Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Leiðarvísir: Hvernig á að tala um erfið mál við börn á aldrinum 2-15 ára

Eitt það erfiðasta við foreldrahlutverkið er að tala við börnin sín um alvarleg mál. Það er nógu erfitt að útskýra fyrir þeim ef þvottavélin étur uppáhalds bangsann þeirra, eða þegar eineltisseggur ríkir í skólanum. Það kann að vera nær óyfirstíganlegt að ræða eitthvað enn erfiðara, s.s. ofbeldi, mismunun eða dauðsfall.

Á þessum tímum erum við nær beintengd öllu sem er að gerast í gegnum netið, YouTube, fréttir og hvaðeina. Börn fara ekki varhluta af þessu öllu og það er mjög mikilvægt fyrir foreldra að takast á við þessa áskorun.

Að takast á við og ræða erfið mál lætur börnunum þínum líða betur, þau verða öruggari, það styrkir tengslin ykkar á milli og það kennir þeim ýmislegt um heiminn. Og þegar þú kennir þeim að verða sér úti um upplýsingar og túlka þær, spyrja spurninga og athuga fleiri en eina heimild, verða þau gagnrýnin í hugsun. Það er alltaf erfitt að ræða málefni heimsins sem ekki hefur tekist að leysa. En með því að byggja upp kunnáttu, samkennd og persónuleika barnanna okkar gefum við þeim verkfærin sem þau þurfa til að takast á við hlutina.

 Þegar börnin þín fá vitneskju um eitthvað ógnvænlegt eða óþægilegt kemur það foreldrunum oft úr jafnvægi. Það er samt alltaf góð hugmynd að nota þroskastig og aldur barnsins til viðmiðunar hvernig hefja á samræður, því þau melta upplýsingar á mismunandi hátt eftir þeim þáttum.

Að skilja lítillega hvernig börn skilja heiminn á hverju þroskaskeiði fyrir sig hjálpar þér að upplýsa þau á réttan hátt. Að sjálfsögðu er hvert barn einstakt og hefur sína viðkvæmni, skap og reynslu, eins og allir aðrir. Þú skalt nota þína bestu dómgreind til að melta hvernig barnið tekur inn upplýsingar þegar þú ákveður hversu mikið þú ætlar að segja.

 Hér eru leiðir til viðmiðunar eftir aldursflokkum:

2-6 ára

Ung börn hafa ekki þá lífsreynslu til að skilja þá þætti sem felast í flóknum og erfiðum málum. Þau hafa heldur ekki skilning á huglægum hugtökum eða samspili aðgerða og afleiðinga. Heimur þeirra snýst um ykkur – foreldrana, systkinin, afa og ömmu, meira að segja hundinn ykkar. Þannig einbeita þau sér að því hvernig hlutirnir hafa áhrif á þau sjálf.

Þau eru mjög næm á tilfinningaástand foreldranna og geta haft áhyggjur af því að eitthvað hafi komið fyrir ykkur, eða þið séuð reið af því að þau gerðu eitthvað af sér. Þetta allt gerir það erfitt að útskýra erfið mál.

Þú getur sem betur fer stjórnað net- og sjónvarpsnotkun ágætlega á þessum aldri þannig passaðu að þau horfi ekki á eitthvað sem er ekki við hæfi.

Notaðu bæði orð og athafnir:Segðu: „Þú ert örugg/ur. Mamma og pabbi eru örugg. Fjölskyldan okkar er örugg.“ Þau vilja líka knús og það gerir mjög mikið.

Talaðu um tilfinningar – þínar og þeirra. Segðu: „Það er allt í lagi að vera hrædd/ur, leið/ur eða ringluð/aður. Þessar tilfinningar eru eðlilegar og við höfum öll þessar tilfinningar.“ Þú getur líka sagt: „Ég er reið/ur / leið/ur en ekki út af þér.“

Reyndu að komast að því hvað barnið veit. Það getur verið að barnið skilji ekki ástandi. Spurðu fyrst hvað barnið haldi að hafi gerst áður en þú ferð í lýsingar.

Hlutaðu vandann í einföldu máli. Fyrir eitthvað ofbeldisfullt getur þú sagt: „Einhver notaði hníf til að meiða fólk.“ Ef um mismunun er að ræða geturðu prófað: „Það eru hópar af fólki sem fá ekki rétta málsmeðferð eða réttlæti.“

 Passaðu málfarið hjá þér.

Segðu „maður“, „kona“, „stelpa“, „strákur“ en ekki „feitur gaur“, „sæt stelpa“ eða álíka. Passaðu að lýsa ekki manneskju eftir litarhætti, þyngd, kynhneigð, fjárhag, eða öðru því tengdu nema það sé afar nauðsynlegt. Notaðu orðaforða, hugmyndir og sambönd sem þau þekkja. Mundu eftir einhverju dæmi úr þeirra lífi sem þau geta tengt við. Segðu: „Maður sem stal einhverju. Manstu þegar einhver tók nestisboxið þitt?“

Notaðu einföld orð á borð við „reiður“, „leiður“, „hræddur“ og „hissa.“ Ung börn skilja tilfinningar, en þau skilja ekki t.a.m. geðsjúkdóma. Þú getur sagt að einhver hafi orðið of reiður eða of ringlaður og þurfti auka hjálp. Passaðu að nota ekki orð eins og „klikkast“ eða „gekk af göflunum.“

Tjáðu að einhver sé að sjá um málið. T.d. „Mamma og pabbi passa að ekkert slæmt komi fyrir okkur.“ Eða: „Löggan nær bófanum.“

 7-12 ára

Börn. Á þessum aldri kunna að lesa og skrifa og þ.a.l. geta þau komist í tæri við efni sem er ekki ætlað þeirra aldri. Yngri börnin í þessum hópi eru samt ekki alveg með á hreinu hvað er leikið og hvað er alvöru, svo eitthvað sé nefnt. Þarna fara börn að geta hugsað huglægt og þau hafa ákveðna reynslu af heiminum og hafa getuna til að tjá sig, leyst erfið verkefni og geta séð hluti út frá sjónarhorni annarra.

Börn sem eru ekki krakkar og ekki orðnir táningar eru á skeiði þar sem þau skilja sig frá foreldrunum, eru að verða kynþroska og eru sjálfstæðari að nota ýmsa miðla. Þau sjá ofbeldisfulla tölvuleiki, klám, fréttir sem geta komið þeim úr jafnvægi og heyra ljótt orðbragð. Það verður að geta rætt þessa hluti án skammar og vandræðalegheita.

Bíddu eftir rétta augnablikinu

Á þessum aldri eru krakkarnir líklegir til að leita til þín ef þau hafa heyrt um eitthvað skelfilegt. Þú getur þreifað fyrir þér hvort þau vilja ræða eitthvað, en ef þau ræða það ekki að fyrra bragði reyndu ekki að veiða það uppúr þeim.

Reyndu að komast að því hvað barnið veit

Spyrjið börnin hvað þau hafa heyrt, eða ef vinirnir í skólanum hafa verið að tala um eitthvað. Svaraðu spurningum þeirra einfaldlega og blátt áfram en passaðu að ofur-útskýra ekki hlutina því það gæti gert þau hræddari.

Búðu til öruggar aðstæður fyrir spjall

Segðu eitthvað á borð við: „Það er erfitt að ræða þessa hluti, meira að segja fyrir fullorðna. Við skulum bara tala. Ég verð ekki reið/ur og ég vil að þú getir spurt mig um hvað sem er.“

Veittu yfirsýn og samhengi

Krakkar þurfa að skilja kringumstæðurnar í kringum atburði til að ná utan um hlutina. Ef einhver fremur voðaverk er hægt að segja: „Manneskjan sem gerði þetta var með vandamál í heilanum sem ruglaði hugsanirnar.“ Ef mismunun er vegna húðlitar eða kynþáttar er hægt að segja: „Sumir halda að fólk með ljósa húð sé betra en fólk með dekkri húð. Það er ekki rétt hjá þeim. Þau hafa ekki réttar upplýsingar.“

Vektu forvitni

Ef barnið þitt sér fullorðinsefni á netinu gæti það boðið upp á tækifæri til að læra meira um t.d. hvernig fólk fjölgar sér. Þú getur sagt við barnið ef það sér óvart klám: „Klám á netinu er eitthvað sem fullorðið fólk horfir á. En það er ekki um ást eða rómantík og það getur gefið þér ranga mynd af kynlífi. Ef þú vilt læra meira um kynlíf getum við fundið fræðsluefni fyrir þig og við getum rætt þetta ef þú hefur einhverjar spurningar.“

Ef barnið hefur áhuga á fréttatengdu efni og vill kanna það betur getur þú fundið fréttastöðvar sem einbeita sér að efni fyrir yngra fólk.

Taktu mark á tilfinningum barnsins og geðslagi

Þú munt ekki vita fyrirfram hvað kemur barninu þínu í uppnám. Tékkaðu inn með því að segja hvernig þér líður og spyrðu svo hvernig því líður. Segðu: „Ég verð reið þegar ég þekki einhvern sem varð meiddur. Hvernig líður þér í svoleiðis aðstæðum?“

Hvettu til gagnrýninnar hugsunar

Spyrðu opinna spurninga til að fá börn til að hugsa nánar um alvarleg málefni. Spurðu: „Hvað heyrðir þú?“ „Hvað fannst þér þá?“ og „Af hverju finnst þér það?“
Leitaðu að því jákvæða

Reyndu að sjá hið jákvæða í öllu. T.d. „Það voru mjög duglegir slökkviliðsmenn að slökkva eldinn,“ eða „við skulum finna leið til að hjálpa til.“

Táningar (12+)

Á þessum aldri nota unglingar mikið samfélagsmiðla og nálgast efni á netinu með því að lesa og bregðast við á gagnvirkan hátt. Þau búa jafnvel til eigið efni til að deila áfram. Þau heyra oft um erfið mál á netinu og annarsstaðar, í spjalli t.d. án þess að þú vitir endilega af því.

Þau hafa meiri áhuga á að heyra hvað vinunum finnst eða öðru fólki á netinu heldur en þér og oft „skrolla“ þau að enda greinarinnar án þess að lesa alla söguna. Þau geta orðið fúl ef þú heldur fyrirlestur yfir þeim því þeim finnst þau vita allt. Hvettu unglinginn til að finna efni á netinu sem eykur við þekkingu hans og spurðu spurninga sem fær hann til að hugsa.

Hvettu til beinna og opinna samskipta

Táningar þurfa að vita að þeir „megi“ spyrja spurninga, athuga hvort vel sé tekið í skoðanir þeirra og þau geti tjáð sig frjálslega án afleiðinga. Segðu: „Við erum kannski ekki sammála um allt, en ég vil heyra hvað þú hefur að segja.“

Spyrðu opinna spurninga og hvettu hann til að hafa skoðun

Spurðu til dæmis: „Hvað finnst þér um lögregluna og ofbeldi sem hún beitir?“ „hvað veistu um málið?“ „Hverjum heldurðu að sé um að kenna?“ og „Af hverju finnst þér það?“

 Viðurkenndu að þú vitir ekki eitthvað

Það er í lagi þegar unglingar vita að foreldrarnir vita ekki allt! Það er í lagi að segja: „Ég veit það ekki, finnum út úr því í sameiningu.“

Fáðu unglinginn til að skoða allar hliðar erfiðra mála

 Félagsmál, stjórnmál, menning og hefðir – í kringum allt þetta eru bæði vandamál og góðir hlutir sem geta valdið unglingnum heilabrotum.

Spurðu: „Af hverju er svo erfitt að leysa glæpamál, ofbeldi, nauðganir?“ „Hvernig er hægt að laga ákveðna hluti, svo sem fátækt?“ „Ættum við að sætta okkur við málamiðlanir þegar kemur að leysa vandamál eða eigum við að fara fram á harðari aðgerðir?“

 Deildu gildum þínum

Leyfðu táningnum að sjá hvar þú stendur varðandi einhver mál og útskýrðu af hverju þú lætur þig málið varða. Ef þú vilt að táningurinn þinn virði aðra og skaltu segja honum af hverju þér finnst mikilvægt að umbera aðra og viðurkenna þá.

 Talaðu um fréttirnar „þeirra“

Ræddu um Facebook, Insta, Snap og TikTok og fáðu þau til að segja þér hvað þeim finnst um hitt og þetta. Hvernig fær fólk annað fólk til liðs við sig? Eru þetta áreiðanlegar fréttir? Hvað eru áhrifavaldar?

 Spurðu hvað unglingurinn myndi gera í erfiðum aðstæðum

Unglingar eru að finna hverjir þeir eru á þessum aldri og geta sótt í áhættu. Gerðu þeim ljóst að hættan getur birst án viðvörunar og spyrðu hvað þau myndu gera í ákveðnum aðstæðum.

 Hugsa í lausnum

Táningar geta verið kaldhæðnir, en líka raunsæir. Ef hlutirnir eiga að batna er þetta komandi kynslóðin til að gera það. Sýndu þeim að þú treystir þeim. Spurðu: „Ef þú værir með völd, hvað myndirðu leysa fyrst og hvers vegna? Hvernig myndirðu gera það?“

 

 

Að sleppa tökunum á pirringi í foreldrahlutverkinu

Að sleppa tökunum á pirringi í foreldrahlutverkinu

Að sleppa tökunum á pirringi í foreldrahlutverkinu

Áður en ég varð mamma hafði mig dreymt um að vera ákveðin tegund af mömmu. Þetta var draumur sem snerist um fullkomin börn og var það ástæðan fyrir að ég vildi verða mamma bara strax.

Ég sagði að styrkur minn feldist í að vera róleg í öllum aðstæðum. Það var ekki oft sem ég þurfti að nota þolinmæðina en þegar það gerðist virtist hún vera óþrjótandi uppspretta.

Og þegar ég varð mamma í fyrsta sinn reyndist mér það auðvelt og náttúrulegt. Ég var að upplifa drauminn minn sem ég hafði átt. Móðurhlutverkið var alger barnaleikur.

Þannig þú getur ímyndað þér hversu hissa ég varð þegar fyrstu fjögur árin liðu og sonur minn var bara jafn mennskur og aðrir.

Það gerðist einhverntíma milli þess að ég brotnaði niður tvisvar sinnum í matarbúðinni.

Einhverntíma milli fimmta og fimmtándasta skiptið sem ég bað hann að fara í skóna.

Í um sjötta skiptið sem ég bað hann um að hætta að öskra á veitingastaðnum og fékk köldu augngoturnar frá þjónunum.

Í um ellefta skiptið sem ég bað hann um að hætta að hlaupa um húsið.

Eða í þessar fimm mínútur sem ég bað um frið til að klára verkefni en endaði í hálftíma af öskrum og látum.

Þarna einhversstaðar missti ég þolinmæðina.

Ég hafði ekki planað það, en áður en ég vissi af var ég breytt. Reiði og pirringur hafði tekið yfir mitt rólega yfirbragð.

Rödd mín tók breytingum og breyttist í rödd sem ég hefði ekki einu sinni viljað tala við.

Svona var ég orðin, í hrópandi mótsögn við mömmuna sem ég ætlaði að verða. Ég var þessi kona – þessi mamma sem ég sagðist aldrei ætla að verða. Það kraumuðu í mér vonbrigði og heift. Kvíði og sektarkennd voru að drekkja mér.

En sannleikurinn, minn sannleikur, fór að birtast mér.

Ég var þarna, orðin að einhverju sem ég vildi ekki vera, og áttaði mig á að ég var bara mennsk eftir allt. Mín eðlishvöt að verða pirruð tók yfir náttúrulegt ástand að vera alltaf róleg sama hvað.

Ég sagði sjálfri mér að ég væri ofurkona, þegar ég var í rauninni bara venjuleg kona að gera mitt besta í erfiðum aðstæðum.

Ég uppgötvaði að þolinmæði er ofurkraftur sem aldrei er talað um, því það er fólki eðlislægt að verða pirrað.

Ég áttaði mig á að þolinmæði er bara æfing og ég þarf að æfa mig aftur og aftur og aftur, sérstaklega þar sem náttúruleg viðbrögð eru ekki rólyndi.

Ég áttaði mig á að þolinmæðin væri ekki háð neinu öðru en mér sjálfri. Og, eins og dyggðirnar sem ég var að reyna að „mastera“ var ég sú sem þurfti að velja, að láta þær stjórna mér eða ég þeim.

Það gerðist þegar ég var að setja pásu milli viðbragða minna og svara.

Það var þegar ég spurði mig: „Hvað myndi kærleikurinn gera?“ og gera bara það.

Það var milli fimm og tíu djúpra andardrátta.

Það var þegar ég var að reyna tengjast en ekki reyna að leiðrétta.

Það var þegar ég ákvað að lækka röddina og hækka í boðskapnum sem ég var að reyna að koma til skila.

Það var þegar ég sá heiminn með augum fjögurra ára barns og setti mig í fótspor þess.

Það var milli fyrsta knússins og hins fimmta.

Það var þegar ég horfði í augun hans og fann dýrmætu sálina hans.

Það var þegar ég gat horft framhjá fyrri hegðun og séð bara hann.

Þarna.

Þarna fann ég friðinn. Þarna fann ég kraft minn sem móður.

Þýdd og endursögð frásögn blaðakonunnar Janet Whiley á BabyCenter.co.uk

 

 

Kynlíf eftir barnsburð

Kynlíf eftir barnsburð

Kynlíf eftir barnsburð

Hvenær er óhætt að stunda að kynlíf að nýju eftir barnsburð?

Það er einfaldast að segja að þegar þú og makinn teljið að rétti tíminn sé fyrir ykkur. Stundum er sagt að bíða þurfi í sex vikur eða þar til þú ferð í læknisheimsókn til að athuga hvort allt sé í lagi, en sumir segja að í lagi sé að stunda kynlíf fyrir þann tíma til að athuga hvort einhver vandkvæði geri vart við sig sem hægt er þá að ræða í heimsókninni.

Mörg pör stunda kynlíf innan mánaðar eftir að barnið er fætt, flestir innan þriggja mánaða en svo er það minnihluti sem bíður í hálft ár eða ár. Það er ekkert sem er „rétt“ í þessum efnum.

Nýjar mæður upplifa kannski hik eða eru ekki spenntar og fyrir því eru margar ástæður. Ein augljósasta er fæðingin sjálf, saumar eða keisari. Þrátt fyrir að allt hafi gengið vel fyrir sig er líklegt að konan sé marin eða viðkvæm í einhvern tíma á eftir. Það er skynsamlegt að bíða þar til sárin gróa eða saumarnir hverfa þar til konan hefur samfarir.

Þreyta er annar þáttur sem stundum er allsráðandi. Að hugsa um barn 24 tíma á dag er þreytandi, líkamlega, andlega og tilfinningalega. Þegar þið farið í rúmið kann svefn vera það eina sem þið hugsið um.

Líkamsvitund konunnar getur aftrað henni – henni getur hún fundist hún breytt og það líði einhver tími þar til hún finnst hún „hún sjálf“ á ný.

Margar konur segja að á þessu tímabili sé kynhvötin í lágmarki – þeim finnst þeim ekki vera kynþokkafullar.

Hvað ef makinn vill kynlíf en ekki ég?

Ef sú staða kemur upp – sem hún gerir oft, þarf mikið af ást og skilningi frá báðum aðilum til að koma í veg fyrir að þetta verði að vandamáli. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt fyrir ykkur að tala um tilfinningar hvors annars. Maki þinn kann að finna fyrir höfnun ef þú vilt ekki kynlíf, þannig það er þitt að útskýra ástæðurnar (líkamlegar, kvíði, o.s.frv.)

Kannski ætti tími fyrir ykkur að vera í forgangi – mörg pör kvarta vegna þess það er bara enginn tími fyrir hvort annað þessar fyrstu vikur og mánuði með nýtt barn. Orð og knús geta gert mikið til að sýna ást og tilfinningar og þið munuð bæði græða á því. Hvað kynlífið varðar, þarf ekki endilega að stunda hefðbundið kynlíf (limur í leggöng) heldur er margt annað hægt að gera! Snerting í sjálfu sér getur verið mjög kynferðisleg. Prófið ykkur áfram.

Athugið að sleipiefni getur verið mikilvægt því leggöngin geta verið þurr og viðkvæm.

Við samfarir þarf að velja stellingu sem eykur ekki á sársauka og viðkvæmi konunnar, ef hann er til staðar. Ef þreyta er það sem er vandinn, er hægt að njóta ásta meðan barnið er sofandi.

Borðið vel, drekkið nægan vökva og hvílist þegar hægt er. Að hugsa um nýfætt barn er mjög krefjandi og til að auka orkuna er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni.

Önnur vandkvæði

Ef samfarir hætta ekki að vera sársaukafullar þrátt fyrir að varlega sé farið, er best að ræða það við lækni. Stundum geta saumar valdið óþægindum lengi, sem hægt er að laga með lítilli aðgerð. Ef útferð lyktar illa gæti verið um sýkingu að ræða. Ef blæðingar gera enn vart við sig, fjórum vikum eftir fæðingu, eða þær aukast skaltu strax hafa samband við lækni.

Heimild: BabyCenter Canada 

Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók

Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók

Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók

Helgu Arnardóttir þarf vart að kynna en hún hefur unnið sem fjölmiðla- og þáttagerðakona í mörg ár. Helga gengur með sitt annað barn um þessar mundir auk þess var hún að gefa út sína fyrstu barnabók um hana Nínu óskastjörnu, ekki nóg með það heldur er hún einnig að leggja lokahönd á sína aðra þáttaröð af Lifum lengur þar sem hún fjallar um lykilinn að langlífi og ferðast til langlífustu svæða í heiminum.

Mig langaði að forvitnast aðeins um þessa duglegu konu, fallegu bókina hennar um Nínu óskastjörnu, meðgönguna og hvernig sampil er á milli frama- og fjölskyldukonunnar Helgu.

Hver er Helga Arnardóttir?

Helga Arnardóttir er nú vön því að vera kynnt sem fjölmiðlakona en er nú allt í einu að stíga inn á annað svið í fyrsta skipti og það er bókaútgáfa.  Ætli Helga sé ekki einshvers konar múltítasker um þessar mundir.

Hvernig varð hugmyndin að barnabókinni um Nínu óskastjörnu til?

Mig hefur alltaf dreymt um að gefa út barnabók og svo fæddist lítil saga í huganum fyrir nokkrum árum þegar ég bjó við Elliðavatn sem er algert töfravatn. Mig langaði alltaf að skrifa um sterka stelpu sem hefur einhver áhrif og ég settist niður og úr varð þessi skemmtilega ævintýrasaga. Sagan fjallar um Nínu óskastjörnu sem dvelur mikið í sveitinni hjá ömmu sinni og einn daginn lendir amma í vanda og Nína ákveður að koma henni til hjálpar með hjálp álfa og huldufólks.  Það getur oft verið lítið svigrúm til skapandi skrifa þegar maður er í fréttaflutningi öllum stundum þess vegna hefur mér oft fundist smá hvíld í því að skrifa eitthvað bara fyrir mig.  Ég hélt auðvitað allan daginn að sagan færi bara rakleiðis ofan í skúffuna mína og myndi safna ryki þar, mögulega fyrir barnabörnin að lesa þegar farið yrði í gegnum dánarbúið mitt. En ég var svo heppin að senda hana á Sölku útgáfu og þær vildu gefa hana út og ég fékk frænku mína og listateiknara Ylfu Rún Jörundsdóttur til að vinna myndirnar fyrir söguna sem eru hreint út sagt einstakar.

Fyrir hvaða aldurshóp er bókin?

Ég var að fá þær fréttir úr fjölskyldunni að sagan hefði ríghaldið 4 ára og 6 ára barni þegar hún var lesin fyrir þau og svo hafa 11 til 12 ára börn í fjölskyldunni lesið hana líka með miklum áhuga þannig að þetta er ansi breytt aldursbil. Og fyrir bæði stelpur og stráka.

Nú ertu ólétt að þínu öðru barni, ert að klára aðra þáttaröð af þáttunum þínum “Lifum lengur”, sem hafa verið sýndir í Sjónvarpi Símans og hefjast aftur eftir áramót, ert að gefa út barnabók og það allt á einni meðgöngu! Hvernig gengur þetta upp, eru fleiri klukkustundir í þínum sólarhring heldur en hjá okkur hinum?

Guð ef ég byggi yfir fleiri klukkustunum í mínu lífi þá væru hlutirnir aðeins einfaldari. Ég get alveg játað það að þetta er búið að vera mikil törn, ég er komin 32 vikur á leið og er nú þegar búin að fara í 20 flug á meðgöngunni vegna vinnu. Ég er að vinna sjónvarpsþætti um langlífi og hef þurft að ferðast ólétt til þriggja landa til að hitta langlíft fólk á svokölluðum BLUE ZONES sem eru langlífustu svæði heims. Það hefur alveg tekið á og ég myndi ekki óska neinum þess að ferðast svona mikið á meðgöngu. Sem betur fer hef ég verið ótrúlega heilsuhraust og ekki undan neinu að kvarta til dagsins í dag.

Hvernig gengur að samtvinna atvinnu og einkalífið, ertu með einhver töfraráð fyrir uppteknar mæður?

Eftir að hafa verið að vinna hjá öðrum þá fann ég svo að maður ræður ekki tíma sínum sjálfur. Það að vinna hjá sjálfum sér breytir öllu í því samhengi þótt að sjálfsögðu allir eigi ekkert kost á því. Ég og maðurinn minn Bragi Þór Hinriksson leikstjóri erum svo lánsöm að geta framleitt þessa þætti saman og það hefur gengið ótrúlega vel.

Maður þarf samt alltaf að passa skilin milli vinnu og einkalífs og það gerum við með því að leigja okkur atvinnuhúsnæði til að aðskilja heimili og vinnu.  Að fara út að vinna og koma svo heim úr vinnunni er mikilvægt atriði í mínum huga.

 

Að lokum hvenær áttu von á þér og hvernig sérðu fyrir þér fæðingarorlofið?

Ég er sett á nýársdag, 01.01.20 þeim skemmtilega degi þannig að það verður spennandi að sjá hvorum megin við áramótin barnið kemur.  Líkur eru á að ég gangi yfir eins og á síðustu meðgöngu en það getur alltaf breyst.   Ég sé fæðingarorlofið fyrir mér í hillingum þótt að sjálfsögðu það sé mikil vinna, einskonar fæðingarvertíð eins og Björk Eiðsdóttir blaðamaður komst að orði.   Það er samt eitthvað dásamlegt við það að fá þennan tíma til að vera eingöngu með krílinu sínu og þurfa ekki að gera neitt annað nema maður vilji það. Ég sé svo auðvitað fyrir mér að geta skrifað eitthvað og gert eitthvað skapandi, við sjáum nú til með það. Mögulega verður maður bara þrotaður og þreyttur langt fram á næsta ár.

Ég óska Helgu innilega til hamingju með fallegu bókina sína og óskum henni alls hins besta!

Auður Eva Ásberg

 

Modibodi-umhverfisvænar nærbuxur

Modibodi-umhverfisvænar nærbuxur

Modibodi-umhverfisvænar nærbuxur

Nú á dögum var haldinn í fjóra sinn Umhverfisvæni markaðurinn. Þar komu saman fyrirtæki og hönnuðir til að selja sínar vörur og framleiðslu sem eru umhverfisvænn kostur. Margt spennandi var í boði þar á meðal Modibodi nærbuxur sem m.a er hægt að nota í staðinn fyrir dömubindi á blæðingum. Ég ákvað að kynna mér þessar nærbuxur enda þvílíkt magn af dömubindum sem fleygt er í ruslið á ári hverju. Hér er mín upplifun af nærbuxunum, ég vona svo sannarlega að ég geti tekið þátt í því að gera jörðina okkar umhverfisvænni.

Ég var svo “heppin” að þegar ég kíkti á Umhverfisvæna markaðinn var ákkúrat sá tími mánaðarins hjá mér að byrja þannig ég gat látið á Modibodi nærbuxurnar reyna. Ég fékk að #gjöf tvennar nærbuxur, aðrar með litlum til miðlungs rakadrægni, hinar með mikilli rakadrægni.

Ég fékk þær leiðbeiningar að þvo þær fyrir notkun af því að því oftar sem þær eru þvegnar því betur virka þær. Ég fæ mjög miklar blæðingar og mínar blæðingar hafa versnað með hækkandi aldri og með hverri meðgöngu. Mín niðurstaða er sú að buxurnar einar sér dugðu ekki til þegar ég var á þeim degi blæðinga sem var hvað allra “verstur”, enda voru þær hjá Modibodi búnar að benda mér á það að þær konur sem fá mjög kröftugar blæðingar gætu jafnvel ekki notað þær á þeim degi sem blæðingar eru hvað verstar eða að þá þyrftu þær að eiga fleiri buxur til skiptana yfir daginn. Það lekur ekki í gegn en það getur farið að leka meðfram hliðum, það gerðist hjá mér þegar líða tók á daginn. En þá held ég, til að halda áfram mínum umhverfisvæna hætti, að þá gæti álfabikarinn hentað mjög vel með Modibodi nærbuxunum. Þ.e.a.s á þeim degi sem blæðir mjög mikið. En hina dagana þar sem blæðingar mínar voru “eðlilegar” voru þessar nærbuxur algjör snilld! Ég meina geggjuð lausn og að þurfa ekki pæla í dömubindum…enn meiri snilld! Þær dugðu vel, góð rakadrægni, einstaklega þæginlegar í sniði og umfram allt þá ertu að velja mun umhverfisvænni kost en dömubindi.

Modibodi nærbuxurnar henta líka fyrir útferð og minniháttar þvagleka…þannig hey, nú getur þú kannski hoppað á trampólínu í sumar eða farið út að sippa áhyggjulaus.

Um Modibodi

Hjá Modibodi bjóðum við blæðingar og þvagleka velkomin því að við hugsum um hvort tveggja fyrir þig. Örþunnar, aðeins 3mm, ótrúlegt en satt að þá halda Modifier Technology™ buxurnar allt að sama magni og tveir túrtappar. Við færum þér þægindin!

  • Efsta lagið dregur hratt í sig allan raka, ver gegn óæskilegum bakteríum, hindrar óþægilega lykt og hjálpar þér að vera þurr og fersk.
  • Miðalagið heldur á öruggan hátt vökvanum
  • Neðsta lagið er einstaklega vatnshelt svo þú ert alltaf örugg.

Modibodi™ notar hágæða náttúruleg efni í bland við hágæða tækniefni sem anda (Bambus, merino ull og microfiber) og nýjustu tækni í bakteríudrepandi textíl með mjúkri, þægilegri viðkomu.

Spurt og svarað!

Virkar þetta í alvöru?

– Já, þetta virkar. Buxurnar draga betur í sig þegar búið er að þvo þær einu sinni til tvisvar. Það mun ekki leka í gegn, en ef þær hafa tekið við eins miklu og hægt er gæti farið að leka framhjá með hliðunum.

En er þetta ekki ógeðslegt?

– Alls ekki! Tilfinningin er allt öðruvísi heldur en af dömubindum, ekki svona klístrað og ógeðslegt. Ef eitthvað er ógeðslegt er það notað dömubindi í flæðarmálinu. Modibodi seturu bara í þvottavél og notar aftur og aftur.

Hvernig á að þvo nærbuxurnar?

– Við mælum með því að þú skolir aðeins úr þeim í vaskinum, sérstaklega ef þú ert ekki að fara að þvo strax. Síðan seturu þær á 30 gráður í þvottavél. Það er ágætt að nota prógramm með forþvotti. Það er óþarfi að þvo þær sér, þú hendir þeim bara í vélina með öðrum þvotti. Ekki setja í þurrkara og ekki nota mýkingarefni.

Hvað með þvagleka, er hægt að nota Modibodi?

– Já algjörlega! Reyndar var Modibodi fundið upp af konu sem upplifði þvagleka í kjölfar barnsfæðingar svo þær henta alveg eins við þvagleka eins og blæðingum.

(Spurt og svarað texti og upplýsingar um efni var fenginn að láni frá heimasíðu www.modibodi.is)

Staðreyndir um dömubindi

Mörg dömubindi innihalda plast, klór og óæskileg auka- og rotvarnarefni sem alið geta á allskyns veseni og sýkingum á viðkvæmu kynfæra svæði.

Á hverju ári er 45 milljörðum dömubinda fleygt einhvers staðar. Ef þeim væri raðað hverju á eftir öðru næðu þau alla leið til sólarinnar. Flest dömubindi og blautservéttur eru full af gerviefnum svo sem plasti, en það þýðir að þau verða eftir í umhverfinu það sem eftir er, skaða náttúrulíf og menga úthöfin.

Allar upplýsingar um Modibodi er að finna á facebooksíðu Modibodi túrnærbuxur.

*Ég fékk ekki greitt fyrir þessa færslu, mér er einfaldlega umhugað um umhverfisvænni kosti.

Auður Eva Ásberg

 

 

Pin It on Pinterest