by Mamman | 28.06.2016 | Uppskriftir
Á sumrin langar mann oft í eitthvað létt og frískandi og þessi réttur er það einmitt. Það er ekki venjulegt pasta í þessum rétti heldur svokallað kúrbítspasta sem er bara eintómur kúrbítur sem búið er að skera í ræmur með spíralskera. Spíralskerar fást í flestum verslunum sem selja áhöld til matargerðar en það er hægt að nota rifjárn í staðinn fyrir þá.
Eins og sést á fyrirsögninni er þetta svo einfalt að það tekur enga stund að skella í þennan holla og bragðgóða rétt. Hægt er að hafa „pastað“ eitt og sér eða bæta við það grilluðum kjúklingi, skinku eða öðru kjöti eftir smekk hvers og eins.
Uppskrift: (Þessi uppskrift miðast við 6 manns)
- 1 dós Philadelphia rjómaostur með hvítlauk og jurtum
- 1 dl mjólk
- 4 spíralaðir Kúrbítar
- Salt og pipar eftir smekk
- 4 kjúklingabringur bakaðar í ofni (ég nota cajun krydd á kjúklinginn)
- Ferskur parmesan ostur
Aðferð:
- Byrjið á að skella kjúklingnum í ofninn og steikið hann þar til hann er tibúinn.
- Á meðan kjúklingurinn er eldaður er upplagt að spírala kúrbítinn.
- Setjið rjómaostinn og mjólkina í pott og hrærið vel saman og hitið þar til osturinn er orðinn að sósu. Passið upp á hitann, það er betra að hafa stillt á miðlungshita svo osturinn brenni ekki við.
- Kúrbíturinn léttsteiktur á pönnu í 2-3 mínútur og svo er sósunni hellt yfir.
Berið þetta fram með kjúklingnum (eða öðru kjöti), saltið og piprið eftir smekk og rífið góðan slatta af ferskum parmesan yfir. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og/eða fersku salati. Yndislega léttur og góður réttur fyrir sumarið.
Bon apetit!
Karlotta Ósk Jónsdóttir
by Mamman | 1.06.2016 | Næring & heilsa, Uppskriftir
Hér kemur ein ofureinföld uppskrift af nammi sem er stútfullt af orku og næringu og ekki er verra að það tekur aðeins um 20 mínútur að töfra þessa dásemd fram.
Hráefni:
- 150 g kasjúhnetur
- 100 g pekahnetur
- handfylli af graskersfræi
- handfylli af trönuberjum
- handfylli af kókosflögum
- 1-2 tsk agave sýróp
Það er algjörlega smekksatriði hversu miklu af hverju hráefni er blandað saman en þessi hlutföll klikka ekki. Innihaldsefnum er dreift á bökunarplötu, sýrópi hellt yfir í mjórri bunu og öllu svo hrært saman. Þessu er svo skellt í ofninn á 180° í ca. 10 mínútur eða þar til kókosflögurnar eru farnar að taka smá lit en þær eru viðkvæmar fyrir því að brenna svo fylgjast þarf vel með.
Eftir að nammið er tekið úr ofninum er því leyft að kólna í smástund. Þá er ekki annað eftir en að setja í góða nammiskál og njóta!
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 30.05.2016 | Næring & heilsa, Uppskriftir
Það kannast örugglega allir við það að langa í eitthvað ótrúlega fljótlegt og gott en þó í hollari kantinum og enda á fá sér grillaða samloku eða eitthvað í þá áttina.
Hér kemur uppskrift af vefju sem uppfyllir öll hollustuskilyrðin ásamt því að vera eldsnögg í vinnslu og svakalega fersk og góð.
Hráefni:
- iceberg
- kirsuberjatómatar
- gúrka
- avókadó
- hamborgarhryggur í sneiðum
- ostur
- egg
Dressing:
- 3 msk sýrður rjómi eða grísk jógúrt
- ½ tsk Dijon sinnep
- ½ hvítlauksrif
- ½ tsk hunang
- smá salt
- smá svartur pipar, mulinn
- steinselja
Öllu hrært saman og kryddað eftir smekk. Dressingin er einnig sjúklega góð með steiktum kjúklingi og fiski.
Hráefnunum raðað á icebergið sem er sett fyrst á vefjuna, hella smá dressingu yfir, og rúlla svo upp og njóta.
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 12.05.2016 | Næring & heilsa, Uppskriftir
Á dögunum þurfti ég að fara í snemmbúið fæðingarorlof og fékk að gjöf, frá vinnunni, æðislega bók eftir Anítu Bríem og Sólveigu Eiríksdóttur, Mömmubitar. Það var því ekki seinna vænna, á öðrum degi í orlof að skella í eina af girnilegustu uppskriftunum, að mínu mati, sem finna má í bókinni, Snickersköku.
Botn
- 200 g döðlur
- 100 g kókosmjöl
- 1 dl hnetusmjör
Ég notaði venjulegar döðlur frá H-berg, sauð vatn og leyfði þeim að liggja í bleyti í smá stund. Hnetusmjörið sem ég notaði er frá Whole Earth og fæst m.a. í Krónunni og öðrum heilsubúðum. Það sem heillar mig við þá tegund hnetusmjörs er að það er enginn viðbættur sykur í því (en er vinna í að gera mitt eigið hnetusmjör svo það verði sem hollast).
Þessu skellti ég svo öllu saman í matvinnsluvél og leyfði að maukast vel saman. Maukinu þjappaði ég svo í eldfast mót og setti það í frysti á meðan ég bjó til karamelluna.
Karamellulag
- 1 ½ dl hlynsíróp eða önnur sæta
- 1 dl kókosolía
- 1 dl hnetusmjör
- ½ tsk sjávarsalt
Ég átti ekki hlynsíróp svo ég notaðist við agavesíróp og smá hunang og náði ég sirka 1 dl af sætu úr því þar sem ég átti ekki meira til. Einnig setti ég ekki hálfa tsk af salti eins og ráðlagt er í uppskriftinni þar sem ég reyni að forðast salt eins og heitan eldinn því mér hættir til að fá bjúg á meðgöngu. Þessu smellti ég svo í matvinnsluvélina, lét hana skila sínu og smurði því svo sem öðru lagi yfir botninn og setti aftur í frystinn meðan ég bjó til súkkulaðið.
Súkkulaðilag
- ½ dl kókósolía
- ½ dl kakóduft
- 1 msk hlynsýróp
- nokkur saltkorn
Þar sem ég notaði allt sýrópið mitt í karamelluna þá setti ég sirka 1 tsk af hunangi til að fá sætu, einnig átti ég ekki til stevíu svo ég setti í staðinn 2-3 dropa af vanilludropum (en sleppti saltinu). Hrærði öllu saman og hellti yfir karamellulagið og setti í frysti í smá stund eða þar til súkkulaðið var orðið stíft.
Næst skar ég kökuna í lengjur og frysti hverja lengju fyrir sig. Auðvitað bauð ég sjálfri mér og heimilisfólkinu strax upp á nammi og var þetta guðdómlega gott.
Næstu daga þegar einhver kom í kaffi (eða sykurpúkinn mætti á svæðið) þá var ein lengja sótt í frystinn og skorin í litla bita og hafa þeir slegið í gegn í hvert skipti.
Ég mæli með þessari ef þú vilt seðja sykurpúkann en vera samt sem áður í hollari kantinum.
Höfundur
Elsa Kristinsdóttir
by Mamman | 11.05.2016 | Uppskriftir
Þú varst að koma heim með ilmandi nýbakað súrdeigsbrauð af því það er svo hollt og gott. Þig langar ekkert frekar en að rista það og smyrja með vænni slettu af jarðarberjasultu en nei… sultan er svo stútfull af sykri að þessi blessaða hollusta af sykur- og gerlausa brauðinu þínu núllast bara algjörlega út. Hvað gera bændur þá?? Jú, einmitt þeir búa til chia sultu. Já, ég sagði það, sulta úr chia fræum.. eða kannski ekki beint, hún inniheldur að sjálfsögðu ávexti að eign vali en chia fræin gefa henni þessa sultulegu áferð. Sætuna getur hver og einn lagað að sínum smekk og í boði er að nota hvaða sætuefni sem er en persónulega vel ég hunang eða sweet freedom sýróp.
Uppskrift:
- 2 bollar frosnir ávextir að eigin vali
- 2 msk vatn
- 2 msk chia fræ
- Hunang eftir smekk
Aðferð:
Setjið frosnu ávextina í pott og bætið við vatninu. Látið suðuna koma upp og eldið þar til allir ávextirnir eru orðnir mjúkir. Setjið svo í blandarann og blandið vel. Ef þið eruð ekki hrifin af kornum í sultunni ykkar þá er upplagt að skella chia fræunum með í blandarann á þessum tímapunkti en ef ykkur finnst ekkert athugavert að finna fyrir fræjunum þá er þeim hrært í síðast. Hellið blönduðum ávöxtunum í krukku og smakkið til með hunangi eða öðru sætuefni og munið að chia fræin bætast við á þessu stigi ef þau fóru ekki í blandarann.
Kælið í að minnsta kosti tvo tíma og ef þykktin er ekki að ykkar skapi á þeim tímapunkti þá má bæta við teskeið af chia fræum í viðbót.
Þessi sulta geymist í u.þ.b. tvær vikur í ísskáp í þéttlokuðum umbúðum.
Sultan hentar vel á brauð, út á hafragrautinn, í bakstur, og hvað annað sem ykkur dettur í hug að gera við hana.
Bon apetit!
Höfundur
Karlotta Ósk Jónsdóttir
by Mamman | 6.05.2016 | Uppskriftir
Hvað er auðveldara en að elda spagettí þegar mikið er að gera og lítill tími fyrir undirbúning á kvöldmatnum. Þessi réttur tekur án gríns jafnlangan tíma og það tekur fyrir spagettíið að sjóða og kemur virkilega skemmtilega á óvart þrátt fyrir einfaldleikann.
Ég nota lífrænt spagettí sem inniheldur kínóa sem er próteinrík súperfæða en að sjálfsögðu hentar hvaða spagettí sem er. Uppskriftin af sósunni dugar vel fyrir stóran fjölsylduskammt og það er hægt að frysta afganginn ef einhver verður og nota síðar.
Uppskriftin:
- 2 hvítlauksgeirar
- 1 avocado (vel þroskað)
- 2 stórar lúkur ferskt spínat
- ½ bolli Pecan hnetur
- ¼ bolli ferskt basilikum
- 1 tsk sítrónusafi
- ¾ bolli pastavatn
- sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
- Kínóa spagettí
Aðferð:
- Látið vatn í pott með smá ólífuolíu út í og bætið spagettíinu við þegar vatnið byrjar að sjóða. Sjóðið spagettíið eins lengi og umbúðirnar segja til um, ca 10 mín. Ég nota allan pakkann af spagettíinu enda er ég að elda fyrir sex manns.
- Á meðan spagettíið sýður þá er avocadóinu, spínatinu, pecan hnetunum, basilíkuminu og sítrónusafanum blandað saman í blandara eða matvinnsluvél (ég nota blandara því ég á ekki matvinnsluvél).
- Þegar spagettíið er tilbúið þá tekur maður ¾ bolla af pastavatninu og bætir því út í avocado blönduna og blandar þar til sósan er orðin vel rjómakennd. Smakkið til með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.
- Sósunni er svo hellt yfir spagettíið og ef áhugi er fyrir hendi þá er meiriháttar að rífa yfir góðan slatta af ferskum parmesan.
- Fyrir þá sem vilja bæta um betur og fá aðeins meira prótein í máltíðina þá er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við grillaðri kjúklingabringu en það lengir eldunartímann talsvert ef maður er óundirbúinn.
- Ég er oft búin að grilla fimm til sex bringur fyrir vikuna sem ég á tilbúnar inni í ísskáp fyrir hina ýmsu rétti og í nesti og þá er minnsta mál að skella þeim í örbylgjuofninn eða í augnablik á pönnu til að hita upp og skella yfir spagettífjallið.
Bon apetit!
Höfundur:
Karlotta Ósk Jónsdóttir