varð til þess að fjölskyldulífið, eins og þau þekktu það, gjör breyttist. Kristín tók algjöra u beygju í sínu lífi eftir taugaáfall og ofsakvíðaköst. Auk þess gekk hún í gengum skilnað við sambýlismann sinn og barnsföður. Það má með sanni segja að Kristín sé dugnaðarforkur sem ætlar sér kannski stundum um of, en ávallt er stutt í hláturinn og grínið hjá henni. Hér deilir hún reynslu sinni og afrekum með okkur.

Yngsta dóttir þín, hún Freydís er greind með Willams heilkenni. Viltu segja okkur frá Williams heilkenninu, hvernig þau einkenni lýsa sér og hvenær hún greinist?

Williams-heilkenni er vegna þess að hluta litnings númer sjö vantar. Heilkennið er ekki tengt erfðum og einkennin eru bæði andleg og líkamleg. Meðal helstu einkenna eru óværð ungbarna og erfiðleikar við næringu en því þrífast börn með Williams-heilkennið illa. Vöðvaspenna er lág, liðir lausir og börn byrja oft ekki að ganga fyrr en rúmlega tveggja ára. Þau eiga erftitt með fínhreyfingar, sjónin er oft léleg og mörg eiga í hjarta- og æðavandamálum. Þroskaskerðing er talsverð en mismikil milli einstaklinga. Williams-krakkar eru félagslyndir og jákvæðir þrátt fyrir vandamálin sem þeir þurfa að leysa.

Freydís fékk greiningu í janúar 2015 þá rúmlega árs gömul.

Viltu segja okkur frá Freydísi, hvernig karakter er hún og hverjir eru hennar helstu styrkleikar?

Freydís Borg er líklega ein sú fyndnasta manneskja sem ég þekki. Hvar sem hún er og í hvað aðstæðum sem er þá fær hún fólk til að hlæja. Freydís er afskaplega uppátækjasöm og er ekki tilbúin að skilgreina hvað orðið nei þýðir. Hún er ákveðin og ætlar sér algjörlega langt í lífinu. Hún er að verða fjögurra ára en hefur í raun þroska á við tveggja ára barn að mörgu leiti. Nema í talmáli. Þar er hún alveg sú allra frábærasta og fátt skemmtilegra en að eiga við hana samtöl um daginn og veginn.

Það eru til afskaplega margar góðar sögur af Freydísi Borg. Um daginn var ég með hana í matarbúð. Þá stoppar kona og segir „Hæ Freydís! Hvað segir þú gott?“ Freydís svarar og segir „Ég! Ég segi bara allt gott“ og spyr konuna svo á móti hvernig hún hefur það og úr verður samtal þeirra á milli. Ég hafði enga hugmynd um hvaða kona þetta var og blandaði mér samt ekki inn í samtalið. Konan fór svo og ég spyr Freydísi hver þetta hafi verið og hún svarar:

„Æ mamma vinkonu minnar úr leikskólanum“. Eins og það væri ekkert eðlilegra að tæplega fjögurra ára barn sé bara á spjallinu við mæður annarra barna úr leikskólanum.

En þetta er ekta Freydís Borg, þeir sem hitta hana muna eftir henni og hún man eftir þeim. Hún er mikil félagsvera og sækir mun meira í samtöl við fullorðið fólk en í leik við börn á sínum aldri.

Nú upplifðir þú mjög erfiðan tíma í kjölfarið að greiningu Freydísar og nýverið gekkstu í gegnum skilnað, viltu deila með okkur hvernig þú ákvaðst að breyta lífi þínu og takast á við þær breytingar sem áttu sér stað í lífi þínu?

Eftir fæðingu Freydísar breyttist allt lífið. Það má með sanni segja það. Fyrstu tvö og hálfa árið hennar er tími sem reyndist mér og öllum mjög erfiður.  Tími sem ég myndi ekki vilja stíga inn í aftur. Það var mikil óvissa með allt, Freydís var langt á eftir í líkamlegum þroska, svaf nánast aldrei, var óvær, grét mikið og við foreldarnir þreytt og labbandi á milli lækna í leit að svörum og aðstoð. Á þessum tíma fékk ég taugaáfall og það hefur verið langt ferli að vinna sig alveg upp úr því. Það er afskaplega erfitt að upplifa vanmáttinn sem fylgir því að vera hent inn í heim sem þú þekkir ekki. Barnið þitt er fatlað og að lesa um fötlunina gerði það að verkum að mikil hræðsla greip um sig hjá okkur. Eftir á þá auðvitað áttar maður sig á að þetta er ekki svona skelfilegt. Það er ekkert skelfilegt að eiga Freydísi, hún er jú með litningagalla og henni fylgja krefjandi verkefni. En hún er frábær og lífið með henni er frábært og bara langt frá því að vera skelfilegt. Enda er hún að mörgu leiti bara eins og jafnaldrar sínir, hún þarf bara aðeins meiri umönnun og einfaldanir á sumt en tilvera hennar, væntingar og þarfir eru nákvæmlega eins og annarra.

Það er nefnilega svo að við hræðumst oft það sem við þekkjum ekki. Þeir sem þekkja heim fatlaðra ekki hræðast hann, og jafnvel vorkenna öðrum sem eru í honum.

Við ölum stundum börnin okkar upp við að það megi ekki horfa né benda á það sem er öðruvísi. Kennum öðrum í raun frá bernsku að við skömmumst okkar fyrir það sem er öðruvísi. Í staðin fyrir að útskýra og ræða hlutina.

Ef barn spyr og bendir á fatlaðan einstakling og segir  „hvað er að honum?“ þá er okkur eðlislægt að slá á puttana á barninu og banna því að horfa og svara ég veit það ekki. Í staðin fyrir að útskýra, eða jafnvel bara opna umræðu við viðkomandi og ræða málin í framhaldi.

Víðsýni er nefnilega sterkasta vopnið gegn fordómum og til þess að öðlast víðsýni þurfum við að fá svör við spurningum okkar og fá að ræða hugsanir okkar án þess að skammast okkar fyrir þær.

Ég var á þessum stað, ég vorkenndi mömmum sem áttu fötluð börn. Skildi ekki hvernig þær fóru að og fannst þær hetjur að fara í gegnum daginn og vera ekki bara heima hjá sér grátandi yfir eigin örlögum. Það viðhorf mitt hefur svo sannarlega breyst, foreldrar fatlaðra barna eru hetjur. Það verður ekki tekið af neinu þeirra, því þessi barátta er mikil. Hinsvegar erum við flest bara venjulegt fólk sem fengum þetta hlutskipti í lífið og við vinnum með það dag frá degi, því við höfum ekki annað val. Kannski hetjur hversdagsins, en það er engin ástæða til að loka sig af og reiðast heiminum eða horfa á okkur öðruvísi.

Eða ég tók allavega þá ákvörðun, að ef að ég ætlaði að koma Freydísi í gegnum þann frumskóg sem lífið mun bjóða henni upp á, heilbrigðiskerfið, skólakerfið, fordóma og alla þá veggi sem við erum þegar byrjaðar að feta saman, þá þarf ég að vera sterk, ég þurfti á nýju viðhorfi að halda og krafta til að geta staðið í báðar lappir.

Í janúar 2016 var ég alveg komin í þrot. Ég átti ekkert inni og fannst ég búin að missa tökin á öllu. Ég fékk ofsakvíðaköst trekk í trekk og rétt náði að halda andliti til að mæta til vinnu. Þess á milli grét ég út í eitt. Ég held reyndar að út á við hafi ég haldið ansi sterku andliti.

Ég skráði mig inn á Heilsustofnunina í Hveragerði. Í raun bara til að fá smá hvíld. Þar hitti ég lækni og sagði honum að ég þyrfti bara að takast á við áföllin sem ég hafði upplifað í eitt skipti fyrir öll, ég væri komin til þess. Hann svaraði mér um hæl og benti mér á að mér myndi aldrei takast það. Sem var ekki beint svarið sem mig langaði að heyra! En svo kom hann með ráð sem breytti lífi mínu. Hann sagði mér að hætta að hugsa um andlegu heilsuna, ég ætti ekki roð í hana á meðan ég væri enn í áfalli. Hann sagði mér að ég ætti að huga að líkamanum mínum, hann þyrfti að vera sterkur til þess að ég gæti lifað af. Af því að stundum erum við mannfólkið bara eins og dýrin í skóginum, við þurfum bara að finna út hvernig við lifum af og ekki flækja þetta um og of með hugsunum. Þannig leið mér nákvæmlega á þessum tíma. Mér fannst ég eiga erfitt með að lifa af og erfitt með að fóta mig í eigin lífi.

Ég tók hann því á orðinu og lagði allt í að hreyfa mig og smám saman breyttist ég í gegnum hreyfinguna, hugarfarið mitt, lundin mín og allt saman. Ég breytti engu öðru en með betri líðan breyttist ég.  Ég byrjaði á því að fara út að hlaupa með góðri vinkonu og setti mér markmið að taka þátt í hlaupakeppni þremur mánuðum seinna. Keppnirnar urðu svo þó nokkrar á síðasta ári. Ég tók svo sumarið í að hjóla og fann hvað það er gaman að þjóta og njóta á hjólinu um alla borg. Smám saman styrktist líkaminn minn og ég styrktist öll í leiðinni.  Á öllum þessum hlaupum tókst mér því einhvern veginn að gera hreyfingu að miðpunktinum. Í dag hleyp ég og hjóla mikið, á racer og er ný búin að kaupa mér fjallahjól. Þetta er því orðið nokkurskonar della. Ég tek það fram yfir flest að hreyfa mig og líkaminn minn kallar á hreyfingu ef kyrrsetan er of mikið.

Það sem hefur líka verið frábært við þetta er að ég ræð miklu meira við tilfinningarnar mínar. Ég ræð betur við reiðina og flóknu tilfinningarnar sem koma stundum upp. Ég á auðveldara með allt daglegt líf og í dag líður mér mjög vel. Það er því svolítið skondið að hugsa tvö ár til baka þegar ég var algjör kvíðasjúklingur og grét á hverjum einasta degi. Ætli það hafi ekki verið mikið vegna þess að ég hafði svo mikla orku innra með mér sem ég losaði aldrei um. Það var bara algjör tilfinningaleg stífla þarna sem kom út í kvíða og gráti.

Nú er orðið örlítið langt síðan ég hef fengið kvíðakast. Þegar ég var sem verst fór ég á lyf til þess að aðstoða mig yfir mestu þröskuldana en í dag er ég alveg lyfjalaus og bara í nokkuð góðu formi líkamlega og andlega.

Ég hef því hjólað og hlaupið mig í gegnum allar þær tilfinningar sem hafa verið að brjótast um í mér síðasta árið.

Fyrir ári síðan skildum við pabbi hennar Freydísar. Eins og í öllum sambandsslitum þá tók það auðvitað á og allir hafa þurft að feta nýjan veg með sínar tilfinningar í töskunni. Það tók dálítið á andlega að sætta sig við að vera ein með þrjú börn og viss hræðsla sem fylgdi því að vera ein með Freydísi. En ég held að þetta hafi verið rétt skref fyrir alla aðila. Það var ekki bara ég sem var komin í þrot heldur allir aðrir líka. Það þurfti bara stórar og miklar breytingar og niðurstaðan  var sú að fara í sitthvora áttina.

Okkur stelpunum líður afskaplega vel í dag, við erum búnar að koma okkur fyrir í frábærri íbúð, farnar að lifa nokkuð eðlilegu fjölskyldulífi og þetta gengur allt sinn vanagang með góðri samvinnu.

Við deilum forræði yfir Freydísi og hún er viku og viku hjá okkur. Auðvitað krefst þetta mikillar samvinnu og að mínu mati leggjum við okkur bæði vel fram við það. Með tímanum læra svo allir betur inn á þetta og jafnvægið verður meira. Ég held að Freydís Borg sé bara ansi heppin með foreldra og ég henni endalaust þakklát fyrir að hafa valið mig sem mömmu sína og treyst mér fyrir því hlutverki.

 

Hvernig gekk systrum Freydísar að aðlagast breyttum aðstæðum í ykkar lífi?

Þær hafa tekist á við þetta á misjafnan hátt. Ágústa er auðvitað eldri og gat frekar skilið aðstæðurnar á meðan Una var yngri og tók hana aðeins lengri tíma. Ég held að Freydís Borg geti ekki verið heppnari með systur, báðar hafa þær einstaka þolinmæði og eru duglegar að veita henni athygli.

Auðvitað er þetta líka allt bara eins og öðrum þriggja systra hópum, það er keppni um athyglina og stundum á mamman bara tvær hendur og þá getur samkeppnin orðin hörð.

Auðvitað reyndist þessi tími í kringum greiningarferlið og erfiðu árin hennar Freydísar mjög strembinn. Við gátum ekki lifað eðlilegu fjölskyldulífi og ég allt snerist um að komast að því hvað væri að Freydísi og halda haus til að geta sinnt henni. Dætur mínar eru því dásamlega heppnar að ég á góða foreldra sem tók þær undir sinn verndarvæng. Hjálp þeirra er ómetanleg og öryggi stelpnanna mikið þar. Ég geri oft grín að því að við búum í svona kommúnufjölskyldu. Því stórfjölskyldan mín ver það miklum tíma saman. Ef við stelpurnar erum ekki í mat hjá þeim þá eru þau í mat hjá okkur.

Það er líka það sem skiptir svo miklu máli, það er utan að komandi aðstoðin. Líf dætra minna breytist og allt í einu var mamma ekki lengur til staðar.

Í tvö ár var ég ekki til staðar fyrir þær, ekki af því að ég vildi það ekki, heldur af því ég hreinlega gat það ekki. Í tvö ár svaf ég ekki heila nótt og í tvö ár labbaði ég með grátandi barn um gólf næstum allan sólahringinn og varði miklum tíma á barnaspítalanum.

Það fer öll rökhugsun í þeim aðstæðum. Það fór líka með líkamann og minnið mitt, það var engin einbeiting. Í rauninni man ég sjálf lítið eftir þessum árum. Minnið mitt fór alveg og ég er enn að vinna það til baka. En ég veit að þetta reyndi mikið á eldri dætur mínar. En þegar ég hugsa til baka þá styrkti þetta okkur líka. Í ofan álag skildum ég og pabbi hennar Freydísar og þá breyttist allt aftur. En í dag þá líður okkur afskaplega vel, við erum sterkar sem heild og við erum gott lið. Ræðum það oft að við erum saman í liði og aðstoðum hver aðra við að líða vel og takast á við þau verkefni sem lífið hefur upp á að bjóða. Það má því segja að við lentum á  báðum fótum og saman höldum við áfram hönd í hönd.

Ég verð líka að segja að ég er einstaklega heppin hvað ég á vel gerð börn. Þær eru duglegar, flottar og skynsamar stelpurnar mínar og ég gæti ekki verið stoltari af þeim.

Núna ert þú að  sinna börnum, heimili og fullu starfi. Hvernig gengur að finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu? (Haha, þetta er mjög góð spurning og ég kannski ekki hæf til að svara henni. Þú ættir að spyrja vinkonur mínar! Þær sjá mig í mun skýrara ljósi en ég sjálf.)

Þetta gengur er líklega besta svarið sem ég get gefið þér. Þetta er strembið því ég ákvað í haust að bæta líka við mig háskólanámi. Ég held að ég hafi nú verið á einhverju algjörum Pollýönnu degi þegar ég tók þá ákvörðun.

Ég vinn krefjandi starf og það á stundum hug minn allan en ég er líka í háskólanámi, syng í kór og stunda hjólreiðar og hlaup ásamt því að ala upp þrjár dætur. Það má því halda að dagskráin sé örlítið pökkuð.

Ein vinkona mín hafði orð á því við mig um daginn að ég yrði bara að sætta mig við að ég geti ekki haft svona mörg járn í eldinum og verið best í öllu. Mér þótti þessi setning örlítið óskiljanleg hjá henni. Því þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur þá sé ég oft ekki aðra útkomu en að ætla mér að verða best í því. Þetta var hinsvegar rosalega góð áminning hjá henni og ég reynt að temja mér að minnka þann eldmóð aðeins. Því auðvitað er það ekki málið að keyra sig allstaðar út og finnast maður algjörlega með þetta og stærra sig af því að hafa nóg að gera. Kyrrð og ró er líka partur af því sem allir þarfnast í lífið og ágætis jafnvægi þarna á milli.

 

Ég er hinsvegar þannig karakter að ég þrífst best ef það er nóg að gera og nógu mikið fjör. Þá líður mér best.  Elsta dóttir mín er algjörlega andstæðan við mig og hún sér um að halda ró á heimilinu. Stundum veit ég ekki alveg hver er að ala hvern upp því hún tosar mig reglulega niður á jörðina og segir mér að slaka á. Minnir mig á í kaldhæðni að ég sé nú komin dálítið fram úr sjálfri mér.

Auðvitað er þetta oft strembið og stundum koma dagar þar sem mig langar bara að opna ísskápinn, taka hvítvínsflösku þar út og drekka hana á stút á sama tíma og ég síg niður á gólf eingöngu til að setjast á gólfið og ná smá ró í taugakerfið!

En þetta tekst allt með góðri hjálp bæði vina og fjölskylda. Ég á vinkonu sem aðstoðar mig oft með heimilishaldið og eldri dætur mínar eru virkar í því líka. Foreldrar mínir eru algjörlega ómissandi hluti þar af og ég gæti þetta ekki án þeirra.

Ætli helsta  vandamálið sé ekki að ég finn aldrei tíma til að fara í búð, það koma því reglulega kvartanir um að það sé aldrei neitt til og helsti hausverkurinn er „hvað á að hafa í matinn í kvöld“. Ég þyrfti því mögulega að gera samning við einhvern um að sjá um eldamennskuna á heimilinu!

En þetta gengur allt með skipulögðu kaosi. Ég er nefnilega að eðlisfari mikill sveimhugi og örlítið utan við mig en mitt helsta vopn gegn þessu öllu er að hlægja bara nógu mikið.

Ég á það nefnilega til að létta tilveruna með því að gleyma húslyklunum mínum í skránni heila helgi á meðan ég skrepp í ferðalag. (sem betur fer bý ég á þriðju hæð í blokk) … já eða læsa barnið óvart inn í bíl, með lyklana inn í bílnum (það tók samt bara korter að ná henni út aftur).

Svo held ég að hugarfarið skipti svolítið máli. Ef ég ákveð í höfðinu að þetta sé erfitt þá verður þetta erfitt. Ef ég ákveða að líta á þetta sem góða skemmtun með dassi af erfiðum dýfum, þá verður þetta þannig… ég held því sjálf að mér takist ágætlega til.

Er eitthvað sem þér finnst að mætti betur fara í fræðslu til foreldra barna, svona almennt?

Það er ótal margt sem þyrfti að bæta fyrir foreldra fatlaðra barna. Kerfið er oft erfitt og þessi fyrstu skref þegar greiningarferlin eru flókin. Það eru til mörg samtök sem aðstoða og leið og greining er komin opnast hafsjór af aðstoð en í ferlinu sjálf upplifðum við okkur alveg ein á báti. Eins og ég hef oft sagt frá var okkur sagt að fara heim og googla þegar við fengum greiningu á Freydísi. Sem eru líklega þau furðulegustu fyrirmæli sem ég hef fengið. Af hverju er enginn sem aðstoðar þig og segir þér hvert á að leita og við hvern á að tala? Af hverju tekur enginn á móti þér þegar þú færð greiningu á barnið þitt og fer yfir málin og fræðir þig eða kemur þér í samband við aðra foreldra til að ræða málin við? Að fara heim og googla og vera ein með spurningar og óvissu er afleitt.

Eru “mömmufrí” nauðsynleg? Þið vinkonurnar skelltuð ykkur til Marókkó í apríl brimbretta- og jógaferð, er það e-ð sem þú mælir með?

Foreldrafrí eru almennt nauðsynleg. Það er nauðsynlegt að komast aðeins úr umhverfi sínu í góðra vinahópi og hlægja og slaka á.

Ég fór með níu vinkonum í surf og jógaferð til Marókkó  í apríl á þessu ári. Fyrir ferðina þekktumst við ekki allar en treystum böndin svo sannarlega í ferðinni. Ferðin var yndisleg í alla staði og minningar um hana eru góðar. Ég náði þar slökun og það var svo gott að vera bara í Afríku þar sem var dýrt að hringja heim, stopult internet og stundum rafmagnslaust. Það gerði það að verkum að núið var það eina sem var í boði og samveran þess eðlis að við vorum allar á staðnum. Ekki að fjarstýra heimilum okkar í gegnum netið á meðan við reyndum að stunda jóga.

Það er nefnilega gryfja sem er svo auðvelt að falla í. Fara að heiman en samt fjarstýra. Ég geri það mjög oft, líklega því mér finnst erfitt að sleppa tökunum og treysta á að allt gangi upp án mín. Þarna úti fattaði ég að það gekk bara allt vel upp, dætur mínar voru glaðar og skiluðu sér í tómstundir og annað. Þó að ég væri ekki að skipta mér af, svei mér þá!

Alveg eins og það er okkur nauðsynlegt að fara í frí frá vinnunni þá er okkur líka nauðsynlegt að taka frí frá heimilinu annað slagið. Auðvitað er fólk í misjafnri aðstöðu og hafa misjöfn tækifæri fyrir slíkt. En ef það er bara einn göngutúr í tíu mínútur til að fá smá ró, þá gerir það oft helling.

Ég þakka Kristínu Ýr kærlega fyrir spjallið og óska henni og stelpunum hennar velfarnaðar um ókomna framtíð.

Auður Eva Ásberg

 

Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Erum mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra

Fyrir “nokkrum” árum þótti ekki mikið tiltöku mál ef fólk var að eignast sín fyrstu börn um tvítugt. Móðir mín átti mig nokkrum dögum eftir 18 ára afmælisdaginn sinn og pabbi var nýorðinn tvítugur. Það þótti nú lítið merkilegt. En á síðasta áratug eða svo hefur mikið breyst, barneignaraldurinn hefur færst aftar. Margar kunningjakonur mínar eru t.d að eignast sitt fyrsta barn eftir 35 ára aldur. Ég sjálf var talin nokkuð ung móðir en ég eignast mitt fyrsta barn 21 árs og var svo tilbúin á þeim tíma til að takast á við þetta fallega hlutverk, að vera móðir.

Perla Steingrímsdóttir og Brynjar eru nýorðin tvítug og eignuðust nýverið sitt fyrsta barn, hana Maríu Erlu gullfalleg lítil stelpuskotta. Perla kláraði lokaár sitt í Verslunarskóla Íslands á síðasta þriðjung meðgöngunar og var gengin 30 vikur á útskriftinni sinni, Brynjar útskrifaðst á sama tíma úr Fjölbraut í Garðabæ. Mamman.is fékk Perlu til að svara nokkrum spurningum um ástina, meðgönguna og foreldrahlutverkið.

Hvernig kynnust þið?

Við vorum bæði í samkvæmisdansi og urðum danspar fyrir 5 árum. Eftir átta æfingar á viku hver í þrjá klukkutíma þá leið ekki langt þangað til að við urðum kærustupar. Sökum dansins fengum við það tækifæri að ferðast um heiminn og teljum við okkur svo heppin að hafa séð svo mikið af heiminum saman. Fyrir ári síðan trúlofuðum við okkur á gondola undir Bow bridge í Central Park. Það var yndislegt móment sem okkur þykir svo vænt um.

Nú eru kannski nokkrir sem velta því fyrir sér þegar ungt fólk eignast börn, hvort að barnið “sé planað” hafið þið oft fengið þá spurningu?

Það kom engum á óvart þegar ég varð ólétt því við höfðum ákveðið löngu áður að okkur langaði að eignast barn fljótlega eftir stúdentspróf. Þannig þetta barn kom planað í heiminn og því enginn laumufarþegi. Við fáum þessa spurningu eiginlega alltaf frá fólki í einhverri útgáfu, en svo eru aðrir sem búast við því að barnið hafi verið óplanað og eru því mjög hissa þegar annað kemur í ljós.  Við erum bæði mikið barnafólk og við vorum farin að skoða barnaföt í keppnisferðum erlendis nokkrum árum áður og töluðum oft um hvenær og hversu mörg börn okkur langar í.

Hvernig voru fyrstu viðbrögðin þegar þið komust að því að þið ættuð von á barni?

Við vorum ótrúlega glöð. Við vorum svo spennt að fá að vita hvort þetta hafi virkað hjá okkur. Vorum þannig séð búin að búa okkur undir það að verða ófrísk gæti tekið svolítin tíma en þetta gerðist allt svo fljótt, sem okkur fannst bara enn yndislegra. Þannig fyrstu viðbrögðin var mikil gleði en einnig alveg gífurlegur spenningur. Vorum eiginlega ekki að trúa því að eftir 9 mánuði myndum við verða foreldrar.

Hvernig tóku foreldrar og vinir þeim fréttum að þið ættuð von á barni?

Þetta kom foreldrum okkar nú eiginlega ekkert á óvart og þau í raun farin að bíða eftir barninu. Þau sýndu okkur rosalega mikinn stuðning og alveg ómetanlegt að eiga svona flott sett af ömmum og öfum. Vinir okkar urðu glöð, hissa, spennt og pínu hrædd. Sumir jafnaldrar okkar gátu ekki ímyndað sér að vera í okkar sporum en aðrir með mikið ,,baby-fever” ef mér leyfist að sletta. Þannig við höfum fengið liggur við allan skalann af móttökum. Ekkert slæmt samt.

Hvernig gekk meðgangan?

Ég var mjög heppin að upplifa góða meðgöngu. Það var smá morgunógleði í byrjun og það sem var að hrjá mig hvað mest var að ég gat alls ekki borðað kjöt á þessum tíma. En var samt sjúk í mjólk. Ég var dugleg að hreyfa mig og fór í bumbutíma í WorldClass sem voru mjög skemmtilegir. Ég var að klára Verzló þegar ég var ólétt og fannst mér það bara hjálpa mér að hafa smá heilaleikfimi.

Hvernig gengur foreldrahlutverkið, er eitthvað sem kemur ykkur á óvart?

Foreldrahlutverkið er yndislegt. Við bjuggumst hreinlega ekki við því að geta þótt svona ótrúlega vænt um einhvern eins og okkur þykir um Maríu Erlu. Væntumþyggja náði semsagt nýjum hæðum hjá okkur. Að sjálfsögðu er þetta ekki bara göngutúr í garði og það fylgja tímar þar sem þetta tekur á. En saman getum við þetta og erum góð í að styðja við hvort annað.

Það sem kemur okkur kannski mest á óvart við þetta nýja hlutverk, er allt dótið sem fylgir því.

Við erum kannski að fara í heimsókn og þá fyllum við skottið í bílnum af dóti sem allt er auðvitað nauðsynlegt…svona eins og ferðatösku af fötum og ca 50 bleiur… bara til að vera viss. Nýja starfið er mjög gefandi og erum við mjög stolt af því að geta kallað okkur foreldra.

 Finnst þér þú mæta einhverjum fordómum sökum ungs aldurs, þ.e.a.s að fólk efist um færni ykkar sem foreldrar vegna aldurs?

Við höfum ekki ennþá upplifað neina fordóma. Þeir hafa þá alveg farið framhjá okkur ef einhverjir voru. Enda er engin ástæða til að hlusta á eitthvað svoleiðis. Við vorum tilbúin í að eignast barn og fylgdum hjartanu. Allir hafa sýnt okkur mikinn stuðning og voru kennarar og starfsfólk í Verzló mjög hjálplegir og áhugasamir á meðgöngunni. Við vonum innilega að fordómar gegn ungum foreldrum muni deyja út. Ef einhver hefur áhyggjur af því hversu ungir foreldrarnir eru, er ekki betra bara að bjóða þeim hjálp í stað þess að vera með einhver hortugheit… nei ég segi bara svona.

Hver eru framtíðarplönin hjá litlu fjölskyldunni?

Við erum bæði í háskólanámi núna. Brynjar er að reyna við tannlækninn og ég var að byrja á hugbúnaðarverkfræði. Það voru margir sem héldu að við myndum hætta við háskólanám og myndum fara að vinna eftir að við komumst að því að við værum að verða foreldrar. En við ætlum að halda í okkar drauma og ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Litla dúllan okkar fær bara að taka þátt og gerir leiðina bara svo miklu betri.

Eitthvað sem ykkur langar að taka fram að lokum?

Að lokum langaði okkur nú bara að segja að maður verður bara að hlusta á sjálfan sig. Við vorum tilbúin að eignast barn og tilbúin í það hlutverk og þá ábyrgð sem því fylgir. Það eru allir mismunandi og því tilbúnir til barnseigna á mismunandi aldri. En það er akkurat svo fallegt.

Við þökkum Perlu kærlega fyrir að svara spurningum okkar og óskum fjölskyldunni velfarnaðar um ókomna framtíð. Til að halda áfram að fylgjast með litlu fjölskyldunni og þeirra lífi þá bendum við á Instagramreikning Perlu en hann er perlast97.

Auður Eva Ásberg

 

Kann hreinlega ekki að gera ekki neitt!

Kann hreinlega ekki að gera ekki neitt!

Í kringum Berglindi Hreiðarsdóttir ríkir sjaldan lognmolla. Þessi ofurkona er gift Hermanni Hermannsyni verkfræðing og saman eiga þau þrjár dætur. Berglind stundar mastersnám í verkefnastjórnun í HR af fullum krafti auk þess að vera heima í fæðingarorlofi með yngstu dóttur þeirra hjóna þessa mánuðina. Hún starfar í mannauðsdeild Vodafone og í hjáverkum rekur hún fyrirtækið Gotterí og gersemar sem heldur úti uppskriftarsíðunni www.gotteri.is. Á þeirri síðu er að finna alls kyns uppskriftir og fróðleik sem snýr að bakstri og kökuskreytingum.

Berglind er einnig þekkt fyrir sínar guðdómlegu veislur og ég held að það sé með sanni hægt að segja að hinn íslenski arftaki Martha Stewart sé hér með fundinn! Það er nú kannski ekki skrítið að veislurnar hennar séu hver annarri fallegri enda eru veislur, bakstur, kökur og kökuskreytingar hennar ást og yndi. Berglind heldur námskeið í kökuskreytingum fyrir þá sem hafa áhuga á því að heilla gesti sína uppúr skónum með fallegum og vel skreyttum kökum í veislum! Aðsóknin hefur verið mjög góð á námskeiðin að sögn Berglindar. 

Berglind á þrjár dætur á aldursbilinu 5 mánaða til 14 ára. Þessar tvær eldri eru duglegar í tómstundum, auk þess sem hún stundar mastersnám í verkefnastjórnun, rekur sitt eigið fyrirtæki og er í fæðingarorlofi. Hvernig gengur að sameina þetta allt saman…eru ekki örugglega bara 24 tímar í þínum sólarhring?!

“Eigum við ekki bara að segja að það sé ekki að ástæðulausu að mastersnám í verkefnastjórnun heillaði mig, hahaha! Ég hef alla tíð verið mjög skipulögð, eiginlega einum of og kann hreinlega ekki að gera ekki neitt. Eftir því sem ég eldist og þroskast þá átta ég mig samt betur og betur á því að ætla mér ekki um of þó svo ég sé enn að læra það.”

Eins og margar konur nú til dags þá ertu að eignast þriðja barnið þitt að nálgast fertugt. Finnst þér öðruvísi að koma með barn á fertugsaldri en þrítugsaldri, ef já hvað finnst þér öðruvísi?

“Það er bara einhvern vegin miklu afslappaðra, við Hulda Sif erum bara að knúsast og njóta, fara út í göngutúra og ekkert að stressa okkur á hlutunum. Ég er ekkert að spá í þyngd, tanntöku, nýjustu barnatískunni, mömmuklúbbum og öllu þessu. Horfi bara á hana og sé henni líður vel og það er eina sem skiptir máli. Ég veit hún mun fá tennur, fara að ganga og allt þetta. Hún er síðan bara svo yndisleg og afskaplega tillitssöm við „aldraða“ móður sína. Hún sefur vel og brosir allan daginn þess á milli svo mamman lærir á meðan prinsessan sefur og leikur við hana öðrum stundum.”

Hvernig hugar þú að heilsunni?

“Ég elska að ganga á fjöll, fara í göngutúra, út að skokka og undanfarin ár hef ég verið meira fyrir jóga, pilates og þess háttar umfram aðra líkamsrækt innandyra. Ég verð samt að viðurkenna að ég mætti samt alveg vera duglegri að hugsa um sjálfa mig, það er þó klárlega eitt af núverandi markmiðum mínum og er ég meira að segja að byrja á pilates námskeiði í lok september.”

Hvenær byrjaðir þú að hafa ástríðu fyrir matargerð og bakstri?

“Síðan ég man eftir mér og þetta hefur bara ágerst með árunum og hausinn á mér ætíð uppfullur af hugmyndum svo to-do listinn í eldhúsinu klárast aldrei!”

Viltu segja okkur frá því hvernig hugmyndin kviknaði af www.gotteri.is?

“Við fjölskyldan bjuggum í Bandaríkjunum í nokkur ár og fór ég þar á fjölmörg kökuskreytingarnámskeið. Vinkonur mínar byrjuðu að grínast í mér að ég ætti að fara að hafa námskeið í þessu og einhvern vegin gerðist þetta alveg óvart og áður en ég vissi sátum við Heiða mágkona mín og útbjuggum heimasíðu og þá var ekki aftur snúið.”

Hvað er framundan hjá Gotterí og gersemum?

“Það sem er framundan eru haustnámskeið fram í nóvember. Það er nýtt námskeið á dagskrá sem kallast „Nútímalegar kökuskreytingar“ og hlakka ég mikið til að hafa fyrsta slíka námskeiðið nú í lok september. Gotterí var einnig að hefja samstarf við Gott í matinn og síðan er fleira skemmtilegt á prjónunum á  næstunni.”

Hvað er gott að hafa í huga þegar skipuleggja á veislu, varðandi fjölda gesta og magn af veitingum. Getur þú gefið okkur góð ráð varðandi skipulagningu þegar góða veislu gjöra skal, hvort sem um ræðir afmæli, fermingu, brúðkaup eða nafnaveislu?

“Það hefur reynst mér vel að skipuleggja veislu í tíma, átta mig á fjölda gesta, hvað á að bjóða upp á og þess háttar. Síðan skrifa þetta niður og stilla upp nokkurs konar verkáætlun. Hvað er hægt að gera í tíma, t.d kaupa skraut, baka í frystinn o.þ.h á móti því sem þarf að gerast kortér í veislu. Ég fermdi einmitt í vor og þá gerði ég góðan tékklista fyrir smáréttaveislu svo það er hægt að kíkja þangað til að átta sig á magni fyrir slíkt.”

 

Viltu gefa okkur uppskrift af þínum uppáhalds rétt eða þinni uppáhalds köku?

“Ohhh það er svo erfitt að velja, á ekki neitt eitt uppáhalds! Þrátt fyrir að mér finnist gaman að útbúa flóknar kökur og dúlla mér við kökuskreytingar klukkutímum saman þá er það oft einfaldleikinn sem kallar. Ef ég á að mæla með einhverju þá er það líklega Oreo ostakakan góða sem sló heldur betur í gegn á blogginu á sínum tíma.”

Oreo ostakaka

Botn

  • 1 ½ pakki súkkulaði Oreo kex

Ostakaka

  • 200gr suðusúkkulaði
  • 50ml rjómi
  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 300gr Philadelphia rjómaostur (við stofuhita)
  • 1,5 dl flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar
  • ½-1 pk Oreokex – gróft mulið (með kökukefli)

Skraut

  • 300ml þeyttur rjómi
  • Oreokex (heil til að stinga í)

Aðferð

  1. Myljið kexið sem fer í botninn fínt niður í matvinnsluvél/blandara og geymið.
  2. Bræðið saman suðusúkkulaði og rjóma og kælið á meðan þið útbúið ostakökuna sjálfa.
  3. Þeytið 500ml af rjóma og setjið til hliðar á meðan þið þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa.
  4. Vefjið því næst um 1/3 af rjómanum við ostablönduna varlega með sleif og svo allri restinni.
  5. Skiptið ostablöndunni niður í 3 skálar, um helmingur fer í eina og svo c.a ¼ og ¼ í næstu tvær (ef þið viljið sleppa hvíta laginu og gera bara hvítt með Oreomylsnu og svo brúnt lag þá má skipta 3/4 og 1/4).
  6. Hrærið gróft mulda Oreo kexinu saman við helminginn af blöndunni (3/4 ef þið sleppið hvíta laginu).
  7. Geymið ¼ (til að hafa hvítt lag) – (eða sleppa og hafa meira af hinu með Oreobitunum).
  8. Hellið kældu súkkulaðiblöndunni saman við ¼ og vefjið vel saman – kælið áfram.

Samsetning

  1. Setjið um 2 kúfaðar teskeiðar af Oreo mylsnu í botninn á hverju glasi (fer í 10-12 glös eftir stærð).
  2. Setjið ¼ hvíta hlutann í sprautupoka/zip-lock og skiptið jafnt á milli glasanna. Þetta er frekar þunnt lag og gott að ýta því að köntum glassins þegar búið er að skipta á milli á sem snyrtilegastan hátt (eða bara hinu beint ef þið skiptuð 3/4).
  3. Sprautið því næst blöndunni með gróft mulda Oreo kexinu á milli glasanna og sléttið úr líkt og með hvíta svo það fylli vel út í hliðar glassins (þetta laga amk helmingi þykkara en það  hvíta).
  4. Hellið súkkulaði-ostablöndunni yfir síðasta lag og er hún svipað þykk og hvíta lagið (súkkulaðiblandan er þó töluvert meira fljótandi en hinar tvær).
  5. Kælið þar til súkkulaðiblandan tekur sig (2-3 klst eða yfir nótt)
  6. Þeytið 300ml af rjóma og setjið í sprautupoka/zip-lock, sprautið í spíral sem skraut á hverja ostaköku og stingið Oreo kexi í hliðina.

Innskot Mamman.is. Þessi fallegu nafnaskilti sem eru á kökunum hjá Berglindi fást á www.hlutprent.is, þau er einnig að finna á Facebook HÉR.

Við þökkum Berglindi kærlega fyrir spjallið og óskum henni alls hins besta!

Auður Eva Ásberg 

 

Drifkrafturinn er að skapa og miðla af reynslu

Drifkrafturinn er að skapa og miðla af reynslu

Nýverið opnaði María Gomez fallega lífsstílssíðu sem ber nafnið www.paz.is. María sem er ættuð frá Spáni, er ferðamálafræðingur að mennt, mikill áhugaljósmyndari og fagurkeri sem tekur flest allar myndir fyrir síðuna sína sjálf. Hún á einnig alveg einstaklega smekklegt og fallegt heimili sem fær oftar en ekki að njóta sín sem myndefni á síðunni hennar og instagramreikning Paz.is. María sem er 38 ára er gift Ragnari Má Reynissyni og móðir þeirra Gabríelu 18 ára, Reynis Leo 4 ára, Mikaels 3 ára og Viktoríu Ölbu sem er alveg að verða 2 ára. Í júlí 2016 keyptu María og Ragnar fallegt einbýlishús á Álftanesi fyrir fjölskylduna sem þau tóku allt í gegn og gjörbreyttu eftir sínu höfði.

María ætlar að deila með okkur hvernig hugmyndin að Paz.is varð til, segja okkur frá breytingunum á heimilinu og hvernig er að eiga þrjú börn með stuttu millibili. Hún ætlar einnig að gefa okkur uppskrift af girnilegum spænskum rétt.

Hvað varð til þess að þú opnaðir lífstílssíðuna paz.is, hver er þinn helsti drifkraftur og fyrirmynd og hvaðan er nafnið Paz komið frá?

Mig var búið að langa til að opna bloggsíðu í heilt ár áður en ég lét verða að því loksins í apríl sl. Þegar við stóðum í kaupferlinu á húsinu okkar var maður að láta sig dreyma og plana um hvernig við ætluðum að breyta því. Ég notaði mikið pinterest og erlend blogg sem ég fékk ýmsar hugmyndir frá og þar vaknaði áhuginn á að stofna mitt eigið blogg.

Mynd Anton Brink

Drifkrafturinn minn er í raun bara að fá að skapa, miðla af reynslu og koma með nýjungar hvað varðar mat og framkvæmdir og fleira. Mér finnst mjög gaman að, baka og elda, eiga börn, breyta og bæta á heimilinu og hef áhuga á heilsu og matarræði. Einnig finnst mér mjög gaman að skrifa og taka myndir og þarna fæ ég útrás fyrir alla þessa sköpun sem gefur mér mikla lífsgleði. Eftir að bloggið opnaði, þá er það enn meiri drifkraftur að sjá áhugann hjá lesendum og fá jákvætt feedback.

 Þegar ég var í ferlinu að hanna síðuna mína átti ég enn eftir að finna blogginu nafn. Mér datt einhvernveginn ekkert í hug, þar til einn daginn þá bara skaust nafnið á spænsku förðurömmu minni upp í kollinn á mér. Amma mín hét Paz og einnig uppáhaldsföðursystir mín sem ég er í miklu sambandi við. Báðar þessar konur eru miklar og góðar fyrirmyndir í mínu lífi. Ég hef lært mikið af þeim í lífinu og í eldhúsinu hjá þeim líka, en þær bjuggu alltaf saman þar til amma dó og voru og eru þvílíkt klárar í eldhúsinu. Þar sem ég ætlaði mér alltaf að hafa spænsku ræturnar mínar með á blogginu þá fannst mér nafnið Paz alveg tilvalið og er ég mjög ánægð með það, enda stutt og auðvelt að muna. Ég var svo heppinn að allt sem tengdist Paz, bæði instagramm og lén fyrir síðuna var laust og því var ekki að þessu að spyrja.

Nú keyptuð þið húsið ykkar í allt öðru standi en það er í dag, fylgdi ekki mikil vinna því að taka það allt í geng?

Jú þetta var algjör bilun frá upphafi til enda…..fyrst var algjört vesen allt í söluferlinu en við stóðum í svokallaðri keðjusölu þar sem voru fyrirvarar hægri vinstri í allri keðjunni og þrír mismunandi fasteignasalar. Mæli alls ekki með því. Ferlið tók rosa á og tók í allt 3 mánuði í allskyns óvissu og drama. Þegar það var svo allt klappað og klárt og húsið komið í höfn var maður eiginlega bara alveg orðin úrvinda. Síðan kom kappið við að finna iðnaðarmenn sem í dag er eins og að finna gull eða vinna í lottó. Því miður vorum við rosalega óheppin með okkar iðnaðarmenn sem höfði lofað öllu fögru og ekkert stóðst. Auk þess að vinnubrögðin lyktuðu af mikilli vanvirðingu fyrir verkinu og eigninni okkar. Eiginlega fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis og endaði það á því að við létum þá fara og tókum flest allt að okkur sjálf nema pípulagninga og flísavinnu. Allt annað gerðum við sjálf eins og að brjóta niður veggi, mála, parketleggja færa til og setja upp innréttingar og skápa og eiginlega bara allt sem þurfti að gera. Ferlið hefði getað orðið mjög skemmtilegt svo sem, nema tíminn sem við höfðum var frá 13. júlí til 1. ágúst til að klára allt það helsta svo pressan var gígantísk. Auk þess voru öll börnin okkar í sumarfríi og eiginlega flestir sem við þekktum. Svo það var enga hjálp að fá frá vinum eða ættingjum. Við stóðum því í þessu algjörlega tvö með Gabríelu elstu dótturina við hlið okkar sem passaði öll kvöld meðan við unnum bæði í húsinu. Á daginn vann Raggi algjörlega í húsinu meðan ég var heima með krakkana að pakka. Á kvöldin fórum við svo saman upp í hús að vinna og svona rúllaði þetta allar 3 vikurnar sem við höfðum. Mér leið oft eins og ég væri að taka þátt í Amazing race eða the block eða eitthvað því pressan var biluð á þessum tíma og man ég varla eftir honum! Á þessum tíma var yngsta barnið 8 mánaða og hinir árinu og tveimur árum eldri en hún. Við erum svo smátt og smátt búin að vera að klára húsið þar til s.l apríl en þá var því lokið hér að innan. Núna erum við svo að mála allt húsið að utan, en það er enginn pressa og bara gaman.  

Í dag líður okkur  frábærlega í húsinu og þá sér maður að allt erfiðið var algjörlega þess virði og að þetta mikla fall okkar í byrjun var okkur fararheill.

Þið eruð með þrjú ung börn, er ekki full vinna að skipuleggja heimilið og plana allt sem börnunum tengist, hvernig nærðu að halda góðu dagsskipulagi?

Jú þetta er alveg svakalega mikil og oftast skemmtileg vinna. Þetta krefst mjög mikillar skipulagni dagsdaglega og ef maður fer aðeins út frá skipulaginu eru hlutirnir fljótir að fara í klessu. Ef ég t.d. sleppi því að þvo þvott í eitt og eitt skipti þá hrannast allt upp og mín bíður stórt þvottafjall að klífa sem dæmi. Það eru margir sem eiga þrjú og fjögur börn og láta hlutina rúlla svo ég er kannski ekkert sérstök fyrir þær sakir að eiga 4 börn en það sem kannski gerir okkur frábrugðin er hvað er stutt á milli þrjú yngstu barnanna, en þau eru öll fædd á sitthvoru árinu á árunum 2013,2014 og 2015 sem er alveg svoldið bilað (hahaha).

Þetta er í raun alveg þrælmikið hark en við reynum að njóta þess og vera ekki að hugsa hluti eins og að geta ekki beðið eftir að þau verði eldri svo allt verði auðveldara.

Við erum mjög dugleg hjónin að vinna saman og plana allt og gera ” to do” lista sem við skiptum á milli okkar. Svo bara rúllar þetta og dæmið gengur upp. Núna eru allir krakkarnir í sumarfríi og þá er allt farið í klessu og ég eiginlega bara búin að henda öllu skipulagi tímabundið út um gluggan…..húsið er á hvofii og meira að segja garðurinn líka. Maður bara tekur djúpt andan og labbar í gegnum draslið og reynir eiginlega bara að komast í gegnum daginn, annars myndum við bara missa vitið. En á meðan leikskólarnir eru starfandi þá gengur þetta bara afsklaplega vel allt saman.

Nú áttu mjög fallegt heimili sem er einstaklega stílhreint og hvítt. Hvernig gengur að vera með þrjú lítil börn og halda öllu hreinu og fínu?

Það gengur vel en þó misjafnlega samt. Virku dagana er lítið mál að halda húsinu í standi en um helgar fer allt í klessu og á hvolf og þá bara er það þannig…ég er alveg búin að sætta mig við það. Við reynum samt svoldið að kenna krökkunum að ganga frá eftir sig og setja allt á sinn stað aftur. Hengja upp eftir sig yfirhafnir og raða skóm og þ.h. Einnig setjum við þeim fyrir verkefni sem þau ráða við eins og að leggja á borð eða hjálpa til við að setja í uppþvottavél og annað. Það getur munað svo miklu að kenna krökkunum að ganga frá og verður það partur af þeirra rútínu. Einnig reynum við að kenna þeim að ganga um hlutina eins og sófann sem er hvítur en þau vita að þau mega ekki fara með matvæli í sófann og virða það alveg. Ég myndi segja að það gangi vel að halda öllu svona yfirborðsfínu eins og drasli í skefjum og ryki….en viðurkenni þó að maður er svoldið mikið í kattarþvottinum með svona marga litla krakka meira en í stórum hreingerningum algjörlega vegna anna og tímaskorts.

Þú ert ættuð frá Spáni, myndir þú segja að uppskriftirnar þínar og stíll sé undir spænskum áhrifum?

Já algjörlega, ég reyni alltaf að setja inn spænskar uppskriftir en ég hef alltaf frá því ég byrjaði að elda sjálf eldað spænskan mat. Þegar ég flutti til Íslands 5 ára gömul saknaði ég mikið matarins á Spáni. Þá var ekki auðvelt að kaupa í spænskan mat á þeim tíma, en í hann þarf oft sjávarrétti  eins og heilar rækjur með haus, skelfisk  og grænmeti sem þá fékkst ekki í búðunum hér heima. Þá var mest til hvítkál, guldrætur og rófur. Það er alveg ótrúlegt að hugsa um það hvað er stutt síðan að við fengum fjölbreyttar tegundir af grænmeti í verslanir hér heima. Mér fannst íslenski maturinn mjög skrítinn og átti erfitt með  að borða kjötfars og fiskibollur og þ.h. og því var ég ekki lengi að taka upp á spænskri matseld þegar fjölbreytnin í búðunum jókst og ég fór að búa sjálf.

Hvað stílinn á heimilinu varðar myndi ég segja að hann sé ekki mjög suðrænn í þetta skiptið þar sem hann er mjög skandinavískur en þar sem við bjuggum áður en við fluttum hingað var heimilið undir spænskum áhrifum já. Svo hef ég alltaf haldið fast í spænskar hefðir eins og t.d. að setja eyrnalokka strax í stelpurnar mínar þegar þær fæðast en báðar fengu þær eyrnalokka nokkra daga gamlar. Sú eldri 8 daga og hin 5 daga gömul. Amma mín Paz hafði gefið Gabríelu fyrstu lokkana og fékk sú yngri þá líka í eyrun svo Amma Paz er okkur alltaf efst í hjarta með marga hluti.

Viltu gefa okkur eina góða uppskrift af spænskum rétt?

Já endilega, rétturinn sem ég ætla að gefa ykkur uppskrift af kallast Arroz con Pollo eða Hrísgrjón með kjúkling. Þessi réttur er svona stóra frænka Paellunar en hann er mjög svipaður henni nema meira svona hversdags og eldaður mun oftar en Paella á spænskum heimilum.

Arroz con Pollo

  • 1 bakki af úrbeinuðum kjúklingalærum
  • 1 græna papríku
  • 1-2 rauðar papríkur
  • 1 lauk
  • 1 hvítlauk
  • 1 bolla af grænum baunum (ég nota frosnar)
  • 1 -2 kjúklingasoðstening
  • 1 fiskisoðstening
  • 1-2 stóra tómata eða 5-7 litla plómutómata
  • 1 og hálft glas af grautarhrísgrjónum (mjög mikilvægt að þessi grjón séu notuð, keypti mín í Hagkaup)
  • 4 vatnsglös
  • Gulan lit sem kallast colorante (fæst ekki hér á Íslandi en hægt er að nota saffran frá Costco eða Turmerik fyrir litinn eða kippa colorante með sér heim úr sumarfríinu á Spáni en það fæst í öllum súpermörkuðum á Spáni)
  • Salt og pipar
  • ½ dl Ólifuolíu

 

Aðferð 

  • Skerið laukinn í smátt og merjið hvítlaukinn.
  • Skerið papríkurnar í langa þykka strimla og tómatana í litla bita
  • Sneiðið lærin í tvennt
  • Hitið ólífuolíu á stórri pönnu og setjið lauk og hvítlauk út á og saltið létt yfir og piprið.
  • Þegar laukurinn er orðin mjúkur setjið þá papríkurnar og tómatana út á og saltið aftur létt yfir og leyfið þeim að mýkjast við vægan hita. Passið að brenna ekki laukinn.
  • Næst er svo kjúklingurinn settur yfir allt á pönnuna og hrært í öllu og saltað og piprað aftur. Þegar kjúklingurinn er aðeins byrjaður að hvítna setjið þá grjónin yfir allt og hrærið vel í svo þau blandist vel saman við hin hráefnin.
  • Hellið nú grænum baunum yfir allt saman.
  • Næst er svo vatnið soðið í katli og teningarnir leystir upp í því. Því er svo hellt út á allt saman og hrært í síðasta skitpið saman. Athugið ekki hræra í réttinum neitt meir á meðan hann er að sjóða.
  • Látið sjóða í 25 mínútur við vægan hita.
  • Þegar rétturinn er til eiga grjónin að vera orðin mjúk og smá aukasoð á að vera á honum, ekki hafa áhyggjur af að vatnið sé ekki allt gufað upp því svona á hann vera.

 Berið svo fram með góðu snittubrauði sem er gott að dýfa í soðið!

Við þökkum Maríu Gomez kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara spurningum okkar og gefa okkur þessa grinilegu uppskrift! Eins óskum við henni til hamingju með flottu bloggsíðuna sína www.paz.is 

 

Auður Eva Ásberg

 

Tilfinningin að elska einhvern svona mikið er ólýsanleg

Tilfinningin að elska einhvern svona mikið er ólýsanleg

Aðalheiður Ólafsdóttir eða Heiða Óla eins og hún er alltaf kölluð eignaðist fyrir nokkrum vikum ásamt unnusta sínum lítinn dreng. Drengurinn var skírður á Sjómannadaginn og fékk hann nafnið Ólafur Elí Erlendsson í höfuðið á afa sínum, pabba Heiðu. Aðspurð sagði Heiða að afinn hafi verið í skýjunum með nafna litla enda sólargeisli þeirra allra. Heiða hefur verið mjög virk á samfélagsmiðlum að veita fylgjendum sínum góð ráð sem snúa oftar en ekki að góðu og hollu matarræði og hreyfingu. Það hefur svo sannarlega verið gaman að fylgjast með snappinu hennar heidifitfarmer þar sem hundurinn Heimir spilar oftar en ekki stórt hlutverk. En núna er lítill pjakkur kominn inní líf þeirra Heiðu, Ella og hundsins Heimis og lífið tekið stakkaskiptum. Hvernig er fjölskyldan að fíla sig í nýju hlutverki og hvernig gengur með litla Ólaf Elí? Heiða svaraði fyrir okkur nokkrum spurningum sem snúa að nýju hlutverki hennar.

Til hamingju með þennan fallega dreng, Ólaf Elí, hvernig hafa fyrstu vikurnar gengið hjá ykkur?

Takk takk kærlega fyrir. Það hefur allt gengið ótrúlega vel, hann er 8 vikna núna ekkert smá fljótt að líða hann er bara algjört draumabarn rosalega vær og góður, drekkur vel og ætlar greinilega að stækka hratt. Svo gaman að fylgast með öllu ferlinu sjá hann tekur meira eftir með hverjum deginum og er löngu farin að brosa og hjala til okkar.

Hvað kom þér mest á óvart með móðurhlutverkið?

Ég held ég hafi verið vel undirbúin þar sem ég er eiginlega síðust í mínum vinkonuhóp að verða mamma og voru þær búnar að undirbúa mig vel hvað myndi bíða mín. En ég held kannski að þolinmæðin mín sé meiri en ég hélt að hún myndi vera. Allvega gefur maður sig alla í barnið sitt og tilfinningin að elska einhvern svona mikið, þótt ég hafi verið búin að heyra það margoft, þá er hún ólýsanleg fyrr enn maður upplifir það sjálfur.

Hvernig hefur Heimir (hundurinn þeirra skötuhjúa) tekið þessu öllu?

Hann tekur þessu bara nokkuð vel, en þetta er sennilega algengasta spurninginn sem ég hef fengið einmitt síðstu vikur á Snapchat. Heimir á svo marga aðdáendur og gaman að sjá hvað margir hafa áhyggjur af honum. En Heimir gáir að Ólafi Elí ef það heyrist í honum og er alltaf að þora að skoða hann meira og meira. Ég held honum finnist hann svolítið viðkvæmur ennþá og passar sig að vera ekki fyrir. En ég er viss um að þeir eiga eftir að verða bestu vinir þegar Ólafur Elí verður orðin aðeins stálpaðri.

Viltu gefa öðrum nýbökuðum mæðrum 5 góð ráð sem snúa að móðurhlutverkinu.

  • Að leggja sig með barninu eins mikið og þú getur.
  • Ekki gleyma borða reglulega og drekka vel. Það skipir máli að móðirin hugsi vel um sig og fái næga hvíld uppá mjólkina en ég finn mikin mun á því ef ég passa ekki uppá mig.
  • Gera ekki eins miklar kröfur á húsverkin þau mega bíða.
  • Ekki byrja að stressa sig strax á því að fara koma sér í form, njóta þess að vera með barninu, þessar fyrstu vikur eru alltof fljótar að líða!
  • Hlusta á eigið innsæi og fara eftir eigin skoðunum, þetta er þitt barn þínar reglur.

Við hjá mamman.is óskum Heiðu, Ella og Heimi innilega til hamingju með fallega drenginn! Við hlökkum svo sannarlega til að fylgjast með honum vaxa og dafna.

Heiða heldur einnig úti síðunni www.heidiola.is þar er að finna alls konar skemmtilegan fróðleik.

Allar myndir í greininni eru í einkaeign Heiðu, hún sendi okkur þessar fallegu myndir úr skírninni og svo myndir úr myndatöku hjá Krissý ljósmyndara.

 

Auður Eva Ásberg

Er svo lánsöm að vera 23 ára móðir

Er svo lánsöm að vera 23 ára móðir

Una Haraldsdóttir fagnar 23 ára afmælsideginum sínum í dag. Hún er einnig nýbökuð móðir lítillar stúlku sem hún eignaðist með unnasta sínum Orra Eiríkssyni fyrir um mánuði síðan. Litla stúlkan var plönuð en margir urðu hissa á því hvers vegna þau drifu sig í barneignum, enda kornungt parið enn að mennta sig og “nægur” tími til barneigna eða hvað?

Hún Una skrifaði pistil og birti á Facebook síðu sinni í gær. Ég fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta færsluna í heild sinni. Þar kemur berlega í ljós að stundum þarf að breyta forgangsröðinni í lífinu til þess að verða þess aðnjótandi að eignast barn og ganga með. Takk fyrir að deila þessari lífsreynslu með okkur og gangi þér vel í nýja hlutverkinu.

Hér er færslan hennar Unu.

Á morgun verð ég 23 ára. Í stóra samhenginu er það sjálfsagt ekki hár aldur en eggjastokkarnir mínir virðast ekki vera alveg á sama máli.

Fyrir rúmu ári síðan lenti ég á tali við stelpu sem var nokkrum árum eldri en ég. Hún átti barn sem hún hafði eignast 22 ára. Þar sem framtíðarplan mitt og flestra sem ég þekkti voru nokkurn veginn á þennan veg: klára nám (án þess svo sem að vita þá hvað ég vildi læra), fá góða vinnu (án þess að vita hvað ég vildi vinna við), finna mér maka (var reyndar vel sett í þeim málum), kaupa fallegt hús (svo fjarlægt markmið að það glitti ekki einu sinni í það) og þegar allt þetta væri komið á hreint; eignast börn, þá fékk ég það út að það hlyti að vera mjög ópraktískt að vera eitthvað að rugla í kerfinu og færa barneignir framar í röðina. Ég skildi ómögulega hvernig hún hefði farið að því að ná sér bæði í gráðu og góða vinnu og stússast í að ala upp krakka á meðan. Ég gerðist svo djörf að spyrja hana hvort barnið hefði verið planað eða hvort hún hefði “óvart” orðið ólétt. Hún sagði mér að hún hefði farið í blóðprufu sem sagði til um eggjafjölda hennar og komist að því að hún hefði ekki mörg ár til þess að eignast börn. Þess vegna ákváðu hún og kærastinn hennar að drífa í því á meðan þau gætu. Hún sagði mér líka að hún hefði ekki séð eftir því einn einasta dag.

Þessi umrædda blóðprufa sat í mér í marga daga á eftir. Ég losnaði ekki við þá tilfinningu að ég ætti að láta athuga þetta hjá mér en þar sem ég get státað mig af ansi skrautlegri sjúkrasögu fannst mér ekkert svo ólíklegt að það gæti hafa haft áhrif á eggjabúskapinn. Verandi glasabarn sem á tvö ættleidd systkini vissi ég líka að frjósemi er ekki sjálfsagður hlutur og að í mörgum tilvikum koma börnin alls ekki af sjálfu sér. Ég fékk tíma hjá lækni sem skoðaði mig í bak og fyrir og þrátt fyrir vægt legslímuflakk leit allt eðlilega út. Þegar ég nefndi blóðprufuna voru fyrstu viðbrögð læknisins að hún væri óþörf, ég væri bara 21 árs og það væri að öllum líkindum engar áhyggjur að hafa. Það endaði með því að ég fór samt í hana og 3 vikum seinna hringdi læknirinn og sagði að niðurstöðurnar væru aðrar en við hafði búist. Að ef ég ætlaði mér að eignast börn þá ætti ég ekki að bíða lengi með það, helst bara sem styst.

Þetta var ákveðið áfall, barnahlutinn hafði nú einu sinni verið rúsínan í pylsuenda hinnar fullkomnu framtíðaráætlunar. Ég var ekki einu sinni byrjuð í draumanáminu, hvað sem það þá yrði. Mér varð hugsað til stelpunnar, hún hafði aldrei séð eftir þessu og aðlagaði líf sitt og áætlanir bara að því að eiga barn í stað þess að láta það stöðva sig í einhverju. Eftir að hafa svoleiðis baðað höfuðið í bleytu komst ég alltaf að sömu niðurstöðunni. Hún var sú að af öllum áföngum plansins var bara einn þeirra sem ég var 100% viss um – og það var að einn daginn myndi ég vilja börn.

Ég var svo heppin að eiga mann sem stóð sem klettur við bakið á mér í gegnum allan tilfinningarússíbanann og var ekki lengi að gúddera uppkastið að hinu nýja plani. Stuttu seinna tók við 13 vikna gubbuveisla með öllu tilheyrandi, sem við tókum heldur betur fagnandi. Flestir fögnuðu með okkur en þó var fólk héðan og þaðan sem tilkynnti mér að það hefði nú verið sniðugt að bíða með þetta þar til eftir háskólanám. Barnlaust fólk væri nefnilega frekar ráðið í vinnu, svo ekki væri minnst á að spara fyrir fasteign, það væri nánast ómögulegt með barn eins og staðan væri í dag. Þetta voru nákvæmlega þau sömu, þröngsýnu sjónarmið og ég sjálf hafði haft nokkrum mánuðum áður (þó ég hefði kannski sleppt því að messa þeim yfir aðila sem á von á barni). Það er nefnilega þannig að nútímasamfélagið okkar er ótrúlega litað af þessari fyrrnefndu röð aðgerða, sjálf sá ég enga aðra leið fyrr en ég var svo gott sem þvinguð til þess. En mikið er ég þakklát stelpunni sem sagði mér frá blessaðri blóðprufunni því að án hennar hefði mér örugglega ekki dottið í hug að hætta á pillunni fyrr en eftir mörg ár, þegar það hefði að öllum líkindum orðið of seint fyrir mig að ganga með barn. En að sama skapi finnst mér sorglegt að í báðum tilvikum hafi smár tímarammi haft áhrif á ákvörðun okkar um að eignast barn á þessum aldri, en ekki það að okkur hafi langað það af fyrra bragði og þorað að fylgja þeirri tilfinningu.

Í dag er ég 22 ára og við Orri eigum 1 mánaðar gamlan sólargeisla sem glæðir lífið svo sannarlega nýjum tilgangi. Og viti menn, ég kláraði önn í arkitektúr kasólétt og hlakka til að halda áfram að vinna í framtíðarplaninu góða samhliða því að vera mamma.

En nú er þessi pistill orðinn alltof langur, upprunalegi tilgangur hans var að reyna að vekja athygli á því að þessi blóðprufa væri möguleiki fyrir hvaða konu sem er, því að mér finnst allt of lítið talað um hana. Einnig vona ég að ef einhver les þetta sem hefur framtíðina jafn meitlaða í stein og ég gerði, gefi sér tóm til að breikka sjóndeildarhringinn og sjái að það eru fleiri en ein braut sem maður getur fetað í gegnum þetta líf. Ég vona allavega að þessi skrif hafi einhver áhrif, þó svo það væri ekki nema að þau breyti einhverju fyrir eina manneskju sem er í sömu stöðu og ég fyrir rúmu ári.

Ljósmyndir Einar Rafnsson.

Pin It on Pinterest